Ferill 289. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 289 . mál.


528. Fyrirspurn



til dómsmálaráðherra um samning við Neyðarlínuna hf.

Frá Lúðvík Bergvinssyni.



    Hvaða rök liggja að baki þeirri ákvörðun ráðherra að gera þjónustusamning við einkaaðila um rekstur samræmdrar neyðarsímsvörunar fyrir landið allt? Þekkist slíkt fyrirkomulag erlendis? Hvers vegna var samningurinn gerður til átta ára í ljósi þess að um nýja starfsemi er að ræða?
    Var gerð úttekt á því áður en gengið var til samninga við Neyðarlínuna hf. hvort koma hefði mátt á fót samræmdri neyðarsímsvörun með minni tilkostnaði er raun ber vitni? Hvaða rök mæla gegn því að samræmdri neyðarsímsvörun verði varanlega komið fyrir á vaktstöð Slökkviliðs Reykjavíkur og í umsjá þess eða annarra opinberra aðila?
    Hefur verið gerð athugun á því af hálfu ráðherra hvort starfsemi eða eignaraðild þeirra einkafyrirtækja sem hlut eiga í Neyðarlínunni hf. tengist innbyrðis á einhvern hátt, og þá hvort slík tengsl geti haft skaðleg áhrif á samkeppni í öryggisþjónustu á markaði, sbr. ákvæði samkeppnislaga? Hafi athugun farið fram, hvernig var að henni staðið og hver var niðurstaða hennar?
    Voru sett einhver skilyrði um fjárhagslega stöðu þeirra fyrirtækja sem aðild eiga að Neyðarlínunni hf. í ljósi þess hversu mikilvæg starfsemi hennar er? Hefur farið fram athugun á eiginfjárstöðu þeirra einkafyrirtækja sem hlut eiga í Neyðarlínunni hf.?
    Hefur verið brugðist við athugasemdum samkeppnisráðs frá 13. nóvember sl. varðandi samning dómsmálaráðuneytisins og Neyðarlínunnar hf. um fyrirkomulag á rekstri hennar? Ef svo er, hvernig hefur verið brugðist við og eru þær ráðstafanir nægjanlegar að mati samkeppnisráðs?
    Er ætlunin að leggja niður sólarhringsvaktir á einhverri lögreglu- eða slökkvistöð eftir að samræmdri neyðarsímsvörum hefur verið komið á?
    Er ætlunin að einkavæða fleiri þætti löggæslu- og öryggismála?
    Fór fram útboð á undirbúningsvinnu við útboðsgögn í samræmi við útboðsstefnu ríkisins og ákvæði laga nr. 52/1987, um opinber innkaup? Hefur verkfræðistofan, sem vann verkið, unnið önnur verk fyrir dómsmálaráðuneytið eða stofnanir, sem undir það heyra, undanfarin fimm ár? Ef svo er, hvert er umfang þeirra viðskipta í krónum talið, og var til þeirra stofnað á grundvelli útboða?

Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.


    Með samræmdri neyðarsímsvörun er átt við móttöku tilkynninga um neyðartilvik og að koma þeim á framfæri við lögreglu, slökkvilið, lækna og sjúkraflutningafólk, auk þess að leiðbeina og ráðleggja hinum nauðstadda. Þrátt fyrir að um það sé almenn sátt að helsta hlutverk ríkisvaldsins sé að sjá um verkefni á sviði löggæslu og öryggismála hefur dómsmálaráðherra gert samning við einkafyrirtækið Neyðarlínuna hf. um rekstur samræmdrar neyðarsímsvörunar fyrir landið allt, sbr. lög nr. 25/1995, og á sá samningur að gilda næstu árin.
    Í áliti samkeppnisráðs, 13. nóvember sl., eru gerðar athugasemdir við samninginn og segir þar m.a.: „Neyðarlínan hf., sem er í eigu stærstu öryggisþjónustufyrirtækjanna á markaðnum auk þriggja opinberra fyrirtækja og stofnana, er að stórum hluta fjármögnuð af opinberu fé. Samkeppnisráð telur það ekki samræmast markmiðum samkeppnislaga að Neyðarlínan hf. geti starfað á samkeppnismarkaði og þá e.t.v. í samkeppni við einkaaðila í öryggisþjónustu. Samningur dómsmálaráðuneytisins og Neyðarlínunnar girðir ekki fyrir þennan möguleika félagsins eins og æskilegt væri.“