Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 11:04:14 (6540)

1996-05-24 11:04:14# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[11:04]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kemur fram hjá frsm. fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hluta efh.- og viðskn. að allverulegar breytingar hafa verið gerðar á frv. fyrir 3. umr. af meiri hlutanum. Það er ekki hægt annað en fallast á að það er verið að breyta ýmsum greinum og tekið er á sumu af því sem hefur verið harðlega gagnrýnt. Enda er það óhjákvæmilegt með tilliti til þess að fylgifrv. sem átti að koma, svonefndur bandormur, verður ekki til umræðu á þessu þingi.

Það er eitt atriði sem ég vildi spyrja um sérstaklega sem varðar grein sem er allverulega breytt. Þar á ég við 22. gr. sem stendur eftir, þ.e. 5. brtt., þar sem meðal embættismanna samkvæmt lögunum eru taldir biskup Íslands, vígslubiskupar, prófastar og prestar þjóðkirkjunnar.

Nú er það svo samkvæmt upphaflegri skilgreiningu í greinargerð með frv... (Gripið fram í: Tölul. 4 í brtt.) Já, í brtt. Tölul. 4. Ég þakka fyrir. Það er enginn misskilningur um við hvað er átt, þ.e. tölul. 4 samkvæmt nýjasta skjali. Ég spyr hv. frsm. um nánari rök fyrir því að halda þessum starfsmönnum kirkjunnar sem embættismönnum ríkisins miðað við það að í frv. var ramminn dreginn um æðstu stjórnsýslu ríkisins og öryggisgæslu sbr. bls. 21 í greinargerð í upphaflegu frv.