Ferill 360. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 360 . mál.


629. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

Flm.: Svavar Gestsson.



1. gr.

    Við a-lið 33. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að veita styrk til kaupa á síma eða öðrum fjarskiptabúnaði í bifreið sem keypt er samkvæmt þessari lagaheimild þegar brýnt er að mati tryggingayfirlæknis.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Bílasímar og aðrir farsímar eru taldir sjálfsagður búnaður í tæknisamfélagi nútímans. Fáir þurfa fremur á slíkum búnaði að halda en þeir sem eru verulega fatlaðir en geta engu að síður stýrt eigin bifreið. Þeir öryrkjar, sem fengið hafa lán eða styrki til bifreiðakaupa að undanförnu, hafa stundum sótt um styrk til að setja farsíma í bíl sinn en fengið synjun. Rök fyrir synjuninni eru þau að reglur Tryggingastofnunar heimili ekki að veita styrk í þessu skyni. Segir einnig í synjunarbréfum Tryggingastofnunar að hún „greiði ekki hjálpartæki til þeirra sem vistast á stofnunum eða sjúkrahúsum sem eru á föstum fjárlögum eða daggjaldakerfi að hjólastólum undanskildum“. Þessi röksemd getur verið út í hött þegar um er að ræða stofnanir eins og dvalarheimili Sjálfsbjargar í Hátúni 12 svo að dæmi sé nefnt.
    Af þessum ástæðum er hér flutt frumvarp sem heimilar Tryggingastofnun að veita styrk til kaupa á fjarskiptabúnaði í bifreiðir öryrkja svo að tekin verði af öll tvímæli í þessum efnum.