Ferill 172. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 172 . mál.


215. Frumvarp til laga



um grundvöll lánsviðskipta, réttindi og skyldur ábyrgðarmanna o.fl.

Flm.: Kristín Halldórsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir,


Kristín Ástgeirsdóttir.



    

1. gr.


    Viðskiptatraust lántakanda og þær tryggingar, sem hann getur sjálfur lagt fram, eiga að vera undirstaða lánsviðskipta lánastofnunar og lántakanda þannig að ekki þurfi að krefjast ábyrgðarmanna vegna fjárskuldbindinga lántakanda. Banki, sparisjóður eða önnur lánastofnun skal í samráði við lántakanda gera greiðsluáætlun fyrir lántakanda og meta greiðslugetu hans.

2. gr.


    Telji lánastofnun að lántakandi hafi ekki það viðskiptatraust eða geti ekki lagt fram sjálfur þær tryggingar sem hún telur fullnægjandi fyrir þeim skuldbindingum sem lántakandi stofnar til gagnvart lánastofnuninni getur hún krafist þess að lántakandi afli sér ábyrgðar annars manns á skuldbindingum sínum. Ábyrgðarmaður getur gengið persónulega í ábyrgð fyrir lántakanda eða ábyrgst skuldbindingar lántakanda með einstökum eigum sínum. Ábyrgðarmaður hefur rétt til þess að kynna sér greiðsluáætlun lántakanda.

3. gr.


    Lánastofnunum eða öðrum lánveitendum, er krefjast persónulegrar ábyrgðar eða ábyrgðar í eign annars manns en lántakanda, ber að upplýsa þá sem ábyrgjast fjárskuldbindingar lántakanda um eðli þeirrar ábyrgðar sem ábyrgðarmaður gengst undir og afleiðingar vanefnda lántakanda, sbr. 4. gr. Þetta á við hvort sem lánveitingin er liður í atvinnustarfsemi lánveitanda eða ekki. Ákvæði 3. 6. gr. um lánveitanda taka enn fremur til leigusala sem krefst trygginga þriðja manns fyrir afnotum og greiðslum leigutaka samkvæmt leigusamningi og þess sem síðar öðlast rétt lánveitanda fyrir framsal.
     Lántakanda, sem gefur út eða samþykkir til greiðslu hvers konar viðskiptabréf með persónulegri ábyrgð annars manns, fær veðleyfi eða tryggingarbréf með veði í eign annars manns til tryggingar skilvísum greiðslum sínum eða útvegar annars konar persónulega ábyrgð annars manns á skuldbindingum sínum, ber að upplýsa ábyrgðarmann sinn um fjárhagsstöðu sína hvenær sem ábyrgðarmaður krefst þess á meðan ábyrgðin varir. Einnig verður lántakandi að hlíta upplýsingagjöf skv. 6. gr. Ábyrgðarmaður er bundinn þagnarskyldu um þær upplýsingar sem hann öðlast um fjármál lántakanda samkvæmt þessu ákvæði eða ákvæði 6. gr.

4. gr.


    Í skuldabréfi eða tryggingarbréfi skulu upplýsingar um efni þeirrar ábyrgðar, sem krafist er og áhrif vanefnda, koma fram í texta bréfsins. Á bakhlið víxils skal greina efni ábyrgðar framseljenda víxils og ábyrgðarmanna og áhrif vanefnda greiðanda víxilsins, sbr. ákvæði víxillaga.
    Ef ábyrgðarmanns er krafist á skilvísum greiðslum lántakanda með öðrum hætti en um getur í 1. mgr. ber lánveitanda að kynna ábyrgðarmanni á sannanlegan hátt efni ábyrgðarinnar og áhrif vanefnda lántakandans fyrir hann.
     Sé upplýsingaskyldu, sbr. 1. og 2. mgr., ekki gætt er þriðji maður ekki ábyrgur fyrir skuldbindingum lántakanda.

5. gr.


    Lánveitanda ber að tilkynna ábyrgðarmanni með sannanlegum hætti innan tíu daga frá gjalddaga um vanefndir lántakanda sem hann hefur gengið í ábyrgðir fyrir. Ef ekki er vitað um heimilisfang ábyrgðarmanns nægir tilkynning í Lögbirtingablaðinu.

6. gr.


    Ábyrgðarmaður, sem veitt hefur lánveitanda ábyrgð sína á skilvísum greiðslum lántakanda, hefur jafnan rétt á því að fá allar upplýsingar sem lánveitandi hefur um fjárhagsstöðu lántakanda á meðan hann ábyrgðist greiðslur lántakanda.
     Sé ábyrgðarmaður í hjúskap eða óvígðri sambúð getur hann ekki gengist undir ábyrgð án samþykkis maka eða sambýlings. Reglur 20. og 21. gr. laga um réttindi og skyldur hjóna, nr. 20 20. júní 1923, skulu gilda um leyfi ábyrgðarmanns sem er í óvígðri sambúð til veðsetningar eigna sinna. Það telst óvígð sambúð ef karl og kona hafa búið saman samfleytt í tvö ár eða ef þau búa saman og eiga barn saman eða konan er þunguð.

7. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

G r e i n a r g e r ð .


    Frumvarp þetta var lagt fram á 113. og 115. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Fyrsti flutningsmaður í bæði skiptin var Anna Ólafsdóttir Björnsson. Nú hefur verið lögð fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um að skipuð verði nefnd til að semja frumvarp til laga um réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga (þskj. 210). Er því fyllsta ástæða til að endurflytja frumvarpið sem fékk jákvæðar undirtektir á sínum tíma, bæði á þingi og utan þess.
    Í frumvarpinu er lögð áhersla á að meginregla í öllum lánsviðskiptum sé gagnkvæmt traust lántakanda og lánveitanda. Eðlilegt er að við lántöku sé greiðslugeta lántakanda metin, greiðsluáætlun gerð og að hún sé grundvöllur viðskiptatrausts hans. Í flestum lánaviðskiptum tíðkast nú að krefjast trygginga fyrir skilvísum greiðslum lántakanda. Algengt er að lántakandi leggi sjálfur fram slíkar tryggingar, t.d. með veði í fasteign sinni. Hitt er ekki síður algengt að krafist sé sjálfskuldarábyrgðar eins eða tveggja manna á greiðslum lántakanda. Þarf lántakandi að útvega þessa ábyrgðarmenn sem oft eru ættingjar lántakanda. Þá er einnig algengt að lántakandi fái lánað veð í eign annars manns til tryggingar greiðslum sínum, sérstaklega í tengslum við fasteignakaup. Segja má að nánast sé meginregla að lántakandi geti ekki fengið lán án þess að afla trygginga frá öðrum. Slíkt ætti þó einungis að vera í undantekningartilvikum og gilda um það skýrar reglur.
    Margir, sem veita ábyrgð sína á endurgreiðslum af lánum annarra, gera sér ekki grein fyrir því hvert eðli og umfang slíkrar ábyrgðar er. Ef til ábyrgðarinnar þarf að taka ábyrgist sjálfskuldarábyrgðarmaður greiðslur lántakanda með öllum eigum sínum, en sá sem hefur lánað fasteignarveð leggur viðkomandi fasteign undir. Ábyrgðarmaður þarf oft að greiða verulegar fjárhæðir fyrir lántakanda sem hann ábyrgist. Ef ábyrgðarmaður getur ekki greitt skuldir lántakanda missir hann eigur sínar í hlutfalli við skuldir lántakandans, oft allt sitt. Á síðustu árum hafa gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja aukist mjög mikið og sífellt fleiri ábyrgðarmenn hafa þurft að standa við ábyrgðir sínar, oft með þeim afleiðingum að ábyrgðarmaður verður líka gjaldþrota. Gjaldþrot hafa ekki einungis viðskiptalega hlið því að oft leysast heimili gjaldþrota einstaklinga upp.
    Með þessu frumvarpi er gengið út frá þeirri meginreglu að lántakandi ábyrgist sjálfur skilvísar endurgreiðslur sínar og geri sér grein fyrir lánshæfni sinni með gerð greiðsluáætlunar. Frumvarpinu er einnig ætlað vekja athygli á stöðu ábyrgðarmanna og tryggja lágmarksréttindi þeirra til upplýsingaöflunar. Nauðsynlegt er að flytja sérstakt frumvarp um þessi efni því almenn lög um skuldabréf hafa aldrei verið sett hér á landi og ekki þótti rétt að setja þessi ákvæði í lög um viðskiptabanka, sparisjóði eða verðbréfafyrirtæki þar sem fleiri lána fé en þær stofnanir. Frændur vorir á Norðurlöndum hafa búið við almenna löggjöf um skuldabréf í langan tíma og væri þörf á að setja slík lög hér á landi þótt ekki sé ráðist í það nú með þessu frumvarpi. Verði frumvarpið að lögum geta ábyrgðarmenn á auðveldan hátt áttað sig á efni þeirra ábyrgða sem krafist er. Einnig geta þeir gripið mun fyrr en nú er í taumana ef lántakandi stendur ekki við skuldbindingar sínar. Bitur reynsla undanfarinna ára hefur sannað að ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga hafa brýna hagsmuni af því að þessi löggjöf nái fram að ganga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Þetta ákvæði hefur að geyma þá meginreglu laganna að grundvöllur lánsviðskipta sé viðskiptatraust lántakanda. Ákvæðið nær til lánastofnana: banka, sparisjóða og verðbréfafyrirtækja. Lánastofnunum ber að gera greiðsluáætlanir og meta þær tryggingar sem lántakandi getur ábyrgst þannig að meginreglan sé sem áður sagði að lántakandi ábyrgist sjálfur lán sín.

Um 2. gr.


    Þrátt fyrir meginreglu 1. gr. getur verið í ýmsum tilfellum að lánastofnun telji hvorki viðskiptatraust lántakanda né hans eigin tryggingar tryggja fjárskuldbindingu nægilega. Er helst að þetta komi til ef lántakandi er algerlega eignalaus, hefur slæmt viðskiptatraust og í öðrum ámóta tilfellum. Ef krafist er ábyrgðarmanna eiga þeir rétt á því að kynna sér þær forsendur sem eru fyrir lánveitingunni, þ.e. greiðsluáætlun lántakanda.

Um 3. gr.


    Í 3. gr. er lögfest skylda lánveitenda til þess að upplýsa ábyrgðarmenn lántakenda um eðli þeirrar ábyrgðar sem gengist er undir hvert sinn og afleiðingar vanefnda. Upplýsingaskyldan nær aðeins til einstaklinga sem ganga persónulega í ábyrgðir fyrir aðra, en ekki til ábyrgða sem fyrirtæki veita. Lögin miða að því að gefa einstaklingum, sem ganga persónulega í ábyrgðir fyrir aðra, tækifæri til þess að meta réttarstöðu sína. Því má halda fram að þeim er veitir ábyrgð sína á skuldbindingum annarra ætti að vera fullkunnugt um efni slíkrar skuldbindingar. Ýmsir veita ábyrgðir vegna fjölskyldu eða vinatengsla og eiga af þeim orsökum erfitt með að neita lántakanda um ábyrgð. Á móti kemur að öll fræðsla almennings um þessi mál hefur verið mjög að skornum skammti. Húsnæðisstofnun ríkisins hefur reynt að vekja athygli fólks á þýðingu lánveða, en að öðru leyti hefur slík fræðsla verið nánast engin nú seinni ár. Telja má að of mikið sé gert úr vitneskju almennings um efni og eðli ábyrgða á fjárskuldbindingum. Lánveitandi hefur mikla hagsmuni af því að ábyrgðarmenn geti staðið við ábyrgðir sínar ef lántakandi getur ekki staðið við skuldbindingar sínar. Eðlilegt er því að gera þá kröfu til lánveitenda að þeir kynni ábyrgðarmönnum eðli og efni þeirra ábyrgða sem þeir krefjast og geri ábyrgðarmönnum það ljóst að hugsanlega þurfi þeir að standa við ábyrgð sína.
    Ekki er gerð tilraun til þess að skilgreina hugtakið lánveitandi í lagatexanum. Almennt má þó líta svo á að sá sem veitir lán til eignar sé talinn lánveitandi. Lán til eignar nefnist það er maður lánar öðrum tegundarákveðna hluti gegn því að lántakandi greiði síðar sama fjölda sömu tegundar með sama verðgildi. Algengustu lán til eignar eru peningalán og ef greitt er endurgjald af láninu nefnist það vextir.
    Ákvæði 3. gr. takmarkast ekki við þá sem veita lán til eignar því hugsanlegt er að sá sem leigir út hluti krefjist sjálfskuldarábyrgðar einhvers annars en lántakanda á skilum hlutarins, sbr. 2. málsl. 1. mgr. Í þeim málslið kemur einnig fram að sá sem öðlast rétt lánveitanda fyrir framsal þarf einnig að hlíta ákvæðum laganna, þar með talin 3. mgr. 4. gr. Oft mun lánveitandi taka við viðskiptabréfi úr hendi lántakanda. Viðskiptabréf eru öll þau bréf sem ganga á milli manna í viðskiptum með sama hætti og eftir sömu reglum og skuldabréf. Ein helsta regla viðskiptabréfa er að bréfið stofnar rétt eftir hljóðan sinni og því kann framsalshafi að öðlast meiri rétt en framseljandi hafði. Sem dæmi má taka að sé skuldabréf selt án áritunar um innáborgun þótt hún hafi átt sér stað glatast sú mótbára skuldarans og hann verður að greiða framsalshafa fullt verð skuldabréfsins. Í samanburði á lokamálslið 1. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 4. gr. kemur fram mikilvæg undantekning á reglum um viðskiptabréf. Ef þess er ekki gætt að tilkynna ábyrgðarmanni um afleiðingar þess að gangast undir ábyrgð er ábyrgðarmaður laus undan ábyrgð sinni. Framseljandi gæti átt það á hættu að sá sem upphaflega eignaðist viðskiptabréfið og gerði kröfu um ábyrgðarmenn hafi ekki kynnt þeim efni ábyrgðarinnar. Þessi hætta er þó ekki mikil þar sem flest öll viðskiptabréf hafa staðlaðan texta í meginmáli en nánari ákvæði eru fyllt út af útgefenda. Búast má við að í slíkum stöðluðum textum viðskiptabréfa komi fram lýsing á þeim ábyrgðum sem krafist er, áhrifum vanefnda lántakanda og að lokum yfirlýsing ábyrgðarmanna um að þeir hafi kynnt sér réttarstöðu sína. Af þessari ástæðu er óhætt að láta mótbárur gagnvart gildi ábyrgðar, sbr. 3. mgr. 4. gr., ná líka til framsalshafa viðskiptabréfs sem getur séð af bréfinu hvort upplýsingaskyldu hafi verið fullnægt. Ekkert er því heldur til fyrirstöðu að tilkynna ábyrgðarmönnum um efni ábyrgðar við framsal og kanna viðbrögð þeirra.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skyldu lántakanda, sem fær annan mann til þess að ábyrgjast persónulega þær fjárhagsskuldbindingar sem hann tekst á hendur, til þess að veita ábyrgðarmanni sínum upplýsingar um fjárhagsstöðu sína á meðan hann er í ábyrgðum. Í 6. gr. er um samsvarandi skyldu lánveitanda að ræða. Er þessi skylda sett í lög til að gera þennan rétt ábyrgðarmanns ótvíræðan. Ábyrgðarmaður getur reynt að grípa í taumana áður en í fullkomið óefni er komið ef hann fylgist með fjárhagsstöðu lánveitanda. Ábyrgðarmaður er á móti bundinn þagnarskyldu um fjármál lántakanda.

Um 4. gr.


    Í 1. mgr. eru talin upp algengustu form viðskiptabréfa og þess krafist að í meginmáli þeirra komi fram upplýsingar um efni ábyrgðar og afleiðingar vanefnda. Ef um önnur form viðskiptabréfa en getur í 1. mgr. er að ræða eða ef ábyrgðar er krafist með öðrum hætti en á sér stað í viðskiptabréfum ber lánveitanda að kynna ábyrgðarmanni um efni ábyrgðarinnar á sannanlegan hátt, t.d. með því að láta ábyrgðarmann rita undir skjal þar sem upplýsingar um ábyrgðina koma fram. Upplýsingaskyldu, sbr. 1. mgr. 3. gr., telst fullnægt sé þessa gætt.
    Til að auðvelda lánveitendum kynninguna, sbr. og 1. mgr. 3. gr., má gera ráð fyrir því að stöðluð form viðskiptabréfa, sem lánveitandi notar, séu með sérstökum texta um efni ábyrgðar og afleiðingar vanefnda lántakenda. Einnig má gera ráð fyrir að þeir sem selja stöðluð form viðskiptabréfa á almennum markaði felli slíkan texta inn í þau. Lánveitandi ber sönnunarbyrði fyrir því að efni ábyrgðar hafi verið kynnt ef slíkt má ekki sjá af texta viðskiptabréfsins.
    Til þess að brýna mikilvægi þessarar upplýsingaskyldu lánveitenda er gert ráð fyrir því að vanræksla á því að sinna skyldunni hafi alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir lánveitendur. Gert er ráð fyrir því að þriðji maður, sem er ábyrgðarmaður, þurfi ekki að standa við ábyrgðir sínar ef honum hafa ekki verið kynnt efni þeirra. Í staðlaðan texta viðskiptabréfa yrði væntanlega sett yfirlýsing ábyrgðarmanns um að hann hafi kynnt sér þær upplýsingar sem fram koma í texta bréfsins.

Um 5. gr.


    Eðlilegt virðist að leggja þá skyldu á lánveitendur að tilkynna ábyrgðarmönnum á sannanlegan hátt um vanskil lántakanda tíu dögum eftir að vanskil verða á greiðslum hans. Iðulega fá ábyrgðarmenn ekki að vita um vanefndir fyrr en kostnaðarsamar innheimtuaðgerðir eru hafnar og lánsupphæð hefur öll verið gjaldfelld. Ábyrgðarmanni kann þá að vera ofviða að grípa í taumana en hugsanlega hefði hann getað staðið við ábyrgð sína á fyrri stigum. Hér er því um veigamikla réttarbót að ræða fyrir ábyrgðarmenn. Ef ekki næst í ábyrgðarmenn vegna þess að ókunnugt er um heimilisfang þeirra er nægilegt að birta eina tilkynningu í Lögbirtingablaðinu. Lántakandi gæti hugsanlega bakað sér skaðabótaskyldu ef ábyrgðarmaður fær ekki tilkynningu.

Um 6. gr.


    Ábyrgðarmaður hefur ótvíræða hagsmuni af því að eiga greiðan aðgang að upplýsingum um þær lánveitingar sem hann gengur í ábyrgð fyrir, jafnframt að öllum upplýsingum sem lánveitandi hefur um fjárhag lántakanda. Hér er lagt til að réttur ábyrgðarmanns til upplýsingaöflunar verði lögfestur. Lántakanda er gert skylt í 2. mgr. 3. gr. að hlíta þessari skyldu lánveitandans til upplýsinga. Á móti er krafist þagnarskyldu af ábyrgðarmanni.
    Í 20. og 21. gr. laga um um réttindi og skyldur hjóna, nr. 20/1923, er kveðið á um að þeim sem er í hjúskap beri að afla sér samþykkis maka fyrir veðsetningu fasteignar sem jafnframt er heimili fjölskyldunnar og muna sem notast til heimilisins. Hins vegar getur maki óhindrað gengist undir sjálfskuldarábyrgð þar sem ábyrgðin nær til allra eigna hans. Með ákvæðinu er sett undir þennan leka. Jafnframt er lagt til að ofangreindar reglur laga um réttindi og skyldur hjóna gildi einnig um sambúðarfólk þar sem sömu rök eiga við um að sambúðaraðili þurfi að afla samþykkis sambúðaraðila síns áður en fasteign fjölskyldunnar er veðsett.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.