Ferill 242. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 242 . mál.


328. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991.

Flm.: Ágúst Einarsson, Svanfríður Jónasdóttir.



1. gr.


    Í stað 1. og 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna kemur nýr töluliður er orðast svo: Erlendir aðilar mega eiga allt að 20% hlut í fyrirtækjum sem vinna sjávarafurðir hér á landi og/eða stunda fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Núverandi lagaákvæði heimila ekki erlenda eignaraðild í sjávarútvegi hérlendis. Þetta eru að mörgu leyti úrelt ákvæði og í ljós hefur komið að þau halda ekki þar sem nú þegar er um að ræða óbeina eignaraðild erlendra aðila í sjávarútvegsfyrirtækjum.
    Hér hefur lengi ríkt það viðhorf að gæta verði sérstakrar varkárni gagnvart útlendingum við veiðar í íslenskri fiskveiðilögsögu og að ekki komi til greina að þeir fái eignaraðild að fyrirtækjum sem stunda veiðar hér við land. Afstaða þessi mótast m.a. af landhelgisdeilum okkar þegar við þurftum að berjast fyrir rétti okkar við fiskveiðar hér við land gegn óbilgjörnum, erlendum stórveldum. Síðan þessi barátta átti sér stað hefur því oft verið haldið fram að koma verði í veg fyrir að útlendingar komist bakdyra megin inn í íslenska landhelgi. Þessi afstaða er mjög skiljanleg en tekur ekki tillit til þess að í landhelgisdeilum okkar vorum við að eiga við erlend fyrirtæki sem lutu ekki íslenskum lögum, en ef útlendingum yrði heimiluð takmörkuð eignaraðild að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, er um íslensk fyrirtæki og íslensk veiðiskip að ræða sem lúta íslenskum lögum og forræði.
    Kostir erlendrar eignaraðildar eru margvíslegir. Fyrirtæki geta sótt sér áhættufé sem eigið fé en þurfa ekki að vera eins háð erlendu lánsfé. Spyrja má hvort menn telji það betri stefnu að hlaða erlendum skuldum á íslensk sjávarútvegsfyrirtæki en að freista þess að byggja upp eigið fé fyrirtækjanna. Einnig má ætla að eignartengsl Íslendinga og útlendinga gætu örvað markaðssamstarf en slíkt er mjög algengt erlendis.
    Það er misskilningur ef menn ætla að eignaraðild útlendinga í sjávarútvegsfyrirtækjum þýði að útlendingar mundu flytja fisk óunninn úr landi og verðmætasköpunin yrði öll erlendis. Í fyrsta lagi lúta þessi fyrirtæki íslenskum lögum og vissar takmarkanir og leyfisveitingar eru vegna útflutnings á ferskum fiski. Í öðru lagi er engin ástæða til að ætla annað en að útlendingar sem vilja eignast hér lítinn hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum séu fyrst og fremst að hugsa um arð af fjárfestingu sinni, sem er sama hugsun og hjá mörgum innlendum fjárfestum. Hugsanlega gætu þeir einnig litið á slíka eignaraðild sem lykil að frekari samvinnu við viðkomandi fyrirtæki hér á landi og henni gætu fylgt ýmis tækifæri í markaðsmálum auk fjárhagslegrar styrkingar.
    Hafa þarf í huga að varla er mögulegt að mismuna fyrirtækjum eftir því hvort þau stunda fiskveiðar eða fiskvinnslu þar sem mörg fyrirtæki stunda bæði fiskvinnslu og útgerð. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að takmarka eignaraðild útlendinga við 20% hlut. Þetta er gert til að áhrif þeirra verði lítil, en full ástæða er til að fara með gætni í slíkar heimildir. Þess ber að geta að útlendingum er heimilt að eiga fyrirtæki að fullu í öllum atvinnurekstri með örfáum undantekningum. Þessar undantekningar eru að fjárfestingar erlendra aðila í fiskveiðum og fiskvinnslu hafa verið bannaðar og að einungis Íslendingar mega standa að virkjunarframkvæmdum, orkuvinnslu og orkudreifingu. Útlendingar mega eiga minna en 25% í hlutafélagsviðskiptabanka. Nú er einungis einn slíkur banki hérlendis, Íslandsbanki hf., en þar er engin erlend eignaraðild. Eignarhluti erlendra aðila í fyrirtækjum sem stunda flugrekstur hérlendis má ekki vera meiri en 49%. Þessar takmarkanir eru ekki miklar en snerta viss grundvallaratriði.
    Íslendingar hafa alltaf möguleika á að skerpa löggjöf sína (þó innan takmarkana EES-samningsins) ef þeir telja hættu stafa af erlendum áhrifum. Þegar hömlum var létt af erlendum fjárfestingum hérlendis kom í ljós að það var síður en svo biðröð eftir að fjárfesta hér.
    Brýnt er að auka eigið fé í íslenskum fyrirtækjum, sjávarútvegsfyrirtækjum sem öðrum. Aukin þátttaka almennings og lífeyrissjóða í sjávarútvegsfyrirtækjum er af hinu góða. Viðskiptastefna heimsins er að örva alþjóðaviðskipti. Íslendingar eiga eins og aðrar þjóðir að vera opnir fyrir erlendu fjármagni. Benda má á að erlendar fjárfestingar hérlendis eru að langmestu leyti í einni atvinnugrein, þ.e. álvinnslu. Erlendir aðilar eiga í nokkrum fyrirtækjum hérlendis og það hefur ekki valdið neinum vandræðum nema síður sé. Sem dæmi má nefna olíufélög, verktakaiðnað, sjónvarpsrekstur, ferðaþjónustu, fiskeldi, skiparekstur og tölvuþjónustu.
    Skynsamlegt er að reyna að dreifa erlendum fjárfestingum en vitaskuld eru það hinir erlendu fjárfestar sem ráða því í hverju er fjárfest, alveg eins og það er okkar val ef við fjárfestum erlendis. Að mati flutningsmanna eru hugmyndir um að heimila einungis óbeina fjárfestingu ekki skynsamlegar vegna þess að eftirlit með þeim er í reynd tæpast framkvæmanlegt og þá nýtast ekki kostir beinnar fjárfestingar eins og hugsanleg samvinna um markaðsmál og fleira. Það má jafnframt velta því fyrir sér hvort það að leyfa erlendum aðilum beina fjárfestingu í sjávarútvegi geti verið lykill að frekari fjárfestingu í öðrum greinum þar sem okkur er meira kappsmál að fá erlenda aðila til samstarfs.
    Almennt gilda ekki staðbundnar takmarkanir við fjárfestingar erlendis, enda er erfitt að framfylgja eftirliti með slíku banni. Þyngra vegur þó að flestir telja að frjálsræði við fjárfestingar og örvun viðskipta milli landa sé mjög hagkvæm leið til verðmætasköpunar í einstökum löndum.
    Íslendingar eiga mikla möguleika í fjárfestingum í sjávarútvegi erlendis eins og mörg dæmi sanna nú þegar. Fyrst er að nefna fjárfestingar íslensku fisksölufyrirtækjanna í Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi en þessar fjárfestingar hafa skapað sterka stöðu í markaðsmálum á undanförnum áratugum. Íslensk fyrirtæki hafa einnig fjárfest beint erlendis og má þar nefna Granda hf. í Chile og fjárfestingar Útgerðarfélags Akureyringa hf. og Samherja hf. í Þýskalandi, en nú er svo komið að nær öll togaraútgerð Þjóðverja er undir íslensku forræði. Ekki hafa vaknað neinar áhyggjur hjá Þjóðverjum vegna þessarar þróunar nema síður sé. Einnig hafa Íslendingar fjárfest mikið í Afríku og ýmiss konar uppbyggingarstarf er í gangi í Rússlandi, Indlandi og víðar.
    Flutningsmenn frumvarpsins leggjast gegn þeim hugmyndum að heimila erlendum aðilum að fjárfesta að vild í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum og benda jafnframt á að óbein eignaraðild hefur enga nýja kosti í för með sér fyrir íslenskan sjávarútveg og er í raun fyrst og fremst viðurkenning og staðfesting á því ástandi sem nú er.
    Með óbeinni eignaraðild er átt við að erlend fyrirtæki eigi í fyrirtækjum sem síðan eiga í fyrirtækjum í sjávarútvegi. Hugmyndir eru uppi um að heimila að takmörkuðu leyti slíka fjárfestingu, t.d. þannig að erlent fyrirtæki geti átt hlut í fyrirtæki sem síðan á allt að 25% eignarhlut í sjávarútvegsfyrirtæki. Vandkvæði við eftirlit með óbeinni eignaraðild má sjá á eftirfarandi dæmi: Ef tíu félög eru með eignaraðild útlendinga og þau eiga hlut í sjávarútvegsfyrirtæki þarf að fylgjast með hlutabréfaviðskiptum allra félaganna tíu til að geta reiknað út erlenda hlutdeild í íslenska fyrirtækinu. Eins og áður er komið fram er óbein eignaraðild þegar víða í íslenskum sjávarútvegi. Erlend olíufélög eiga t.d. stóran hlut í tveimur olíufélaganna en þau eiga hlut í mörgum íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.
    Til álita kemur að takmarka fjárfestingar erlendra aðila við sjávarútvegsfyrirtæki sem eru skráð á Verðbréfaþingi eða á hlutabréfamörkuðum eða tryggja á annan hátt meiri upplýsingaskyldu gagnvart fyrirtækjum sem erlendir aðilar eiga hlut í. Þó yrði að gæta þess að smærri fyrirtæki ættu einnig góða möguleika á að fá erlenda samstarfsaðila með þeim hætti sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir.
    Mun auðveldara er að hafa eftirlit með fyrirtækjum sem búa við beina erlenda eignaraðild en óbeina. Eftirlit með erlendri eignaraðild getur t.d. falist í því að tilkynna beri um það ef erlendur aðili fjárfestir beint í sjávarútvegsfyrirtæki, svo og um breytingar á eignaraðild. Þannig væri vitað á hverjum tíma hver hin beina eignaraðild er. Samkvæmt vitneskju flutningsmanna er ekki til samantekt yfir óbeina erlenda eignaraðild í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum og alls ekki eftirlit á hverjum tíma. Hægt er að hugsa sér að hluthafaskrá sé skoðuð á tilteknum tíma, t.d. um áramót, og þannig reynt að hafa eftirlit með því hvernig eignaraðildin þróast. Það sýnir hins vegar ekki hvaða breytingar eiga sér stað á eignaraðild innan ársins. Flutningsmenn vekja athygli á því að til greina kemur að lögbinda að samanlögð bein og óbein eignaraðild í einstökum fyrirtækjum fari ekki yfir tiltekin mörk miðað við áramót.
    Sú hætta að erlendir aðilar fái innlenda leppa fyrir sig til fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi er fyrir hendi hvort sem fjárfestingar eru heimilar eða ekki, enda er þá um ólögmæta starfsemi að ræða.
    Óeðlilegt er að við beitum allt annarri aðferðafræði við fjárfestingar í sjávarútvegi erlendis en hérlendis. Okkur finnst sjálfsagt að við fjárfestum í útlöndum og ætlum að auka hlut okkar þar á sama tíma við lokum á útlendinga hér. Að vísu er mikilvægi auðlindarinnar ótvírætt hérlendis og því er hér gerð tillaga um að fara varlega í þessum málum og heimila einungis takmarkaða fjárfestingu erlendra aðila.