Ferill 77. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 77 . mál.


141. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um húsnæðismál sýslumannsembættisins á Seyðisfirði.

    Hver er staða undirbúnings að úrbótum í húsnæðismálum embættis sýslumannsins á Seyðisfirði?
    Haustið 1994 fór dómsmálaráðuneytið þess á leit við Framkvæmdasýsluna að gerð yrði úttekt á Bjólfsgötu 7 sem hýsir skrifstofu sýslumannsins á Seyðisfirði. Áætlaður kostnaður við endurbætur hússins er mikill þar sem lítið viðhald hefur farið fram á undanförnum árum. Ríkissjóður keypti efri hæð hússins fyrir fimm árum, en neðri hæð hússins hefur verið í eigu ríkissjóðs síðan árið 1951.
    Framkvæmdasýslan áætlar að kostnaður við einangrun og endurnýjun járns á þaki og útveggjum, ásamt endurnýjun glugga og hurða, geti verið allt að 11 millj. kr. Ástand burðarvirkis er óþekkt, svo og ástand lagna í og við húsið. Vegna aldurs hússins, en það er byggt árið 1908, má búast við að húsafriðunarnefnd muni vilja hafa afskipti af endurbótum.
    Áætla má að heildarkostnaður við endurbætur hússins gæti orðið á bilinu 20–30 millj. kr. Framkvæmdasýslan mælir því með að húsið verði selt og embættinu útvegað annað húsnæði.

    Hvaða möguleikar eru á að nýta núverandi húsnæði í þágu embættisins til frambúðar með endurbótum á því?
    Góðir möguleikar eru á að nýta núverandi húsnæði, en til þess þarf að kosta miklum fjármunum, sbr. framangreint.

    Hvenær reiknar ráðuneytið með að framkvæmdir við endurbætur eða nýbyggingu fyrir embættið hefjist?
    Í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 1995 er heimild (nr. 3.24) til að selja skrifstofuhúsnæði sýslumannsins á Seyðisfirði og kaupa annað hentugra. Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um hvort ráðist verður í endurbætur á núverandi húsnæði eða annað húsnæði fundið. Ákveðið hefur verið að kanna á næstunni möguleika á kaupum og sölu húsnæðis í samræmi við heimild í 6. gr. fjárlaga.