Ferill 310. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 310 . mál.


551. Tillaga til þingsályktunar



um fiskréttaverksmiðjur.

Flm.: Gunnlaugur M. Sigmundsson.



    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að taka upp viðræður við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Íslenskar sjávarafurðir hf. um að fiskréttaverksmiðjur í eigu dótturfélaga þessara fyrirtækja sem starfræktar eru erlendis verði fluttar til Íslands eða reistar hér nýjar verksmiðjur gegn því að slíkum fyrirtækjum verði skapað sambærilegt rekstrarumhverfi og erlendum stóriðjufyrirtækjum stendur til boða á Íslandi, auk tekjuskattsfrelsis í 25 ár.

Greinargerð.


    Stjórnvöld hafa um árabil lagt áherslu á að fá erlend fyrirtæki á sviði orkufreks iðnaðar til að reisa verksmiðjur hér á landi. Haft hefur verið samband við fjölmörg fyrirtæki um allan heim og þeim boðið rekstrarumhverfi sem ekki stendur innlendum fyrirtækjum til boða. Slík boð eiga fyllilega rétt á sér í ljósi þess að fyrirtæki leita þangað sem rekstraraðstæður eru bestar enda skiptir fjarlægð milli verksmiðju og kaupenda vöru minna máli nú en áður. Þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld telji sig vera að bjóða góð starfsskilyrði hefur árangur af leit að fjárfestum til að reisa verksmiðjur hér á landi verið harla lítill síðustu árin. Nýverið rættist þó úr er samningar náðust um stækkun álversins í Straumsvík. Miklar vonir eru bundnar við að stækkun álversins í Straumsvík verði lyftistöng fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf en engu síður er ljóst að fyrst og fremst er um fjármagnsfrekan rekstur að ræða sem ekki skapar nema takmarkaðan fjölda starfa þegar framkvæmdum við byggingu verksmiðjunnar lýkur. Þá er og ljóst að jákvæðra áhrifa stækkunar álversins á vinnumarkaðinn mun aðallega gæta á suðvesturhorni landsins en aðrir landshlutar njóta góðs af með óbeinum hætti. Stjórnvöldum ber því skylda til að huga að því að til landsins flytjist einnig fyrirtæki sem ekki byggja tilveru sína hér einungis á ódýrri orku og takmörkuðum mannafla. Íslenskur atvinnumarkaður þarf einnig á vinnuaflsfrekum rekstri að halda sem hagkvæmt getur talist að staðsetja á öðrum svæðum en suðvesturhorni landsins.
    Íslenskt atvinnulíf hefur í áraraðir byggst öðru fremur á sjósókn og vinnslu sjávarafla enda eru Íslendingar taldir í fremstu röð þeirra þjóða sem vinna og selja fisk. Vinnsla þess afla sem á land berst hefur þó til skamms tíma einkum miðast við að vinna fiskinn sem hráefni til frekari vinnslu í útlöndum og þjóðinni orðið tiltölulega lítið ágengt í að vinna og markaðssetja fullunna vöru í neytendapakkningar. Vitað er að tiltölulega fá fyrirtæki ráða markaði fyrir fullbúna fiskrétti í Evrópu en meðal þeirra fyrirtækja eru Unilever, Findus og Nestlé.
    Íslensku sölusamtökin, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Sjávarafurðadeild Sambandsins, nú Íslenskar sjávarafurðir hf., byggðu á sínum tíma upp fiskréttaverksmiðjur í Bandaríkjunum og Bretlandi sem í áranna rás hafa vaxið og dafnað og eru nú orðin stöndug og góð fyrirtæki. Forsendur þær sem á sínum tíma lágu að baki þeirri ákvörðun að byggja verksmiðjur til fullvinnslu sjávarfangs á erlendri grund eru breyttar að mörgu leyti og gætu þessar verksmiðjur í dag allt eins verið starfræktar á Íslandi eins og erlendis þótt sölukerfi þeirra væri staðsett á viðkomandi markaðssvæði. Enn munu þó vera vandkvæði hvað varðar tolla á fullunna matvöru sem flutt er á markað í Bandaríkjunum og er niðurfelling þeirra eitt þeirra mála sem íslensk stjórnvöld þurfa að beita sér fyrir að samkomulag náist um við þarlend stjórnvöld. Þrátt fyrir breyttar aðstæður geta Íslendingar ekki vænst þess að gróin fyrirtæki stokki upp starfsemi sína og flytji milli landa nema verulegur ávinningur sé af flutningnum. Í veröld þar sem fleiri og fleiri þjóðir bjóða upp á fært og vel þjálfað vinnuafl verða stjórnvöld á Íslandi að bjóða rekstrar- og skattaumhverfi sem er betra en það sem viðkomandi fyrirtæki búa við ef vænta á þess að flutningur komi til greina.
    Fyrir íslenskan vinnumarkað er eftir miklu að slægjast því í fyrirtækjum þessara aðila í Bandaríkjunum og Bretlandi vinna samtals um 1.500 manns. Rétt er þó að geta þess að verksmiðjur þær sem hér um ræðir vinna fisk frá fleiri svæðum en Íslandi. Verksmiðja Sölumiðstöðvarinnar í Bandaríkjunum vinnur t.d. fisk frá Kína, Alaska, Argentínu, Úrúgvæ, Kanada, Noregi, Færeyjum og Hjaltlandseyjum, auk þess fisks sem kemur frá Íslandi. Þótt sölukerfi og hugsanlega frystigeymslur yrðu áfram starfræktar erlendis skapar flutningur á verksmiðjunum sjálfum hingað fleiri ný störf en fjöldi nýrra stóriðjuvera auk þess sem slíkum verksmiðjum yrði vafalítið valinn staður sem næst hráefnisöflun, þ.e. í hinum dreifðu byggðum. Tilkoma stórra vélvæddra matvælaverksmiðja stuðlar einnig að því að hér skapist ný atvinnugrein sem er fullvinnsla matvæla fyrir erlenda markaði. Íslendingar þurfa í upphafi nýrrar aldar að stefna að því að eignast vörumerki sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar á neysluvörumarkaði.
    Í ljósi þessara jákvæðu áhrifa á atvinnulíf í landinu er þingsályktunartillagan flutt. Tillagan gerir ráð fyrir að viðskiptaráðherra taki upp beina samninga við eigendur umræddra fyrirtækja um að þau ráðist í það stórvirki að flytja fiskréttaverksmiðjur sínar hingað til lands eða reisa hér nýjar verksmiðjur. Verði þingsályktunartillagan samþykkt getur ráðherra gengið til samninga við umrædd fyrirtæki um ívilnanir sem taldar eru nauðsynlegar til að fá fyrirtækin hingað, í trausti þess að Alþingi fylgi málinu eftir með setningu laga um skattaívilnanir og afslátt frá gildandi orkuverði sem að mati flutningsmanns er nauðsynlegt til að fyrirtækin standi í þeim umbyltingum og óvissu sem óneitanlega fylgja flutningi fyrirtækja. Flutningsmaður setur fram þá hugmynd að fyrirtækjunum verði boðið tekjuskattsfrelsi í 25 ár og er sá árafjöldi áætlaður út frá auknum kostnaði samfara endurbyggingu hér og afskriftum á búnaði og húsum erlendis sem ekki verða flutt eða komið í verð. Að auki þurfa að koma aðrir þættir tengdir hinum daglega rekstri, eins og lágt orkuverð auk þess að leggja til aðstöðu með sama hætti og í boði er fyrir stóriðju.
    Til glöggvunar fylgja upplýsingar um þau fyrirtæki í eigu umræddra aðila sem til greina kæmi að flytja hingað að mati flutningsmanns.

Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna.
    Markaðir Sölumiðstöðvarinnar eru helstir í Bandaríkjunum, Bretlandi, á meginlandi Evrópu og í Asíulöndum fjær. Sölustarf fyrirtækisins hefur í vaxandi mæli verið flutt sem næst kaupendum vörunnar og er það gert með þeim hætti að hafa sölumenn og söluskrifstofur á viðkomandi markaðssvæði en samræming sölustarfs og miðlun upplýsinga milli markaða fer fram frá höfuðstöðvum fyrirtækisins á Íslandi.
    Árið 1944 opnaði fyrirtækið söluskrifstofu í New York og þremur árum síðar eða árið 1947 stofnaði Sölumiðstöðin fyrirtækið Coldwater Seafood Corporation sem í dag hefur aðalskrifstofur í Roweyton í Connecticut. Fyrirtækið hóf verksmiðjurekstur árið 1954 og var framleiðslan í upphafi fiskstautar og fisksneiðar með brauðmylsnu. Þessi verksmiðja varð fljótlega of lítil og árið 1968 var byggð ný fiskréttaverksmiðja sem starfrækt er í Cambridge í Maryland. Sala verksmiðjuafurða var um 25.000 tonn árið 1994 að verðmæti 104 milljónir dollara eða sem svarar til um 7 milljarða kr. á núverandi gengi. Auk verksmiðjureksturs rekur Coldwater frystigeymslu í Everett í Massachusetts. Samtals vinna um 500 manns fyrir fyrirtækið á þessum þremur stöðum.
     Sölumiðstöðin stofnaði söluskrifstofu í Englandi árið 1956 en árið 1983 var stofnað dótturfyrirtæki, Icelandic Freezing Plants Ltd., auk þess sem reist var mjög fullkomin fiskréttaverksmiðja í Grimsby. Hjá fyrirtækinu vinna nú um 600 manns og nemur sala á verksmiðjuvöru yfir 30 milljónum sterlingspunda eða rúmum 3 milljöarðum íslenskra kr.

Íslenskar sjávarafurðir hf.
    
Íslenskar sjávarafurðir eiga í Bandaríkjunum dótturfélagið Iceland Seafood Corporation (75,9% eignarhlutur) sem rekur verksmiðju í Harrisburg. Sala fyrirtækisins á árinu 1994 nam tæpum 122 milljónum dollara en flutningsmaður þingsályktunartillögu þessarar hefur ekki upplýsingar um það hvernig sú sala skiptist í umboðssölu annars vegar og sölu á verksmiðjuframleiddum fiskréttum hins vegar. Starfsmannafjöldi félgsins í Bandaríkjunum er tæplega 400 manns.