Ferill 447. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 447 . mál.


779. Frumvarp til laga



um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940.

Flm.: Svavar Gestsson, Steingrímur J. Sigfússon, Bryndís Hlöðversdóttir.



1. gr.


    Orðin „æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess“ í 1. mgr. 95. gr. laganna falla brott.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Tilefni þessa frumvarps er að fyrir nokkrum vikum skrifaði eitt dagblaðanna allkjarnyrtan leiðara um forseta tiltekins ríkis. Enginn kippti sér upp við það en í utanríkisráðuneytinu var skrifað bréf þar sem leiðarahöfundurinn og dagblaðið voru átalin fyrir að hafa hagað orðum sínum með þessum hætti um þennan tiltekna þjóðhöfðingja. Flutningsmenn veltu því fyrir sér hver gæti verið ástæðan fyrir íhlutun ráðuneytisins. Í 1. mgr. 95. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum, er enn þá þetta ákvæði:
    „Hver, sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 6 árum, ef miklar sakir eru.“
    Augljóst er að ákvæðið á ekkert erindi við samtímann. Aftur og aftur kemur fyrir að í blöðum, m.a. í forustugreinum, er veist mjög harkalega að tilteknum þjóðhöfðingjum. Um suma þjóðhöfðingja er talið að segja megi hvað sem er, sbr. forustugrein Morgunblaðsins 28. febrúar sl. Greinin heitir „Samviskulaus einræðisherra“ en þar er fjallað um Saddam Hussein og er hann kallaður samviskulaus harðstjóri. Til þess er fullt tilefni en spyrja má: Er eðlilegt að hafa í lögum landsins ákvæði sem heimilar að ritstjórar Morgunblaðsins séu tyftaðir af opinberum aðilum fyrir að fara þessum orðum um þjóðhöfðingjann?
    Því miður standa þessi lagaákvæði ekki aðeins á lögbókinni heldur hafa þau verið notuð, t.d. í máli ríkisins gegn Þórbergi Þórðarsyni fyrir óviðurkvæmileg ummæli hans um Adolf Hitler. Í niðurstöðu Hæstaréttar í því máli segir:
    „Það verður að telja það meiðandi og móðgandi fyrir erlenda menningarþjóð að segja það að hún hafi sadista í formannssæti stjórnar sinnar og hann og stjórn hans hafi skipulagt og fyrirskipað hinar hryllilegustu kvalir og pyndingar á varnarlausum mönnum.“
    Ákærði, Þórbergur Þórðarson, var dæmdur til að greiða 200 kr. sekt í ríkissjóð og skyldi 15 daga einfalt fangelsi koma í stað sektarinnar væri hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
    Hér er lagt til að núgildandi ákvæðum um þessi efni verði breytt og að eftir breytinguna hljóði greinin svo:
    Hver, sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 6 árum, ef miklar sakir eru.
    Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem smánar opinberlega eða hefur annars í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum, eða ærumeiðandi aðdróttanir við aðra starfsmenn erlends ríkis, sem staddir eru hér á landi.