Ferill 167. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 167 . mál.


209. Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun á meiðyrðalöggjöfinni.

Flm.: Drífa Sigfúsdóttir, Jón Kristjánsson, Siv Friðleifsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að láta endurskoða 234.–242. gr. í XXV. kafla almennra hegningarlaga sem fjallar um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs.

Greinargerð.


    Gott mannorð er hverjum manni mikilvægt. Þeir sem hafa unnið sér virðingu samfélagsins geta þó án tilefnis verið sviptir henni. Höfundur Hávamála trúði því að sá sem ætti góðan orðstír gæti ekki glatað honum en í nútímasamfélagi er staðreyndin önnur. Á undanförnum árum hafa komið upp ýmis mál þar sem menn telja sig hafa verið sviptir ærunni að ósekju. Einkum er í þessu sambandi rætt um fjölmiðla og ekki síst svokallaða „slúðurdálka“ þeirra. Fjölmiðlar verða sífellt öflugri og ná til fleiri notenda. Með margmiðlun hafa opnast nýjar leiðir til tjáskipta sem nota má til góðra hluta og einnig til hins verra. Með einföldum hætti má t.d. koma upplýsingum um menn og málefni á framfæri við óteljandi aðila um allan heim. Upplýsingar, sem sendar eru t.d. sem fréttir, verða tæplega afturkallaðar. Veraldarvefurinn hefur opnað nýja möguleika sem hægt er að misnota eins og nýleg dæmi sanna. Að gefnu tilefni telja flutningsmenn því rétt að endurskoða meiðyrðalöggjöfina sem sett var fyrir 55 árum.
    Fleiri hliðar eru á málinu og hafa fréttamenn oft vakið athygli á að lögin þurfi að endurskoða. Flutningsmenn telja rétt að virða einnig sjónarmið þeirra.