Ferill 276. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 276 . mál.


812. Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um vanskil einstaklinga við innlánsstofnanir.

    Hve mikil voru þriggja mánaða vanskil og eldri hjá einstaklingum við innlánsstofnanir sl. þrjú ár, sundurliðuð eftir árum, fjölda einstaklinga og útlánaflokkum? Hve hátt hlutfall voru þessi vanskil af heildarútlánum til einstaklinga?
    Bankaeftirlit Seðlabankans aflaði upplýsinga hjá viðskiptabönkum og stærstu sparisjóðum. Samkvæmt svörum, sem bárust frá u.þ.b. 55% af innlánsstofnunum miðað við umfang efnahagsreiknings, var hlutfall vanskila einstaklinga, þriggja mánaða og eldri, af heildarútlánum 6,3% í árslok 1993, 6,0% í árslok 1994 og 5,2% í árslok 1995. Miðað við sömu hlutfallslegu skiptingu á vanskilum útlána allra viðskiptabanka og sparisjóða til einstaklinga yrði um eftirfarandi fjárhæðir að ræða í lok hvers árs, 3,6 milljarða króna 1993, 3,4 milljarða króna 1994 og 3,1 milljarð króna 1995. Gróf flokkun eftir útlánaflokkum bendir til þess að u.þ.b. 75% séu vanskil skuldabréfa, 20% vanskil víxla og 5% vanskil yfirdráttarlána/greiðslukorta. Marktækar upplýsingar um fjölda einstaklinga að baki framangreindum vanskilum liggja ekki fyrir á aðgengilegan hátt hjá viðkomandi stofnunum.

    Hve háar voru hvers kyns þóknanir, álag, kostnaður, þar með talinn lögfræðikostnaður, og dráttarvextir vegna þessara vanskila, sundurliðað eftir árum og kostnaðarþáttum?
    Ekki var unnt að afla marktækra svara við þessari spurningu. Annars vegar gera upplýsingakerfi viðkomandi stofnana ekki ráð fyrir þeirri sundurgreiningu tekna sem spurningin krefst og hins vegar sjá sjálfstætt starfandi lögfræðistofur um hluta af vanskilamálum, og þar með innheimtuþóknunum, og eru þau þar af leiðandi ekki hluti af bókhaldi viðkomandi innlánsstofnunar.