Norðurlandasamningur um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 14:18:45 (6428)

1996-05-22 14:18:45# 120. lþ. 144.10 fundur 493. mál: #A Norðurlandasamningur um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu# frv. 66/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur

[14:18]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er góð samstaða í utanrmn. um afgreiðslu þessara mála sem mörg hver hafa vissulega legið allt of lengi hjá stjórnvöldum eftir að þau voru undirrituð þangað til þau berast til þingsins og svo mun vera um fleiri mál. Það hefur verið rætt um það í nefndinni að fá yfirlit yfir slíka samninga til nefndarinnar þannig að hægt sé af hennar hálfu að ýta á eftir málum sem þörf er á að staðfesta og áhugi er á að staðfesta. Auðvitað verður maður að gera ráð fyrir því sem reglu að framkvæmdarvaldið kynni þinginu þá samninga sem verið er að skuldbinda Ísland með og leiti staðfestingar á þeim þannig að þetta safnist ekki upp.

Auðvitað geta verið þær aðstæður sem kalla á það að mál séu í skoðun um einhvern tíma. Það er ljóst að það tekur tíma að fara yfir mál, þýða mál o.s.frv. Við höfum lagt áherslu á að líka verði vandað til þeirra verka eins og hefur m.a. komið fram í sambandi við eitt tiltekið efni en vonandi verður á þessu bót. Það er hins vegar í rauninni ekkert nýtt að dráttur verði á. Það hefur iðulega verið minnst á þetta á fyrri þingum og gengið eftir því varðandi alþjóðasamninga, m.a. í umhverfismálum, svo að þetta er því miður ekki einsdæmi.

Hitt væri einnig til bóta að svona samningar kæmu til þingsins með fyrra fallinu á hverju þingi þannig að tími gæfist til að fjalla eðlilega um þá og þannig að ekki sé um tímaþröng að ræða en þetta eru fyrirkomulagsatriði sem með góðri samvinnu við utanrmn. verður væntanlega ráðin bót á.