Ferill 63. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 63 . mál.


207. Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um olíuleit við Ísland.

    Eru eða hafa á undanförnum árum verið stundaðar einhverjar rannsóknir á því hvort olía eða jarðgas finnst á landgrunni Íslands?
    Í örstuttu máli má segja að olía og jarðgas myndist á löngu ferli í setlagadældum við samspil margra samverkandi þátta. Í olíuberglagi eru mikil lífræn setlög. Smám saman hlaðast yngri setlög ofan á og vegna aukins þrýstings og hita gefur það frá sér kolvatnsefnissambönd (hydrocarbon) í formi olíu eða gass. Kolvatnsefnissamböndin leita upp á við í gegnum gropin jarðlög uns þau mæta þéttum jarðlögum þar sem þau hafna í gildru. Kolvatnsefnisgildra er oftast nær kúpa í setlögunum, botnlagið verður að vera gropið en þakbergið þétt. Eins og þessi lýsing ber með sér eru mikil lífræn setlög frumforsenda þess að olía geti myndast, sem og jarðfræðilegar aðstæður. En það eitt er ekki nægilegt því að réttar aðstæður þurfa að hafa verið til staðar á réttum tíma í hinu langa myndunarferli. Ísland er meðal þeirra landa sem verst eru fallin til að gefa af sér olíu og sama gildir um hafsbotninn út frá landinu. Jarðskorpan á þessu svæði er ung og mynduð við eldvirkni og lítil setlög hafa náð að safnast upp.
    Orkustofnun hefur á undanförnum árum unnið að margvíslegum rannsóknum á hafsbotninum umhverfis Ísland. Rannsóknirnar hafa meðal annars verið stundaðar í samvinnu við erlenda aðila eins og síðar verður vikið að. Jafnframt hefur stofnunin fengið ýmis gögn sem safnað hefur verið af erlendum aðilum sem hafa fengið leyfi stjórnvalda til rannsókna á landgrunninu. Þessar rannsóknir hafa að verulegu leyti beinst að því að kanna hvort nauðsynlegar jarðfræðilegar aðstæður séu fyrir hendi til þess að forsendur séu til að olía eða jarðgas kunni að hafa myndast. Olíuleit í þeim skilningi sem olíuiðnaðurinn leggur í hugtakið hefur hins vegar ekki farið fram.
    Með framangreindum rannsóknum hefur verið aflað þekkingar til að draga fram stóru drættina í jarðfræði landgrunnsins, einkum þykkt setlaga, en eins og þegar er komið fram er tilvist þykkra setlaga ein af fleiri forsendum þess að olía geti myndast.
    Orkustofnun hefur einkum kannað þrjú svæði. Í fyrsta lagi landgrunnið, í öðru lagi Jan Mayen-svæðið og í þriðja lagi Hatton-Rockall-svæðið. Hér verður gerð örstutt grein fyrir þessum rannsóknum.

Landgrunn Íslands
.
    Orkustofnun stóð fyrir endurkastsmælingum til að kanna setlög undan Norðurlandi árið 1985, og minna verkefni 1989 undan Suðausturlandi. Síðan hafa ekki farið fram mælingar af þessu tagi, en hins vegar hefur verið safnað saman frumgögnum frá ýmsum erlendum aðilum sem mælt hafa á landgrunninu eða umhverfis það. Þyngdar- og segulmælingum, ásamt dýptarmælingum, hefur einnig verið safnað saman af stóru hafsvæði umhverfis landið og hafa verið gerð ný kort með þessum og eldri mælingum.
    Könnun á setlögum í Öxarfirði og Tjörnesi, sem Orkustofnun hefur unnið að á undanförnum árum, er að eðli náskyld landgrunnsrannsóknum. Jarðsveiflumælingar, boranir og efnafræðimælingar hafa sýnt að þar eru nokkur setlög til staðar og vottur af olíugasi hefur fundist. Hins vegar hefur ekkert komið fram sem gefur tilefni til að ætla að um vinnanlegar auðlindir sé að ræða.

Jan Mayen-svæðið.
    Íslendingar og Norðmenn stóðu sameiginlega að endurkastsmælingum á Jan Mayen-svæðinu, fyrst á árinu 1985 og síðan aftur á árinu 1988. Þessi gögn voru boðin olíufyrirtækjum og öðrum aðilum til sölu á vegum olíustofnunarinnar norsku á sama hátt og hliðstæð gögn á landgrunni Noregs. Lítill áhugi reyndist fyrir þessum gögnum og einungis norska ríkisolíufélagið keypti þau. Þegar ljóst varð að áhugi olíufélaganna á gögnunum var lítill voru að frumkvæði íslenskra stjórnvalda haldnir fundir með norskum stjórnvöldum til að leita leiða til að auka áhuga á svæðinu og auðvelda aðgang að gögnunum. Í því skyni var sérstaklega fjallað um Jan Mayen-svæðið á kynningarfundi norsku olíustofnunarinnar með olíufyrirtækjum sem stunda rannsóknir eða olíuvinnslu á landgrunni Noregs. Svæðið var sérstaklega kynnt í ársskýrslu stofnunarinnar og í kynningarriti hennar og loks kynnti sérfræðingur frá Orkustofnun svæðið á alþjóðlegri olíuráðstefnu í Stavanger árið 1993. Jafnframt þessu var ákveðið að norska olíustofnunin kostaði frekari úrvinnslu og túlkun mælinganna. Þessi kynning hefur ekki skilað áþreifanlegum árangri enn sem komið er. Hið lága heimsmarkaðsverð á olíu kann að valda nokkru þar um.
    Nú stendur yfir rannsóknaverkefni Hokkaido-háskóla og Háskólans í Bergen sem gengur út á vísindalega könnun jarðskorpu á svæðinu frá Jan Mayen-hrygg vestur á Kolbeinseyjarhrygg. Orkustofnun tekur nokkurn þátt í þessu starfi sem gæti aukið skilning á gerð dýpri jarðlaga á svæðinu þótt ekki sé um eiginlegar setlagarannsóknir að ræða. Jarðsveiflumælingar voru gerðar sumarið 1995.

Hatton-Rockall-svæðið.
    Samvinna tókst milli Dana og Íslendinga um sameiginlegar endurkastsmælingar á Hatton-Rockall-svæðinu á árinu 1987, sem og um úrvinnslu þeirra. Hugsanlega eru þar áhugaverð setlög undir miklum hraunabunkum, en þeir valda erfiðleikum við rannsóknir. Sem kunnugt er standa deilur um yfirráð á þessu svæði.
    Litlar boranir hafa farið fram á hafsvæðum sem eru áhugaverð fyrir Íslendinga frá auðlindasjónarmiði. Engin hola er á landgrunni Íslands, og slíkar aðgerðir eru of dýrar eins og mál standa. Íslenskir vísindamenn hafa lagt inn tillögu um boranir undan Norðurlandi til hins alþjóðlega samvinnuhóps ODP (Ocean Drilling Programme) um boranir í úthafsbotninn. Litlar líkur eru taldar á að það verk komi til framkvæmda. Sameiginleg tillaga danskra og íslenskra vísindamanna til sama aðila um að bora á Hatton-Rocall-svæðinu fékk ekki heldur góðar undirtektir, né heldur norsk-íslenskar tillögur um borun á Jan Mayen-hrygg, en þær eru of grunnar og ekki rétt staðsettar til að svara spurningum varðandi olíuleit.
    Safnað hefur verið allmiklu af frumgögnum (segulböndum) af endurkastsmælingum í nágrenni landsins sem eru bæði gerðar af Orkustofnun og öðrum aðilum. Tölvutæk heimildaskrá með tilvísunum í greinar og rit sem varða jarðfræði hafsbotnsins hefur verið unnin í Háskóla Íslands. Um þessar mundir er aukin áhersla lögð á samsöfnun innlendra og alþjóðlegra tölvutækra mæligagna og gagnagrunna fyrir svæðið umhverfis Ísland og frekari úrvinnslu þeirra.
    Varðandi líkur á því að olíu sé að finna á landgrunninu eða innan efnahagslögsögunnar er rétt að fram komi að hvergi hefur sannast að olía sé til staðar á íslensku hafsvæði og víðast hvar er engin eða hverfandi von til þess að svo geti verið. Ekkert á sjálfu landgrunninu gefur von um olíu nema helst setlögin undan Norðurlandi þar sem þau eru þykkust. Þar vantar þó ábendingar um fjölda annarra þátta sem verða einnig að vera fyrir hendi svo að olía finnist.
    Á Jan Mayen-svæðinu er að líkindum meginlandsskorpa með gömlum setlögum, en það er alls óvíst hvort þau eru af heppilegri gerð og auk þess eru aðstæður þar erfiðar til rannsókna, leitar og vinnslu. Enn eru engar vísbendingar um áhuga olíuleitarfyrirtækja, en hann gæti hugsanlega aukist ef yfirstandandi rannsóknir á ytri hluta norska landgrunnsins gefa jákvæðar niðurstöður.
    Hið umdeilda Hatton-Rockall-svæði virðist áhugaverðast þessara svæða eftir að olía fannst yst á skoska landgrunninu vestur af Hjaltlandi og áhugi jókst á landgrunni Færeyja. Á undanförnum árum hafa Bretar einnig stundað nokkrar rannsóknir á svæðinu bæði vegna auðlindaleitar og hafréttarmála.

    Hefur ríkisstjórnin mótað einhverja stefnu varðandi leit að slíkum auðlindum á íslensku landgrunni?
    Íslensk stjórnvöld hafa, eins og þegar hefur komið fram, reynt að stuðla að rannsóknum á því hvort jarðfræðilegar forsendur fyrir því að olía eða jarðgas kunni að vera að finna á landgrunni Íslands, Jan Mayen-svæðinu og Hatton-Rockall-svæðinu. Þetta hefur verið gert annars vegar með beinum fjárveitingum á fjárlögum og hins vegar með því að reyna að efla áhuga fyrirtækja, stofnana og háskóla á því að rannsaka þessi svæði. Áfram verður unnið að málinu með svipuðum hætti.