Réttarstaða fólks við gildistöku EES-samningsins

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 13:51:54 (6596)

1996-05-28 13:51:54# 120. lþ. 149.2 fundur 427. mál: #A réttarstaða fólks við gildistöku EES-samningsins# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., HG
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[13:51]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í svari hæstv. ráðherra liggur það staðfest fyrir og lá vissulega í hlutarins eðli þegar EES-samningurinn var gerður að hann yrði ríkjandi yfir samningum sem gerðir höfðu verið milli Norðurlandanna. Þetta hefur leitt til þess að það hefur orðið breyting til hins verra á ýmsum sviðum og ekki hefur verið gætt samræmis í lagabreytingum innan Norðurlandanna í einstökum löndum, lagabreytingum sem gerðar hafa verið í kjölfar EES-samningsins. Þannig hefur skapast margháttað misræmi og ríkisstjórnir landanna misnotað tækifærið og lækkað réttindi í einstökum ríkjum eins og rakið var í svari hæstv. ráðherra varðandi Svíþjóð og þetta gerist víðar. Þannig hefur sú yfirlýsing reynst markleysa sem fylgdi EES-samningnum þess efnis að hann ætti ekki að raska hefðbundnu samstarfi Norðurlandanna og þá væntanlega ekki þeim samningum sem gerðir hefðu verið þeirra á milli.