Ferill 457. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 457 . mál.


790. Frumvarp til laga



um breytingu á lögræðislögum, nr. 68/1984, með síðari breytingum.

Flm.: Guðný Guðbjörnsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir,


Kristín Halldórsdóttir.



1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Einstaklingur er sjálfráða og fjárráða 18 ára, nema sviptur sé sjálfræði eða fjárræði. Sá sem er sjálfráða og fjárráða er lögráða.

41. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Samkvæmt þessu frumvarpi er sjálfræðisaldurinn hækkaður úr 16 árum í 18. Í 1. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1989, sem Ísland fullgilti árið 1992, segir: „Börn eru allt fólk í heiminum yngra en 18 ára.“ Skv. 1. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, eru íslensk börn einstaklingar innan 16 ára aldurs en 16–18 ára einstaklingar kallast ungmenni. Í vinnuverndarlögunum er barn einstaklingur innan 16 ára aldurs, en ungmenni eru unglingar á aldrinum 16 og 17 ára, sbr. 60. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og 1. gr. laga nr. 61/1990, um breytingar á þeim lögum. Þessi aðgreining og frávikið frá barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skýrast að hluta til af því að samkvæmt núgildandi lögræðislögum, nr. 68/1984, verða íslensk börn sjálfráða 16 ára en fjárráða og lögráða 18 ára. Í 13. gr. barnalaga, nr. 20/1992, segir hins vegar að framfærsluskyldu ljúki er barn verður 18 ára. Þetta sýnir að í íslenskum lögum er ekki samræmi í því hvort að hugtakið barn nær til 18 ára aldurs, eins og í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, eða aðeins til 16 ára aldurs. Til samanburðar má benda á að samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins um vinnuvernd barna og ungmenna (ESB 94/33) merkir ungmenni einstaklingur undir 18 ára aldri, barn merkir einstaklingur sem er undir 15 ára aldri eða í skyldunámi og unglingur merkir einstaklingur sem er minnst 15 ára en hefur ekki náð 18 ára aldri og er ekki lengur í skyldunámi. Mismunandi skólaskyldualdur í Evrópusambandinu hefur því áhrif á hve lengi börn kallast börn og hugtakið unglingur hefur lagalega skilgreiningu sem skarast við hugtakið ungmenni.
    Í langflestum nágrannalanda okkar er sjálfræðisaldurinn nú 18 ár. Eftir lok miðalda var sjálfræðisaldur annars staðar á Norðurlöndunum hækkaður úr 12 árum í 25 og á seinni hluta 19. aldar var hann lækkaður í 21 ár. Á árunum 1968–76 var sjálfræðisaldurinn á Norðurlöndum og í Englandi lækkaður úr 21 ári í 18 ár. Í Bandaríkjunum verða einstaklingar sjálfráða 18 ára.
    Það er löngu orðið tímabært að mati flutningsmanna að sjálfræðisaldurinn á Íslandi verði hækkaður í 18 ár, til samræmis við það sem tíðkast í nágrannalöndunum. Sjálfræðisaldur hefur haldist óbreyttur á Íslandi síðan árið 1281, þegar Jónsbók var lögfest. Síðan hafa þjóðfélagsaðstæður breyst mikið, ekki síst á undanförnum áratugum. Um leið hefur staða ungmenna innan fjölskyldunnar einnig breyst. Í fyrstu lögræðislögunum sem sett voru hér á landi árið 1917 var 16 ára sjálfræðisaldrinum haldið og samkvæmt núgildandi lögræðislögum frá árinu 1985 er enn miðað við 16 ár. Ungmenni eru nú háðari foreldrum sínum efnahagslega en áður var raunin, með auknum kröfum um menntun og færni í nútímasamfélagi. Lengri skólaganga hefur almennt þýtt að ungmenni verða að treysta á að foreldrar sjái fyrir þeim lengur en áður tíðkaðist. Einnig hefur aukið atvinnuleysi á undanförnum árum gert það að verkum að atvinnuleysi meðal ungmenna hefur aukist verulega. Fjöldi þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá á aldrinum 15–19 ára hefur rúmlega tífaldast á árunum 1987–94, þ.e. fjölgað úr 44 í 531. Þetta hefur haft þær afleiðingar að möguleikar barna og ungmenna til að standa á eigin fótum og vera efnahagslega sjálfstæð hafa minnkað. Hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár kemur til móts við þessar breytingar og tryggir réttarstöðu ungmenna á aldrinum 16–18 ára.
    Auk þess að samræma íslenska löggjöf og nágrannalandanna á þessu sviði og koma til móts við þjóðfélagsbreytingar eru helstu rök fyrir þeirri lagabreytingu sem hér er lögð til þrenns konar:
    Í fyrsta lagi skal vísað í 12. gr. lögræðislaga, nr. 68/1984, en þar segir um sjálfráða mann: „Sjálfráða maður ræður einn öðru en fé sínu, nema lög mæli sérstaklega fyrir á annan veg.“ Þessi lagagrein gerir foreldrum erfitt að halda 16–18 ára ungmennum heima, ef þau vilja flytja burt eða vera úti að nóttu til. Þetta er misskilið frelsi að mati flutningsmanna þegar ungmenni getur ekki unnið fyrir sér eða fengið vinnu. Því þykir eðlilegra að foreldrar beri ríkari ábyrgð en þá að framfæra ungmennið og geti komið í veg fyrir að það flytji eða dveljist langdvölum að heiman án samþykkis foreldra. Þetta mundi einnig auðvelda allt eftirlit með skólagöngu 16–18 ára ungmenna þar sem kennurum bæri að hafa annars konar samskipti við foreldra þessa aldurshóps ef sjálfræði kæmi ekki til fyrr en við 18 ára aldur. Með hækkun sjálfræðisaldurs er réttarstaða ungmenna gagnvart foreldrum sínum gerð mun skýrari. Foreldrar fá meira vald til þess að setja unglingum takmörk, svo sem um útivistartíma o.fl. sem getur skipt sköpum í viðleitni þjóðfélagsins til að sporna gegn „unglingavandamálum“, m.a. fíkniefnaneyslu og almennu agaleysi.
    Í öðru lagi segir um sjálfráða mann í 13. gr. sömu laga: „Sjálfráða maður verður ekki vistaður í sjúkrahúsi gegn vilja sínum.“ Þetta hefur þær afleiðingar að meðferð á ungum fíkniefnaneytendum reynist erfiðari en ella þar sem ungmennin geta útskrifað sig sjálf án samþykkis foreldra nema til forræðissviptingar komi. Af þessum sökum mun sú lagabreyting sem hér er lögð til auðvelda meðferð á ungum fíkniefnaneytendum, enda hafa meðferðaraðilar mælt með henni.
    Í þriðja lagi öðlast ungt fólk á aldrinum 16–18 ára betri tryggingu fyrir því að geta verið í foreldrahúsum til a.m.k. 18 ára aldurs, enda gerist það æ erfiðara að standa á eigin fótum á þessum aldri. Þessi breytta réttarstaða ungs fólks ætti einnig að gera stöðu þeirra skýrari gagnvart þjónustu ríkis og sveitarfélaga, t.d. á skemmtanasviðinu og varðandi skatta. Ef um erfiðar heimilisaðstæður er að ræða tryggja lögin um vernd barna og ungmenna að barn eða ungmenni geti komist af heimili sé það talið því fyrir bestu.
    Að mati flutningsmanna er það sjálfstæð ákvörðun, óháð lagabreytingunni sem hér er lögð til, hvort hækkun sjálfræðisaldurs hefur áhrif á skráð atvinnuleysi 16–18 ára ungmenna, það að hafa persónufrádrátt frá 16 ára aldri eða á það hvort barnabætur skulu greiddar til 18 ára aldurs. Lögleiðing tilskipunar Evrópusambandsins um vinnuvernd barna og ungmenna getur skipt máli í þessu sambandi þar sem hið almenna bann tilskipunarinnar tekur til ráðningar barna 16 ára og yngri í vinnu. Vinnuverndarákvæði tilskipunarinnar eiga við einstaklinga undir 18 ára aldri.
    Flutningsmönnum frumvarpsins er ljóst að hækkun sjálfræðisaldurs hefur áhrif á merkingu annarra laga þar sem miðað er við að sjálfræðisaldurinn sé 16 ár. Í 29. gr. barnalaga, nr. 20/1992, segir að barn eigi rétt á forsjá foreldra sinna uns það verður sjálfráða og eru þeir forsjárskyldir við það. Þrátt fyrir þetta lýkur framfærsluskyldu við barn ekki fyrr en við 18 ára aldur skv. 13. gr. sömu laga. Þetta sýnir fyrst og fremst innbyrðis ósamræmi og tvískinnung í gildandi lögum sem hyrfi með lagabreytingunni sem hér er lögð til. Önnur lög sem snerta sjálfræðisaldurinn eru almenn hegningarlög, nr. 19/1940, lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975, og lög um skotvopn, sprengiefni og skotelda, nr. 46/1977. Ekki þykir ástæða til að breyta þeim lögum þó að frumvarpið verði að lögum.
    Samantekið eru helstu rök fyrir þessari lagabreytingu þau að lögin taki mið af breyttum þjóðfélagsaðstæðum, séu í samræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, tryggi betur að ungt fólk búi við öryggi og aðhald foreldra til 18 ára aldurs og auðveldi meðferð á ungum fíkniefnaneytendum.