Ferill 278. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 278 . mál.


617. Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Kristínar Ástgeirsdóttur um framkvæmd Íslendinga á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og sáttmála um afnám alls misréttis gegn konum.

    Hvaða athugasemdir gerði nefnd Sameinuðu þjóðanna við framkvæmd Íslendinga á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er fulltrúar Íslands voru kallaðir á fund hennar í Genf nú í janúar? Hvaða skýringu gáfu íslensk stjórnvöld?

    Tillögur og tilmæli nefndar Sameinuðu þjóðanna til íslenskra stjórnvalda varðandi framkvæmd Íslendinga á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er að finna í eftirfarandi liðum 18–26:
    18.    Nefndin hvetur íslensk stjórnvöld til að athuga möguleika á að afturkalla yfirlýsingar sínar varðandi samninginn og óskar þess að fylgjast með því sem gerast kann í þeim efnum.
    19.    Nefndin mælist til þess að gerðar verði ráðstafanir til að öll ákvæði samningsins, sem efnislega þýðingu hafa, komi fram í landslögum og reglugerðum þannig að tryggt sé að þau réttindi sem talin eru í samningnum njóti fullrar verndar.
    20.    Nefndin mælist til þess að stjórnvöld stuðli að samræmingu á stefnu ríkisvaldsins og milli þess og sveitarstjórna á sviði réttinda barna í því skyni að útrýma hugsanlegum mismun eða misrétti hvað snertir framkvæmd samningsins og tryggja að samningurinn sé virtur að fullu alls staðar á Íslandi.
    21.    Nefndin hvetur til þess að stjórnvöld fylgi eftir og móti enn frekar þá stefnu sína að kynna samninginn og stuðla að aukinni meðvitund um hann. Hún hvetur einnig stjórnvöld til að fella fræðslu um samninginn og réttindi barna inn í námsefni fagfólks sem sinnir börnum, svo og inn í námsefni skóla.
    22.    Nefndin mælist til þess að tryggðar verði fjárveitingar að því marki sem framast er unnt, í ljósi 4. gr. samningsins, en hún fjallar um eflingu efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda. Í því samhengi beri einnig að hafa hliðsjón af 2. gr., um aðgerðir gegn mismunun barna, og 3. gr. samningsins, að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang, í því skyni að fyrirbyggja að börn víðs vegar á landinu njóti ekki sambærilegrar þjónustu.
    23.    Nefndin mælist einnig til þess að stjórnvöld taki til athugunar að styrkja alþjóðlega samvinnu og aðstoð til framdráttar réttindum barna.
    24.    Nefndin leggur til að viðeigandi ráðstafanir verði gerðar til að vinna gegn launamisrétti á milli karla og kvenna þar sem slíkt getur skaðað hagsmuni barna, einkum á heimilum sem einstæðar mæður veita forstöðu.
    25.    Nefndin mælist til þess að reglur um málsmeðferð forsjármála og um aðskilnað barna frá foreldrum sínum (forsjársviptingar) sæti frekari endurskoðun svo að tryggt sé að hagsmunir barnsins séu ætíð hafðir að leiðarljósi.
    26.    Í ljósi 6. mgr. 44. gr. samningsins leggur nefndin að lokum til að skýrslan verði sem víðast gerð aðgengileg íslenskum almenningi og að umfjöllun nefndarinnar um hana verði gerð opinber með því að birta samantekt um fundargerðir af fundinum og lokaathugasemdir nefndarinnar.
    Í fylgiskjali I er að finna nánari upplýsingar af fundinum í Genf í janúar 1996.

    Hvaða athugasemdir gerði nefnd Sameinuðu þjóðanna við framkvæmd Íslendinga á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um afnám alls misréttis gegn konum er fulltrúar íslenskra stjórnvalda voru kallaðir á fund hennar nú í janúar í New York? Hvaða skýringar gáfu íslensk stjórnvöld?
    Nefnd Sameinuðu þjóðanna um sáttmála um afnám alls misréttis gegn konum gerði eftirfarandi athugasemdir í formi tillagna og tilmæla:
—    Nefndin leggur til að í reglulegum skýrslum íslenskra stjórnvalda hér eftir verði greinargerðir um hverja grein sáttmálans og almenn tilmæli hans.
—    Nefndin leggur til að í framtíðinni verði tölulegar upplýsingar kynskiptar í reglulegum skýrslum og að íslensk stjórnvöld fari að almennum tilmælum nr. 9.
—    Nefndin leggur til að stjórnvöld geri ráðstafanir til þess að tryggja að grundvallaratriði sáttmálans séu að fullu felld inn í íslensk lög og að íslenskir dómstólar geti framfylgt þeim. Nefndin hvetur stjórnvöld sérstaklega til þess að stuðla að upplýsingasöfnun, sundurliðaðri eftir kynjum, um þörfina fyrir heilbrigðisþjónustu til þess að móta heilbrigðisstefnu er taki tillit til þarfa kynjanna.
—    Til þess að unnt sé að gera íslenskum dómstólum kleift að framfylgja sáttmálanum mælir nefndin með aðgerðum til að kynna íslenskum dómstólum áætlun um upplýsingadreifingu og fræðslu varðandi sáttmálann.
—    Nefndin hvetur íslensk stjórnvöld til þess að halda áfram skilgreindum aðgerðum sínum varðandi launajöfnuð kynjanna fyrir sambærileg störf og að stuðla að launajöfnuði á öllum sviðum atvinnulífs samkvæmt tilmælum nr. 13. Jafnframt fer nefndin fram á að í skýrslum, sem sendar verða hér eftir, verði upplýsingar um þetta atriði þegar fjallað er um niðurstöður yfirstandandi starfsmats.
—    Nefndin leggur til að aðgerðum verði hrint í framkvæmd svo fljótt sem verða má, t.d. með því að samþykktar verði skýrar starfsáætlanir er tryggi að konur verði tilnefndar í stöður þar sem ákvarðanir eru teknar og sem stuðli að því að þær gegni leiðandi hlutverkum á öllum sviðum atvinnulífs.
—    Nefndin leggur til að í framtíðinni endurspegli skýrslur greiningu á áhrifum aðgerða er varða starfsmat.
—    Nefndin telur að ekki sé nægjanlegt að endurskoða lög um fæðingarorlof til þess að ná markmiðinu um jafnara vægi fjölskylduábyrgðar milli karla og kvenna. Nefndin leggur því til að stjórnvöld grípi til annarra ráðstafana til þess að auka þátttöku karla í heimilisstörfum og umsjón barna og að tillit sé tekið til eðlis launaðra starfa bæði karla og kvenna innan og utan veggja heimilisins.
—    Jafnframt ætti ríkisstjórnin að leggja enn meiri áherslu á að byggja upp skipulagða fræðslustarfsemi á sínum snærum sem ynni gegn hefðbundnum hugmyndum um hlutverk kynjanna og beindist að því að opna augu barna og fullorðinna.
—    Nefndin mælir með því að stjórnvöld láti kanna hvort munur er á fjölda karla og kvenna í hlutastörfum þar sem slíkt getur gefið til kynna óbeina mismunun gegn konum á vinnumarkaði.
—    Nefndin leggur til að sáttmálinn verði kynntur innan dómskerfisins.
—    Nefndin telur, þrátt fyrir fyrra frumkvæði í þá veru, að kanna ætti mat ólaunaðra starfa karla og kvenna.
—    Nefndin mælir með því að staða kvenna á landsbyggðinni verði styrkt á öllum sviðum, þar með taldir möguleikar þeirra til þess að starfa utan heimilisins.
—    Nefndin hvetur íslensk stjórnvöld til þess að auka upplýsingastarfsemi sína meðal útlendra kvenna, sérstaklega er varðar réttindi kvenna á Íslandi. Til þess að tryggja vernd útlendra kvenna hvetur nefndin íslensk stjórnvöld jafnframt til þess að þau haldi áfram að veita viðeigandi heilbrigðis- og ráðgjafarþjónustu og að þau fylgist með vaxandi fjölda hjónabanda íslenskra karla og aðfluttra erlendra kvenna.
—    Nefndin mælist til þess að breyting verði gerð á jafnréttislögunum til að tryggja að hvort kyn eigi a.m.k. 40% fulltrúa í opinberum nefndum og ráðum.
—    Með tilvísun til árangursríkra aðgerða hvar snertir jafnréttismenntun í ýmsum skólum mælir nefndin með því að nám um jafnrétti og mannréttindi verði skylda í íslenskum skólum.
—    Nefndin mælist til þess að ríkisstjórnin láti fella niðurstöður kvennarannsókna inn í endurskoðað námefni í skólum og hið sama verði gert í menntun og þjálfun kennara til þess að auðveldara verði að útrýma rótgrónum hugmyndum um hlutverk karla og kvenna.
—    Nefndin hvetur ríkisstjórnina til þess að tileinka sér það viðhorf að ofbeldi gegn konum sé heilbrigðismál og greiði fyrir því að skýrslur um ofbeldi verði einnig teknar hjá þeim sem annast almenna heilsugæslu.
    Þá fylgir til fróðleiks skýrsla framkvæmdastjóra skrifstofu jafnréttismála til Jafnréttisráðs, sjá fylgiskjal II.



Fylgiskjal I.


Fundur með nefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf í janúar 1996 um


framkvæmd Íslendinga á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.



Inngangur.
    Í lok árs 1994 var skýrslu íslenskra stjórnvalda um framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skilað og hafði dómsmálaráðuneytið veg og vanda af henni. Samkvæmt barnasáttmálanum starfar sérstök eftirlitsnefnd er fylgist með framkvæmd hans. Í desember 1995 sendi eftirlitsnefndin ítarlegan spurningalista um atriði sem hún vildi fá nánari skýringar á til undirbúnings fyrirhuguðum fundi með fulltrúum íslenskra stjórnvalda. Svör við þessum spurningum voru unnin af hálfu dómsmálaráðuneytis, ásamt þeim fagráðuneytum sem málið varðaði, þ.e. félagsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og menntamálaráðuneyti. Dagana 16. og 17. janúar 1996 boðaði eftirlitsnefndin fulltrúa íslenskra stjórnvalda til fundar um skýrsluna. Eftirtaldir skipuðu íslensku sendinefndina:
         Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra í fastanefnd Íslands í Genf,
         Björg Thorarensen deildarstjóri, fulltrúi dómsmálaráðuneytis,
         Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, fulltrúi félagsmálaráðuneytis,
         Dögg Pálsdóttir hdl., fulltrúi heilbrigðisráðuneytis,
         Hrólfur Kjartansson skrifstofustjóri, menntamálaráðuneytinu.
    Nú liggja fyrir lokaathugasemdir eftirlitsnefndarinnar um framkvæmd Íslands á barnasáttmálanum í kjölfar fundarins og eru þær til í íslenskri þýðingu. Hér verður gerð grein fyrir aðalatriðum þessara athugasemda. Athugasemdunum má skipta í þrennt, það sem nefndin lýsir ánægju sinni með, helstu áhyggjuefni og loks ábendingar og tilmæli.

Athugasemdir eftirlitsnefndarinnar.


Jákvæð atriði:
    1. Um leið og eftirlitsnefndin þakkaði íslenskum stjórnvöldum yfirgripsmikla skýrslu um framkvæmd samningsins lýsti nefndin yfir ánægju með þá sjálfsgagnrýnu aðferð sem viðhöfð var við meðferð málsins. Nærvera sendinefndar háttsettra fulltrúa gerði nefndinni kleift að eiga uppbyggilegar viðræður við fólk sem beinlínis fæst við framkvæmd sáttmálans.
    2. Nefndin fagnar þeirri yfirlýsingu sendinefndarinnar að yfirlýsingar sem Ísland gerði við fullgildingu samningsins varðandi 1. mgr. 9. gr. og c-lið 37. gr. kunni að verða endurskoðaðar með tilliti til afturköllunar þeirrar síðar. Greinar þessar varða annars vegar það að ákvarðanir um aðskilnað barns frá foreldrum sínum skuli vera háðar endurskoðun dómstóla (9. gr.) og hins vegar að hverju því barni sem svipt er frjálsræði sínu skuli haldið aðskildu frá fullorðnum nema ástæður mæli gegn því (37. gr.).
    3. Nefndinni er það ánægjuefni að veita athygli aukinni mannréttindavernd í stjórnarskránni, almennt, þar á meðal einkum aukinni vernd réttinda barna. Fagnar nefndin því sérstaklega að ákvæði sem beinlínis byggist á 2. mgr. 3. gr. samningsins hefur verið fellt inn í stjórnarskrána. Nefndin veitir því jafnframt athygli, eins og segir í lokaathugasemdum hennar, að Ísland hefur nýlega fullgilt mikilvæga gerninga á sviði þjóðaréttar, svo sem Haagsamninginn um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa og Evrópusamninginn um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endurheimt forsjár barna. Þarna gætir nokkurrar ónákvæmni af hálfu eftirlitsnefndarinnar þar sem þessir samningar hafa ekki enn verið fullgiltir enda þótt Alþingi hafi afgreitt lög þar að lútandi nú í vetur. Þá kemur fram í lokaathugasemdum nefndarinnar að þeirri fyrirætlun stjórnvalda að fullgilda í náinni framtíð samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, nr. 138, um lágmarksaldur til launaðra starfa sé einnig veitt athygli með velþóknun. Þarna gætir jafnframt nokkurs misskilnings hjá nefndinni þar sem slík ákvörðun liggur ekki fyrir að hálfu íslenskra stjórnvalda. Hið rétta er að þetta mál hefur verið til sérstakrar meðferðar af hálfu félagsmálaráðuneytisins og liggja niðurstöður enn ekki fyrir.
    4. Nefndin fagnar stofnun embættis umboðsmanns barna og hlutverki þess við að kynna réttindi barna meðal almennings og að stuðla að því að fylgt sé þjóðréttarlegum samningum sem Ísland hefur fullgilt og varða þau réttindi, m.a. samninginn.
    5. Nefndin fagnar einnig stofnun Barnaverndarstofu á síðastliðnu ári. Starf hennar sem miðstjórnarvalds, er veitir barnaverndarnefndum aukinn stuðning, skipuleggur fræðslu fyrir fólk sem tekur sæti í barnaverndarnefndum og veitir fósturforeldrum upplýsingar og undirbýr þá undir hlutverk sitt, er afar mikilvægt til að bæta framkvæmd þeirra réttinda sem talin eru í samningnum.
    6. Nefndin viðurkennir það sem stjórnvöld hafa gert til að leita nýrra leiða við að tryggja árangursríka kynningu á samningnum, svo sem stofnun samstarfshóps ráðuneyta í því skyni.
    7. Nefndin fagnar stofnun slysavarnarráðs árið 1994, einkum með tilliti til þess hve slys, sem börn verða fyrir á heimilum og annars staðar, eru algeng á Íslandi.
    8. Nefndin fagnar því frumkvæði menntamálaráðuneytis að setja á fót samstarfsnefnd margra ráðuneyta til að móta heildarstefnu í málefnum innflytjenda og samræma störf stjórnvalda í þeim málaflokki. Jafnframt lýsir nefndin ánægju með að frá hausti 1993 hafi verið sérstök áætlun í gangi um menntunarmál innflytjenda á öllum skólastigum, frá leikskólum til framhaldsskóla svo og í fullorðinsfræðslu.
    9. Nefndin lítur á stofnun flóttamannaráðs sem skipuleggi komu og móttöku flóttamanna til Íslands sem mjög jákvæða aðgerð. Nefndin fagnar jafnframt fyrirhugaðri lagabreytingu sem fellir úr gildi þá kröfu að umsækjandi um íslenskt ríkisfang skuli bæta íslensku nafni við upphaflega nafn sitt.
    10. Hvað snertir 2. mgr. 7. gr. samningsins, sem lýtur að rétti barns til ríkisfangs, veitir nefndin með velþóknun athygli þeim ásetningi sem sendinefndin lýsti að tillögur muni verða lagðar fram á Alþingi af ríkisstjórninni sem fjalli sérstaklega um aðstöðu ríkisfangslausra barna.

Helstu áhyggjuefni:
    11. Nefndin leggur áherslu á að í samningnum er kveðið á um vernd og umönnun barna og sérstaklega um viðurkenningu barna sem aðila er njóti sjálfstæðra réttinda. Nefndin telur að þessi grundvallaratriði samningsins endurspeglist ekki enn fyllilega í íslenskum lögum.
    12. Nefndin minnir á að samningurinn hefur ekki verið tekinn upp í landslög og tekur fram að það sé henni áhyggjuefni að skorta kunni á að samningurinn endurspeglist að fullu í landslögum og reglugerðum.
    13. Nefndin leggur áherslu á að samræmd séu þau markmið sem mismunandi ríkisstofnanir, er fást við málefni barna, hafa markað innan eigin vébanda. Með tilliti til mikils sjálfsforræðis sveitarfélaga á Íslandi, m.a. á sviði verndar og velferðar barna, lýsir nefndin áhyggjum sínum yfir því að ekki eru fyrir hendi úrræði til að samræma ákvarðanatöku og starfsemi á þessu sviði á milli ríkisvalds og sveitarstjórna og á milli sveitarstjórna innbyrðis.
    14. Sá mismunur sem er á fjárveitingum til verndar og velferðar barna eftir stjórnsýslusvæðum er nefndinni öðru fremur umhugsunarefni. Þetta getur að mati hennar leitt til mismununar milli barna er búa á mismunandi svæðum, til dæmis hvað snertir menntun og umönnun eftir skólatíma.
    15. Um leið og nefndin veitir athygli því sem gert hefur verið til að kynna samninginn meðal nemenda á öllum skólastigum vill hún geta þess að enn hefur ekki verið ákveðið að mannréttindi almennt og sérstaklega réttindi barna verði meðal námsefnis á öllum skólastigum.
    16. Nefndin telur það áhyggjuefni að skortur er á að veitt sé heildstæð og kerfisbundin leiðsögn um réttindi barna og að þau nýti sér þau réttindi. Þetta á við um fagfólk sem starfar fyrir börn og með börn, svo sem kennara og starfsfólk á sviði félagsmála, eða þá sem afskipti hafa af börnum, svo sem lögreglumenn, lögmenn, dómara og lækna.
    17. Nefndin getur þess að langur vinnutími foreldra kunni að ganga gegn þeim meginhagsmunum barna að dveljast með fjölskyldu sinni. Nægjanlegar ráðstafanir hafa ekki verið gerðar til að koma í veg fyrir að börn séu ein heima meðan foreldrar eru í vinnu. Í þessu samhengi er skortur á dagvistunarrými áhyggjuefni.

Umræður á fundi fulltrúa Íslands með eftirlitsnefndinni.


    Í fyrirpurninni er sérstaklega óskað eftir að gerð sé grein fyrir þeim skýringum sem íslensk stjórnvöld gáfu. Nú er þess að geta að sendinefnd Íslands gafst ekki tækifæri til að gefa skýringar er varðar athugasemdir nefndarinnar sérstaklega þar sem ekki var gengið frá þeim fyrr en að loknum fundi. Hins vegar var á fundinum fjallað um flest atriðin sem athugasemdir nefndarinnar snerta. Raunar hafði nefndin óskað sérstaklega eftir upplýsingum um mörg þeirra atriða sem sendar höfðu verið nefndinni fyrir fundinn. Svör við þeim spurningum má fá í dómsmálaráðuneyti.
    Fundurinn með eftirlitsnefndinni stóð í einn og hálfan dag og var umræðuefnum skipt niður í samræmi við uppbyggingu barnasamningsins. Á fundinum komu fram fjölmargar fyrirspurnir um framkvæmd mála sem með einum eða öðrum hætti snerta þau viðfangsefni sem barnasamningurinn fjallar um.



Fylgiskjal II.


Elsa S. Þorkelsdóttir:


Skýrsla um ferð til New York, dagana 17.–24. janúar 1996,


vegna skýrslu íslenskra stjórnvalda um framkvæmd samnings


Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum.


(7. febrúar 1996.)


    Tilgangur fararinnar var að fylgja eftir og svara fyrirspurnum hjá nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW-nefndinni) vegna skýrslu íslenskra stjórnvalda frá 1991 um framkvæmd CEDAW-samningsins. Fulltrúar Íslands voru Páll Pétursson félagsmálaráðherra, Berglind Ásgeirsdóttir ráðuneytisstjóri, Sturla Sigurjónsson í fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og undirrituð.
    Skýrsla Íslands var bæði fyrsta skýrsla íslenskra stjórnvalda og fyrsta tímabilsskýrsla eða „first inital and first periodic report“. Skýrsla Íslands hefur ekki áður verið tekin á dagskrá nefndarinnar. Að beiðni fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum hafði ræða Íslands verið send út á undan til dreifingar meðal nefndarmanna. Þegar út var komið uppgötvaðist fljótt að ræðunni hafði ekki verið dreift og nefndarmenn höfðu t.d. ekki Peking-skýrslu íslenskra stjórnvalda sér til upplýsingar.
    Páll Pétursson félagsmálaráðherra flutti ræðu íslenskra stjórnvalda fimmtudaginn 18. janúar. Hún var mjög ítarleg þótt hún hafi verið stytt nokkuð á síðustu stundu. Ástæðan var fyrst og fremst sú að þar sem liðin voru tæp fimm ár frá því að skýrslan var samin var ákveðið að kynna nokkuð ítarlega hvað gert hefði verið síðan. Ræðunni var dreift á fundinum. Í framhaldi af ræðunni og að afloknu hádegisverðarhléi voru fyrirspurnir frá nefndarmönnum til fulltrúa Íslands. Fyrirspurnirnar voru munnlegar en reynt var að fylgja eftir ákvæðum samningsins og ræðunni. Þó var það ekki alveg og varð því fyrst að setja spurningarnar upp og flokka þær áður en farið var að semja svör.
    Mjög margar spurningar voru bornar fram og var það mat finnska fulltrúans í nefndinni sem við ræddum við að fundinum loknum að þó svo að andrúmsloftið hafi verið jákvætt hafi fjöldi spurninga verið í meira lagi. Nokkrum spurninganna verður ekki svarað fyrr en í næstu skýrslu og voru þær skráðar sérstaklega. Flestum spurningum var hins vegar svarað miðvikudaginn 24. janúar og var þeim svörum dreift skriflega. Jafnframt sátum við þá fyrir svörum til að fylgja eftir fyrri spurningum.
    Nokkrar spurningar voru bornar fram í framhaldi af þessum svörum okkar sem við svöruðum strax. Það var mat okkar að vel hefði tekist til. Þó hafði skrifstofa CEDAWnefndarinnar hvorki dreift ræðu ráðherra fyrir fundinn né að því er virtist þeim tveimur skuggaskýrslum sem nefndinni höfðu verið sendar.
    Nefndin sendi frá sér tvær fréttatilkynningar. Þá fyrri eftir að ráðherra hafði flutt ræðu sína og nefndin hafði spurt spurninganna en þá síðari eftir að við svöruðum.
    Í fréttatilkynningunum er farið yfir skýrsluna, ræðu ráðherra, spurningar nefndarmanna og svör okkar. Bent er á skort á tölfræði í skýrslunni, fagnað er lagasetningu sem gerir ríkissjóð ábyrgan fyrir bótum til þolenda ofbeldis. (Nefndin talar um þolendur heimilisofbeldis en sá misskilningur er fyrst og fremst til kominn af því að við lögðum áherslu á að þessi lagasetning væri mikil réttarbót fyrir konur og að algengasta ofbeldi gagnvart konum væri heimilisofbeldi.) Óskað er nánari upplýsinga um kvennahreyfingar á Íslandi, lýst áhyggjum af raunverulegum möguleikum stjórnsýslukerfisins á sviði jafnréttismála til aðgerða, þar með töldum möguleikum kærunefndar til að vernda konur gegn misrétti, hvort konur sem til nefndarinnar leita verði fyrir frekara misrétti í samfélaginu og að lokum hvort dómstólar væru undir það búnir að vernda konur á þessu sviði. Bein tillaga kom fram um að íslensk stjórnvöld stæðu fyrir námskeiði fyrir dómara um mannréttindamál, þar með talin mannréttindi kvenna. Sú staðreynd að Jafnréttisráð er samkvæmt lögum ráðgefandi (an advisory body) en ekki framkvæmdaaðili með raunverulegt vald til aðgerða (policy making body) vakti nokkur viðbrögð. Athugasemdir komu fram um að hlutfall kvenna á þingi og í opinberum nefndum væri lágt og fylgdi ekki hlutfalli kvenna í sveitarstjórnum, með æðri menntun og í stjórnkerfinu. Athugasemd kom fram um að Ísland eitt Norðurlanda hefði ekki á dagskrá stofnun embættis jafnréttisumboðsmanns og áhersla var lögð á nauðsyn kennslu í mannréttindum í skólum.

Lokaorð.


    Íslandi bar að senda inn nýja skýrslu á árinu 1995 sem það hefur ekki gert. Utan fundar komu fram upplýsingar um að Ástralar hefðu, eftir að hafa fylgt eftir skýrslu sinni með ítarlegri ræðu, óskað bréflega eftir að sú ræða yrði metin sem ný skýrsla. Það hefði verið samþykkt enda slíkt í reynd í þágu nefndarinnar sem er verulega á eftir í eftirliti sínu með skýrslum frá löndunum. Félagsmálaráðuneytið mun kanna þann möguleika.
    Norðurlöndin að Íslandi frátöldu hafa frá upphafi átt einn fulltrúa í CEDAW og kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna. Þátttaka í CEDAW og kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna var nokkuð rædd meðal Íslendinganna. Starfsmenn fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum lögðu áherslu á að ef Ísland óskaði eftir að bjóða sig fram í næsta norræna sæti, sem kosið er í eftir fjögur ár, þyrfti að fara að vinna að því sem fyrst. Félagsmálaráðuneytið mun kanna áhuga á að slík vinna verði hafin.
    Athygli var vakin á breytingartillögu við 20. gr. samningsins en sú grein fjallar um fundi CEDAW-nefndarinnar. Samkvæmt greininni á nefndin að funda einu sinni á ári, að jafnaði í tvær vikur. Tímamörkin hafa háð starfi nefndarinnar verulega. Norðurlöndin fluttu sameiginlega tillögu til breytingar á þessari grein þar sem lagt var til að tímamörkin yrðu felld brott. Tillagan var samþykkt árið 1995. Ísland hefur ekki fullgilt þessa breytingu. Ákveðinn fjölda landa þarf til að breytingin taki gildi og hefur þeim fjölda enn ekki verið náð. Nauðsynlegt er að Ísland staðfesti framangreinda breytingu sem fyrst.
    Í þeim gögnum, sem við höfum frá nefndinni, kemur fram að 21. gr. samningsins er til skoðunar hjá henni en svo virðist sem nefndin geti einungis gert athugasemdir við t.d. skýrslur landa í sinni árlegu skýrslu til allsherjarþingsins í gegnum fjárhags- og félagsmálanefnd Sameinuðu þjóðanna. Þannig hafi nefndin ekki heimild til að koma með beinar tillögur til þess lands sem á dagskrá nefndarinnar er tekið, eins og t.d. barnanefnd Sameinuðu þjóðanna getur varðandi barnasáttmálann. Rétt þykir að vekja athygli á þessu ef áhugi er hjá íslenskum stjórnvöldum eða einstökum þingmönnum að styðja við nefndina að þessu leyti. Víst er að þessi ákvæði samningsins, borin saman við t.d. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, eru mjög veik.