Ferill 448. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 448 . mál.


780. Frumvarp til laga



um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, með síðari breytingum.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson.



1. gr.


    2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarfélög eru lögaðilar og ákveða sjálf nafngift sína sem þó þarf að hljóta staðfestingu félagsmálaráðuneytis.

2. gr.


    Í stað orðsins „Kaupstaðir“ í 4. málsl. 4. mgr. 6. gr. laganna kemur: Öll sveitarfélög.

3. gr.


    10. gr. laganna orðast svo:
    Framkvæmdastjóri sveitarfélags nefnist sveitarstjóri, sbr. 69. gr. Formaður sveitarstjórnar nefnist oddviti. Sveitarstjórn er þó heimilt að gefa störfum sveitarstjóra og oddvita önnur heiti í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins.

4. gr.


    Í stað 2. og 3. málsl. 1. mgr. 26. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Í fyrirsögn efst á kjörseðli skal tilgreina að um sé að ræða sveitarstjórnarkosningar í tilteknu sveitarfélagi, dagsetningu þeirra og ártal.

5. gr.


    Orðin „borgarstjóri, bæjarstjóri eða sveitarstjóri“ í 1. mgr. 50. gr. laganna falla brott.

6. gr.


    1. mgr. 55. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarstjórn er heimilt að ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að kosið skuli byggðarráð og skal það kjörið úr hópi aðalfulltrúa í sveitarstjórn.

7. gr.


    3. mgr. 69. gr. laganna fellur brott.

8. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með gildistöku sveitarstjórnarlaganna, nr. 8/1986, varð réttarstaða allra sveitarfélaga á Íslandi hin sama. Sýslufélög voru þá lögð niður og þar með urðu hreppar og kaupstaðir samkvæmt eldri lögum jafnréttháir. Eftirlit sýslunefnda með hreppum heyrði sögunni til og kaupstaðarréttindi sköpuðu viðkomandi sveitarfélögum ekki lengur neina sérstöðu. Sveitarstjórnarstigið var þar með skýrar afmarkað en fyrr þótt eftir sem áður væri gífurlegur munur á íbúafjölda milli sveitarfélaga. Eftir þessar breytingar átti m.a. að vera kleift að gera þetta stjórnsýslustig skiljanlegra og gegnsærra fyrir alla, jafnt uppbyggingu þess sem verkefni. Vissir annmarkar á löggjöfinni drógu hins vegar úr eða komu í veg fyrir að öllum almenningi yrði ljós sú grundvallarbreyting sem orðin var þar sem viðhaldið var lagaboði um mismunandi heiti sveitarfélaga eftir íbúafjölda og ýmissa stofnana og stöðuheita á þeirra vegum. Vafalítið hefur fastheldni og metnaður hinna stærri sveitarfélaga ráðið hér miklu og Alþingi hróflaði ekki að þessu leyti við þeim tillögum sem félagsmálaráðherra lagði þá fyrir þingið og undirbúnar höfðu verið af stjórnskipuðum nefndum.
    Við framkvæmd sveitarstjórnarlaganna hafa komið í ljós ýmsir annmarkar á ákvæðum laganna að því er varðar þau atriði sem tekið er á með frumvarpi þessu. Á það ekki síst við um ákvæðin um mismunandi heiti sveitarfélaga eftir íbúafjölda. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar að því er varðar heiti sveitarfélaga og kveðið skýrt á um heiti formanns og framkvæmdastjóra sveitarstjórnar, sem og heiti framkvæmdanefndar sveitarfélagsins. Allar lúta þessar breytingar að því að afnema lögbindingu á nafngiftum eftir íbúafjölda en festa í sessi tiltekin samheiti fyrir öll sveitarfélög, svo sem sveitarstjórn, oddviti, sveitarstjóri og byggðarráð. Frumvarpið gerir enn fremur ráð fyrir að sveitarstjórn sé í sjálfsvald sett að nota jafnframt aðrar nafngiftir á stöðuheitum og binda í samþykktir sínar, ef þær svo kjósa.
    Nú er svo fyrir mælt í 1. gr. sveitarstjórnarlaganna að sveitarfélög verði að bera eitthvert heitanna hreppur, bær eða kaupstaður. Enginn greinarmunur er í lögunum gerður á bæ og kaupstað sem hvorir tveggja verða að hafa haft 1.000 íbúa hið fæsta „í þrjú ár samfellt“. Hins vegar skuli sveitarfélög heita hreppar sé íbúafjöldi þeirra undir þessum mörkum. Engin rök eru til þess að mati flutningsmanns að viðhalda slíkri aðgreiningu með lagaboði auk þess sem viðbætur af þessu tagi fara oft ekki vel í íslensku máli. Einnig er óæskilegt vegna sameiningar sveitarfélaga sem víða er á döfinni að binda nafngiftir sveitarfélaga við tiltekna íbúatölu.
    Breytingar samkvæmt frumvarpinu gera ráð fyrir að sveitarstjórn ráði nafni síns sveitarfélags, en gert er ráð fyrir staðfestingu af hálfu félagsmálaráðuneytis til að koma í veg fyrir hugsanlega árekstra og tryggja samfellu. Ætti ekki að þurfa að reyna á inngrip af hálfu ráðuneytisins nema í algjörum undantekningartilvikum. Samkvæmt þessu geta sveitarfélög haldið núverandi nafngiftum óátalið en eru jafnframt frjáls að því að breyta þeim, t.d. að fella niður viðbót í sérheiti, hvort sem viðbótin er hreppur, bær eða kaupstaður. Sama máli gegnir um Reykjavík sem stundum skreytir sig með borgarheiti þótt ekki sé það lögboðið.
    Athygli vekur að nýlega hafa sveitarfélög tekið upp heitin byggð eða sveit sem hluta af sérnafni eða sem viðbót þótt engin stoð sé sjáanleg fyrir því í lögum og það stangist á við ákvæði núgildandi sveitarstjórnarlaga. Sýnir það eitt með öðru að þörf er á að rýmka lagaákvæði frá því sem nú er að því er varðar nafngiftir sveitarfélaga. Sveitarfélögin í landinu má flokka eftir heitum, miðað við árslok 1995, sem hér segir: Borg 1, kaupstaðir 16, bæir 12, byggðir 3, sveitir 4 og hreppar 134.
    Ákvæði frumvarpsins um starfs- og stöðuheiti á vegum sveitarstjórna eru til verulegrar einföldunar frá gildandi lögum og til samræmis við þá stefnu að hætta að gera lögbundinn greinarmun á sveitarfélögum eftir íbúafjölda. Þannig breytt kvæðu lögin aðeins á um það að framkvæmdastjóri sveitarfélags nefndist sveitarstjóri og formenn sveitarstjórna oddvitar. Sveitarstjórnum verður þó í sjálfsvald sett að velja til viðbótar eða viðhalda öðrum sértækari stöðuheitum ef þær svo kjósa, eins og t.d. bæjarstjóri, borgarstjóri og forseti. Æskilegt væri þó og til skilningsauka fyrir almenning um eðli þessara starfa að ein aðalnafngift sé notuð um hliðstæð störf innan sveitarstjórnarstigsins.
    Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að aðeins heitið byggðarráð verði notað sem samheiti yfir fjárhags- og framkvæmdanefndir sveitarstjórna sem gengið hafa undir ýmsum nöfnum, svo sem bæjar-, borgar- eða hreppsráð. Þykir óheppilegt og ástæðulaust að viðhalda ólíkum nöfnum yfir þessa þýðingarmiklu nefnd innan sveitarstjórna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að sveitarfélögunum í landinu verði frjálst að ákveða nafn sitt og því felld niður sú skylda að þau skuli ýmist bera heitin hreppar, bæir eða kaupstaðir. Rétt þykir þó að gera ráð fyrir staðfestingu félagsmálaráðuneytisins. Þannig þarf ráðuneytið að staðfesta nafn hvers sveitarfélags og verður þannig t.d. hægt að koma í veg fyrir að tvö sveitarfélög velji svo svipuð nöfn að ruglingi geti valdið.

Um 2. gr.


    Í samræmi við breytingar á 1. gr. laganna er lagt til að heimild til aðildar að héraðsnefndum verði ótvírætt fengin öllum sveitarfélögum, en af gildandi lögum mætti ætla að bæir og sveitir væru þar útilokuð.

Um 3. gr.


    Hér er lögð til sú breyting að framkvæmdastjóri sveitarfélags skuli bera heitið sveitarstjóri og formaður sveitarstjórnar heitið oddviti. Þó er með vísan til 69. gr. laganna lögð áhersla á að ekki er skylt að ráða framkvæmdastjóra sveitarfélags þar sem eru 500 íbúar eða færri. Þá er og gert ráð fyrir að sveitarstjórn sé heimilt að nefna störf sveitarstjóra og oddvita öðru heiti í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins.

Um 4. gr.


    Breyting sú, sem hér er lögð til, er gerð til samræmis við aðrar breytingar og til skýringar og vísast til athugasemda við 1. gr.

Um 5. gr.


    Hér vísast til athugasemda við 1. gr.

Um 6. gr.


    Með breytingum á greininni er lagt til að ákvæði í 4. mgr. 10. gr. laganna frá 1986 þess efnis að fulltrúar í byggðarráði séu kosnir úr hópi aðalfulltrúa í sveitarstjórn verði tekið upp hér sem 1. mgr. 55. gr. þar sem rætt er um byggðarráð. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 1. gr.

Um 7. gr.


    Til samræmis við aðrar breytingar á lögunum er ákvæði 3. mgr. 69. gr. fellt brott. Vísast til athugasemda við 1. gr.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.