Ferill 62. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 62 . mál.


62. Tillaga til þingsályktunar



um hert viðurlög við ólöglegum innflutningi á fíkniefnum.

Flm.: Arnþrúður Karlsdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Siv Friðleifsdóttir,


Ísólfur Gylfi Pálmason, Ólafur Örn Haraldsson, Stefán Guðmundsson,


Magnús Stefánsson, Guðni Ágústsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir hertum viðurlögum við ólöglegum innflutningi á fíkniefnum til landsins. Meðal annars verði kannað hvort tilefni sé til að þyngja ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um hámarksrefsingu við broti, úr 10 árum í 16 ár. Jafnframt verði leitað annarra úrræða til þess að stemma stigu við innflutningi á fíkniefnum, svo sem að brotamenn verði undir eftirliti þar til dómur gengur í máli þeirra.

Greinargerð.


    Vegna stöðugt aukinnar útbreiðslu og neyslu fíkniefna í landinu er nauðsynlegt að yfirvöld endurskoði þau viðurlög sem í gildi eru. Í nágrannalöndum, t.d. í Noregi, er refsing 21 árs fangelsi fyrir innflutning á fíkniefnum. Er því eðlilegt að hér á landi verði refsingin þyngd til samræmis við það sem gerist í grannríkjunum svo að varnaðaráhrifin verði þau sömu hér og annars staðar.
    Einnig er mikilvægt að löggjafinn gefi dómstólum meira svigrúm með því að rýmka refsiramma 173. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, úr 10 ára hámarksrefsingu í 16 ár eða jafnvel ævilangt fangelsi. Í því felst sú leiðbeiningarregla að mun harðar verði tekið á þeirri refsiverðu háttsemi sem innflutningur á fíkniefnum er. Þá er og mikilvægt að yfirvöld kanni allar þær leiðir sem færar eru til þess að umræddir brotamenn séu undir eftirliti þar til dómur gengur í máli þeirra. Þannig væri unnt að koma í veg fyrir að þeir færu af landi brott fyrir dómsuppkvaðningu og kæmust með því hjá refsingu.