Ferill 36. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 36 . mál.


146. Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um Sogsvirkjanir.

    Hve stóran hluta árs hefur Steingrímsstöð verið í notkun:
         
    
    að hluta,
         
    
    að öllu leyti,
        síðustu fimm ár?

    Steingrímsstöð hefur verið í stöðugri notkun allt árið á því tímabili sem fyrirspurnin tekur til. Á árinu 1993 varð bilun í öðrum vélarspenni virkjunarinnar og hefur eftir það ekki verið unnt að reka virkjunina á fullum afköstum. Þegar spennirinn bilaði var sú ákvörðun tekin að ráðast ekki í endurnýjun hans strax heldur yrði það gert samtímis öðrum nauðsynlegum endurbótum á búnaði stöðvarinnar. Á árunum 1994 og 1995 hefur verið unnið að því að endurnýja ýmsan búnað í annarri vélasamstæðu stöðvarinnar og því hefur orkuvinnsla aðeins verið í einni vél stöðvarinnar á því tímabili.
    Orkuvinnsla í Steingrímsstöð undanfarin ár hefur verið sem hér segir:

Vinnsla

Vinnsla

Heildar-


í vél 1

í vél 2

vinnsla


Ár

MWst

MWst

MWst



1990          
71.672
71.143 142.815
1991          
77.110
75.305 152.415
1992          
84.773
82.997 167.770
1993          
36.340
94.428 130.768
1994          
0
98.312 98.312

    Ef miðað er við að meðalvinnsla í Steingrímsstöð sé um 155.000 MWst á ári var vinnsla árið 1993 um 84% af meðalvinnslu og vinnsla 1994 um 63%. Áætlað er að stöðin verði komin í eðlilegan rekstur að nýju á árinu 1997.

    Eru áætlaðar meiri háttar viðgerðir eða endurbætur á virkjunum í Soginu? Ef svo er, hverjar eru þær í stórum dráttum og hver er áætlaður framkvæmdatími þeirra?
    Mannvirki öll og búnaður Sogsstöðva eru komin vel til ára sinna og ber víða á einkennum öldrunar sem ekki er unnt að bæta lengur með venjubundnu varnarviðhaldi. Bilanir hafa farið vaxandi á undanförnum árum og því er orðið nauðsynlegt að endurnýja og endurbæta búnað og mannvirki. Með tilliti til þessa hefur Landsvirkjun gert áætlanir um víðtækar endurbætur á stöðvunum á komandi árum í þeim tilgangi að lengja líftíma þeirra og tryggja öruggan rekstur þeirra til næstu 30–40 ára. Meðal helstu framkvæmda sem ráðast þarf í er að lagfæra stíflur og styrkja stöðvarhús ásamt því að endurnýja eða endurbæta lokur, ristar, rofabúnað, aflspenna og ýmsan hjálparbúnað. Undirbúningur og hönnun er þegar hafin en gert er ráð fyrir að ljúka verkinu fyrir árið 2000.

    Hver er áætlaður kostnaður framkvæmdanna við hverja virkjun fyrir sig?
    Gert er ráð fyrir að framkvæmdakostnaður endurnýjunar Ljósafossstöðvar verði um 530 millj. kr., Írafossstöðvar um 390 millj. kr. og Steingrímsstöðvar um 220 millj. kr., allt á verðlagi í desember 1994.