Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 14:12:08 (7316)

1996-06-05 14:12:08# 120. lþ. 161.6 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[14:12]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var eitt atriði sem kom fram í ræðu hæstv. sjútvrh. sem snýr að eftirlitskostnaðinum. Hann greindi frá því að Færeyingar mundu taka að sér, færeysk stjórnvöld ef ég hef skilið það rétt, að greiða eftirlitskostnað fyrir þau skip sem þarna stunda veiðar. Þetta leiðir auðvitað hugann að því hvort ekki komi til greina að hér verði hlaupið undir bagga, a.m.k. á einhverjum aðlögunartíma, með íslenskum útgerðum sem þarna stunda veiðar til þess að koma í veg fyrir að þær leggi upp laupana, hætti útgerð, hætti veiðum þarna vegna þessa kostnaðar. Ég vildi heyra nánar hjá hæstv. ráðherra hvort slíkar hugmyndir gætu orðið til skoðunar í sambandi við lausn þessa máls því að hér er um raunverulegt stórt mál að ræða fyrir ýmis byggðarlög í landinu þar sem um er að ræða atvinnu sjómanna sem ella hafa að engu að hverfa jafnvel í sambandi við veiðar.