Efnistaka úr Seyðishólum

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 14:31:01 (6611)

1996-05-28 14:31:01# 120. lþ. 149.5 fundur 509. mál: #A efnistaka úr Seyðishólum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., HG
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[14:31]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Sjónarmið sumarbústaðaeigenda í Grímsnesi vegna efnistöku í Seyðishólum eru mjög eðlileg og þau eru ekki ósvipuð og kvartanir sem nú berast og hafa borist um skeið vegna jarðefnaflutninga á Suðurlandi á Hekluvikri til hafnar. Það gengur ekki að ganga yfir hagsmuni fólks eins og hér er um að ræða sem á búsetu eða hefur fengið úthlutað sumarbústaðaaðstöðu. Það ætti að vera hlutverk viðkomandi sveitarstjórnar að gæta þess að ekki sé gengið yfir þá hagsmuni.

En þetta er jafnframt hluti af miklu stærra máli sem er hin götótta og algerlega úrelta löggjöf sem við búum við að því er varðar efnistöku og hæstv. umhvrh. hefur ekki komið sér að því nauðsynjaverki að gera tillögur þar að lútandi. Fyrir þinginu liggur þó frv. þar sem gert er ráð fyrir að taka á þessum málum og mundi verða veruleg bragarbót að. Ég minni á þetta í sambandi við þessa fyrirspurn sem er sannarlega tímabær.