Ferill 216. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 216 . mál.


666. Svarfjármálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um bifreiðagjald.

    Hverjar voru tekjur ríkisins af bifreiðagjaldi árin 1993 og 1994?
    Árið 1993 voru tekjur af bifreiðagjaldi 1.830 millj. kr. og 1.784 millj. kr. árið 1994.

    Af hve mörgum ökutækjum voru tekin skráningarmerki árin 1993 og 1994 vegna vangoldins bifreiðagjalds?
    Fjármálaráðuneytið sendi út fyrirspurn til innheimtumanna ríkissjóðs til þess að afla gagna um fjölda þeirra bifreiða sem skráningarnúmerin voru tekin af vegna vanskila á bifreiðagjaldi árin 1993 og 1994. Samkvæmt svörum innheimtumanna ríkissjóðs voru númer tekin af 3.734 bifreiðum árið 1993 og 2.912 bifreiðum árið 1994. Ástæða þess að tilfellum fer fækkandi er m.a. að á síðustu árum hefur verið lögð rík áhersla á að lögbundnum viðurlögum sé beitt þegar bifreiðagjöld og/eða þungaskattur eru í vanskilum. Innheimtumenn hafa ýmsa fyrirvara á framangreindum tölum. Skráningarnúmer bifreiða eru klippt af fyrir ýmiss konar vanrækslu eigenda þeirra, svo sem ef bifreið hefur ekki verið færð til aðalskoðunar, að tryggingagjöld eru ógreidd og loks ef gjaldandi er í vanskilum með bifreiðagjöld eða þungaskatt. Oft fara tveir eða fleiri þættir saman. Það fer eftir skráningu þessara mála hjá lögreglunni hvort hægt er að einangra sérstaklega þau tilfelli þar sem skráningarmerkin hafa verið fjarlægð vegna vangoldinna bifreiðagjalda. Í sumum tilfellum er fjöldinn áætlaður af viðkomandi lögregluembætti.

    Hve margar bifreiðar voru seldar á opinberu uppboði vegna vanskila á bifreiðagjaldi árin 1993 og 1994?
    Samkvæmt svörum innheimtumanna ríkissjóðs fóru 139 bifreiðar á uppboð einvörðungu vegna vanskila á bifreiðagjaldi árið 1993 og 139 árið 1994. Fyrirvari er einnig hafður á þessum tölum. Ef gjaldandinn sinnir ekki greiðslu bifreiðagjalds og ekki hefst upp á bifreiðinni þannig að hægt sé að klippa af henni skráningarmerkin tryggir innheimtumaður kröfuna með fjárnámi. Við fjárnámsgerðina eru allar vangoldnar skattskuldir viðkomandi gjaldanda hjá innheimtuembættinu teknar saman í eina fjárnámsgerð. Þetta er m.a. gert til þess að spara gjaldandanum innheimtukostnað. Það fer síðan eftir eignastöðu viðkomandi gjaldanda hvert andlag fjárnámsins verður. Því geta veðkröfur á bifreiðum verið vegna hvaða gjalda sem er. Innheimtumenn ríkissjóðs hafa því áætlað fjölda þeirra bifreiða sem seldar eru vegna vangoldinna bifreiðagjalda. Þótt fjöldi bifreiða sé árlega seldur á uppboðum er það í flestum tilfellum vegna annarra krafna en bifreiðagjalda. Ráðuneytið hefur á undanförnum árum lagt áherslu á að innheimtumenn ríkissjóðs fái lögregluna til þess að klippa skráningarmerki af strax og til vanskila kemur.

    Hver var áætlaður kostnaður við innheimtu bifreiðagjalds árin 1993 og 1994?
    Rekstrarkostnaður innheimtuembætta er ekki sundurliðaður eftir þeim gjaldflokkum sem til innheimtu eru og verður því að áætla hlutdeild innheimtu bifreiðagjalds. Þau embætti sem annast innheimtu bifreiðagjalds eru tollstjórinn í Reykjavík og sýslumenn utan Reykjavíkur. Heildarkostnaður embættanna samkvæmt ríkisreikningi ársins 1993 var 1.970 millj. kr. og árið 1994 1.993 millj. kr. Þessar upphæðir fela í sér allar greiðslur til þessara embætta en auk innheimtu annast sýslumannsembættin fjölþættari starfsemi, svo sem löggæslu, aðfararaðgerðir, nauðungarsölur o.fl.
    Ráðuneytið óskaði eftir að innheimtumenn ríkissjóðs áætluðu kostnað við innheimtu bifreiðagjalds árin 1993 og 1994. Samkvæmt þeim áætlunum sem bárust ráðuneytinu var kostnaður þessi 1,22% af heildarkostnaði árið 1993 og 1,3% af honum árið 1994. Ef þessi hlutföll eru notuð til að áætla kostnað allra innheimtuembætta sem annast innheimtu bifreiðagjalds er áætlaður kostnaður við innheimtu þeirra fyrir árið 1993 u.þ.b. 24 millj. kr. og fyrir árið 1994 er áætlaður kostnaður u.þ.b. 26 millj. kr.
    Auk þess fá skoðunarstöðvar greidda þóknun fyrir að taka við bifreiðagjöldum og þungasköttum þegar komið er með bifreiðar til aðalskoðunar. Þóknun til Bifreiðaskoðunar Íslands hf. fyrir innheimtu á bifreiðagjöldum nam á árinu 1994 u.þ.b. 8 millj. kr.

    Hversu mikið þyrfti verð á bensínlítra og lítra af dísilolíu að hækka til að ríkissjóður fengi sömu tekjur og hann hefur af bifreiðagjaldi nú?
    Áætlað er að tekjur af bifreiðagjaldi árið 1996 verði 1.880 millj. kr. Sala á bensíni er áætluð 182 milljónir lítra og er áætlað að um 60 þúsund lítrar af dísilolíu séu notaðir til að knýja ökutæki. Ef gjaldið yrði lagt jafnt á bensín og olíu mundi það þurfa að nema 7,77 kr. á lítra. Þess er að geta að slíkt gjald mundi bitna tiltölulega harkalega á atvinnubifreiðum.

    Hver væri áætlaður innheimtukostnaður ef farin væri sú leið sem getið er um í 5. lið?
    Ef farin væri sú leið sem getið er um í 5. lið gæti innheimtukostnaðurinn lækkað verulega með því að leggja gjald þetta á við innflutning, eins og gert er við bensíngjald nú.