Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 15:44:30 (6448)

1996-05-22 15:44:30# 120. lþ. 145.5 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[15:44]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi þetta síðasta atriði sem hæstv. ráðherra vék að, þ.e. atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði, þá ætla ég ekkert að deila um það hvað ákveðið hafði verið á sínum tíma. En ég tel mjög brýnt að það verði farið yfir þau efni einnig með tilliti til þess að það sé samfella í mati á nauðsynlegum aðgerðum og að staða atvinnuhúsnæðis verði ekki látin bara liggja til hliðar vegna þess að þetta tengist auðvitað öryggi íbúanna hvort sem það er í svefnstað eða við vinnu. Það tengist náið saman. Ef menn undanskilja atvinnuhúsnæði sem er á hættusvæði þá gerir það náttúrlega enn meiri kröfur að því er varðar öryggismat, vöktun og rýmingu ef hættuástand skapast eða einhver hætta kann að vera á ferðum, fyrir utan svo hin efnislegu verðmæti sem þarna eru í húfi. Ég óska eindregið eftir því að farið verði yfir þessi efni í þeirri endurskoðun mála sem nú er unnið að vegna þess að ekki er hægt að skipta þessu einfaldlega í tvö hólf og geyma hitt til einhverrar lengri framtíðar.

Auðvitað skiptir máli varðandi framkvæmd umhverfismatsins hver er hugur heimaaðila almennt til málsins að því er varðar ákvörðun hæstv. ráðherra að undanþiggja þetta. Hins vegar hef ég afrit af erindi sem hæstv. ráðherra hefur borist frá einum tilteknum aðila sem hefur verulegar áhyggjur af þessu, bréf frá Önundi Ásgeirssyni frá 8. maí 1996 sem hefur einnig komið því á framfæri við umhvn. Ég held að það sé tvímælalaust farsælt að setja mat á umhverfisáhrifum í farveginn, einnig vegna þeirra upplýsinga sem berast með því til íbúanna hvað sé í vændum. Svo geta verið markatilvik út frá þessum sjónarhóli hvort eigi að fara í framkvæmdina eða ekki.