Ferill 42. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 42 . mál.


181. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um innheimtu á opinberum gjöldum.

    Hve mikið hefur verið afskrifað af opinberum gjöldum hjá annars vegar einstaklingum og hins vegar lögaðilum árlega sl. fimm ár og hve mikill hefur kostnaður ríkissjóðs verið vegna þessa?
    Á árunum 1990–94 hafa þinggjöld einstaklinga og félaga verið afskrifuð sem hér greinir (upphæðir eru í þús. kr.). Aðeins er um að ræða þann hluta opinberra gjalda sem tilheyrir ríkissjóði.

1990

1991

1992

1993

1994



Þinggjöld einstaklinga:
Þinggjöld     
732.066
455.051 892.712 1.581.984 979.644
Dráttarvextir     
227.014
560.341 509.299 854.372 541.978
Samtals     
959.080
1.015.392 1.402.011 2.436.356 1.521.622

Þinggjöld lögaðila:
Þinggjöld     
687.493
338.623 954.621 784.847 727.413
Dráttarvextir     
386.550
353.062 719.577 715.364 576.218
Samtals     
1.074.043
691.685 1.674.198 1.500.211 1.303.631

    Taflan sýnir opinber gjöld til ríkissjóðs í þröngum skilningi, þ.e. hlut ríkissjóðs í þinggjöldum einstaklinga og félaga. Hvað varðar afskriftir og niðurfærslu í öðrum skatttegundum er vísað til yfirlita á blaðsíðum 19–21 í ríkisreikningi 1993 og sams konar yfirlits fyrir árið 1994 sem fylgir svari þessu. Rétt þykir að vekja athygli á eftirfarandi atriðum.
    Yfirlitið sýnir annars vegar beinar afskriftir á kröfum á gjaldendur sem úrskurðaðir hafa verið gjaldþrota eða að innheimtuaðgerðum hefur verið hætt þar sem fullreynt þykir að þær beri ekki árangur. Hins vegar sýnir yfirlitið óbeinar afskriftir sem er bókhaldsleg niðurfærsla í ríkisreikningi á kröfum á gjaldendur sem ekki er búið að ljúka innheimtuaðgerðum hjá. Á það skal bent að kröfur á einstaklinga vegna vangoldins virðisaukaskatts hafa ekki enn verið afskrifaðar, þó svo að gjaldþrotaskiptum sé lokið.
    Framangreindar tölur og yfirlit gefa vísbendingar um það tekjutap sem ríkissjóður hefur orðið fyrir á þessum árum vegna þess að ekki reynist unnt að innheimta álögð gjöld að fullu. Þar sem áætlanir skattstjóra á gjaldendur, sem ekki hafa skilað framtölum, eru inni í þessum tölum gefa þær ekki rétta mynd af tekjutapi ríkissjóðs. Eins skal bent á að í þeim eru einnig dráttarvextir af álagningu samkvæmt framtölum og áætlunum.
    Auk tekjutaps verður ríkissjóður fyrir beinum kostnaði af innheimtuaðgerðum sem ekki bera árangur. Til upplýsinga um það fylgja hér tölur sem sýna kostnað af sérstökum innheimtuaðgerðum hjá sýslumönnum og tollstjóranum í Reykjavík á tímabilinu 1. júlí 1992 til 31. desember 1994. Sambærilegar tölur fyrir gjaldheimtu liggja ekki fyrir í ríkisbókhaldi. Um er að ræða kostnað sem færður hefur verið á ríkissjóð á viðkomandi ári því að ekki hefur tekist að innheimta hann af gerðarþolum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um þennan kostnað áður en aðskilnaður var gerður á dómsvaldi og framkvæmdarvaldi á miðju ári 1992.

1. júlí til 31.


Innheimtukostnaður (í þús. kr.):

desember 1992

1993

1994



Aðfarargjald     
24.633
30.738 18.159
Gjald vegna beiðni um nauðungarsölu     
2.417
4.272 4.726
Annar innheimtukostnaður samkvæmt aukatekjulögum     
7.869
17.651 11.454
Kostnaður vegna búskipta     
5.315
2.328 34.366
Samtals     
40.234
54.989 68.705

    Rétt er að benda á að kostnaður af búskiptum var áður hluti af rekstrarkostnaði sýslumannsembætta. Skv. 75. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, sem tóku gildi á miðju árinu 1992 skipar héraðsdómari alltaf bústjóra í kjölfar uppkvaðningar úrskurðar um gjaldþrotaskipti. Kostnaður vegna búskiptanna er greiddur af þrotabúinu. Ef eignir búsins hrökkva ekki fyrir skiptakostnaðinum er hann greiddur af 150.000 kr. tryggingarfé sem gerðarbeiðandi leggur fram þegar hann óskar eftir gjaldþrotaskiptum. Þegar ríkissjóður leggur fram tryggingarfé er það viðskiptafært en skiptakostnaðurinn gjaldfærist fyrst við skiptalok og er þá færður á þennan kostnaðarlið. Gjaldfærður kostnaður endurspeglar því ekki endilega fjölda þeirra búa sem óskað er eftir skiptum á, viðkomandi ár. Skiptum á fjölda gjaldþrotabúa, sem innheimtumenn ríkissjóðs óskuðu eftir í lok ársins 1992 og árið 1993, lauk fyrst á árinu 1994. Þetta skýrir hvers vegna kostnaður vegna búskipta eykst um 32 millj. kr. milli áranna 1993 og 1994.

    Hversu oft hefur lögaðili, sem ekki hefur verið mögulegt að innheimta opinber gjöld af, orðið gjaldþrota og hafið að nýju sama eða svipaðan atvinnurekstur undir öðru heiti?
    Samkvæmt 72. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, hættir lögaðili sem fer í skiptameðferð að vera til um leið og úrskurður um gjaldþrotaskipti er kveðinn upp en nýr lögaðili, þrotabú skuldarans, verður til. Þessi lögaðili (þ.e. þrotabúið) tekur við fjárhagslegum réttindum og skyldum þrotamanns, nýtur réttarhæfis til að öðlast réttindi og bakar sér skyldur meðan á skiptum stendur, sbr. 1.–3. mgr. 72. gr. laganna.
    Samkvæmt ákvæðum XXII. kafla sömu laga geta málalok við gjaldþrotaskipti orðið með fernum hætti. Á hvaða veg sem skiptalok verða leiða þau til þess að tilvist þrotabúsins sem lögaðila lýkur. Þrotabúinu er slitið líkt og ef um félag væri að ræða og nýtur ekki upp frá því neinna réttinda og ber ekki lengur skyldur.
    Gjaldþrotaskiptin hafa þannig í för með sér að tilvist lögaðilans (þrotamannsins) lýkur og nýtur hann ekki upp frá því neinna réttinda og ber ekki lengur skyldur. Þessi lögaðili getur því ekki hafið rekstur að nýju með nýrri kennitölu eða undir öðru heiti.
    Þótt lögaðili sem orðið hefur gjaldþrota geti ekki hafið starfsemi að nýju er nokkuð um að einstaklingar sem standa að baki rekstri lögaðila setja fyrirtækið í þrot með vanskilum á sköttum og stofna nýtt fyrirtæki sem annast sömu þjónustuna, í sömu húsakynnum og með sama starfsfólki. Oft fá þessir einstaklingar aðra til þess að skrá sig fyrir rekstrinum þannig að á pappírunum koma þeir hvergi nærri. Ekki hefur verið gerð talning á fjölda slíkra tilvika og erfitt kann að vera að staðreyna þau þar sem hinum raunverulegu forsvarsmönnum er gjarna í mun að dylja aðild sína að rekstrinum.

    Hyggst ráðherra grípa til sérstakra aðgerða til að sporna við afskriftum opinberra gjalda?
    Sú afskrift sem vísað er til í fyrirspurninni er bókhaldsleg aðgerð sem felst í því að kröfur, sem taldar eru sannanlega tapaðar og ekki er fyrirsjáanlegt að muni innheimtast, eru færðar niður í bókhaldi. Byggist þetta á góðum reikningsskilavenjum og í reynd sömu lögmálum og afskriftir fyrirtækja á töpuðum kröfum. Reynist forsendur afskriftarinnar rangar, þannig að eignir eru fyrir hendi í viðkomandi búi eða gjaldandi verður gjaldfær, er viðkomandi afskrift bakfærð. Eðli máls samkvæmt verður að gera ráð fyrir því að afskrifa þurfi einhvern hluta opinberra gjald og annarra skatta. Hve stór sá hluti er ræðst af ýmsu, m.a. af því hvernig álagningu er háttað og hvernig staðið er að innheimtu.
    Á síðustu árum hefur ráðuneytið unnið að samræmingu á innheimtu skatta hjá innheimtumönnum ríkissjóðs og auknu aðhaldi í því efni. Á tveggja mánaða fresti lætur ráðuneytið vinna sérstaka skuldalista þar sem fram koma allar þær skattskuldir þar sem hægt er að stöðva rekstur til að knýja á um greiðslu. Listar þessir eru sendir innheimtumönnum um allt land. Þetta er annars vegar gert til þess að tryggja jafnræði gjaldenda, hvar á landinu sem þeir búa, og hins vegar til þess að reyna að koma í veg fyrir að skattskuldir geti safnast upp hjá einstökum gjaldendum án þess að viðurlögum sé beitt.
    Ráðuneytið stendur fyrir sameiginlegri auglýsingu á greiðsluáskorun fjórum sinnum á ári og sérstökum innheimtuaðgerðum í kjölfar hennar beri hún ekki árangur. Með þessu er reynt að auka samræmi innheimtuaðgerða milli innheimtuembætta og einnig er þetta til þess að innheimtumenn ríkissjóðs fari fyrr af stað með innheimtuaðgerðir, svo sem fjárnám, uppboð og kröfur um gjaldþrotaskipti.
    Á sama tíma hafa innheimtumenn ríkissjóðs hert mjög innheimtuaðgerðir á vangoldnum opinberum gjöldum. Sem dæmi má nefna að þeir hafa aukið eftirlit með því að launagreiðendur sinni afdrætti af launum gjaldenda sem eru í vanskilum með opinber gjöld. Enn fremur hafa heimildir til skuldajafnaðar verið nýttar í ríkara mæli en áður var.
    Loks má geta þess að ráðuneytið hefur lagt aukna áherslu á úrvinnslu talna um innheimtuárangur, þannig að ráðuneytið og innheimtumenn ríkissjóðs geti betur fylgst með stöðu mála og gripið til aðgerða ef innheimta hjá einstökum embættum versnar.
    Með þessum aðgerðum hefur ráðuneytið reynt að draga úr þörf á að afskrifa kröfur vegna vangoldinna opinberra gjalda. Óhjákvæmilegt er hins vegar að afskrifa kröfur sem eru sannanlega tapaðar þannig að ríkisbókhald sýni á hverjum tíma sem réttasta mynd að þessu leyti og að innheimtumenn ríkissjóðs geti beint kröftum sínum að þeim kröfum sem mögulegt er að innheimta.








4 síður myndaðar.