Ferill 241. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 241 . mál.


442. Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, sbr. lög nr. 89 21. júní 1995.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.


    Minni hlutinn gerir athugasemdir við eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi bendir minni hlutinn á að sjávarútvegsráðuneytið hefur ekki haft eðlilegt samráð við sjávarútvegsnefnd um tillöguflutning í málinu. Í stað þess að kynna nefndinni sjónarmið um breytingar á upphaflegu frumvarpi hefur ráðuneytið valið að koma áliti sínu og breytingartillögum á framfæri við nefndina eftir krókaleiðum. Slík vinnubrögð eru ekki til þess fallin að greiða fyrir samstarfi nefndarinnar og sjávarútvegsráðuneytisins.
    Í öðru lagi kom í ljós á fundi nefndarinnar að ráðuneytið hafði ekkert samráð haft við stjórn Þróunarsjóðs sjávarútvegsins um gerð frumvarpsins og hafði stjórnin ekki fengið að vita um frumvarpið fyrr en sama dag og því var útbýtt á Alþingi. Stjórn Þróunarsjóðs gafst því ekki tækifæri til að segja álit sitt eða vera með í ráðum áður en frumvarpið var lagt fram.
    Í þriðja lagi bendir minni hlutinn á að á sama tíma og verið er að hækka úreldingarstyrki vegna krókabáta úr að hámarki 45% í að hámarki 80% af húftryggingaverðmæti eru ekki gerðar neinar breytingar á reglum um endurnýjum þessara báta um að úrelda þurfi tvö tonn á móti hverju einu við endurnýjun. Með þessu er beinlínis verið að stuðla að því að menn úreldi báta sína frekar en að endurnýja þá, ekki síst þegar tillit er tekið til þess að endurnýjunarreglan tveir á móti einum gildir jafnvel þótt bátur farist á sjó eða eyðileggist í strandi. Vitað er að fulltrúar Landssambands smábátaeigenda og fulltrúar sjávarútvegsráðuneytisins eiga í viðræðum um endurskoðun á ýmsum atriðum, þar á meðal á endurnýjunarreglunni, en fulltrúar minni hlutans telja að nauðsynlegt hafi verið að láta þá breytingu fylgja þeirri sem nú er gerð. Minni hlutinn telur hins vegar skynsamlegt að veita Þróunarsjóði sjávarútvegsins heimild til að kaupa krókabáta sem hafa verið úreltir, m.a. til að nýta í þróunarverkefnum erlendis.
    Frá því hefur verið skýrt í sjávarútvegsnefnd að samkomulagsviðræðum milli sjávarútvegsráðherra og fulltrúa Landssambands smábátaeigenda um ýmsar breytingar frá ákvæðum gildandi laga er varða smábáta miði vel og sé þess að vænta að frumvarp að slíkum breytingum verði lagt fram í byrjun þings eftir jólaleyfi. Í trausti þess að tekið verði tillit til sjónarmiða smábátaeigenda og þeirrar gagnrýni sem stjórnarandstaðan setti fram á sl. vori við afgreiðslu hagsmunamála smábátaeigenda mun minni hlutinn ekki leggjast gegn því að þessar breytingar á lögunum um Þróunarsjóðinn verði gerðar.

Alþingi, 19. des. 1995.


Steingrímur J. Sigfússon,

Sighvatur Björgvinsson,

Svanfríður Jónasdóttir.

form.

frsm.


Prentað upp.