Ferill 289. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 289 . mál.


641. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Lúðvíks Bergvinssonar um samning við Neyðarlínuna hf.

    Í upphafi er rétt að rifja upp með örfáum orðum aðdraganda þessa máls. Hann er sá að ráðherra skipaði í aprílmánuði 1993 nefnd til þess að hafa frumkvæði að tillögugerð um samræmda neyðarsímsvörun sem uppfyllti skilyrði EES-samningsins um samræmt evrópskt neyðarnúmer, 112. Nefndin var skipuð fulltrúum frá Pósti og síma, Slysavarnafélagi Íslands, heilbrigðisráðuneyti, Almannavörnum, Reykjavíkurborg og sveitarfélagi af landsbyggðinni. Nefndin skilaði skýrslu þar sem lagðar voru fram tillögur og á grundvelli hennar var nefndinni falið að vinna lagafrumvarp sem fjallað var um á Alþingi og samþykkt í febrúar 1995 sem lög um samræmda neyðarsímsvörun, nr. 25/1995.
    Í lögunum kemur skýrt fram að ráðherra sé heimilt að semja við opinberar stofnanir, sveitarfélög og einkaaðila um fyrirkomulag, fjármögnun og þátttöku í slíkum rekstri og það er einmitt á þeim grundvelli sem unnið hefur verið.
    Frumvarpið sem byggt var á tillögum nefndarinnar fékk ítarlega umfjöllun á Alþingi. Það var samþykkt að tillögu og á grundvelli sameiginlegs nefndarálits frá allsherjarnefnd Alþingis þar sem allir flokkar sameinuðust um þann grundvöll sem unnið hefur verið á síðan, þ.e. að leita eftir samstarfi opinberra stofnana, sveitarfélaga og einkaaðila um rekstur á samræmdu neyðarsímanúmeri, 112.
    Val á rekstraraðilum fór fram á grundvelli samstarfsútboðs sem Ríkiskaup sáu um. Í framhaldi af því var gerður verksamningur við Póst og síma, Reykjavíkurborg fyrir Slökkvilið Reykjavíkur, Securitas hf., Sívaka hf., Slysavarnafélag Íslands og Vara hf. Auk þess var Öryggisþjónustunni hf. heimilað að gerast hluthafi í Neyðarlínunni hf. eftir að tilboðsfrestur var útrunninn og þá heimild hefur fyrirtækið nú nýtt sér.
    Þess má geta að ráðherra hefur þegar skipað sjö manna samstarfsnefnd á grundvelli laga nr. 25/1995 og veitir sýslumaðurinn í Reykjavík henni forstöðu. Samstarfsnefndinni hefur annars vegar verið falið það hlutverk að gera tillögur að reglugerð um starfsemi neyðarvaktstöðvarinnar og hins vegar að hafa faglegt eftirlit með henni, þar á meðal að gera árlega úttekt á starfseminni. Ríkisendurskoðun er ætlað að hafa eftirlit með fjárreiðum neyðarvaktstöðvarinnar.

    Hvaða rök liggja að baki þeirri ákvörðun ráðherra að gera þjónustusamning við einkaaðila um rekstur samræmdrar neyðarsímsvörunar fyrir landið allt? Þekkist slíkt fyrirkomulag erlendis? Hvers vegna var samningurinn gerður til átta ára í ljósi þess að um nýja starfsemi er að ræða?
    Umrædd ákvörðun var ekki byggð á mati ráðherra heldur vann ráðuneytið að málinu á grundvelli gildandi laga. Undirbúningsnefndin komst að þeirri niðurstöðu að réttast og hagkvæmast væri að bjóða út undirbúning og rekstur samræmdrar neyðarsímsvörunar þar sem opinberir aðilar og einkaaðilar gætu boðið í verkið. Ákveðið var að efna til samstarfsútboðs um verkefnið. Það þótti heppilegasti kosturinn þar sem stefnt var að því að reka samræmda neyðarsímsvörun með einu númeri á einum stað. Augljós hagræðing þótti að því að hafa alla neyðarvöktun á einum stað. Rökin fyrir því að þessi leið var valin voru í stuttu máli þau að hún þótti fjárhagslega hagkvæmust og uppfyllti ströngustu fagleg skilyrði um neyðarsímsvörun.
    Ríkiskaup auglýsti eftir umsóknum þeirra sem áhuga hefðu á að taka þátt í samstarfsútboði. Securitas hf., Slysavarnafélag Íslands, Slökkvilið Reykjavíkur og Vari hf. sendu inn sameiginlegt tilboð og aðrir bjóðendur voru Sívaki hf., Nýherji hf., Rauði krossinn, Póstur og sími og Borgarspítalinn. Til þess að sátt yrði milli allra þeirra aðila sem málið varðaði og milli þéttbýlis og dreifbýlis var öllum aðilum sem tóku þátt í samstarfsútboðinu gefinn kostur á að verða þátttakendur í neyðarsímsvöruninni. Öryggisþjónustan hf. tók ekki þátt í útboðinu er var síðar boðinn hlutur í Neyðarlínunni hf.
     Allir þessir aðilar, aðrir en Nýherji hf., Rauði krossinn og Borgarspítalinn, eru nú aðilar að Neyðarlínunni hf. Nýherji hf. mun hins vegar vera í samstarfi við Öryggisþjónustuna hf. og Borgarspítalinn hefur samstarf við Slökkvilið Reykjavíkur og mun verða faglegur ráðunautur Neyðarlínunnar hf. Þannig hafa nær allir þeir aðilar sem lýstu yfir áhuga á þátttöku sameinast um uppbyggingu og rekstur vaktstöðvar fyrir samræmda neyðarsímsvörun.
    Ekki er vitað til þess að nákvæmlega sams konar fyrirkomulag sé á samræmdri neyðarsímsvörun í öðrum löndum, enda eru aðstæður hér um margt óvenjulegar vegna fámennis og eins vegna þess að björgunarstörf hér eru á margra hendi, bæði einkaaðila og opinberra aðila.
    Staðið er að neyðarsímsvörun erlendis með margvíslegum hætti og stafar það af breytilegum aðstæðum milli landa. Í engum tveimur löndum er fyrirkomulag neyðarsímsvörunar því nákvæmlega það sama. Sérstaða Íslands liggur sem fyrr segir fyrst og fremst í því að óþekkt er erlendis að frjáls félagasamtök sjái í jafnríkum mæli um björgunarstörf og hér á landi. Landsbjörg, Slysavarnafélag Íslands og Flugbjörgunarsveitin hafa öll mikilvægu hlutverki að gegna í björgunarstörfum á Íslandi og allt eru þetta frjáls félagasamtök.
    Samningurinn við Neyðarlínuna hf. var gerður til átta ára til að dreifa stofnkostnaði yfir lengra tímabil. Þegar starfsemin verður boðin út aftur eða samið um reksturinn að nýju verður unnt að stytta samningstímann. Reiknað er með að stofnbúnaðarkaup og rekstarkostnaður á þessu átta ára tímabili verði um 600 milljónir króna og þar af er stofnkostnaður um 100 milljónir. Áhætta þeirra sem taka að sér verkefnið minnkar með lengri samningstímabili þegar um svo háan stofnkostnað er að ræða og verða því árleg útgjöld ríkis og sveitarfélaga lægri en ef samið hefði verið til styttri tíma.

    Var gerð úttekt á því áður en gengið var til samninga við Neyðarlínuna hf. hvort koma hefði mátt á fót samræmdri neyðarsímsvörun með minni tilkostnaði er raun ber vitni? Hvaða rök mæla gegn því að samræmdri neyðarsímsvörun verði varanlega komið fyrir á vaktstöð Slökkviliðs Reykjavíkur og í umsjá þess eða annarra opinberra aðila?
    Kostnaður ríkis og sveitarfélaga af rekstri vaktstöðvarinnar er verulega lægri en gert var ráð fyrir í áætlunum nefndarinnar. Áætla má að ríki og sveitarfélög spari um 200 millj. kr. a.m.k. á átta ára samningstímabili vegna þess víðtæka samstarfs sem tekist hefur með opinberum aðilum og einkaaðilum um reksturinn, en framlag þessara aðila nemur rúmum 300 millj. kr. á tímabilinu. Slökkvilið Reykjavíkur sóttist ekki eftir því að taka að sér reksturinn eitt og sér og því hefur ekki verið haldið fram af Reykjavíkurborg að borgin gæti rekið neyðarsímsvörun með minni tilkostnaði. Óvíst er einnig hvort sátt hefði náðst um að eitt sveitarfélag sæi alfarið um neyðarsímsvörun fyrir allt landið, hvað þá einn viðbragðsaðili. Með núverandi fyrirkomulagi taka fleiri aðilar þátt í að greiða rekstrarkostnað við samræmda neyðarsímsvörun.
    Ein af grundvallarforsendunum fyrir rekstri samræmds neyðarnúmers er að aðskilja neyðarsímsvörunina frá starfsemi viðbragðsaðila. Þetta hefur það hins vegar í för með sér að tryggja þarf breiða faglega samstöðu þeirra sem sinna neyðarhjálp í landinu og að sem flestir sem sinni neyðar- og öryggisþjónustu komi að málinu.

    Hefur verið gerð athugun á því af hálfu ráðherra hvort starfsemi eða eignaraðild þeirra einkafyrirtækja sem hlut eiga í Neyðarlínunni hf. tengist innbyrðis á einhvern hátt, og þá hvort slík tengsl geti haft skaðleg áhrif á samkeppni í öryggisþjónustu á markaði, sbr. ákvæði samkeppnislaga? Hafi athugun farið fram, hvernig var að henni staðið og hver var niðurstaða hennar?
    Ráðuneytið hefur ekki kannað eignaraðild öryggisfyrirtækja sem standa að Neyðarlínunni hf. en Samkeppnisstofnun gerði í áliti sínu athugasemdir vegna samvinnu einstakra öryggisfyrirtækja. Samkeppnisstofnun kannaði málið og taldi ekki ástæðu til frekari aðgerða eða til kanna málið nánar. Stofnunin fylgdist með málinu frá upphafi og gerði ekki athugasemdir við útboðsfyrirkomulagið. Fjögur öryggisþjónustufyrirtæki eru nú aðilar að Neyðarlínunni hf. og er það til að styrkja starfsemina og til þess fallið að auka öryggi viðskiptavina þeirra því að þeir sem þjónustu fyrirtækjanna njóta hafa nú samstarfsnefnd til að leita til ef upp kemur ágreiningur um hvort viðbrögð öryggisfyrirtækjanna hafi verið samkvæmt þeim skilmálum og reglum sem þau lofa að uppfylla gagnvart neytandanum. Varðandi samkeppni í öryggisþjónustu er rétt að taka fram að tilkoma Neyðarlínunnar hf. gerir nýjum öryggisfyrirtækjum auðveldara að komast inn á þennan markað, bæði hvað varðar fjárhagslegu hliðina og eins hvað varðar öryggisímyndina.

    Voru sett einhver skilyrði um fjárhagslega stöðu þeirra fyrirtækja sem aðild eiga að Neyðarlínunni hf. í ljósi þess hversu mikilvæg starfsemi hennar er? Hefur farið fram athugun á eiginfjárstöðu þeirra einkafyrirtækja sem hlut eiga í Neyðarlínunni hf.?
    Engin skilyrði voru sett um fjárhagslega stöðu fyrirtækjanna sem standa að Neyðarlínunni hf. önnur en að þau settu tryggingu fyrir því að standa við samning sinn gagnvart Neyðarlínunni hf. Dómsmálaráðuneytið gerði samning við Neyðarlínuna hf. en ekki einstök öryggisfyrirtæki. Ekki var talið nauðsyn á að fram færi sjálfstæð athugun á eiginfjárstöðu öryggisfyrirtækjanna.

    Hefur verið brugðist við athugasemdum samkeppnisráðs frá 13. nóvember sl. varðandi samning dómsmálaráðuneytisins og Neyðarlínunnar hf. um fyrirkomulag á rekstri hennar? Ef svo er, hvernig hefur verið brugðist við og eru þær ráðstafanir nægjanlegar að mati samkeppnisráðs?
    Öll skilyrði Samkeppnisstofnunar um inntak samningsins um starfrækslu neyðarvaktstöðvar hafa verið uppfyllt og þær ráðstafanir sem gerðar voru í kjölfar athugasemda Samkeppnisstofnunar hafa verið taldar fullnægjandi. Reglugerð um samræmda neyðarsímsvörun mun verða komin til framkvæmda á miðju sumri áður en öll starfsemin flyst í nýtt húsnæði. Í reglugerðinni verða ákvæði um þau öryggisfyrirtæki sem tengst geta vaktstöð fyrir samræmda neyðarsímsvörun og verða gerðar tilteknar kröfur til öryggisfyrirtækja hvað varðar vinnubrögð og formfestu.

    Er ætlunin að leggja niður sólarhringsvaktir á einhverri lögreglu- eða slökkvistöð eftir að samræmdri neyðarsímsvörum hefur verið komið á?
    Samræmd neyðarsímsvörun í símanúmerinu 112 hófst 1. janúar sl. Fyrst um sinn sjá Slökkviliðið í Reykjavík og Slysavarnafélag Íslands um símsvörunina og hefur símsvörun fyrir landið allt verið skipt milli þessara aðila. Sérstök vaktstöð fyrir samræmda neyðarsímsvörun mun taka til starfa um mitt þetta ár.     
    Samræmd neyðarsímsvörun frá síðustu áramótum hefur engin áhrif haft á sólarhringsvaktir á lögreglustöðvum en slíkar vaktir eru nú í Reykjavík, á Akranesi, á Ísafirði, á Akureyri, á Selfossi, í Vestmannaeyjum, í Keflavík, á Keflavíkurflugvelli, í Hafnarfirði og í Kópavogi eða á níu af 27 lögreglumbættum landsins. Á þremur af þessum lögregluembættum, á Akranesi, Ísafirði og í Vestmannaeyjum, eru stöðugildi lögreglumanna 11 eða 12 og því á mörkunum að hægt sé að halda uppi sólarhringsvöktum.
    Fyrirkomulag löggæslu í landinu þarf að vera í stöðugri endurskoðun, m.a. með tilliti til þess hvernig fjárveitingar verði sem best nýttar til að tryggja öfluga löggæslu. Tilkoma samræmdrar neyðarsímsvörunar þykir ekki gefa tilefni til að leggja niður sólarhringsvaktir á þeim stöðum þar sem slíkri þjónustu er nú haldið uppi.
    Um hugsanlega niðurlagningu sólarhringsvakta á slökkvistöðvum verða yfirvöld brunamála að svara.

    Er ætlunin að einkavæða fleiri þætti löggæslu- og öryggismála?
    Spurningin byggist á rangri fullyrðingu. Í lögum um samræmda neyðarsímsvörun, nr. 25/1995, og framkvæmd þeirra felst ekki einkavæðing þátta í löggæslu- eða öryggismálum.
    Í því fyrirkomulagi sem verið er að taka upp felst að skilið er á milli svörunaraðila og viðbragðsaðila. Lögregla, slökkvilið, sjúkraflutningaaðilar og öryggisfyrirtæki teljast til viðbragðsaðila og þessir aðilar munu áfram sinna því þjónustuhlutverki með nákvæmlega sama hætti og þeir hafa gert fram til þessa. Rekstur vaktstöðvar til að sinna samræmdri neyðarsímsvörun hefur verið falinn aðila með blandaðri eignaraðild opinberra stofnana og einkafyrirtækja. Neyðarvaktstöðinni er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að koma skilaboðum frá borgurum landsins rétta boðleið til þeirra viðbragðsaðila sem nauðsynlegt er að bregðist við neyðarkalli hverju sinni. Samræmd neyðarsímsvörun er sett á stofn til samræmis við alþjóðlegar skuldbindindingar sem íslenska ríkið hefur gengist undir.
    Á hinn bóginn er það staðreynd að í þjóðfélagi okkar, eins og hvarvetna á Vesturlöndum og víðar, hefur hluti af því hefðbundna hlutverki lögreglu að sjá borgurunum og eignum þeirra fyrir vernd færst til einkafyrirtækja. Þessi fyrirtæki hafa mætt sífellt meiri eftirspurn einstaklinga og fyrirtækja eftir vernd en lögregla getur veitt fyrir það fjármagn sem henni er ætlað úr sameiginlegum sjóðum.
    Í þessu ljósi eru áform um samræmda neyðarsímsvörun og þátttaka öryggisfyrirtækja í rekstri neyðarvaktstöðvar fullkomlega eðlileg og með því eru stjórnvöld ekki að stuðla að einkavæðingu á þessu sviði.

    Fór fram útboð á undirbúningsvinnu við útboðsgögn í samræmi við útboðsstefnu ríkisins og ákvæði laga nr. 52/1987, um opinber innkaup? Hefur verkfræðistofan, sem vann verkið, unnið önnur verk fyrir dómsmálaráðuneytið eða stofnanir, sem undir það heyra, undanfarin fimm ár? Ef svo er, hvert er umfang þeirra viðskipta í krónum talið, og var til þeirra stofnað á grundvelli útboða?
    Ekki var talin þörf á að efna til útboðs á vinnu við undirbúning að lagafrumvarpi um samræmda neyðarsímsvörun, enda kostnaður við undirbúning þess undir þeim viðmiðunarmörkum sem Ríkiskaup gerir um útboðsverk á vegum ríkisins. Þau lúta að því að öll verk yfir 2 millj. kr. skuli boðin út. Verkefni sem unnin voru í tengslum við samræmda neyðarsímsvörun af Verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar voru í raun fjögur aðskilin verkefni og námu greiðslur fyrir kostnaðarsamasta verkhlutann 1.480.650. kr. Þessi vinna var mjög sérhæfð og aðeins fáir aðilar hérlendis sem höfðu sérfræðikunnáttu á því sviði.
    Verkfræðistofa Stefáns Ólafssonar hefur unnið að fáeinum hagræðingarverkefnum fyrir ráðuneytið á síðustu fimm árum. Má þar nefna undirbúning að útboði á ræstingum fyrir stofnanir á vegum ráðuneytisins 1992–93, gæðastjórnunarverkefni fyrir dómsmálaráðuneytið 1994–95 og undirbúning að útboði um samræmda neyðarsímsvörun og önnur verkefni því tengd 1994–95. Samtals nema greiðslur til verkfærðstofunnar um 10 millj. kr. eða rúmlega 2 millj. kr. á ári að meðaltali á síðustu fimm árum.