Ferill 213. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 213 . mál.


509. Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Við hvaða lagaheimild styðst sú regla sem kemur fram í úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna (1.3.2 Sérnám) að námsmenn þurfi að hafa náð 20 ára aldri til að fá lán til sérnáms erlendis?

    Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, segir að sjóðurinn veiti lán til framhaldsnáms við skóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis. Sams konar ákvæði voru í eldri lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Í 2. gr. laga nr. 57/1976 og 2. gr. laga nr. 72/1982 var tilgreint að einnig mætti veita lán til sérnáms hefðu námsmenn náð 20 ára aldri og lán til náms erlendis væri ekki unnt að stunda slíkt nám hérlendis. Ákvæðið um 20 ára aldurstakmark var fellt brott með núgildandi lögum en tiltekið að Lánasjóðinum sé heimilt að veita lán öðrum námsmönnum en þeim sem falla undir skilgreiningu 2. mgr. 1. gr., enda stundi þeir sérnám og stjórn sjóðsins setji nánari reglur um til hvaða sérnáms skuli lánað.
    Í áliti meiri hluta menntamálanefndar, sem flutti tillögu um að fella umrætt lagaákvæði brott, segir: „Lagt er til að fellt verði niður það skilyrði 2. gr. að námsmenn í sérnámi þurfi að ná 20 ára aldri til þess að fá námslán.“ Er formaður menntamálanefndar mælti fyrir tillögunni sagði hann tilgang hennar vera eftirfarandi: „Við 2. gr. er lagt til að horfið verði frá því að binda námslán til sérnáms við 20 ára aldur. Ákvæði þetta snertir einkum nemendur sérskóla og iðnbrauta í fjölbrautaskólum. Með þessari breytingu er komið til móts við þau sjónarmið að hlúa að starfstengdu stuttu námi og verknámi og bóknámi gert jafnhátt undir höfði.“
    Í reglugerð um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 210/1993, segir í 5. gr.: „Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að setja þau skilyrði vegna sérnáms að lánþegi sé tvítugur á því almanaksári sem nám er stundað.“ Eftir gildistöku laga nr. 21/1992 hefur stjórn Lánasjóðsins samþykkt úthlutunarreglur þar sem m.a. er sett það skilyrði í gr. 1.3.2 að námsmenn þurfi að hafa náð 20 ára aldri til að fá lán til sérnáms erlendis.
    Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna var námsmönnum yngri en 20 ára, er stunduðu sérnám erlendis, veitt námslán frá námsárinu 1987–88 til ársins 1992 þrátt fyrir ákvæði laga um 20 ára aldurstakmark vegna sérnáms. Reglum um 20 ára aldurstakmark hefur hins vegar verið beitt við ákvörðun á lánshæfi náms á sérnámsbrautum framhaldsskóla, bæði fyrir og eftir gildistöku laga nr. 21/1992.
    Menntamálaráðherra hefur ákveðið að beita sér fyrir breytingu á 5. gr. reglugerðar nr. 210/1993, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, og að úthlutunarreglur taki mið af þeirri breytingu.