Ferill 99. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 99 . mál.


104. Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
    Lokamálsliður 1. mgr. fellur brott.
    2. mgr. orðast svo:
                  Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg. Henni skulu fylgja samþykktir fyrir lánastofnunina, lýsing á starfseminni þar sem fram kemur, meðal annars, hvaða starfsemi ætlunin er að stunda og lýsing á innra skipulagi lánastofnunarinnar. Jafnframt skulu fylgja upplýsingar um stofnendur, hlutafé, hluthafa og hlut hvers um sig, auk annarra upplýsinga og gagna sem viðskiptaráðherra ákveður.
    Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ákvörðun um umsókn um starfsleyfi skal ávallt liggja fyrir innan sex mánaða frá því að fullbúin umsókn barst ráðherra.
    

2. gr.

    Í stað orðanna „11. maí 1993“ í 5. gr. laganna kemur: 27. maí 1993.
    

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
    1. mgr. orðast svo:
                  Eigið fé lánastofnunar skal á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en sem svarar til 8% af áhættugrunni. Áhættugrunnur stofnunar skal metinn með tilliti til heildareigna, liða utan efnahagsreiknings, gengisáhættu og áhættu annarra liða með markaðsáhættu samkvæmt nánari reglum um mat á áhættugrunni til útreiknings á eiginfjárhlutfalli lánastofnana sem Seðlabankinn setur. Eiginfjárkrafan skv. 1. málsl. skal einnig gilda um samstæðureikning.
    Ný málsgrein bætist við, svohljóðandi:
                  Ákvæði laga um Seðlabanka Íslands, svo og reglur settar samkvæmt þeim um laust fé, bindiskyldu og gengisbundnar eignir og skuldir innlánsstofnana, skulu einnig gilda fyrir aðrar lánastofnanir, eftir því sem við getur átt.
    

4. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Ársreikningur lánastofnunar skal endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu. Þó skal ársreikningur lánastofnunar, sem rekin er á ábyrgð ríkissjóðs eða ríkissjóður á að hálfu eða meira, endurskoðaður af Ríkisendurskoðun, sbr. lög um Ríkisendurskoðun. Ráðherra sá, sem fer með málefni lánastofnunar í eigu ríkissjóðs, staðfestir ársreikning hennar.
    Um ársreikning og endurskoðun að öðru leyti, svo og samstæðureikningsskil, fer samkvæmt ákvæðum VII. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
    

5. gr.

    Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Um heimildir dótturfyrirtækja erlendra lánastofnana til starfsemi hér á landi fer samkvæmt ákvæðum XII. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
    

6. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Um heimildir dótturfyrirtækja innlendra lánastofnana til starfsemi erlendis fer samkvæmt ákvæðum XIII. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
    

7. gr.

    Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú gerist hérlend lánastofnun, sem stundar starfsemi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, brotleg við lög þess ríkis, og lögbær yfirvöld þess ríkis grípa til ráðstafana sambærilegra þeim sem greinir í 1. mgr., og skal þá bankaeftirlitið aðstoða þarlend lögbær yfirvöld við samskipti þeirra við yfirstjórn hlutaðeigandi lánastofnunar.
    

8. gr.

    Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
    Ákvæði 96. gr. A laga um viðskiptabanka og sparisjóði um rétt til að leita til dómstóla gilda einnig um lánastofnanir.
    

9. gr.

    Orðin „2. mgr. 3. gr.“ í 2. tölul. 24. gr. laganna falla brott.
    3. gr. laga nr. 48/1966 um Stofnlánadeild verslunarfyrirtækja (verslunarlánasjóð) orðist svo:
          Fjáröflun stofnlánadeildarinnar er sem hér segir:
         
    
    Fé sem fengið er með útgáfu vaxtabréfa, að fengnu samþykki Seðlabanka Íslands.
         
    
    Vextir.
         
    
    Fé sem fengið kann að vera að láni til endurlána.
    

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 45/1972, um Stofnlánadeild samvinnufélaga, með áorðnum breytingum.
    

Ákvæði til bráðabirgða.


    Víkjandi lán, sem lánastofnun hefur tekið fyrir gildistöku laga þessara og greiðast skal niður með afborgunum, er undanþegið ákvæði um endurgreiðslu víkjandi lána sem teljast til eiginfjárþáttar B í 3. málsl. 4. mgr. 54. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt samhliða frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði. Samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) skulu sömu reglur gilda um aðrar lánastofnanir og gilda um viðskiptabanka og sparisjóði. Vegna ákvörðunar um að ýmsar tilskipanir Evrópusambandsins (ESB) er varða lánastofnanir skuli einnig gilda innan Evrópska efnahagssvæðisins er nauðsynlegt að breyta hér á landi bæði lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og lögum um aðrar lánastofnanir. Einnig hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) farið yfir gildandi lög og reglur hér á landi um viðskiptabanka og sparisjóði og aðrar lánastofnanir og í framhaldi af því bent á ýmis atriði sem betur mættu fara. Bréfaskipti ESA og íslenskra stjórnvalda eru birt sem fylgiskjöl með frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, sem lagt er fram á Alþingi samhliða þessu frumvarpi. Í athugasemdum við það frumvarp er einnig að finna ítarlegar upplýsingar um þær nýju tilskipanir ESB sem ákveðið hefur verið að gildi einnig innan EES.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er um að ræða sömu breytingu og lagt er til að gerð verði á 4. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur bent á að í bankalögum og lögum um aðrar lánastofnanir sé ekki ótvírætt ákvæði eins og í hlutaðeigandi tilskipun um að starfsleyfi falli úr gildi ef stofnun hefur ekki starfsemi innan tólf mánaða frá því að leyfi var veitt. Einnig hefur komið í ljós að ákvæði vantar úr hlutaðeigandi tilskipun um að með umsókn um starfsleyfi skuli fylgja lýsing á því hvaða starfsemi ætlunin er að stunda og á innra skipulagi viðskiptabanka eða sparisjóðs. Þá hefur komið í ljós að ákvæði vantar um að jákvæð ákvörðun um afgreiðslu skuli liggja fyrir innan tilskilins frests. Með þeim breytingum, sem lagðar eru til í þessari grein frumvarpsins, er bætt úr þessum atriðum.
    

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. 5. gr. laganna er kveðið á um að hlutafé lánastofnunar megi hvorki við stofnun né síðar vera lægra en 400 milljónir króna. Þessi fjárhæð er síðan bundin við gengi evrópsku mynteiningarinnar ECU. Í lögunum er gengistryggingin miðuð við kaupgengi ECU 11. maí 1993. Þessi dagsetning var valin með hliðsjón af samsvarandi ákvæði í lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, enda eiga sömu reglur að gilda um allar lánastofnanir. Í lögum nr. 43/1993 er gengistryggingin miðuð við gengi ECU á útgáfudegi laganna. Hann var 27. maí 1993. 11. maí 1993 er hins vegar staðfestingardagur laganna. Vegna mistaka var síðarnefnda dagsetningin í frumvarpinu sem varð að lögum um aðrar lánastofnanir. Hér er lagt til að úr þessu verði bætt.
    

Um 3. gr.


    Hér er um að ræða hliðstæða breytingu þeirri sem lögð er til á 1. mgr. 54. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði í frumvarpi um breytingu á þeim. Er breytingin nauðsynleg vegna nýrra eiginfjárkrafna vegna verðbréfaviðskipta fjárfestingarfyrirtækja (verðbréfafyrirtækja) og lánastofnana í nýrri tilskipun ESB þar að lútandi (93/6/EBE).
    

Um 4. gr.


    Með þeirri breytingu, sem hér er lögð til, eru tekin af öll tvímæli um að endurskoðun og áritun ársreikninga lánastofnana í eigu ríkisins skuli vera með sama hætti og hingað til. Ríkisendurskoðun annast endurskoðun og ráðherra sá, sem fer með málefni hlutaðeigandi lánastofnunar, undirritar ársreikninginn. Sé þetta ákvæði ekki til staðar má færa að því rök að um endurskoðun og undirritun ársreiknings lánastofnunar í eigu ríkisins skuli gilda nákvæmlega sömu ákvæði og um ríkisviðskiptabanka.
    

Um 5. og 6. gr.


    ESA hefur réttilega bent á að í íslenska löggjöf vanti ákvæði um starfsheimildir dótturfyrirtækja lánastofnana. Úr þessu er bætt í 15. og 17. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og 4. og 5. gr. þessa frumvarps.
    

Um 7. gr.


    Hér er um að ræða efnisatriði sem vantar í íslenska löggjöf að mati ESA. Úr þessu er bætt í 19. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og þessari grein þessa frumvarps.
    

Um 8. gr.


    Hér er um að ræða efnisatriði sem einnig er í 20. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Í athugasemdum við þá grein segir: „Í hlutaðeigandi tilskipun er ákvæði þess efnis að umsækjandi um starfsleyfi viðskiptabanka eða sparisjóðs eigi að geta áfrýjað til dómstóla ef umsókn er hafnað eða hún ekki afgreidd innan þess sex mánaða frests sem lögbær yfirvöld hafa. Samkvæmt almennum reglum hér á landi getur umsækjandi leitað til dómstóla ef ráðherra synjar umsókn. Hins vegar vantar í lögin ákvæði sem tryggir umsækjendum rétt til að leita til dómstóla ef ráðherra afgreiðir ekki umsóknina innan sex mánaða.“ Sama gildir um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Hér er lagt til að úr þessu verði bætt.
    

Um 9. gr.


    Við samningu frumvarps þess, sem varð að lögum um aðrar lánastofnanir, urðu þau mistök að felld voru brott röng ákvæði laga um verslunarlánasjóð og laga um Stofnlánadeild samvinnufélaga. Ákvæðin sem felld voru niður heimila þessum aðilum lántöku. Þessi ákvæði eru forsenda fyrir því að þessir aðilar teljist til lánastofnana. Hér er lagt til að úr þessu verði bætt varðandi verslunarlánasjóð. Í 10. gr. frumvarpsins er hins vegar lagt til að lögin um Stofnlánadeild samvinnufélaga falli brott þannig að ekki er þörf á að leiðrétta fyrri mistök við breytingu á þeim.

Um 10. gr.


    Landsbanki Íslands eignaðist Stofnlánadeild samvinnufélaga 1990 með kaupum sínum á Samvinnubanka Íslands hf. Starfsemi deildarinnar hefur legið niðri um hríð og í fyrra voru allar skuldbindingar deildarinnar að undanskilinni málamyndafjárhæð færðar yfir til Landsbankans. Í samræmi við ákvæði hlutaðeigandi tilskipunar, sbr. 18. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, þar sem kveðið er á um að lánastofnun sem ekki starfar samfellt í sex mánuði eða meira skuli missa starfsleyfið, er lagt til að deildin verði formlega lögð niður. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.
    

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Hér er um að ræða efnisatriði sem einnig er í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Ákvæðið er nauðsynlegt þar sem í nýjum ákvæðum um eiginfjárþátt B í ákvæðum um eigið fé er gert ráð fyrir þrengri reglum varðandi víkjandi lán sem greidd eru niður með afborgunum en gilt hafa hingað til hér á landi. Þessi breyting er nauðsynleg til samræmis við túlkun annarra ríkja á tilsvarandi ákvæði tilskipunarinnar um eiginfjárhlutfall lánastofnana. Þar sem hér er um þrengingu á eldri reglum að ræða þykir eðlilegt að hún gildi ekki fyrir víkjandi lán sem tekin eru fyrir gildistöku laganna.Fylgiskjal.

    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 123/1993,


um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.


    Frumvarp þetta er lagt fram um leið og fjögur önnur frumvörp er öll varða peningastofnanir og verðbréfaviðskipti. Breytingar þær sem hér eru lagðar til eru hliðstæðar við sumar þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi um viðskiptabanka og sparisjóði. Þá eru breytingarnar einnig ætlaðar til að aðlaga íslenska löggjöf að breytingum á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Ekki verður séð að samþykkt frumvarps þessa valdi kostnaði fyrir ríkissjóð.