Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 14:31:58 (6434)

1996-05-22 14:31:58# 120. lþ. 144.18 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur

[14:31]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég stend að þeirri afgreiðslu sem mælt hefur verið fyrir fyrir hönd umhvn., brtt. við frv. og nefndaráliti. Það voru örfá orð sem ég vildi koma að um vissa þætti málsins við 2. umr. og af tilefni þeirra orða sem fellu áðan hjá hv. síðasta ræðumanni segja það að hér er sannarlega um vandasamt mál að ræða í mörgum greinum og gæti það verið tilefni allmikillar umræðu ef út í það væri farið. Hjá því verður hins vegar ekki komist að mínu mati að á þessum málum verði tekið með samræmdum og mjög ákveðnum hætti og með tilliti til öryggis íbúa alveg án tillits til þess hvað það þýðir varðandi stöðu byggða og byggðarlaga. Fyrst og fremst verða menn að setja öryggi fólks í öndvegi og hafa það í huga út frá bestu þekkingu mála. Hitt er svo rétt að það má ekki ganga of langt í þeim efnum að skapa ugg og ótta fólks umfram efni. Það er jafnnauðsynlegt og sjálfur hef ég slegið varnagla varðandi þá stefnu sem kennd er við uppkaup húsa að þar hafi menn kannski verið helst til fljótir á sér að setja það fram áður en athuganir lægju fyrir um það við hvaða efni var að fást í því máli, hversu stórt málið var og hvaða kostir aðrir væru uppi.

Hins vegar er reynt að vega þetta og meta samkvæmt gildandi lögum eins og ákvæði eru um þar sem afgreidd hafa verið á Alþingi og það verður auðvitað að koma í ljós hvernig úr þeim málum verður unnið.

Í sambandi við framhald málsins er afar þýðingarmikið að sú nefnd sem vinnur á vegum stjórnvalda að því að fara yfir snjóflóðavarnir leggi alúð við störf sín og ég ætla nefndinni ekki annað en gera það. Við erum líklega að fá þriðja frv. á skömmum tíma sem varðar breytingu á lögum um snjóflóðavarnir og það er auðvitað ekki æskilegt að þurfa að vera að grípa inn í löggjöf með stuttu millibili. Fyrir þessu eru ákveðin rök og þess vegna er samstaða um að breyta lögunum eins og tillaga er um af hálfu umhvn. Heildarendurskoðun laganna er afar brýn og þýðingarmikil og ætlunin eins og fram hefur komið að tillaga um það liggi fyrir í haust eða á haustþingi um það mál.

Þegar litið er á samsetningu nefndarinnar neita ég því ekki að mér finnst kannski að það skorti dálítið á að tryggð séu tengsl t.d. við þingið í sambandi við það. Ég vil af því tilefni hvetja hæstv. umhvrh. til þess að hafa samband við þingflokkana um málið með einhverjum hætti á mótunarstigi áður en kemur fullbúið frv. inn í þingið. Ég held að það væri skynsamlegt vegna þess hve stórt málið er og mikilvægt að rækta samstöðu meðal þingsins um úrlausnir en þessi tengsl eru ekki fyrir hendi innan nefndarinnar sem slíkrar. Þarna er um mjög stór álitaefni að ræða sem koma upp í umræðu núna af tilefni þessa frv. á mjög knöppum tíma, sem við höfðum til umráða til að ræða málið í nefndinni, en fengum þó nokkra viðmælendur á okkar fund.

Minnt er á nokkur álitaefni í nefndaráliti umhvn., þar á meðal spurninguna um kostnaðarhlut sveitarfélaga en eins og kemur fram í nefndaráliti barst mjög eindregið álit frá Sambandi ísl. sveitarfélaga að innihaldi til þess efnis að sveitarfélögin verði leyst undan því að taka beinan þátt í kostnaði vegna þessara mála að því er varðar stofnkostnað varnarvirkja og e.t.v. einnig viðhald. Segja má að hér sé vissulega um um prinsippmál að ræða en jafnframt mál sem tengist þessum efnum og afar þýðingarmikið að þar finnist eðlileg lausn í því efni. Ég held að það blasi alveg við að það skiptihlutfall sem þar liggur fyrir er a.m.k. mjög mörgum sveitarfélögunum ofviða sem í hlut eiga. Þarna þarf auðvitað að draga líka rökréttar línur og finna botn í málið.

Annað sem ég vil nefna í þessu sambandi er umhverfisþáttur þeirra varnarvirkja sem er ráðgert að reisa og koma til með að verða reist víða þar sem snjóflóðahætta er til staðar. Til þess þarf auðvitað að vanda þó að menn séu ekki að vefengja að ráðist verði í aðgerðir og mannvirki. Ég hefði talið skynsamlegt og beini því til hæstv. umhvrh. að meginregla um þau efni verði að umhverfismat fari fram, hugsanlega með einhverjum takmörkunum eðli samkvæmt vegna þess að menn eru væntanlega ekki að fjalla um umhverfismat í þeim tilgangi að útiloka varnarvirki heldur að leita leiða til að gera þau sem best úr garði með tilliti til umhverfissjónarmiða og skiptir auðvitað byggðarlögin sem í hlut eiga mjög miklu að vel takist til.

Í sambandi við umhverfismat og vinnu af því tagi koma oft mörg atriði upp á yfirborðið sem ella vilja gleymast sem nauðsynlegt er að taka tillit til, m.a. samræming á aðgerðum sem varða ýmsar stofnanir sem tengjast þessu máli ekki beint en verða knúnar til þess að koma fram með sjónarmið sín í slíku ferli sem umhverfismatið er og síðan hitt að reyna að gera þetta sem best úr garði. Lögum samkvæmt þarf að fara fram umhverfismat í ýmsum tilvikum vegna efnisnáms sem tengist slíkum varnarvirkjum. Það er eðlilegt að fella þetta í heild sinni undir ákvæði 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum þar sem er heimild fyrir ráðherra til þess að láta fara fram slíkt mat.

Ég vildi koma þeirri hvatningu í tilefni þessa máls á framfæri við hæstv. ráðherra og aðra sem eiga í hlut.