Ferill 84. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 84 . mál.


85. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað, nr. 88/1995.

Flm.: Ólafur G. Einarsson, Ragnar Arnalds, Sturla Böðvarsson,


Guðni Ágústsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Geir H. Haarde,


Valgerður Sverrisdóttir, Svavar Gestsson, Rannveig Guðmundsdóttir,


Guðný Guðbjörnsdóttir.



    

1. gr.


    16. gr. laganna orðast svo:
    Greiðsla þingfararkostnaðar skv. 6. og 7. gr. er framtalsskyld, sbr. lög um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, en ekki skattskyld. Um greiðslur skv. 8. gr. fer eftir þeim reglum sem ríkisskattstjóri setur.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er gerð tillaga um þá breytingu á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað að ákvæði 16. gr. laganna um skattalega meðferð þingfararkostnaðar er ekki látið ná til 9. gr., þ.e. fastrar greiðslu starfskostnaðar.
    Í 2. mgr. 9. gr. laganna segir að endurgreiða skuli alþingismönnum annan starfskostnað en þann sem tilgreindur er sérstaklega í lögunum samkvæmt reglum sem forsætisnefnd setji, en jafnframt sé heimilt að greiða þennan kostnað sem fasta fjárhæð í stað endurgreiðslu samkvæmt reikningum.
    Í reglum, sem forsætisnefnd setti 28. ágúst sl., var ákveðið að nýta þessa heimild til að greiða alþingismönnum fasta fjárhæð, 40 þús. kr. á mánuði. Með hliðsjón af því hversu sjálfstætt alþingismenn starfa þótti heppilegt að þeim gæfist kostur á að fá greidda fasta fjárhæð mánaðarlega sem væri áætluð tala og gengi til greiðslu starfskostnaðar án beinna afskipta skrifstofu Alþingis. Þetta fyrirkomulag greiðslna og skattaleg meðferð þeirra, sem hefur tíðkast hjá þjóðþingum víða um heim, vakti hins vegar tortryggni og hefur því verið ákveðið að ákvæði 16. gr. um skattalega meðferð þingfararkostnaðar nái ekki til þessara greiðslna.
    Í lögunum var það nýmæli að þar er í fyrsta sinn staðfest í 9. gr. að endurgreiða beri alþingismönnum ýmsan kostnað sem óhjákvæmilega fellur til í tengslum við störf þeirra. Hér er um að ræða kostnað við fundahöld, ráðstefnur, námskeið, bóka- og tímaritakaup og fleiri útgjöld sem fylgja starfi þingmanna. Áður en hin nýju lög um þingfararkaup og þingfararkostnað voru sett þótti ekki nægilega skýrt að hvaða marki bæri að endurgreiða kostnað sem fyrr greinir. Við undirbúning laganna var litið svo á að það væri heppilegra fyrirkomulag að greiða fremur fasta fjárhæð mánaðarlega í stað endurgreiðslu samkvæmt reikningum. Með því móti væri það sett í vald hvers og eins alþingismanns hvernig hann hagaði útgjöldum sínum — að sjálfsögðu innan þess ramma sem lögin settu honum.
    Þeir sem að frumvarpinu stóðu töldu eðlilegt að undanskilja greiðslu þessa skattskyldu þar sem starfskostnaðurinn, eins og hann er skilgreindur í lögunum, væri almennt frádráttarbær hjá vinnuveitanda og því ekki framtalsskyldur hjá þeim sem stofnaði til kostnaðarins. Hins vegar var talið að skýrar heimildir skorti til að draga kostnaðinn frá við álagningu tekjuskatts ef hann væri greiddur viðkomandi beint þar sem alþingismenn teljast ekki einyrkjar eða verktakar í skilningi skattalaga. Þannig væri ekki verið að skapa alþingismönnum rétt umfram aðra með hinni skattfrjálsu greiðslu starfskostnaðar heldur hefði þessi háttur í för með sér mikið hagræði í framkvæmd.
    Til nánari skýringar á þessu skal vitnað til greinargerðar ríkisskattstjóra frá 20. september sl. um skattalega meðferð starfskostnaðar, en þar er meginreglan orðuð svo:
    „Því má segja að samkvæmt skattalögum gildi sú regla að í þeim tilvikum þar sem það liggur fyrir að greiðsla frá launagreiðanda til launamanns feli ekki í sér endurgjald fyrir vinnuframlag, heldur sé um að ræða endurgreiðslu á útlögðum kostnaði í þágu launagreiðanda, þá hafi ekki verið talið að um skattskyldar tekjur sé að ræða hjá launamanninum.“
    Enn fremur segir í greinargerðinni:
    „Þá meginreglu sem að framan er getið þykir mega lesa úr 2. mgr. 30. gr. skattalaganna, auk ákvæða í A-lið 1. mgr. 30. gr. sem fjalla um einstök tilvik. Einnig er hér horft til þess hvað persónufrádrátturinn á að standa fyrir. Í nokkrum tilvikum hefur verið farin sú leið að miða frádráttarheimild við fyrir fram ákveðnar matsreglur og verður að telja að þar ráði miklu hagsmunir skattframkvæmdar, þ.e. mikilvægi skilvirkni í skattframkvæmd. Ákvæði í nýjum lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað verður að telja að byggi á svipuðum meiði, þ.e. það eru skilvirknissjónarmið sem ráða því að notast er við staðlaðar frádráttarreglur enda ekki ágreiningur um tilefni greiðslunnar, þ.e. þeim er ætlað að mæta kostnaði sem launþeginn verður fyrir vegna starfs síns.“
    Þrátt fyrir það sem sagt er hér að framan er lagt til að horfið verði frá sérstakri skattameðferð starfskostnaðar alþingismanna. Eftir breytinguna, sem lögð er til í frumvarpinu, geta alþingismenn valið um það, eftir sem áður, að framvísa reikningum fyrir starfskostnaði sínum eða fá greidda ákveðna fjárhæð mánaðarlega.
    Í þessu frumvarpi er aðeins tekið á einum þætti kjaramála þingmanna, þeim sem mestri gagnrýni hefur sætt að undanförnu. Flutningsmenn telja að nauðsynlegt sé að fara frekar yfir kjaramál þingmanna, m.a. með hliðsjón af þeim upplýsingum sem borist hafa og munu berast um kjaramál sambærilegra aðila í þjóðfélaginu. Í þeirri yfirferð verði einnig farið yfir skattalega meðferð þessara mála í heild eftir því sem tilefni gefst.