Ferill 108. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 108 . mál.


149. Svarumhverfisráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um mengunarvarnir í flotkvíum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða kröfur eru gerðar til mengunarvarna í flotkvíum sem eru í Akureyrarhöfn og Hafnarfjarðarhöfn?

    Samkvæmt 1. gr. reglna um varnir gegn mengun sjávar frá skipum, nr. 520/1984, er skip skilgreint sem fljótandi far, þar með talin skíðaskip, svifskip, kafbátar og fastir eða fljótandi pallar. Siglingamálastofnun ríkisins hefur gefið þær upplýsingar að umræddar flotkvíar séu skráðar sem fljótandi för og falla þær því undir skilgreininguna og eru háðar reglum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Á þessum forsendum er mengunarvörnum skipt í tvennt:
    Í fyrsta lagi er um að ræða mengunarvarnir vegna eigin vélabúnaðar eins og kveðið er á um í reglugerð um varnir gegn mengun sjávar frá skipum sem gildir fyrir skip stærri en 400 brúttótonn. Þetta hefur í för með sér að flotkví þarf að hafa þann mengunarvarnabúnað sem þar er krafist, m.a. olíuskilju og soratank til að taka við olíuúrgangi eða búnað sem yfirvöld telja jafngildan. Jafnframt er krafist alþjóðlegs olíumengunarvarnaskírteinis og að til staðar sé neyðaráætlun vegna mengunaróhappa.
    Í öðru lagi er um að ræða mengunarvarnir sem snúa að starfsemi um borð samkvæmt lögum um varnir gegn mengun sjávar, nr. 32/1986, og reglugerð um varnir gegn sorpmengun frá skipum, nr. 124/1994. Þar kemur fram að bannað er að losa eða farga óvinnsluhæfum rekstrarúrgangi í hafið innan þriggja sjómílna frá landi sem þýðir að öllum úrgangi, föstum og fljótandi, sem til fellur við vinnu í flotkví, skal safna saman og farga á viðurkenndan hátt.
    Nánari útfærsla á einstökum atriðum, svo sem loft- og hávaðamengun, svo og nánari meðferð úrgangs, kemur fram í rekstrarleyfi/starfsleyfi flotkvía.
    Þrátt fyrir að flotkvíar séu skráðar sem skip er ekkert því til fyrirstöðu að beita einnig ákvæðum mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994 þar sem það á við eins og gert hefur verið varðandi flotkví í Hafnarfjarðarhöfn. Sú flotkví hefur fengið bráðabirgðastarfsleyfi Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðarsvæðis.