Ferill 231. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 231 . mál.


521. Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar um gjöld fyrir ferliverk.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hverju nema alls gjöld fyrir svokölluð ferliverk:
    1995,
    samkvæmt áætlun 1996?


    Reglugerð um ferliverk, nr. 340/1992, var sett í þeim tilgangi að draga úr innlögnum á sjúkrahús vegna smáaðgerða og rannsókna sem að jafnaði má gera á göngudeildum eða læknastofum án innlagna á legudeildir. Samkvæmt reglugerðinni greiðir sjúklingur gjald í samræmi við hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði við heilbrigðisþjónustu og er það hluti sérfræðiþjónustu. Kostnaður vegna ferliverka er ekki aðgreindur sérstaklega í bókhaldi sjúkratryggingadeildar Tryggingastofnunar.
    Læknar á Landakoti, St. Jósefsspítala og flestum öðrum spítölum nema Landspítala og Borgarspítala höfðu fyrir gildistöku reglugerðarinnar innheimt gjöld fyrir einstök læknisverk hjá Tryggingastofnun ríkisins og síðan greitt sjúkrahúsum aðstöðugjald sem samið var um á hverjum stað eftir kostnaði við verkin (oft um 40%). Eftir gildistöku reglugerðarinnar var þessi greiðslumáti tekinn upp á Borgarspítalanum. Sambærileg starfsemi fer fram á Landspítalanum en er sinnt samkvæmt föstum fjárlögum.
    Aðstöðugjald, sem læknar greiddu sjúkrahúsum fyrir ferliverk árið 1994, var um 78 millj. kr. Út frá því má áætla að heildarkostnaðurinn við ferliverk á sjúkrahúsum hafi verið 194 millj. kr. Þar af hafi Tryggingastofnun greitt 117 millj. kr. en sjúklingar 77 millj. kr. Heildarkostnaður vegna klínískrar sérfræðiþjónustu sem Tryggingastofnun tók þátt í var á sama tíma 1.160 millj. kr. Þar af greiddi Tryggingastofnunin um 710 millj. kr. en sjúklingar um 450 millj. kr.
    Með tilliti til þessa eru svör heilbrigðisráðherra við a- og b-lið í fyrirspurninni eftirfarandi:
    a. Gjöld fyrir ferliverk árið 1995 eru enn ekki kunn en heildarkostnaður við sérfræðiþjónustu hefur ekki aukist.
    b. Ekki er gerð sérstök áætlun fyrir ferliverk í sérfræðiþjónustunni. Ljóst er að sjúkrahúsinnlögnum vegna smærri aðgerða og rannsókna hefur fækkað eitthvað vegna ferliverka.