Ferill 126. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 126 . mál.


144. Frumvarp til laga



um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 109. gr. laganna, sbr. lög nr. 20/1994, skal um atkvæðagreiðslu um sameiningu sex sveitarfélaga á Vestfjörðum hinn 11. nóvember 1995 gilda eftirfarandi:
    Hljóti tillaga samstarfsnefndar skv. 108. gr. ekki samþykki í öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum, en þó meiri hluta greiddra atkvæða í a.m.k. 2 / 3 þeirra og í þeim sveitarfélögum búi a.m.k. 2 / 3 íbúa á svæðinu, er viðkomandi sveitarstjórnum heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga sem samþykkt hafa sameininguna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að við sveitarstjórnarlög, nr. 8/1986, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða. Frumvarp þetta er samið og lagt fram að frumkvæði samstarfsnefndar um sameiningu Flateyrarhrepps, Mosvallahrepps, Mýrahrepps, Suðureyrarhrepps, Þingeyrarhrepps og Ísafjarðarkaupstaðar. Sveitarstjórnir þessara sveitarfélaga hafa samþykkt að láta fara fram almenna atkvæðagreiðslu um sameiningu þeirra og hefur verið unnið að málinu á grundvelli 108. gr. sveitarstjórnarlaga. Atkvæðagreiðslan mun fara fram 11. nóvember 1995.
    Í áskorun nefndarinnar til félagsmálaráðherra er tekið fram nefndin sé sammála um nauðsyn þess að af sameiningu umræddra sveitarfélaga geti orðið og það sem fyrst. Fjárhagur, íbúaþróun, bættar samgöngur og ótal fleiri þættir knýja mjög á um að um þetta mál náist góð samstaða. Samstarfsnefndin telur að sá möguleiki sé fyrir hendi að íbúar eins eða tveggja sveitarfélaga geti fellt tillögu nefndarinnar og að óbreyttum lögum yrði þá að hefja nýja tillögugerð og efna til nýrra kosninga. Jafnframt tekur hún fram að flest bendi til að verulegur dráttur yrði á því að kosið yrði um nýja tillögu og vafamál að umboð samstarfsnefndarinnar yrði framlengt af viðkomandi sveitarstjórnum.
    Ljóst er að aðstæður munu breytast verulega á þessu svæði með tilkomu jarðganga. Þá aukast til muna möguleikar á samnýtingu þjónustu og samvinnu að öðru leyti.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða. Ákvæðið er á þá leið að hljóti tillaga samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna sex ekki samþykki í öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum, en þó meiri hluta greiddra atkvæða í a.m.k. 2 / 3 þeirra og í þeim sveitarfélögum búi a.m.k. 2 / 3 íbúa á svæðinu, er viðkomandi sveitarstjórnum heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga sem samþykkt hafa sameininguna.
    Ákvæði þetta er sams konar og 3. mgr. 2. tölul. 1. gr. laga nr. 75/1993, um breyting á sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, með þeirri viðbót þó að gert er að skilyrði að í þeim sveitarfélögum sem samþykkja tillöguna búi a.m.k. 2 / 3 íbúa á svæðinu. Með lögum nr. 75/1993 voru sett ákvæði til bráðabirgða við sveitarstjórnarlögin sem fjölluðu um sérstakt átak í sameiningu sveitarfélaga á árunum 1993 og 1994. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 75/1993 var tekið fram að ekki þætti rétt þótt kjósendur í miklum minni hluta hlutaðeigandi sveitarfélaga felli tillögu um sameiningu sveitarfélaga að það komi í veg fyrir sameiningu þeirra sveitarfélaga sem samþykkja sameininguna.
    Á árunum 1993 og 1994 ákváðu nokkrar sveitarstjórnir að nýta sér þetta heimildarákvæði í framhaldi af atkvæðagreiðslum um sameiningu sveitarfélaga. Hefur þetta ákvæði því reynst vel og í raun auðveldað sameiningu sveitarfélaga.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á


sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, með síðari breytingum.


    Frumvarpið miðar að því að breyta ákvæðunum í sveitarstjórnarlögum um sameiningu sveitarfélaga þannig að hljóti tillaga samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaga (sbr. 108. gr. laga nr. 8/1986) ekki samþykki í öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum, en þó meiri hluta greiddra atkvæða í a.m.k. 2 / 3 hluta þeirra, er viðkomandi sveitarstjórnum heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga sem hafa samþykkt hana. Eins og er þurfa öll sveitarfélögin að samþykkja sameiningu eigi að verða af henni. Ekki verður séð að þessi lagabreyting leiði til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.