Ferill 229. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 229 . mál.


505. Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli í kjölfar hættumats.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hverjar af tillögum nefndar þeirrar sem gerði hættumat fyrir Reykjavíkurflugvöll eru þegar komnar til framkvæmda?

    Eins og fram kemur í greinargerð með fyrirspurninni eru tillögur nefndarinnar eftirfarandi:
    æfinga-, kennslu- og einkaflug fái aðstöðu á nýjum flugvelli í nágrenni höfuðborgarinnar,
    ferjuflugi og millilandaflugi einkaflugvéla, öðru en sérstöku gestaflugi, verði beint til Keflavíkur,
    hætt verði notkun á NA/SV-braut (07-25) og henni lokað,
    tekin verði upp skráning á brautarnotkun á Reykjavíkurflugvelli og settar reglur sem leiða til aukinnar notkunar AV-brautar á kostnað NS-brautar,
    eldsneytisgeymar á flugvallarsvæðinu verði fjarlægðir og komið upp eldsneytis- og olíubirgðageymslu á einum stað utan við öryggissvæði flugbrautanna,
    gas- og olíugeymar í Skerjafirði verði fjarlægðir,
    settar verði reglur um hávaðatakmarkanir á Reykjavíkurflugvelli,
    flugsýningar verði framvegis haldnar utan Reykjavíkur,
    hraðað verði framkvæmdum við endurbætur og nýbyggingu akbrauta á flugvellinum,
    tryggt verði fé til kaupa á flugvallarratsjá í flugturn og aðflugs- og brottflugsleiðum beint sem mest frá þéttbýli umhverfis flugvöllinn út yfir sjó.
    a. Ekki hefur verið farið út í að byggja sérstakan flugvöll fyrir æfingakennslu- og einkaflug vegna þess að flugvallarstæði við Óbrynnishóla sunnan Hafnarfjarðar hefur verið útilokað vegna hugsanlegrar mengunar á vatnsbóli Hafnfirðinga. Önnur flugvallarstæði, sem fýsileg þættu með tilliti til veðurfars og aðgengis, eru ekki fyrir hendi. Jafnframt er ljóst að ekkert fjármagn hefur verið tiltækt til að ráðast í byggingu flugvallar af þessu tagi.
    Ýmislegt hefur verið gert til að draga úr áhrifum æfinga- og kennsluflugs á Reykjavíkurflugvelli með því að leggja sérstakar flugleiðir til og frá flugvellinum og beina þessu flugi til flugvalla í nágrenni Reykjavíkur, einkum yfir sumartímann. Í reynd hefur dregið talsvert úr þessu flugi þar sem einkaflug hefur dregist saman á undanförnum árum og einkaflugvélum fækkað.
    b. Ekki hefur verið talin ástæða til að beina ferju- og millilandaflugi einkaflugvéla sérstaklega frá flugvellinum, enda er erfitt að reka alþjóðlegan flugvöll sem aðeins sérstökum flugvélum er heimilt að nota. Þó hafa lendingargjöld verið hækkuð á Reykjavíkurflugvelli þannig að þau eru hærri en á Keflavíkurflugvelli.
    c. NA/SV-flugbrautinni hefur ekki verið lokað vegna eindreginna óska flugmanna og flugrekenda. Þessi braut er afar lítið notuð og þá fyrst og fremst í hvössum útsynningi þegar aðrar brautir eru lokaðar. Sérstök fyrirmæli eru um að þessi braut skuli aðeins notuð þegar skilyrði eru óhagstæð á öðrum flugbrautum. Nú hefur flugbraut á Keflavíkurflugvelli með sömu stefnu verið lokað. Meðan þetta ástand varir eru engar forsendur til þess að loka umræddri braut á Reykjavíkurflugvelli.
    d. Færa má rök fyrir því að flugöryggi sé best tryggt með því að flugmenn fái ætíð að velja þá flugbraut þar sem skilyrði eru heppilegust. Því hefur ekki verið talið fært að gefa flugmönnum fyrirmæli um að nota A/V-flugbrautina þegar skilyrði eru betri á N/S-flugbraut. Hér er einnig mikilvægt að hafa í huga að aðflugstæki eru fullkomnari á N/S-brautinni.
    e. Ekki hefur verið hægt um vik að finna stað fyrir umrædda eldsneytisgeyma, sérstaklega þar sem áætlanir um landnýtingu á flugvallarsvæðinu hafa ekki gengið eftir. Nú er hafin vinna við að endurskoða skipulag vallarins og verður þá væntanlega ákveðin ný staðsetning fyrir þessa geyma.
    f. Olíustöðin í Skerjafirði og flutningur hennar er vandamál sem hefur verið á borði borgaryfirvalda um áratuga skeið. Flugmálayfirvöld hafa lítil sem engin áhrif haft á þetta mál sem mun m.a. snúast um að finna olíustöðinni stað á borgarsvæðinu.
    g. Unnið er að því á vegum Flugmálastjórnar að semja hávaðareglur fyrir flugvöllinn og er gert ráð fyrir að ljúka því starfi fyrir vorið 1996.
    h. Engar sérstakar reglur hafa verið settar um flugsýningar á Reykjavíkurflugvelli, en þær eru fátíðar og eru vandlega skipulagðar með öryggissjónarmið í huga.
    i. Því miður hefur lítið fjármagn verið til framkvæmda á flugbrautum og akbrautum. Því hafa engar endurbætur verið gerðar á akbrautum flugvallarins.
    j. Flugvallarratsjá hefur verið komið upp í flugturninum til að fylgjast með umferðinni í nánd vallarins. Þá hafa verið hannaðar sérstakar aðflugs- og brottflugsleiðir sem beina flugumferðinni frá þéttbýlinu þar sem því verður við komið.