Ferill 70. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 70 . mál.


142. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um tekjur ríkissjóðs af skráningu flugvéla og kaupskipa á Íslandi.

    Hverjar voru tekjur ríkissjóðs vegna stimpilgjalda af afsölum og veðböndum við nýskráningu eða sölu þeirra farþegaflugvéla sem Flugleiðir og Atlanta hafa skráð hér á landi frá ársbyrjun 1994 til þessa dags, sundurgreindar á vélar?

    Aldrei hafa verið heimildir í íslenskum lögum um stimpilskyldu afsalsbréfa fyrir flugvélum. Sala þeirra er því ekki stimpilskyld samkvæmt lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald. Afsalsbréf fyrir skipum er hins vegar stimpilskylt skv. 16. gr. sömu laga.
    Skuldabréf og tryggingabréf, sem tryggð eru með veði í flugvélum, eru hins vegar stimpilskyld á sama hátt og önnur veðskulda- og tryggingabréf. Stimpilgjöld af veðskuldum sem tengjast skráningu flugvéla á vegum Atlanta hf. og Flugleiða hf. hafa hins vegar verið felld niður með heimild í fjárlögum.
    Í fjárlögum fyrir árið 1994 voru engar heimildir vegna flugvéla og hefur því ekkert verið fellt niður á þvi ári. Hins vegar er í fjárlögum fyrir árið 1995 heimild til niðurfellingar stimpilgjalda vegna veðskulda sem hvíldu á Boeing 737-400 flugvélum sem Flugleiðir hf. tóku á leigu. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1996 eru lagðar til sambærilegar heimildir vegna Atlanta hf. og Flugleiða hf.
    Frá árinu 1994 eru heimildir þessar nánar tiltekið sem hér segir:
    Fjárlög fyrir árið 1994: Engin heimild.
    Fjárlög fyrir árið 1995:
    Flugleiðir hf.:
    Veitt er heimild til þess að fella niður stimpilgjöld vegna leigu Flugleiða hf. á Boeing 737-400 flugvélum (TF-FIA og TF-FIB), sbr. lið 2.8 í 6. gr.
    Fellt var niður stimpilgjald vegna veðskulda sem hvíldu á flugvélinni TF-FIB, en gjaldið hefði numið 29.520.000 kr.
    Fjárlagafrumvarp fyrir árið 1996:
    Atlanta hf.:
  a.    Leiguvél Boeing 747-100. Lagt er til að heimilt verði að fella niður stimpilgjöld vegna veðskulda sem hvíldu á vélinni við skráningu en stimpilgjaldið nemur 6.317.500 kr., sbr. lið 2.7 í 6. gr.
  b.    Leiguvél Lockheed Tristar L1011 (TF-ABP). Um er að ræða sams konar heimild og getið er um í a-lið, en stimpilgjaldið nemur 22.700.000 kr.
    Atlanta hf. hefur lagt fram víxla til greiðslu á stimpilgjaldinu. Verði heimildin ekki veitt munu þeir gjaldfalla 1. febrúar 1996.
    Flugleiðir hf.:
    Lagt er til að heimilt verði að fella niður stimpilgjöld vegna leigu á Boeing 737-400 (TF-FIA og TF-FIB). Hér er um að ræða sömu heimild og er í fjárlögum fyrir árið 1995 en á þessu ári var hún eingöngu nýtt vegna TF-FIB, sbr. lið 2.6 í 6. gr.

    Hverjar voru tekjur ríkissjóðs vegna stimpilgjalda af afsölum og veðböndum við nýskráningu kaupskipanna ms. Brúarfoss, ms. Laxfoss og ms. Helgafells?

    Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum í Reykjavík voru stimpilgjöld vegna afsals- og veðbanda við nýskráningu kaupskipanna ms. Helgafells, ms. Brúarfoss og ms. Laxfoss sem hér segir:
     Stimpilgjöld vegna Helgafellsins:
    Kaupverð skipsins var 8.250.000 þýsk mörk, miðað við sölugengi 1. september 1988 205.876.275 íslenskar kr. Innheimt stimpilgjald var 0,4% eða samtals 823.508 kr.
    Vegna kaupanna voru gefin út tvö tryggingabréf á árunum 1988 og 1990, samtals að fjárhæð 13.250.000 þýsk mörk. Innheimt stimpilgjald vegna þeirra var samtals 1.950.650 íslenskar kr.
     Stimpilgjöld vegna Brúarfoss:
    Kaupverð skipsins var 8.150.000 Bandaríkjadalir, miðað við sölugengi 15. nóvember 1988 373.514.000 íslenskar kr. Innheimt stimpilgjald var 0,4% eða samtals 1.494.060 kr.
     Stimpilgjöld vegna Laxfoss:
    Kaupverð skipsins var 8.150.000 Bandaríkjadalir, miðað við sölugengi 15. nóvember 1988 373.514.000 íslenskar kr. Innheimt stimpilgjald var 0,4% eða samtals 1.494.060 kr.

    Hve mörg kaupskip skipafélaganna eru skráð hérlendis og hve mörg erlendis?

    Samkvæmt upplýsingum frá Siglingamálastofnun eru fimm kaupskip skráð á Íslandi, samtals 18.852 brl., 37.101 bt. Stofnunin hefur ekki upplýsingar um hve mörg kaupskip íslenskra skipafélaga eru skráð erlendis.

    Hvaða ástæðu telur ráðherra vera fyrir því að svo fá kaupskip í eigu Íslendinga eru skráð hér á landi sem raun ber vitni?

    Telja verður að ástæður þess séu margvíslegar. Í skýrslu nefndar á vegum samgönguráðherra frá árinu 1993 um skráningu kaupskipa er m.a. fjallað um ástæður útflöggunar. Í 2. kafla skýrslunnar kemur fram að atriði, sem eru óhagstæð skráningu hérlendis, séu einkum eftirfarandi:
    Laun skipverja.
    Mönnunarreglur.
    Opinber gjaldtaka, stimpilgjöld o.s.frv.
    Sérákvæði kjarasamninga, vinnutilhögun um borð o.fl.
    Reglur um hámarksaldur innfluttra skipa. Samkvæmt lögum nr. 35/1993, um eftirlit með skipum, er ákvæði um hámarksaldur kaupskipa fellt niður.
    Íslenskar reglur um fjármögnun skipakaupa.
    Þjónusta hins opinbera (skipaskoðun).
    Íslenskar sérreglur um búnað og byggingu skipa.“
    Framangreindur kafli úr skýrslunni er fylgiskjal með svari þessu.



Fylgiskjal.


Samgönguráðuneytið:

Úr skýrslu nefndar um skráningarreglur íslenskra kaupskipa (1993).



Tillögur nefndarinnar.
    Í samræmi við það verkefni nefndarinnar að koma kaupskipum undir íslenskan fána og hvetja jafnframt til ráðningar á íslenskum sjómönnum álítur nefndin að grípa þurfi til eftirfarandi aðgerða til þess að bæta samkeppnisaðstöðu íslenskra sjómanna og kaupskipaútgerða gagnvart samkeppni erlendis frá:
    Lagt verði fram frumvarp til laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá sem verði starfrækt samhliða almennu skipaskránni (sjá bls. 37).
    Lagt verði fram frumvarp til laga um skattamál skipverja og útgerða í íslensku alþjóðlegu skipaskránni (sjá bls. 36).
    Felld verði niður stimpilgjöld vegna íslenskra kaupskipa í íslenskri alþjóðlegri skipaskrá.
    Mönnunarreglum íslenskra kaupskipa verði breytt til samræmis við framkvæmd alþjóðlegrar samþykktar um þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna, STCW og tengdrar ályktunar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um öryggismönnun kaupskipa, hliðstætt því sem gert hefur verið í næstu nágrannalöndum okkar, t.d. í Danmörku og Noregi (sjá bls. 33).
    Fyrirkomulagi á skoðun kaupskipa í íslenskri alþjóðlegri skipaskrá verði breytt til samræmis við það sem tíðkast í öðrum alþjóðlegum skipaskrám þannig að flokkunarfélög geti séð um stærri hluta skoðunar en nú tíðkast (sjá bls. 31).

    Nefndarmenn eru sammála um að með ofangreindum aðgerðum hafi íslensk stjórnvöld gripið til ráðstafana til að tryggja, eins og unnt er, að íslensk kaupskip í eigu og á vegum íslensku kaupskipaútgerðanna sigli undir íslenskum fána og hafi jafnframt skapað forsendur fyrir atvinnuöryggi farmanna, að minnsta kosti að því marki sem stjórnvöld í nágrannalöndunum hafa þegar framkvæmt eða eru að undirbúa.
    Með hliðsjón af fenginni reynslu nágrannalandanna er nefndarmönnum enn fremur ljóst að samhliða fyrrgreindum aðgerðum stjórnvalda eru hagsmunaaðilar knúnir til að leggja sitt af mörkum til að tryggja atvinnuöryggi íslenskra farmanna með hagkvæmari vinnutilhögun á skipunum og við að nýta reynslu og þekkingu íslenskra farmanna á staðháttum á siglingaleiðum íslenskra kaupskipa.
    Nefndarmenn vekja athygli á því að fórnarkostnaður stjórnvalda vegna fyrrgreindra aðgerða yrði sennilega lítill ef umrædd markmið nást, enda verður ríkissjóður af tekjum við það að útgerðir skrá skip sín erlendis.

2.1.     Lagafrumvörp.
    Nefndin leggur til að frumvarp til laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá verði lagt fram á Alþingi. Tillögu að frumvarpinu er að finna í viðauka I. Lagt er til að skýrsla nefndarinnar verði fylgiskjal með frumvarpinu og hluti þess. Lagafrumvarpið er að miklu leyti sniðið eftir dönskum og norskum lögum um alþjóðlega skipaskrá.
    Til þess að bæta samkeppnisaðstöðu íslenskra sjómanna um störf á íslenskum kaupskipum leggur nefndin til að lagt verði fram sérstakt lagafrumvarp um skattamál sjómanna á kaupskipum í íslenskri alþjóðlegri skipaskrá, hliðstætt því sem gert hefur verið í næstu nágrannalöndum okkar. Með þessu frumvarpi, sem sniðið yrði að dönskum lögum, lækkar launakostnaður vegna íslenskra sjómanna nokkuð og yrðu þeir samkeppnishæfari við erlent vinnuafl en þeir eru um þessar mundir. Nánar er fjallað um einstök atriði er varða slíkt frumvarp í kafla 6.3.

2.2.     Reglugerðir.
    Þar sem hagstæðari mönnunarreglur, lægri skráningar- og afskráningarkostnaður og alþjóðlega samræmdar kröfur og eftirlit með kaupskipum undir erlendum skráningarfánum eru meðvirkandi orsakir erlendrar skráningar er lagt til að settar verði reglugerðir þar að lútandi á grundvelli laga um alþjóðlega skipaskrá. Nefndin leggur til að settar verði reglur um eftirfarandi atriði:
    Rekstur íslensku alþjóðlegu skipaskrárinnar.
    Skoðun skipa í íslenskri alþjóðlegri skipaskrá.
    Mönnunarreglur kaupskipa í íslenskri alþjóðlegri skipaskrá.

2.3.     Ástæður útflöggunar.
    Ýmis kostnaður útgerðanna við skráningu kaupskipanna á Íslandi er hærri en víða erlendis og er það ein meginástæða útflöggunar. Atriðin, sem óhagstæð eru varðandi skráningu hérlendis, eru einkum eftirfarandi:
    Laun skipverja.
    Mönnunarreglur.
    Opinber gjaldtaka, stimpilgjöld o.s.frv.
    Sérákvæði kjarasamninga, vinnutilhögun um borð o.fl.
    Reglur um hámarksaldur innfluttra skipa. Samkvæmt lögum nr. 35/1993, um eftirlit með skipum, er ákvæði um hámarksaldur kaupskipa fellt niður.
    Íslenskar reglur um fjármögnun skipakaupa.
    Þjónusta hins opinbera (skipaskoðun).
    Íslenskar sérreglur um búnað og byggingu skipa.

    Tillögur nefndarinnar miða að því að koma til móts við þessi atriði eftir því sem kostur er. Nefndin telur að með tillögum hennar séu sköpuð hliðstæð skilyrði og í Danmörku og með framkvæmd þeirra sé lagður grunnur að því að skipin geti siglt undir íslenskum fána og séu mönnuð Íslendingum. Fulltrúar SÍK og stéttarfélaga farmanna í nefndinni héldu saman fundi til þess að ná samkomulagi um hvort mætti hagræða vinnu um borð í skipunum þannig að sparnaður hlytist af. Þarna er meðal annars um að ræða heimahafnarfrí og aukna samvinnu starfsmanna um borð í skipunum við lausn ýmissa verkefna. Fjallað er um niðurstöður þessara viðræðna í kafla 6.1.