Ferill 84. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 84 . mál.


121. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um þingfararkaup og þingfararkostnað, nr. 88/1995.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Á vorþinginu, þegar frumvarp um þingfararkaup og þingfararkostnað var til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd, skilaði fulltrúi Þjóðvaka í nefndinni séráliti þar sem m.a. kom fram eftirfarandi:
    „Það orkar mjög tvímælis að greiðslur ákveðnar af forsætisnefnd séu ekki skattskyldar og þar með óháðar skattalegu mati ríkisskattstjóra. Þingflokkur Þjóðvaka leggst eindregið gegn þessu ákvæði frumvarpsins.“
    Í umfjöllun um málið var einnig varað við því að í frumvarpinu væru ákvæði sem væru til þess fallin að vekja upp tortryggni fólksins í landinu. Einkum var þar bent á hina óskilgreindu kostnaðargreiðslu og skattfrelsi sömu greiðslna.
    Síðan Kjaradómur kvað upp sinn úrskurð og forsætisnefnd Alþingis birti sínar niðurstöður varðandi framkvæmd laganna hefur verið samfelld reiðialda í þjóðfélaginu. Skilaboðin eru skýr. Þjóðin telur að alþingismenn og ráðherrar eigi að falla undir sömu skattalög og aðrir.
    Þær breytingartillögur, sem minni hluti nefndarinnar flytur, eru tvíþættar og með þeim er ítrekaður vilji þingmanna Þjóðvaka í þessu efni. Að mati þingmanna Þjóðvaka gengur frumvarpið of skammt. Enn standa eftir ákvæði sem lúta að sérstöku skattfrelsi á þingfararkostnaði. Þessar greiðslur voru áður háðar skattalegu mati ríkisskattstjóra.
    Minni hlutinn flytur því breytingartillögu um að öll 16. gr. laganna, sem kveður á um skattalega meðferð á greiðslum þingfararkostnaðar, þar með talið skattfrelsi, falli brott. Þannig verði greiðslur húsnæðis-, dvalar- og ferðakostnaðar áfram háðar skattalegu mati ríkisskattstjóra.
    Breytingartillögur minni hlutans taka einnig mið af réttmætri gagnrýni sem fram hefur komið á það atriði að ráðherrar geti fengið starfskostnað sinn greiddan frá Alþingi, jafnvel sem fasta fjárhæð, þótt venja sé að ráðuneytin greiði allan starfskostnað þeirra. Bent hefur verið á að einmitt þetta atriði hafi veikt mjög stöðu þingsins og orðið til þess að fólkið í landinu hafi alls ekki sannfærst um að hér væri um að ræða starfskostnaðargreiðslu til alþingismanna en ekki viðbótarlaunagreiðslu. Fyrsta breytingartillaga minni hlutans felur því í sér að heimildin til greiðslu starfskostnaðar ráðherra falli brott þar sem hann er greiddur af öðrum aðila, þ.e. ráðuneytunum. Nái sú tillaga ekki fram að ganga flytur minni hlutinn varatillögu um að greiðsla starfskostnaðar sem fastrar fjárhæðar í stað endurgreiðslu samkvæmt reikningum nái ekki til alþingismanna sem einnig eru ráðherrar.

Alþingi, 19. okt. 1995.



Jóhanna Sigurðardóttir.



Prentað upp.