Ferill 314. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 314 . mál.


717. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Tómasar Inga Olrich um reglur við innheimtu opinberra gjalda.

    Hefur það verið verklagsregla hjá fjármálaráðuneytinu við innheimtu skipulagsgjalda að leggja allt gjaldið á þann eiganda sem samkvæmt stafrófsröð er fyrstur þinglýstra eigenda, sé þinglýstur eignaskiptasamningur ekki fyrir hendi?
    Álagning skipulagsgjalds hvílir á 35. gr. skipulagslaga, nr. 19/1964. Skv. 1. gr. þeirra fer umhverfisráðuneytið með stjórn skipulagsmála. Það er því ekki á forræði fjármálaráðuneytis að kveða á um skýringu skipulagslaga, þar með taldar forsendur álagningar skipulagsgjalds, og hefur ráðuneytið enga verklagsreglu sett um innheimtu gjaldsins.
    Samkvæmt reglugerð nr. 676/1994, um gjald af nýreistum húsum til greiðslu skipulagsgjalds, sem tók gildi 1. janúar 1995, er hlutverk Fasteignamats ríkisins að halda skrá um brunabótamat og vinna stofn til álagningar skipulagsgjalds samkvæmt því, en skv. 1. gr. reglugerðarinnar er skipulagsgjald 3% af brunabótamati nýbyggingar. Upplýsingum samkvæmt álagningarstofni er komið á framfæri við tekjubókhaldskerfi Ríkisbókhalds, TBR-Á, og þar eru prentaðir gíróseðlar sem sendir eru gjaldendum.
    Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins og Ríkisbókhaldi á verklagsregla sú sem vitnað er til rætur sínar að rekja til þess að hingað til hefur einungis verið gert ráð fyrir einum eiganda á hvern matshluta. Ef nýbygging er sameign fleiri en eins eiganda og eignaskiptasamningur er ekki fyrir hendi hefur skipulagsgjaldið samkvæmt því verið lagt á þann sem fyrst kemur fram sem eigandi þó svo að fleiri eigendur kunni að vera skráðir eigendur samkvæmt fasteignamati. Fasteignamat ríkisins hefur undanfarin tvö ár gert átak til þess að færa eignarhluta nýrra sem eldri húseigna á rétta eigendur.
    Það skal upplýst hér með að á fundi Fasteignamats ríkisins og Ríkisbókhalds 23. janúar sl. var ákveðið að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru á tekjubókhaldskerfi ríkisins til þess að hægt sé að skrá fleiri eigendur að hverjum matshluta og innheimta skipulagsgjald hjá hverjum fyrir sig. Nú þegar er byrjað að prenta gíróseðla með þessu nýja fyrirkomulagi.

    Ef svo er, hefur sú verklagsregla verið notuð við innheimtu annarra gjalda, þ.e. að gera einum aðila að standa skil á gjöldum annarra?
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að þessi verklagsregla sé notuð við innheimtu annarra gjalda.

    Hve mörgum greiðendum opinberra gjalda hefur á þennan eða annan sambærilegan hátt verið gert að standa skil á gjöldum sem þeim ber ekki að greiða?
    Samkvæmt skrám Fasteignamats ríkisins voru 502 af þeim einstaklingum sem krafðir voru um skipulagsgjald á síðasta ári ekki skráðir einu eigendur eignanna. Í langflestum tilfellum mun vera um að ræða skipulagsgjald af fasteignum í sameign hjóna.

    Styðst umrædd verklagsregla við lagaheimildir eða telst hún ólögleg?
    Eins og áður segir hvílir innheimta skipulagsgjalds á 35. gr. skipulagslaga, nr. 19/1964, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 676/1994. Það brýtur ekki í bága við lög að innheimta hjá einum sameigenda gjöld fyrir eign sem fleiri eiga í sameign. Á meðan ekki liggur fyrir þinglýstur eignaskiptasamningur telur ráðuneytið að sameigendur beri óskipta ábyrgð á greiðslu gjaldsins.

    Ef í ljós kemur að einhverjir greiðendur opinberra gjalda hafa borið fjárhagslegan skaða af framangreindum innheimtuaðferðum og þær teljast ólöglegar, hvernig hyggst ráðherra leiðrétta það?
    Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 676/1994 sker umhverfisráðherra úr ágreiningi sem upp kann að koma um álagningu og innheimtu skipulagsgjalda.