Ferill 338. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 338 . mál.


593. Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 1995.

1.    Inngangur.
    Frá falli Berlínarmúrsins hefur Evrópuráðið gegnt stóru hlutverki í því að styðja þjóðir Mið- og Austur-Evrópu á leið þeirra til lýðræðis. Fjölmargir sáttmálar, sem Evrópuráðið hefur sett um hin ýmsu svið þjóðlífsins, þar sem hæst ber að sjálfsögðu mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að stofna eða endurreisa lýðræði og réttarríki í sínu landi. Að sama skapi hefur aðildarríkjum Evrópuráðsins fjölgað gífurlega frá árinu 1988 er þau voru 22 til janúar 1996 er Evrópuráðsþingið mælti með því að Rússlandi yrði boðið að gerast 39. aðildarríki ráðsins. Á árinu 1995 fengu Lettland, Moldavía, Albanía, Úkraína og fyrrum júgóslavneska lýðveldið Makedónía aðild að Evrópuráðinu. Jafnframt hafa Bandaríki Norður-Ameríku og Japan óskað eftir áheyrnaraðild að Evrópuráðsþinginu. Áhugi á störfum ráðsins fer því sífellt vaxandi og ólíkt flestum öðrum svokölluðum Evrópustofnunum eiga flest Evrópuríki nú sæti og rödd í sal Evrópuráðsþingsins.
    Á 118. þingi var Íslandsdeildin þannig skipuð að aðalmenn voru: Björn Bjarnason, formaður, Sjálfstæðisflokki, Guðmundur Bjarnason, varaformaður, Framsóknarflokki, og Sigbjörn Gunnarsson, Alþýðuflokki, en varamenn voru: Ragnar Arnalds, Alþýðubandalagi, Kristín Ástgeirsdóttir, Samtökum um kvennalista, og Lára Margrét Ragnarsdóttir, Sjálfstæðisflokki. Á 119. þingi voru eftirtaldir þingmenn skipaðir í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins til fjögurra ára sem aðalmenn: Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Sjálfstæðisflokki, Ólafur Ragnar Grímsson varaformaður, Alþýðubandalagi, og Hjálmar Árnason, Framsóknarflokki; sem varamenn: Tómas Ingi Olrich, Sjálfstæðisflokki, Ólafur Örn Haraldsson, Framsóknarflokki, og Hjálmar Jónsson, Sjálfstæðisflokki. Ritari Íslandsdeildarinnar er Þórður Bogason.
    Í byrjun september tók Sveinn Á. Björnsson sendifulltrúi upp fast aðsetur í Strassborg og annast daglegan rekstur skrifstofu utanríkisráðuneytisins hjá Evrópuráðinu. Er þessi tilhögun einnig mikill styrkur fyrir Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins hvað varðar upplýsingaflæði og ýmiss konar aðstoð.

2.    Fyrsti hluti þings Evrópuráðsins 1995.
    Dagana 30. janúar – 3. febrúar 1995 var I. hluti þings Evrópuráðsins 1995 haldinn í Strassborg. Þingið sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Björn Bjarnason, formaður, Guðmundur Bjarnason, varaformaður, Kristín Ástgeirsdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir og Þóra Guðnadóttir, ritari sendinefndarinnar.
    Í upphafi þingsins var Miguel-Angel Martínez endurkjörinn forseti þingsins. Þingið samþykkti aðild Lettlands að ráðinu; var það síðast Eystrasaltsríkjanna til að fá aðild.
    Að þessu sinni bar hæst umræður um atburðina í Tsjetsjeníu og endurskoðun umsóknar Rússlands að Evrópuráðinu í ljósi þeirra atburða. Eftir miklar umræður, þar sem stríðsaðgerðir Rússa í Tsjetsjeníu voru harðlega gagnrýndar, ákvað þingið að slá á frest starfi á vegum þingsins varðandi umsögn þess um aðildarumsókn Rússlands. Þetta mál var að nýju tekið upp á IV. hluta þingsins í september. Í tengslum við þessa umræðu sat Sergei Kovalev, mannréttindafrömuður og fyrrum andófsmaður frá Rússlandi, fyrir svörum á fundi þriggja þingnefnda.
    Þrír þjóðarleiðtogar ávörpuðu þingið: Vaclav Klaus, forsætisráðherra Tékklands, Edouard Balladur, forsætisráðherra Frakklands, og Mario Soares, forseti Portúgals. Formaður ráðherranefndarinnar og utanríkisráðherra Kýpur, Alecos P. Michaelides, gerði þinginu grein fyrir störfum nefndarinnar og svaraði spurningum þingmanna. Kosnir voru sjö dómarar Evrópudómstólsins frá eftirtöldum aðildarríkjum: Austurríki, Lúxemborg, Hollandi, Noregi, Portúgal, Spáni og Tyrklandi.
    Umhverfisár Evrópu var sett við formlega athöfn en Evrópuráðið mun fylgja því eftir með ráðstefnu á þessu ári, um hlutverk félagasamtaka (Non-Governmental Organizations) í umhverfismálum. Í tilefni setningarinnar var opnuð ljósmyndasýning um umhverfisáhrif, en Sigrún Stefánsdóttir fréttamaður hlaut fyrstu verðlaun fyrir mynd sína af 33 myndum sem valdar voru á sýninguna.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir var einróma endurkjörin formaður nefndar um samskipti milli þjóðþinga og við almenning.
    Þingið ályktaði um eftirfarandi málefni:
    um störf nefndar Sameinuðu þjóðanna um efnahagsmál Evrópu, en störf nefndarinnar miða aðallega að því að aðstoða við efnahagsumbætur í Austur-Evrópu,
    um ástandið á Kýpur,
    um versnandi aðstöðu í fangelsum í Evrópu,
    um áætlun um umhverfismenntun sem hluta af kennaranámi,
    um drög að sáttmála um lífsiðfræði,
    um héruð í Evrópu og ráðstefnu sveitarstjórna í Evrópu (CLRAE),
    um stefnu í félagsmálum og pólitískt jafnvægi í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu,
    um alþjóðlega ráðstefnu um fólksfjölda og þróun sem haldin var í Kaíró á sl. ári, og tók Kristín Ástgeirsdóttir þátt í þeirri umræðu.

3.    Annar hluti þings Evrópuráðsins 1995.
    Dagana 24.–28. apríl var II. hluti þings Evrópuráðsins 1995 haldinn í Strassborg og sóttu það Lára Margrét Ragnarsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir og Þóra Guðnadóttir, ritari sendinefndarinnar.
    Á þinginu bar hæst umræðu um hernaðaraðgerðir Tyrkja í Norður-Írak. Samþykkt var tillaga um að fordæma aðgerðir þeirra.
    Þingið ályktaði m.a. um eftirfarandi málefni:
    um drög að Evrópusáttmála um réttindi barna,
    um félagsmál og aðlögun í breyttri Evrópu,
    um evrópska samvinna á sviði menningarmála,
    um skuldbindingar og skyldur aðildarríkja Evrópuráðsins,
    um samvinnu í þróunarmálum,
    um sjöttu Evrópuráðstefnu um landamæraríki,
    um gæðamat í heilsugæslu og læknismeðferð,
    um jafnrétti kynjanna varðandi eftirnöfn barna.
    Þrír þjóðarleiðtogar ávörpuðu þingið: Jean Videnov, forsætisráðherra Búlgaríu, Lennart Meri, forseti Eistlands, og Gyula Horn, forsætisráðherra Ungverjalands.
    Alecos Michaelides, utanríkisráðherra Kýpur og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, gerði þinginu grein fyrir störfum nefndarinnar frá síðasta þingi.
    Á þinginu var kjörinn dómari í mannréttindadómstól Evrópu frá Belgíu.

4.    Þriðji hluti þings Evrópuráðsins 1995.
    Dagana 26.–30. júní var III. hluti þings Evrópuráðsins á árinu 1995 haldinn í Strassborg og sóttu það Lára Margrét Ragnarsdóttir, Ólafur Ragnar Grímsson, Hjálmar Árnason, Hjálmar Jónsson, Tómas Ingi Olrich og Þóra Guðnadóttir, ritari sendinefndarinnar.
    Á þinginu var samþykkt að mæla með aðild Moldavíu og Albaníu að Evrópuráðinu en aðalmálefni þingsins var umræða um baráttu gegn kynþáttafordómum og ýmsir viðburðir tengdir þeirri umræðu. Þá fjallaði þingið um félagsþróunarsjóð Evrópuráðsins, um málefni Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu og um ástand mála í Bosníu.
    Þingið ályktaði að auki um eftirfarandi efni:
    um drög að Evrópusáttmála um fjallasvæði,
    um áhrif sjónmyndar (visual image).
    Eftirfarandi ávörpuðu þingið: Maris Gailis, forsætisráðherra Lettlands, Ingvar Karlsson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Mario Frick, forsætisráðherra Liechtenstein, Muhamed Sacirbey, utanríkisráðherra Bosníu, Mackay of Clashfern lávarður, forseti bresku lávarðadeildarinnar.
    Á þinginu var kjörinn dómari í mannréttindadómstól Evrópu frá Lettlandi.

5.    Fjórði hluti þings Evrópuráðsins 1995.
    Dagana 25.–29. september 1995 var fjórði og síðasti hluti þings Evrópuráðsins á árinu 1995 haldinn í Strassborg. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sóttu þingið Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Ólafur Ragnar Grímsson, Hjálmar Árnason, Tómas Ingi Olrich og Ólafur Örn Haraldsson auk Þórðar Bogasonar, ritara sendinefndarinnar.
    Að vanda fóru meginstörf þingsins fram á þingfundum en auk þess voru fundir í fastanefndum þingsins og í þingflokkum.
    Á mánudeginum 25. september var auk hefðbundinna þingstarfa rætt og ályktað um skýrslu um flóttamenn í Mið- og Austur-Evrópu og um skýrslu um vinnustundir. Konungur Jórdaníu, Hussein, ávarpaði þingið og svaraði spurningum þingmanna. Þá fluttu Birgitta Dahl, forseti sænska þingsins, og Zoltan Gal, forseti ungverska þingsins, ávörp.
    Þriðjudaginn 26. september var ítarlega fjallað um aðildarumsókn Úkraínu að Evrópuráðinu og mælti þingið með aðild. Í tilefni af því flutti Oleksandre Moroz, forseti úkraínska þingsins ávarp. Einnig var samþykkt eftir ítarlegar umræður að fela stjórnmálanefnd þingsins að hefja aftur vinnu við álit þingsins um umsókn Rússlands að Evrópuráðinu en þeim ferli hafði verið frestað fyrr á árinu vegna ástandsins í Tsjetsjeníu. Ákvörðun var síðan tekin á I. hluta þings Evrópuráðsins í janúar 1996 að mæla með aðildarumsókn Rússlands, sjá frásögn af þeim fundi á fylgiskjali.
    Þjóðhöfðingi Moldavíu, Mircea Snegur, og Sodano kardínáli, utanríkisráðherra Vatíkansins, fluttu ávörp og svöruðu fyrirspurnum þingmanna. Þá flutti Blagovest Sendov, forseti búlgarska þingsins, ávarp. Að lokum gerði Josef Zieleniec, utanríkisráðherra Tékklands, grein fyrir störfum ráðherranefndar Evrópuráðsins.
    Miðvikudaginn 27. september var eftir umræður ályktað um ástandið í ríkjum fyrrum Júgóslavíu. Þá var rætt um skýrslu stjórnmálanefndarinnar um fyrirhugaða ríkjaráðstefnu ESB á næsta ári og bráðabirgðaskýrslu sem undirbúningshópur að ráðstefnunni skilaði í september. Formaður undirbúningshópsins, Carlos Westendorp, Evrópumálaráðherra Spánar, flutti ávarp. Tvær fastanefndir þingsins skiluðu áliti um skýrslu stjórnmálanefndarinnar, efnahags- og þróunarnefndin og nefnd um almannatengsl og samskipti við þjóðþing, og var Lára Margrét Ragnarsdóttir framsögumaður síðari nefndarinnar. Ályktaði þingið um þetta efni. Einnig var ályktað um hugsanlega aðild Evrópusambandsins að mannréttindasáttmála Evrópu og flutti Rolv Ryssdal, forseti mannréttindadómstólsins í Strassborg, ávarp af því tilefni. Eftir miklar umræður samþykkti þingið að mæla með umsókn fyrrum júgóslavneska lýðveldsins Makedóníu (Former Yugoslav Republic of Macedonia — FYROM) um aðild að Evrópuráðinu. Af því tilefni flutti Stoyan Andov, forseti makedóníska þingsins, ávarp. Með aðild Úkraínu og Makedóníu urðu aðildarríki Evrópuráðsins 38 talsins. Oliviu Gherman, forseti rúmenska þingsins, futti ávarp þennan dag. Þá var tilkynnt að þingmenn hefðu kjörið Bruno Haller skrifstofustjóra þingsins til fimm ára. Hann var áður varaskrifstofustjóri.
    Fimmtudaginn 28. september fór fram árleg umræða um ársskýrslu Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar (OECD). Kynnti Jean-Claude Paye, framkvæmdastjóri OECD, skýrsluna. Sendinefndir frá þjóðþingum Ástralíu, Kanada, Japans og Mexíkó og frá Evrópuþinginu tóku þátt í umræðunni. Þá flutti Helmut Kohl, kanslari Þýskalands, ávarp og svaraði fyrirspurnum þingmanna. Við það tækifæri bar Lára Margrét Ragnarsdóttir fram fyrirspurn um hvort ríki ESB gætu tekið upp enn nánari pólitíska samvinnu á sama tíma og þau hygðust bjóða ríkjum Mið- og Austur-Evrópu aðild að sambandinu.
    Á lokadegi þingsins var rætt og ályktað um skýrslu um tækniframfarir sem munu á næstu árum gegna meginhlutverki í viðskiptalífi og mannlegu samfélagi.

6.    Nefndastörf.
a.    Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir.
    Þátttaka Íslandsdeildarinnar í nefndum skiptist þannig:
    Sameiginleg nefnd með ráðherranefnd:     Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Fastanefnd:     Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Stjórnmálanefnd:     Lára Margrét Ragnarsdóttir
                  til vara:     Ólafur Ragnar Grímsson
    Laganefnd:     Ólafur Ragnar Grímsson
                  til vara:     Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Efnahagsnefnd:     Ólafur Ragnar Grímsson
                  til vara:     Hjálmar Jónsson
    Umhverfis-, skipulags- og
        sveitarstjórnarmálanefnd:     Ólafur Örn Haraldsson
                  til vara:     Hjálmar Árnason
    Þingskapanefnd:     Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Fjárlaganefnd:     Hjálmar Jónsson
    Landbúnaðarnefnd:     Ólafur Örn Haraldsson
                  til vara:     Hjálmar Jónsson
    Vísinda- og tækninefnd:     Tómas Ingi Olrich
                  til vara:     Hjálmar Árnason
    Mennta- og menningarmálanefnd:     Hjálmar Árnason
                  til vara:     Tómas Ingi Olrich
    Heilbrigðis- og félagsmálanefnd:     Hjálmar Jónsson
    Nefnd um samskipti við lönd utan
        Evrópuráðsins:     Tómas Ingi Olrich
    Flóttamannanefnd:     Hjálmar Árnason
    Nefnd um almannatengsl þingsins:     Lára Margrét Ragnarsdóttir

a.    Þátttaka í nefndarfundum utan þinga.     
    
Utan reglulegra þinga halda nefndir Evrópuráðsþingsins nokkra fundi árlega, ýmist í Strassborg, París eða í einhverju aðildarríkja ráðsins. Hafa fulltrúar Íslandsdeildarinnar á undanförnum árum tekið þátt í að meðaltali 12 slíkum nefndafundum, en fundasókn varð nokkru minni árið 1995 vegna kosninga til Alþingis.

Alþingi, 23. febr. 1996.



Lára Margrét Ragnarsdóttir,

Ólafur Ragnar Grímsson,

Hjálmar Árnason.


form.

varaform.



Tómas Ingi Olrich.

Ólafur Örn Haraldsson.

Hjálmar Jónsson.





Fylgiskjal.


Frásögn af I. hluta þings Evrópuráðsins 1996.


    Dagana 22.–26. janúar 1996 var I. hluti þings Evrópuráðsins á árinu 1996 haldinn í Strassborg í Frakklandi. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sóttu þingið Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Hjálmar Árnason, Tómas Ingi Olrich og Hjálmar Jónsson auk Þórðar Bogasonar, ritara Íslandsdeildarinnar. Að vanda fóru meginstörf þingsins fram á þingfundum en auk þess voru fundir í fastanefndum þingsins og í þingflokkum. Aðalumræðuefni þessa þings var aðildarumsókn Rússlands að Evrópuráðinu en hún var tekin til formlegrar afgreiðslu fimmtudaginn 25. janúar.
    Á mánudeginum 22. janúar hófst þingfundur á kjöri forseta Evrópuráðsþingsins og var Leni Fischer, kristilegur demókrati frá Þýskalandi, einróma kjörin. Voru Spánverjanum Miguel Angel Martinez, fráfarandi forseta, færaðar þakkir fyrir sérstaklega góð störf í þágu Evrópuráðsþingsins. Á fundi í nefnd þingsins um almannatengsl og samskipti við þjóðþing var Lára Margrét Ragnarsdóttir endurkjörin formaður nefndarinnar til eins árs. Auk hefðbundinna þingstarfa var á mánudeginum rætt um skýrslu um sagnfræði og sögukennslu evrópskra barna. Vegna takmörkunar á ræðutíma varð Lára Margrét Ragnarsdóttir að leggja fram skriflega ræðu sína í þessu máli. Í henni lagði Lára Margrét áherslu á mikilvægi þessa málaflokks og vitnaði til Íslendingasagnanna máli sínu til stuðnings. Þá flutti Tomas Savvin, forseti eistneska þingsins, ávarp.
    Þriðjudaginn 23. janúar var fjallað um upplýsingasamfélagið og lýðræði (Electronic democracy) og var fastanefnd þingsins um almannatengsl og tengsl við þjóðþing falið að vinna nánar að þeirri skýrslu í samvinnu við fjórar aðrar nefndir þingsins. Þá var eftir umræður ályktað um vísinda- og tæknisamvinnu við ríki Mið- og Austur-Evrópu, um evrópska umhverfisstefnu og um rétt þjóðarbrota í Evrópu. Þennan dag flutti Flavio Cotti, utanríkisráðherra Sviss og formaður ráðherraráðs Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ávarp og svaraði fyrirspurnum þingmanna.
    Miðvikudaginn 24. janúar var eftir umræður ályktað um evrópska uppeldisstefnu (European strategy for children) og lagði Hjálmar Jónsson fram skriflega ræðu í málinu vegna takmörkunar á ræðutíma. Í henni lagði hann áherslu á að frumábyrgð á uppeldi barna beri foreldrar þeirra. Þá var rætt um skýrslu um ástand flóttamanna og uppbyggingu í nokkrum ríkjum fyrrum Júgóslavíu og ályktað um hana. Marti Ahtisaari, forseti Finnlands, ávarpaði þingið og svaraði fyrirspurnum. Þá gerði Niels Helveg Pedersen, utanríkisráðherra Dana og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, grein fyrir störfum ráðherranefndarinnar. Á miðvikudeginum átti íslenska sendinefndin hádegisverðarfund með Sverri Hauki Gunnlaugssyni sendiherra og Sveini Á. Björnssyni sendifulltrúa, en Sveinn hefur fast aðsetur í Strassborg.
    Fimmtudaginn 25. janúar var eingöngu helgaður umræðum um aðild Rússlands að Evrópuráðinu. Níutíu þingmenn voru á mælendaskrá en ræðutími var takmarkaður við fimm mínútur. Þrátt fyrir takmörkun ræðutíma gátu einungis rúmlega 50 þingmenn flutt ræður sínar munnlega en aðrir þurftu að leggja þær fram skriflega. Lára Margrét Ragnarsdóttir og Hjálmar Árnason fluttu munnlegar ræður en Tómas Ingi Olrich lagði fram skriflega ræðu. Í ræðu sinni lýsti Lára Margrét yfir vonbrigðum með hve hægt miðaði í lýðræðisátt í Rússlandi og lagði áherslu á að með frestun á afgreiðslu umsóknarinnar væri Evrópuráðsþingið ekki að hafna Rússum heldur hvetja þá til að hraða umbótum. Hjálmar Árnason lagði áherslu á að lýðræðisþróun í Rússlandi hlyti óhjákvæmilega að taka langan tíma en Rússland hefði lýst sig reiðubúið að virða lýðréttindi og hagsmunum lýðræðisaflanna væri best borgið með aðild að Evrópuráðinu. Tómas Ingi Olrich varaði við því að gera of mikið úr afleiðingum ákvörðunar þingsins í þessu máli og taldi það ekki skaða lýðræðisþróun í Rússlandi þótt aðildarumsókn þess yrði frestað. Hann benti á að efnahagsmál skiptu fólkið í landinu mestu og góður eða slæmur efnahagur skipti sköpum um framgang lýðræðis. Eftir mjög ítarlegar umræður samþykkti þingið, að viðhöfðu nafnakalli, að mæla með inngöngu Rússlands í Evrópuráðið. Alls greiddu 214 þingmenn atkvæði, 164 voru fylgjandi inngöngu Rússlands, 35 greiddu atkvæði gegn henni en 15 sátu hjá. Hjálmar Árnason greiddi atkvæði með inngöngu Rússlands, Tómas Ingi Olrich greiddi atkvæði á móti henni en Lára Margrét Ragnarsdóttir sat hjá. Á fimmtudeginum voru þar að auki flutt þrjú ávörp. Fyrst flutti forseti þings Slóvakíu, Ivan Gasparovic, ávarp, þá forseti tékkneska þingsins, Milan Uhde, og að lokum ávarpaði John Bruton, forsætisráðherra Írlands, þingið og svaraði fyrirspurnum.
    Á lokadegi þingsins var rætt og ályktað um skýrslur um ástand efnahagsmála í Hvíta-Rússlandi, Rússlandi og Úkraínu og um dýravernd og gripaflutninga innan Evrópu.
    II. hluti þings Evrópuráðsins fyrir árið 1996 verður 22.–26. apríl nk.