Ferill 116. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 116 . mál.


290. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Sighvats Björgvinssonar um aðild starfsmanna aðila vinnumarkaðarins að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
    Hafa starfsmenn aðila vinnumarkaðarins, svo sem VSÍ, BSRB, ASÍ og aðildarfélagar þeirra eða lands- eða starfsgreinasamtaka, verið aðilar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og notið þess réttar sem umræddur lífeyrissjóður tryggir félagsmönnum sínum með bakábyrgð ríkissjóðs? Hafi svo verið óskast upplýst:
    Hvaða einstaklinga er um að ræða, hvaða starfi gegndu þeir hjá aðilum vinnumarkaðarins, hvenær öðluðust þeir aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og hversu lengi hafa þeir verið sjóðfélagar?
    Hafa umræddir einstaklingar, sem nutu sjóðsaðildar á meðan þeir störfuðu hjá aðilum vinnumarkaðarins en hafa horfið til annarra starfa eða gerst félagar í öðrum lífeyrissjóðum, flutt áunnin lífeyrisréttindi sín úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins til þeirra lífeyrissjóða sem þeir gerðust síðan aðilar að eða hafa þeir kosið að varðveita áunnin réttindi sín í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins?
    Er bakábyrgð ríkissjóðs vegna aðildar umræddra starfsmanna aðila vinnumarkaðarins að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins með einhverjum hætti ólík bakábyrgð ríkissjóðs vegna lífeyrisréttinda ríkisstarfsmanna eða er um sambærilega ríkisábyrgð að ræða?
    Hversu háar iðgjaldagreiðslur hafa verið greiddar samtals til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna umræddra starfsmanna aðila vinnumarkaðarins og hver er að mati lífeyrissjóðsins sú tryggingafræðilega fjárhagsábyrgð sem Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins ber vegna tryggingarréttar þeirra?


    Samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins er heimilt að taka í tölu sjóðfélaga starfsmenn bandalaga opinberra starfsmanna, svo og starfsmenn aðildarfélaga þeirra. Heimild þessi kom inn í lögin með lögum nr. 23/1967 og hafa starfsmenn BSRB og síðar BHM og aðildarfélaga þeirra verið í sjóðnum frá þeim tíma. Aðild Alþýðusambands Íslands og starfsmanna þess að sjóðnum var samþykkt á árinu 1950 að líkindum á grundvelli ákvæðis í lögum um sjóðinn nr.101/1943, sem heimilaði að veita stofnunum sem störfuðu í almenningsþarfir aðild að sjóðnum. Það ákvæði er fellt út með lögum nr. 64/1955. Þær stofnanir sem höfðu fengið aðild að sjóðnum samkvæmt eldri lagaákvæðum gátu þó haldið henni áfram þar til þær sögðu henni upp.
    Eftirtalin stéttarfélög og stéttarfélagasamtök hafa greitt iðgjöld til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fyrir starfsmenn sína: Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, Starfsmannafélag ríkisstofnana, Hið íslenska kennarafélag, Kennarasamband Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag háskólakennara, Félag íslenskra símamanna, Landssamband lögreglumanna, Póstmannafélag Íslands, Sjúkraliðafélag Íslands og Félag opinberra starfsmanna á Suðurlandi.
    Framangreind samtök eru enn aðilar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og hafa greitt iðgjöld fyrir starfsmenn sína á þessu ári, nema ASÍ, sem hætti að greiða í lífeyrissjóðinn í árslok 1990.
    Þeir starfsmenn stéttarfélaga, sem greitt hefur verið fyrir í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, njóta þar sömu réttinda og aðrir sjóðfélagar og um ábyrgð á lífeyrisgreiðslum til þeirra gildir það sama, sbr. c-lið hér á eftir. Svör við einstökum stafliðum eru eftirfarandi:
    a. Alls eru á skrá hjá sjóðnum 107 einstaklingar, sem annaðhvort eru lífeyrisþegar eða handhafar lífeyrisréttinda sem varðveitt er í sjóðnum. Af þessum hópi eru 13 lífeyrisþegar, þ.e. fyrrverandi starfsmenn eða makar þeirra, en 94 einstaklingar hafa ekki hafið upptöku lífeyris. Vegna þessara 107 einstaklinga voru greidd iðgjöld til sjóðsins af 703 árslaunum. Í eftirfarandi töflu er dregið saman yfirlit yfir fjölda þessara einstaklinga og lengd iðgjaldatíma eftir því hvaða samtök inntu iðgjaldagreiðslur af hendi. Réttindi fyrrverandi starfsmanna Hjúkrunarfélags Íslands eru talin með hjá BHM en sameinað félag hjúkrunarfræðinga er nú aðili að því bandalagi.


Fjöldi

Iðgjaldatími í árum




Stéttarfélög og samtök alls     
107
703     
Lífeyrisþegar     
13
192
Ekki á lífeyri     
94
511
Þar af:
ASÍ               
26
209     
Lífeyrisþegar     
4
53     
Ekki á lífeyri     
22
156
BSRB og aðildarfélög þess     
40
290
Lífeyrisþegar     
5
77
Ekki á lífeyri     
35
213
BHM og aðildarfélög þess     
17
109
Lífeyrisþegar     
2
43
Ekki á lífeyri     
15
66
Kennarasamband Íslands     
24
95
Lífeyrisþegar     
2
18
Ekki á lífeyri     
22
77

    Þeir 107 einstaklingar sem rétt eiga í LSR samkvæmt framangreindu hafa öðlast þau réttindi allt frá árinu 1954. Hafa þeir greitt mjög mislengi í sjóðinn. Meðalsjóðsaldurinn er tæplega 7 ár en mesti sjóðsaldur er rúmlega 28 ár. Ekki liggja fyrir hjá sjóðnum upplýsingar um hvaða störfum viðkomandi einstaklingar gegndu. Eftirfarandi er yfirlit yfir fjölda rétthafa skipt eftir lengd iðgjaldatíma.

Iðgjaldatími

ASÍ

BSRB

BHM

Alls




allt að 5 ár     
11
24 10 18 63
5 til 10 ár     
7
4 3 3 17
10 til 15 ár     
3
6 2 3 14
15 til 20 ár     
3
4 1 0 8
20 ár og meir     
2
2 1 0 5
    Samtals      26 40 17 24 107

    b. Fáein dæmi eru um það að einstaklingar sem störfuðu hjá framangreindum samtökum hafi flutt iðgjöld og réttindi úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins til annarra lífeyrissjóða. Í langflestum tilvikum hafa iðgjöldin og þar með áunnin réttindi verið áfram í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.
    c. Um skuldbindingar þessar og ábyrgð á þeim vegna þessara sjóðfélaga gilda sömu reglur og um sjóðfélaga almennt. Skuldbinding sjóðsins miðast við fjárhæð lífeyris eins og hann er þegar lífeyristaka hefst. Hækkanir á lífeyri eftir það skiptast á milli sjóðsins og launagreiðanda þannig að sjóðurinn ber þann hluta hækkananna sem unnt er að greiða með 40% af vöxtum og verðbótum af heildarútlánum sjóðsins. Lífeyrishækkanir umfram það eru krafðar inn hjá þeim launagreiðendum sem starfsmennina tryggðu. Geti viðkomandi launagreiðandi og/eða Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins ekki staðið við þessar skuldbindingar ber ríkissjóður ábyrgð á lífeyrisgreiðslum.
    d. Vegna þeirra einstaklinga sem fyrri liðir fyrirspurnarinnar taka til hafa iðgjaldagreiðslur til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins verið samtals tæpar 35 milljónir króna, sbr. fylgiskjal 1. Sú fjárhæð skiptist á bandalög eins og sýnt er hér á eftir.

Iðgjöld samtals



ASÍ          
6.119

BSRB og aðildarfélög     
15.198

BHM og aðildarfélög     
6.330

Kennarasamband Íslands     
7.128

    Samtals      34.775

    Hinar tilgreindu fjárhæðir eru á verðlagi hvers tíma og þar sem iðgjöld til sjóðsins hafa verið greidd á mjög löngum tíma og á mismunandi tímabilum gefa þær ekki góða mynd af raungildi greiðslnanna. Innbyrðis samanburð á þessum fjárhæðum og samanburð við skuldbindingarnar hér á eftir verður því að gera með slíkum fyrirvara.
    Vegna síðari hluta þessarar spurningar var Talnakönnun hf. fengin til að meta áfallnar skuldbindingar vegna þeirra einstaklinga og samtaka sem um er fjallað í fyrirspurninni. Við matið var gengið út frá launum eins og þau voru í árslok 1994 og þeim lífeyrisréttindum sem hver og einn hafði á þeim tíma. Þá var gengið út frá tryggingafræðilegum forsendum varðandi lífslíkur karla og kvenna svo og örorkulíkur í skrifstofustörfum. Reiknað var með að ávöxtun væri að jafnaði 2% umfram launahækkanir og að lífeyristaka hæfist að jafnaði við 68 ára aldur.
    Að gefnum þessum forsendum og tryggingafræðilegu mati á skuldbindingum vegna þeirra er niðurstaðan sú að áfallnar skuldbindingar vegna réttinda sem myndast hafa fyrir iðgjaldagreiðslur frá launþegafélögum og samtökum þeirra séu samtals 235,8 milljónir króna.
    Eftirfarandi tafla sýnir hvernig þessar skuldbindingar skiptast á samtök stéttarfélaganna en frekari sundurliðun á áföllnum skuldbindingum er að finna á fylgiskjali 2.


Skuldbindingar samtals


í þús. kr.




ASÍ          
75.127

BSRB og aðildarfélög     
91.603

BHMR og aðildarfélög     
35.166

Kennarasamband Íslands     
33.870

    Samtals      235.766



Fylgiskjal I.


Listi yfir heildariðgjaldagreiðslur til ársloka 1994.


(LSR — 20. nóvember 1995.)





Tafla ein síða, mynduð.





Fylgiskjal II.


Áfallnar lífeyrisskuldbindingar í árslok 1994 vegna starfsmanna


stéttarfélaga og bandalaga þeirra sem greitt hafa í LSR.


(Nóvember 1995.)





Töflur tvær síður, myndaðar.