Merkingar afurða erfðabreyttra lífvera

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 14:19:37 (6607)

1996-05-28 14:19:37# 120. lþ. 149.4 fundur 494. mál: #A merkingar afurða erfðabreyttra lífvera# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[14:19]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Þetta var nokkuð slunginn þráður sem hæstv. umhvrh. var að reyna að rekja í svari sínu. Ekki upplýsti hæstv. ráðherra um það hver hafi verið afstaða ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í minnisblaði hans eigin ráðuneytis 22. febrúar að hefði lagst gegn tillögum Norðmanna, Dana og raunar einnig Svía í tengslum við þessa tilskipun. Ég vænti þess að hæstv. umhvrh. bæti um betur því að hann hlýtur að hafa svarið einhvers staðar. Hver var það sem tók afstöðu sem var andstæð því sem hinar Norðurlandaþjóðirnar gerðu kröfu um í sambandi við umfjöllun um þetta mál? Mér finnst heldur lítið leggjast fyrir hæstv. umhvrh. nú. Hann hefur sjálfur ekki nokkra skoðun á málinu, hann hefur ekki lýst nokkurri skoðun. Hann segir að ráðuneytið hafi ekki gert málið upp og aðalatriðið sé að ná samstöðu til þess að það verði sameiginleg afstaða og menn þurfi ekki að hafa sérstöðu. Hefur ráðherrann ekki skoðun á því hvort það er réttmætt að gera kröfur um merkingar þegar um einhverjar afurðir erfðabreyttra lífvera er að ræða í viðkomandi vörum eða ekki? Um það snýst málið en ekki vafninga eins og hér komu fram hjá hæstv. ráðherra, sem virtist ekki hafa nokkra skoðun á þessu máli.

Það er einmitt eðli þessa EES-samnings að þar er tekist á og þar er spurningin um afstöðu ríkja, einnig jafnvel EES-landa eins og Íslands og Noregs sem eru hengd aftan í þennan vagn sem er með eimreiðina í Brussel. En kannski megna menn einhvers og er þá óeðilegt að Ísland reyni að leggjast á sveif með öðrum Norðurlöndum sem eru uppi með kröfur sem byggja á bæði hefðum og viðhorfum sem væntanlega eru ekki mjög ólík? Af hverju er Ísland að takast á við Noreg í þessum málum? Af hverju leggst ekki Ísland á sveif með Noregi í þessu máli? Ég vona að hæstv. ráðherra bæti um betur í öðru svari sínu.