Ferill 126. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 126 . mál.


191. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, með síðari breytingum.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur haft til meðferðar frumvarp til laga sem felur í sér svæðisbundið ákvæði þess efnis að sveitarfélögum á Vestfjörðum sé heimilt að sameinast ef sú tillaga sem liggur fyrir um sameiningu sex sveitarfélaga verður samþykkt í 2 / 3 sveitarfélaganna og að því tilskildu að þar búi 2 / 3 íbúanna. Ef tillagan verður felld í einu eða tveimur sveitarfélögum eru ýmsir möguleikar á samsetningu nýs sveitarfélags og niðurstaðan kann að verða einhver allt önnur en kosið var um. Þó er ljóst að Ísafjörður, sem er langstærsta sveitarfélagið, leikur lykilhlutverk í sameiningunni.
    Minni hluta nefndarinnar þykir orka tvímælis að veita slíka svæðisbundna heimild í lögum og jafnframt er það lýðræðislegur réttur íbúanna að fá að greiða atkvæði um nýja tillögu verði upprunalega tillagan ekki samþykkt, enda gæti niðurstaðan orðið einhver allt önnur en atkvæði voru greidd um. Hins vegar er ljóst að tímabundna heimild til sameiningar án nýrrar atkvæðagreiðslu var að finna í sveitarstjórnarlögum þegar síðasta lota sameiningar átti sér stað árið 1993, en sú heimild náði til alls landsins. Þá liggur fyrir að sú tillaga til lagabreytingar sem hér um ræðir er flutt að beiðni samstarfsnefndar sveitarfélaganna sex og að baki henni eru allar sveitarstjórnirnar á svæðinu sem samþykkt hafa tillögu um sameiningu samhljóða. Sökum þessarar beiðni vilja undirritaðir nefndarmenn ekki greiða atkvæði gegn frumvarpinu og munu sitja hjá við afgreiðslu þess.

Alþingi, 16. nóv. 1995.



Kristín Ástgeirsdóttir,

Bryndís Hlöðversdóttir.


form., frsm.















Prentað upp.