Ferill 362. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 362 . mál.


693. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Árna Stefánssonar um kjörfundi erlendis.

    Leitað var til Hagstofu Íslands eftir svörum við spurningum 1–3.

    Hversu margir Íslendingar búsettir erlendis til lengri eða skemmri tíma voru á kjörskrá í síðustu alþingiskosningum?
    Á kjörskrá var tekinn 6.331 íslenskur ríkisborgari búsettur erlendis. Af þeim fóru 6.224 sjálfkrafa á kjörskrána þar sem þeir höfðu flust til útlanda eftir 1. desember 1986 og 107 sem höfðu búið erlendis samfleytt síðan fyrir þann viðmiðunardag og höfðu sótt um það fyrir 1. desember 1994 að vera settir á kjörskrá. (Sjá 3. yfirlit á bls. 10 í skýrslu Hagstofunnar, „Alþingiskosningar 1995“, sem gefin var út í september 1995, en þar er þessum kjósendum skipt eftir kjördæmum.)

    Hver var dvalarstaður þeirra, eftir þjóðlöndum?
    Í eftirfarandi töflu er tala kjósenda á kjörskrá fyrir alþingiskosningar 8. apríl 1995 sem áttu lögheimili erlendis sýnd eftir lögheimilislandi. Hafi maður flust milli landa erlendis eftir brottflutning frá Íslandi er undir hælinn lagt að viðkomandi hafi tilkynnt þá breytingu til þjóðskrár.

     Alls
6.331

    

     Norðurlönd
4.556

    Svíþjóð
1.823

    Danmörk
1.682

    Noregur
929

    Finnland
69

    Færeyjar
39

    Grænland
14

    

     Önnur Evrópulönd
767

    Þýskaland
225

    Bretland
158

    Lúxemborg
92

    Frakkland
60

    Holland
55

    Sviss
44

    Spánn
39

    Belgía
19

    Ítalía
16

    Austurríki
15

    Portúgal
12

    Grikkland
7

    Írland
5

    Pólland
4

    Tékkland
3

    Júgóslavía
2

    Mónakó
2

    Slóvenía
2

    Búlgaría
1

    Gíbraltar
1

    Króatía
1

    Lettland
1

    Malta
1

    Tékkóslóvakía
1

    Ungverjaland
1

    

     Norður-Ameríka
819

    Bandaríkin
747

    Kanada
60

    Bahamaeyjar
2
              
    Mexíkó
2
              
    St. Vinsent og Grenadíneyjar
2
              
    Antígva og Barbúda
1
              
    Arúba
1
              
    Panama
1

    Púertó Ríkó
1

    Ameríka, ótilgreint land
2


     Suður-Ameríka
14

    Chile
5

    Brasilía
4

    Kólumbía
2

    Perú
1

    Úrúgvæ
1

    Venesúela
1

    

     Afríka
34

    Namibía
15

    Suður-Afríka
8

    Angóla
3

    Egyptaland
2

    Eþíópía
2

    Nígería
2

    Fílabeinsströndin
1

    Saír
1
     Asía 55
    Japan
10

    Indónesía
8

    Kýpur
8

    Ísrael
5

    Taíland
4

    Hongkong
3

    Saúdí-Arabía
3

    Filippseyjar
2

    Kína
2

    Singapúr
2

    Tyrkland
2

    Indland
1

    Jemen
1

    Suður-Kórea
1

    Sameinuð arabafurstadæmi
1

    Víetnam
1

    Asía, ótilgreint land
1

    

     Eyjaálfa
86

    Ástralía
70

    Nýja-Sjáland
16

    Hversu mikil var kjörsókn þeirra í þeim kosningum, skipt eftir þjóðlöndum?
    Þessu er ekki unnt að svara. Þessir einstaklingar koma á kjörskrá í því sveitarfélagi sem þeir áttu síðast lögheimili í áður en þeir fluttust út. Þeir koma saman fremst á kjörskrá sveitarfélagsins og sést ekki á kjörskránni í hvaða landi þeir eiga lögheimili. Ekki væri heldur líklegt að hægt væri að láta semja slíkar skýrslur eins og vinnu við kjörskrá og kjörfund er háttað. Undirskjörstjórn er gert að láta fylgja kjörkassanum til yfirkjörstjórnar skýrslu til Hagstofunnar um fjölda kjósenda á kjörskrá og greidd atkvæði, þar af sérstaklega bréfleg atkvæði, skipt á karla og konur. Sérstök aðferð er höfð til að auðvelda talningu eftir kyni kjósenda þar sem ætlast er til að merkt sé við í annan af tveimur dálkum eftir því hvort það er karl eða kona sem kýs. Frekari skýrslugerðar frá undirkjörstjórn virðist ekki vera hægt að krefjast þar sem til þess er ætlast að kjörgögn séu flutt til yfirkjörstjórnar eins fljótt og verða má.
    Talsverður hluti utankjörfundaratkvæða berst ekki í viðeigandi kjördeild heldur eru þau send beint til yfirkjörstjórnar (1.317 atkvæði af 14.448 utankjörfundaratkvæðum árið 1995, sbr. 8. yfirlit á bls. 15 í skýrslunni um alþingiskosningarnar 1995). Þetta mun m.a. eiga við atkvæði sem send eru frá útlöndum. Ekki hefur þótt gerlegt að krefjast frekari skýrslugerðar frá yfirkjörstjórnum en nú er gert.
    Hagstofunni ber að vinna skýrslur um hverjar alþingiskosningar og byggjast þær á skýrslum undir- og yfirkjörstjórna til hennar. Á skýrslu undirkjörstjórnar kemur tala kjósenda með kosningarrétt á kjörskrá, tala kjósenda sem greiddu atkvæði á kjörstað og tala bréflegra atkvæða sem borist hafa til undirkjörstjórnar. Yfirkjörstjórn semur skýrslu um bréfleg atkvæði sem borist hafa beint til hennar, skipt eftir sveitarfélögum, og bætast þær tölur við tölur undirkjörstjórna.
    Eftir kosningar hefur Hagstofan ekki aðgang að kjörskrám þar sem merkt er við þegar atkvæðisréttar er neytt, sbr. 101. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 80 16. október 1987, með síðari breytingum. Þar er mælt svo fyrir að kjörskrám skuli skilað til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til varðveislu í innsigluðum umbúðum uns þeim verður eytt.
    Hér má bæta við þeirri hugleiðingu að unnt væri að vinna margs konar töflur um kjörsókn, t.d. eftir búsetulandi þeirra sem lögheimili eiga erlendis, um þátttöku eftir aldri kjósenda o.s.frv., ef allar undir- og yfirkjörstjórnir hefðu aðgang að kjörskrárstofni í tölvukerfi þjóðskrár. Þá væri hægt að merkja við nafn kjósanda þegar hann greiðir atkvæði á kjörfundi eða þegar utankjörfundaratkvæði er tekið til greina hjá undir- eða yfirkjörstjórn á sama hátt og merkt er í kjörskrá. Að loknum kosningum gæti Hagstofan unnið nýtt talnaefni úr efniviðnum auk þess sem vinna mætti hefðbundnar skýrslur undir- og yfirkjörstjórna að mestu leyti.

    Hversu víða voru kjörstaðir opnir í sendiráðum, hjá fastanefndum eða hjá kjörræðismönnum?
    Við kosningar til Alþingis vorið 1995 voru kjörstaðir erlendis alls 114 í 45 ríkjum.

    Eru áform um að bæta aðgengi þessa kjósendahóps að kjörstöðum og möguleika til þátttöku, svo sem með fjölgun kjörstaða?
    Samkvæmt 63. gr. laga um kosningar til Alþingis er atkvæðagreiðsla utan kjörfundar því aðeins gild að notuð séu hin fyrirskipuðu kjörgögn og að kosning fari fram á þeim stöðum sem þar eru taldir en þeir eru: Skrifstofa sendiráðs eða fastanefndar, sendiræðisskrifstofa, svo og skrifstofa kjörræðismanns sem er kjörstjóri skv. 13. gr.
    Samkvæmt þessu ákvæði verður því aðeins fjölgað kjörstöðum að skipaðir verði víðar kjörræðismenn sem annast geti utankjörfundarkosningu. Slíkt er ekki ráðgert samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðuneytið hefur hins vegar leyst úr vanda hópa Íslendinga sem búsettir eru fjarri skrifstofu sendiráðs eða ræðismanna með því að opna tímabundið skrifstofu sendiráðs eða ræðismanns þar sem slíkir hópar eru búsettir. Er það svipað fyrirkomulag og önnur Norðurlönd hafa haft, sbr. svar við 6. spurningu.

    Er fyrirkomulag utankjörfundaratkvæðagreiðslu samkvæmt íslenskum kosningalögum hliðstætt hjá öðrum Evrópuþjóðum og í Bandaríkjunum?
    Ekki eru fyrir hendi öruggar upplýsingar um hvernig fyrirkomulag utankjörfundaratkvæðagreiðslu erlendis er háttað hjá öðrum erlendum ríkjum en Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.
    Kosningafyrirkomulagið samkvæmt íslenskum kosningalögum er svipað því sem er annars staðar á Norðurlöndunum. Atkvæðagreiðsla erlendis samkvæmt kosningalögum þessara ríkja skal fara fram hjá sendifulltrúa ríkisins, svo sem er samkvæmt íslenskum kosningalögum. Þó er heimilt í nokkrum tilvikum að hafa sérstaka kjörstaði utan venjulegs aðseturs fulltrúa ríkisins, eins og íslenska utanríkisráðuneytið hefur gert. Er það t.d. gert samkvæmt sænskum lögum þar sem hópar sænskra kjósenda eru staddir, svo sem vinnuhópar, ferðamannahópar eða hermenn á vegum alþjóðastofnana.
    Sérstakar reglur hafa gilt í norskum og sænskum kosningalögum um utankjörfundaratkvæðagreiðslu norska og sænskra ríkisborgara sem búsettir eru í Þýskalandi og Sviss og óska eftir að greiða atkvæði í kosningum í heimalandi sínu. Í þessum ríkjum gilda sérákvæði um kosningaþátttöku erlendra ríkisborgara búsettra þar í kosningum í heimaríki. Erlendum ríkisborgurum þar er heimilt að senda atkvæði sitt bréflega í almennum pósti til kjörstjórnar þar sem þeir eru á kjörskrá en ekki að afhenda atkvæði sitt hjá sendifulltrúa. Íslenskir kjósendur skulu skv. 70. gr. kosningalaganna sjálfir annast sendingu atkvæðis síns til kjörstjórnar á Íslandi.

    Er kjósendum í einhverju Evrópuríki eða Bandaríkjunum, sem kjósa utan kjörfundar, gefinn kostur á því að fá sendan kjörseðil í ábyrgðarpósti samkvæmt beiðni þar um og endursenda seðilinn í lokuðu umslagi til viðkomandi kjörstjórnar eftir að hafa kosið heima eða hjá opinberri stofnun (á bæjarskrifstofum, hjá sýslumönnum eða lögreglustöðvum) á viðkomandi stað og fengið þar staðfestingu eða vottun?
    Eins og fram kemur í svari við 6. spurningu er borgurum Noregs og Svíþjóðar búsettum í Þýskalandi og Sviss heimilt að kjósa með því að senda kjörseðil með gögnum sem tvö vitni hafa staðfest í pósti til kjörstjórnar í heimalandinu í stað þess að þurfa að skila honum hjá sendifulltrúa.
    Ekki eru aðgengilegar aðrar öruggar upplýsingar um ákvæði laga annarra ríkja um fyrirkomulag á utankjörfundarkosningu erlendis.

    Kemur til álita að mati ráðherra að skoða fyrirkomulag á borð við það sem nefnt er í 7. spurningu og gera viðeigandi breytingar á kosningalögunum?
    Ef auðvelda á íslenskum kjósendum sem dvelja erlendis að greiða atkvæði utan kjörfundar án þess að fjölga fulltrúum íslenska ríkisins erlendis kemur til álita sú leið sem lýst er í 7. spurningu. Kjósandi færi þá til lögbókanda þar sem hann er búsettur og fengi vottun á fylgigöng kjörseðilsins. Slíkt ákvæði kæmi sem ný málsgrein í 63. gr. kosningalaganna.