Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 22:52:02 (6320)

1996-05-20 22:52:02# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[22:52]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tók eftir þessum þætti sem kemur fram í nefndaráliti meiri hluta samgn. og þetta er vissulega góðra gjalda vert þó að í litlu sé. Eru þetta ekki 34 millj. kr.? Það sýndist mér liðurinn vera. Þar er í mörg horn að líta sannarlega. Ég fagna því að þetta er gert í tengslum við þessa vegáætlun og vona að það verði framhald á og meira fjármagn geti þá runnið í þessar brýnu séraðgerðir. Hitt skiptir ekki síður máli að það verði almennur þáttur í framkvæmdum í vegamálum að hyggja að öryggisatriðunum þannig að okkur miði skaplega áfram í þeim efnum.

Eins vil ég hvetja hv. samgn. þegar farið er að búa sig í endurskoðun vegáætlunar til lengri tíma og við stöndum frammi fyrir endurskoðun langtímaáætlunar líka, að þá verði reynt að taka með þau atriði sem varða aukinn kostnað, bæði vegna öryggismála og eins vegna vaxandi þungaumferðar sérstaklega þannig að við getum tekið raunhæfari ákvarðanir í tengslum við langtímaáætlun og síðan undiráætlanir að því er þessa kostnaðarþætti varðar.