Ferill 400. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 400 . mál.


706. Fyrirspurn



til forsætisráðherra um lífeyrisrétt öryrkja.

Frá Pétri H. Blöndal.



    Hvaða bætur fær 25 ára gamall einhleypur maður sem hafði 80 þús. kr. í tekjur á mánuði og verður 80% öryrki vegna slyss sem annar aðili ber skaðabótaábyrgð á? Átt er við allar hugsanlegar bætur og réttindi frá Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrissjóði, tryggingafélagi og öðrum aðilum eftir atvikum vegna slyssins og að
         
    
    hann hafi ekki greitt í lífeyrissjóð; örorka sé ekki bótaskyld annars staðar;
         
    
    hann eigi rétt á örorkulífeyri frá lífeyrissjóði vegna iðgjaldagreiðslu síðustu fimm árin (t.d. samkvæmt samræmdri reglugerð SAL) af launum sem höfðu hækkað hlutfallslega eins og grundvallarlaun sjóðsins og nemi nú 80 þús. kr. á mánuði; örorka sé ekki bótaskyld annars staðar;
         
    
    sama og í b-lið nema örorkan stafi af slysi (ekki bílslysi) á vinnustað sem atvinnurekandi ber ábyrgð á; þess er óskað að fjárhæð hugsanlegra eingreiðslubóta verði jafnframt tilgreind sem ígildi mánaðarlegra tekna samkvæmt viðurkenndum viðmiðunartölum um lífslíkur og raunvexti;
         
    
    sama og í c-lið nema örorkan stafi af ábyrgðarskyldu bílslysi utan vinnustaðar.
    Hversu hátt orkutap mundi tryggingayfirlæknir meta vegna slíkrar örorku fyrir Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrissjóði og hugsanlega tryggingafélag?
    Hverjar eru heildarmánaðartekjur mannsins sem öryrkja skv. a-, b-, c- og d-lið ef hann getur unnið 20% starf og hlýtur fyrir það 20% af 80 þús. kr. eða 16 þús. kr.? Hvað eru mánaðartekjur mannsins sem öryrkja hátt hlutfall af tekjum hans fyrir slysið?
    Hvernig breytist svarið ef tekjur mannsins eru 120 þús. kr. á mánuði eða 160 þús. kr. á mánuði?
    Hvernig breytist svarið ef maðurinn er 55 ára á slysdegi?


Skriflegt svar óskast.