Ferill 221. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 221 . mál.


410. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28/1985, sbr. lög nr. 50/1995.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín Ólaf Davíðsson, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneyti, Berglind Ásgeirsdóttur, ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneyti, Þorstein Geirsson, ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneyti, Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóra í umhverfisráðuneyti, Magnús Jónsson veðurstofustjóra, Helga Hallgrímsson, vegamálastjóra og formann ofanflóðanefndar, Hafstein Hafsteinsson, formann Almannavarna ríkisins, Ágúst Björnsson, sveitarstjóra í Súðavík, Jón Gauta Jónsson, fyrrverandi bæjarstjóra í Súðavík, Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóra á Ísafirði, og Eirík Tómasson prófessor. Þá fékk nefndin sendar umsagnir um málið frá félagsmálanefnd, umhverfisnefnd, bæjarstjórn Vesturbyggðar, Jóni Gauta Jónssyni, fyrrverandi bæjarstjóra í Súðavík, Þórólfi Halldórssyni, sýslumanni á Patreksfirði, og ofanflóðanefnd.
    Meginbreytingin, sem frumvarpið felur í sér, er að yfirstjórn þessa málaflokks verði færð frá félagsmálaráðherra til umhverfisráðherra og rannsóknir og forvarnir verði þá jafnframt færðar til Veðurstofu Íslands. Þá er gert ráð fyrir að gerðar verði sérstakar neyðaráætlanir um rýmingu húsnæðis á afmörkuðum svæðum þegar Veðurstofan gefur út viðvörun um staðbundna snjóflóðahættu og lýsir yfir sérstöku hættuástandi. Loks er lagt til að teknar verði upp í lögin reglur um tilhögun á greiðslum úr ofanflóðasjóði til eigenda þeirra húseigna sem keyptar kunna að verða eða fluttar vegna yfirvofandi snjóflóðahættu, en reglur þessar er nú að finna í reglugerð nr. 440/1995, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Brýnt er að frumvarp þetta verði afgreitt fyrir áramót og leggur nefndin til að það verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Breytingarnar fela í sér eftirfarandi:
1.    Að áréttað verði að Veðurstofunni beri að gæta samráðs við hlutaðeigandi lögreglustjóra og almannavarnanefnd áður en hún gefur út viðvörun. Er þetta í samræmi við athugasemdir sem nefndinni bárust um aðild heimamanna að ákvörðun um rýmingu húsnæðis á hættutímum.
2    Þegar meta skal hvort hagkvæmt sé að flytja hús þykir rétt að miða við kaupverð eins og það er skilgreint í 5. gr. frumvarpsins í stað þess að miða eingöngu við staðgreiðslumarkaðsverð.
3.    Að við lögin verði bætt bráðabirgðaákvæði vegna kaupa á eignum í þeim sveitarfélögum þar sem snjóflóð hafa fallið á árinu 1995. Fyrstu tveir málsliðirnir í því bráðabirgðaákvæði eru í aðalatriðum eins orðaðir og í reglugerð um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 440/1995. Fyrir því eru einkum tvær ástæður, annars vegar sú að íbúar á þessum svæðum hafa almennt mátt búast við að greiðslutilhögun yrði með þeim hætti sem reglugerðin kveður á um og miðað ráðstafanir sínar við það og hins vegar að með nýjum lögum um brunatryggingar, nr. 68/1984, færðist gerð brunabótamats frá sveitarfélögum til Fasteignamats ríkisins sem vinnur eftir sérstöku matseiningakerfi. Eftir þá breytingu má því búast við að meira samræmis og þar með jafnræðis gæti við úttekt fasteigna í þessu skyni. Með það að markmiði að íbúar á svæðum, þar sem fallið hafa snjóflóð á yfirstandandi ári, njóti jafnræðis á við þá sem nú eiga þess kost að láta endurmeta eignir sínar þykir eðlilegt að um uppkaup eigna þeirra gildi sú sérregla sem lögð er til í 3. tölul. Jafnframt leggur nefndin til að inn í þetta bráðabirgðaákvæði verði tekin heimild til að greiða bætur úr sjóðnum til viðbótar bótum frá Viðlagatryggingu Íslands til þeirra húseigenda sem orðið hafa fyrir tjóni á þessu ári þannig að þeir verði jafnsettir öðrum húseigendum sem ekki hafa orðið fyrir tjóni en verið með nýlegra mat á húsum sínum. Þannig vill nefndin tryggja að tímasetning á mati á eignum leiði ekki til mismunandi bóta.
    Með þeim breytingum, sem hér eru lagðar til, er að mestu komið til móts við þær athugasemdir sem nefndinni hafa borist um málið. Nefndin leggur til að athugasemdir, sem ekki er tekið á að þessu sinni, svo sem varðandi gatnagerðargjöld, verði hafðar í huga við heildarendurskoðun laganna. Í umsögn umhverfisnefndar kom fram tillaga um að umhverfisráðherra verði einnig skylt að hafa samráð við skipulagsyfirvöld, þar á meðal hlutaðeigandi sveitarstjórnir, áður en hann setur reglur um flokkun og nýtingu hættusvæða, sbr. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Þá leggur umhverfisnefnd einnig til að 9. mgr. 5. gr. frumvarpsins verði breytt í þá veru að ekki megi hefja byggingar né þétta byggð sem fyrir er á svæðum þar sem hætta hefur verið talin á snjóflóðum fyrr en tilskildum varnarmannvirkjum hefur verið komið upp og endurmat á snjóflóðahættu farið fram. Allsherjarnefnd telur þessi atriði þarfnast nánari skoðunar og beinir því til nefndar sem mun vinna að endurskoðun laganna á næsta ári að þetta verði haft í huga. Rétt er að taka fram að frumvarpið gerir ráð fyrir að þessi málaflokkur færist yfir til umhverfisráðuneytisins og umhverfisnefnd mun því væntanlega fá til umfjöllunar frumvarp til nýrra heildarlaga sem leggja á fram á næsta ári. Í sambandi við 3. gr. frumvarpsins leggur nefndin áherslu á að tryggt sé að jafnan verði séð fyrir hvernig ákvarðanatöku um snjóflóðahættu og tilkynningar þar um verði hagað ef fjarskipti bregðast.
    Að lokum vill nefndin ítreka að skv. 10. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að lögin um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum verði endurskoðuð á næsta ári og frumvarp til nýrra heildarlaga lagt fyrir Alþingi eigi síðar en í desember 1996. Í þeirri endurskoðun verður lagður grundvöllur að þessum málum til frambúðar.

Alþingi, 18. des. 1995.



Sólveig Pétursdóttir,

Valgerður Sverrisdóttir.

Ögmundur Jónasson.


form., frsm.



Sighvatur Björgvinsson.

Guðný Guðbjörnsdóttir.

Jón Kristjánsson.



Kristján Pálsson.

Arnbjörg Sveinsdóttir.

Hjálmar Jónsson.





Fylgiskjal I.



Umsögn félagsmálanefndar.


    Félagsmálanefnd barst bréf frá formanni allsherjarnefndar, dags. 8. desember 1995, þar sem beðið er um umsögn nefndarinnar um frumvarp til laga um breytingar á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Fer umsögn félagsmálanefndar hér á eftir, en þar er skemmst frá að segja að skoðanir voru ákaflega skiptar varðandi fjöldamörg atriði sem fram koma í frumvarpinu.
    Þær breytingar, sem frumvarpið felur í sér, eru einkum af þrennum toga eins og fram kemur í greinargerð þess. Í fyrsta lagi er um stjórnkerfisbreytingu að ræða sem felur í sér að hér eftir heyra varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum undir umhverfisráðuneytið, en Veðurstofa Íslands sér um framkvæmdina. Í öðru lagi er kveðið á um að Veðurstofa Íslands skuli lýsa yfir hættuástandi í stað almannavarnanefnda áður og ber þá að rýma allt það húsnæði sem talið er vera á hættusvæði. Verður heimilt samkvæmt frumvarpinu að beita valdi við rýmingu húsa ef nauðsyn krefur. Veðurstofan tekur svo ákvörðun um hvenær hættuástandi skuli aflýst í samráði við lögreglustjóra og almannavarnanefnd. Í þriðja lagi er lagt til í frumvarpinu að teknar verði í lögin þær reglur sem verið hafa í gildi um greiðslur úr ofanflóðasjóði til eigenda þeirra húseigna sem keyptar kunna að verða eða fluttar vegna yfirvofandi snjóflóðahættu. Jafnframt kemur fram í greinargerð að ætlunin er að endurskoða lögin í heild hið fyrsta.
    Félagsmálanefnd er sammála því að flytja varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum yfir til umhverfisráðuneytisins. Nefndin er einnig sammála því að Veðurstofa Íslands fái það hlutverk að meta hættuástand í eðlilegu samráði við heimamenn og beri ábyrgð á því hvenær slíku ástandi er lýst yfir og hvenær því er aflýst. Nefndin leggur áherslu á að gott samstarf við heimamenn er lykilariði eigi vel að takast til, enda er þekking á staðháttum afar mikilvæg. Einstakir nefndarmenn lýstu efasemdum varðandi það atriði að heimilt verði að beita valdi til að rýma hús og leggja áherslu á að því valdi verði að beita einkar sparlega með hliðsjón af friðhelgi heimilanna. Aðrir nefndarmenn setja barnaverndarsjónarmið í öndvegi og telja að ætíð beri að gæta fyllsta öryggis, ekki síst þar sem börn eiga í hlut.
    Miklar umræður urðu um 5. gr. frumvarpsins. Spurt var: Hvað er markaðsverð? Er það réttlát viðmiðun? Hvað er endurstofnverð? Þarf ekki að skilgreina það hugtak í lögum? Vilja nefndarmenn taka undir tillögu Súðvíkinga og Flateyringa hvað varðar 5. mgr. 5. gr. (sjá bréf Jóns Gauta Jónssonar f.h. sveitarstjórnanna í Súðavík og á Flateyri). Varðandi önnur atriði í 5. gr. frumvarpsins ber fyrst að nefna að mjög ólík sjónarmið komu fram í nefndinni um það á hvern hátt ofanflóðasjóður skuli greiða fyrir húsnæði á hættusvæði. Hluti nefnarmanna tekur undir þá leið sem farin er í frumvarpinu, aðrir gagnrýndu þá stefnu frumvarpsins að „greiðslur til þeirra sem hyggjast búa áfram í heimabyggð sinni [geti] þar með samkvæmt reglunum orðið hærri en greiðslur til þeirra sem ætla að flytja á brott“ og taka ekki undir þá stefnu sem sett er fram í greinargerðinni. Einnig var bent á að lágt brunabótamat, t.d. í Súðavík, megi ekki verða til að skaða stöðu íbúanna.
    Umræður urðu um það hvort ekki væri eðlilegra að ofanflóðasjóður yrði eigandi þeirra húsa sem keypt verða fyrir fé úr sjóðnum og ráðstafaði þeim í stað viðkomandi sveitarsjóða. Sjóðurinn gæti síðan selt þau aftur með skilyrði um notkun. Bent var á að slíkt kallaði á mun meiri umsvif en sjóðnum væri ætluð lögum samkvæmt og ekki væri raunhæft að fara þá leið. Biðja nefndarmenn allsherjarnefnd að íhuga þetta atriði.
    Þá vill hluti nefndarmanna beina því til allsherjarnefndar að skoða gaumgæfilega hvort ekki sé rétt að fella út það ákvæði sem felst í síðustu málsgrein 5. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir að leyft verði að byggja á hættusvæðum þegar tilskildum varnarvirkjum hefur verið komið upp. Skoðanir nefndarmanna voru skiptar hvað þetta ákvæði varðar, en bent var á að kostur gæfist á að skoða það nánar við þá heildarendurskoðun laganna sem fram undan er.
    Svanfríður Jónasdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk umsögn þessari.

Alþingi, 11. des. 1995.



Kristín Ástgeirsdóttir, form.


Kristján Pálsson.


Magnús Stefánsson.


Pétur Blöndal.


Rannveig Guðmundsdóttir.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Bryndís Hlöðversdóttir.


Drífa Sigfúsdóttir.


Einar K. Guðfinnsson.





Fylgiskjal II.



Umsögn umhverfisnefndar.


    Umhverfisnefnd hefur, sbr. bréf allsherjarnefndar frá 8. desember sl., fjallað um frumvarp til laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Fékk nefndin á sinn fund til viðræðna um málið Jón Gauta Jónsson, fyrrverandi sveitarstjóra í Súðavík, Ágúst Björnsson, sveitarstjóra í Súðavík, Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóra á Ísafirði, Hafstein Hafsteinsson, forstjóra Landhelgisgæslunnar, Helga Hallgrímsson, vegamálastjóra og formann ofanflóðanefndar, Ólaf Davíðsson, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneyti, Þorstein Geirsson, ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneyti, Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóra í umhverfisráðuneyti, og Magnús Jónsson veðurstofustjóra.
    Með frumvarpinu er lagt til að yfirstjórn ofanflóðamála færist frá félagsmálaráðherra til umhverfisráðherra og að rannsóknir og forvarnir verði í höndum Veðurstofu Íslands, sem lýtur yfirstjórn umhverfisráðuneytis. Umhverfisnefnd er fylgjandi því að sá málaflokkur, er snýr að ofanflóðum, verði fluttur til umhverfisráðuneytis og að rannsóknir og forvarnir séu nú í höndum stofnunar þar sem mikla þekkingu á málaflokknum er að finna.
    Þá er lagt til í frumvarpinu að það verði framvegis ákvörðun Veðurstofu Íslands hvenær tilgreind svæði verða rýmd. Lýsa nefndarmenn efasemdum um réttmæti þessa ákvæðis. Ábyrgð sem þessi verður vart lögð á einn aðila, og telja nefndarmenn að nauðsynlegt sé að heimamenn komi að þessari ákvörðun. Því er eðlilegt að haft verði samráð við viðkomandi lögreglustjóra og almannavarnanefnd áður en gefin er út viðvörun um yfirvofandi snjóflóðahættu eins og þegar hættuástandi er aflétt.
    Einnig felur frumvarpið í sér að tekin verði í lögin ákvæði um tilhögun á greiðslum úr ofanflóðasjóði til eigenda húseigna sem kynnu að verða keyptar eða fluttar vegna snjóflóðahættu, en reglur þessar eru nú í reglugerð nr. 440/1995. Tryggara þykir að reglurnar séu lögfestar. Umhverfisnefnd leggur áherslu á að gerðar verði áætlanir um varnarvirki til að verja byggð á hættusvæðum og varar við því að of mikil áhersla sé lögð á kaup húsa á hættusvæðum áður en afstaða hefur verið tekin til möguleika á snjóflóðavörnum. Þá leggur umhverfisnefnd til að 9. mgr. 5. gr. frumvarpsins verði breytt í þá veru að ekki megi hefja byggingar né þétta þá byggð sem fyrir er á svæðum þar sem hætta hefur verið talin á snjóflóðum, nema að því tilskildu að varnarvirkjum hafi verið komið upp og endurmat á snjóflóðahættu farið fram.
    Þá telur umhverfisnefnd nauðsynlegt að tengja vinnu við flokkun hættusvæða og nýtingu þeirra við skipulagsgerð. Því leggur nefndin til að í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins verði tekið inn ákvæði um samráð við skipulagsyfirvöld, þar á meðal hlutaðeigandi sveitarstjórnir, ásamt Veðurstofu, áður en reglur eru settar af umhverfisráðherra.
    Loks er að finna ákvæði í frumvarpinu sem mælir fyrir um að lögin skuli endurskoðuð á árinu 1996. Um leið og umhverfisnefnd tekur undir að brýnt er að setja nánari reglur um þau atriði sem fjallað er um í frumvarpinu minnir hún á að ljóst er að heildarendurskoðun og grundvallarumræða um lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum er nauðsynleg í náinni framtíð.
    Kristín Halldórsdóttir, sem skrifar undir umsögnina með fyrirvara, er þeirrar skoðunar að ekki eigi að leyfa neinar byggingar yfirleitt á svæðum þar sem hætta er talin á snjóflóðum.

Alþingi, 12. des. 1995.



Ólafur Örn Haraldsson, form.


Tómas Ingi Olrich.


Hjörleifur Guttormsson.


Einar Oddur Kristjánsson.


Kristín Halldórsdóttir, með fyrirvara.