Náttúruvernd

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 20:40:40 (7335)

1996-06-05 20:40:40# 120. lþ. 161.10 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, Frsm. minni hluta HG
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[20:40]

Frsm. minni hluta umhvn. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf við fyrirspurnum mínum. Ég held að hann hafi komið að flestu sem ég spurði um. Það má auðvitað lengi úr bæta. Ég reiknaði ekki með því að við leystum okkar ágreining í þessu formi og ég ætla út af fyrir sig ekki að hafa uppi frekari deilur við hæstv. ráðherra um þau efni. Það er greinilegt að það er ágreiningur á milli okkar um stór atriði sem snerta þetta mál.

Mér finnst vanta alveg sérstaklega skýra hugsun af hálfu hæstv. ráðherra í sambandi við þau efni sem hér er verið að bera fram, t.d. að því er varðar stjórn Náttúruverndar ríkisins. Ég tel ekki að það sé hægt að haga því með eðlilegum hætti gagnvart þessari ríkisstofnun að þar sé kallaður til fulltrúi einhvers annars ráðherra. Og ráðherra gaf í rauninni engar skilmerkilegar skýringar á því af hverju þessi tiltekni ráðherra er valinn og síðan geti menn gripið til einhverra allt annarra raka þegar kemur að næstu stofnun. Ég tel að menn þurfi að reyna að vera samkvæmir sjálfum sér að þessu leyti og ég spái því að þetta eigi eftir að leiða til erfiðleika.

Ef það er ferðamálaþátturinn sem menn eru að horfa til sérstaklega, en auðvitað verður það ekki einangrað þegar ráðherra samgöngumála á í hlut, þá eru samgöngumálin á hans verksviði með öllum þeim framkvæmdum sem þar til heyra. Og í sambandi við Náttúruverndarráð er sérstaklega tilgreint að Ferðamálaráð eigi þar aðgang þannig að mér finnst þetta ekki vera viðhlítandi skýringar af hálfu hæstv. ráðherra.

Ég held líka að það sé mjög ófarsælt að leggja upp með þeim hætti sem ráðherrann gerir í sambandi við fjárhag Náttúruverndarráðs. Það er mjög langt frá því að það sé fullnægjandi sem hér liggur fyrir. Það eina sem gæti því tryggt þetta er einmitt að kveða á um lágmarksstarfsaðstöðu eins og ég hef lagt til í sambandi við þetta mál og við í minni hlutanum þannig að tryggt sé að ráðið hafi möguleika til að sinna lögskipuðu hlutverki sínu.