Ferill 487. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 487 . mál.


845. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 9/1970, um Iðnþróunarsjóð, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
    3. mgr. orðast svo:
                  Fyrir verkefni skv. 1.–4. tölul. 2. mgr. skal Iðnþróunarsjóður halda sérstakan afskriftareikning. Samhliða ákvörðunum um lánveitingar, ábyrgðir og hlutafjárþátttöku skal ákveða samsvarandi framlög á afskriftareikninginn. Fjárhæðirnar, sem bætt er við afskriftareikninginn, skulu í hverju tilviki samsvara þeirri áhættu sem tekin er og vera í samræmi við reglur sem ráðherra staðfestir.
    Við bætist ný málsgrein, 4. mgr., sem orðast svo:
                  Stjórn sjóðsins skal gera rekstraráætlun fyrir hvert almanaksár. Skal hún miðast við að ekki sé gengið á eigið fé sjóðsins. Til verkefna skv. 1.–4. tölul. 2. mgr. má ekki verja hærri upphæð en svo að afskriftir vegna þeirra, sbr. 3. mgr., rúmist innan ramma rekstraráætlunar.

2. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Eigið fé Iðnþróunarsjóðs við gildistöku laga nr. 20/1995, um breytingu á lögum nr. 9/1970 um Iðnþróunarsjóð, telst vera stofnframlag ríkissjóðs til hans.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Lög nr. 9/1970 um Iðnþróunarsjóð, með síðari breytingum, falla úr gildi 31. desember 1997.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Við gildistöku laga þessara skal stjórn sjóðsins gera rekstraráætlun sem miðast við eiginfjárstöðu sjóðsins við síðustu áramót.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 9. mars 1995 lauk gildistíma samnings milli Norðurlanda um stofnun og rekstur Iðnþróunarsjóðs. Með lögum nr. 20/1995 voru Iðnþróunarsjóði sett ný lög sem stofnun í eigu íslenska ríkisins. Jafnframt var mörkuð sú stefna að sjóðurinn legði í starfi sínu aukna áherslu á fjármögnun nýsköpunar en að hann héldi sig til hlés í hefðbundinni fjárfestingarlánastarfsemi.
    Í athugasemdum við frumvarp til fyrrgreindra laga var lýst stefnumörkun þáverandi ríkisstjórnar hvað varðaði nýskipan fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna. Ætlunin var að hlutverki Iðnþróunarsjóðs yrði fundinn farvegur í þessari nýskipan. Var þess vænst við framlagningu frumvarpsins að unnt yrði að vinna hratt og því var í frumvarpinu sólarlagsákvæði þess efnis að lög um sjóðinn féllu úr gildi á miðju þessu ári. Í meðförum Alþingis var sólarlagsákvæðið fellt út en í þess stað kveðið á um að lögin skyldu endurskoðuð fyrir 1. maí 1996. Jafnframt voru settar í lögin takmarkanir sem miðuðust við að heimild sjóðsins til ráðstöfunar fjár til meginhlutverks hans, nýsköpunarverkefna, yrði uppurin um svipað leyti.
    Á vegum núverandi ríkisstjórnar hefur starfi að þessari nýskipan verið haldið áfram, en með nokkuð breyttum áherslum. Markmiðið með breytingunum er að skapa fjárhagslegar traustar heildir og að afnema hina óheillavænlegu skiptingu þessara sjóða eftir atvinnugreinum.
    Þess er vænst að frumvarp um nýtt fyrirkomulag sjóðamála fái afgreiðslu á komandi haustþingi og að lög taki gildi um næstu áramót. Á árinu 1997 verði unnið að tæknilegri framkvæmd nýskipaninnar, en að hinar nýju stofnanir taki til starfa í ársbyrjun 1998.
    Í ljósi fyrrgreindra ákvæða í gildandi lögum um Iðnþróunarsjóð svo og þeirrar tímaáætlunar sem gerð hefur verið um arftaka sjóðsins, er nauðsynlegt að framlengja starfsemi hans enn um hríð, eða til ársloka 1997. Þess vegna er þetta frumvarp lagt fram.
    Brýnt er að núverandi starfsemi Iðnþróunarsjóðs geti haldið áfram snurðulaust á meðan verið er að undirbúa og framkvæma fyrrgreindar breytingar á sjóðakerfinu.

Starfsemi Iðnþróunarsjóðs.


    Stjórn Iðnþróunarsjóðs hefur gefið iðnaðarráðherra skýrslu um starfsemi sjóðsins fyrsta heila starfsár hans með nýrri skipan. Verða hér rakin nokkur meginatriði úr þessari skýrslu.
    Starfssvið og starfshættir sjóðsins hafa mótast af þeim sjónarmiðum sem komu fram í athugasemdum við frumvarp að lögum nr. 20/1995. Samkvæmt lögunum hefur sjóðurinn þriggja manna stjórn en hún ákvað að kalla til fimm manna ráðgjafarnefnd til þess að móta hina nýju stefnu sjóðsins. Í nefndinni eru fulltrúar atvinnurekenda og launþega undir forustu starfsmanns iðnaðarráðuneytisins. Ljóst er að umfjöllun um umsóknir um áhættufjármögnun verður að vera af nokkuð öðrum toga en meðferð hefðbundinna lánsumsókna. Sjóðurinn hefur því lagt kapp á vandaða skoðun á umsóknum. Í þessu skyni var gerður samningur við Iðntæknistofnun bæði um tæknilegt mat á umsóknum en ekki síður um að veita umsækjendum um nýsköpunarstuðning aðstoð við skilgreiningu verkefna sinna og frágang umsóknargagna.
    Í samræmi við fyrrgreind lagaákvæði hefur sjóðurinn haft til ráðstöfunar til nýsköpunarverkefna um 230 millj. kr. á starfsárinu. Viðfangsefni sjóðsins á umræddu starfsári hafa í meginatriðum verið þessi:
—     Vöruþróunarverkefni. Gerð er krafa um að verkefnið feli í sér nýmæli í íslensku atvinnulífi, stuðli að nýmælum í útflutningi eða stuðli að hagræðingu m.a. með samstarfi eða samruna fyrirtækja. Jafnframt er krafist ásættanlegrar arðsemi og að þátttaka Iðnþróunarsjóðs valdi ekki röskun á samkeppnisstöðu. Að mestu leyti er um áhættulán að ræða en hlutafjárþátttaka kemur til greina. Ekki er krafist hefðbundinna veða en í lánssamningi eru gjarnan ákvæði um endurgreiðslu í takt við söluandvirði þess sem verkefnið gefur af sér. Lánskjör eru með þeim hætti að ofan á meðalvexti er lagt sérstakt áhættuálag. Alls hafa verið samþykkt tíu vöruþróunarverkefni og veitt til þeirra 75 millj. kr. Þar af eru 10,5 millj. kr. í formi hlutafjár og 4 millj. kr. til sérstaks verkefnis á vegum iðnaðarráðuneytisins. Afgangurinn eru áhættulán.
—     Markaðsöflun erlendis og verkefnaútflutningur. Sjóðurinn hefur leitast við að styðja útrás íslenskra fyrirtækja í hvívetna og sett sérstakar reglur um þess háttar stuðning. Er þar m.a. kveðið á um aðstoð við samstarfsverkefni íslenskra og erlendra fyrirtækja (joint-ventures). Fimm umsóknir hafa borist um stuðning á þessu sviði og hafa fjórar þeirra þegar verið samþykktar og veitt til þeirra 51,2 millj. kr. í lánsfé auk 10 millj. kr. hlutafjár. Þá hefur sjóðurinn veitt áhættulán til sex verkefna við markaðsöflun erlendis, alls að upphæð 56,3 millj. kr., auk eins hlutafjárframlags að upphæð 5 millj. kr.
—     Erlendar fjárfestingar á Íslandi. Þá hefur stjórn sjóðsins markað þá stefnu að sjóðurinn skuli leggja sitt af mörkum til að stuðla að erlendri fjárfestingu hér á landi. Hingað til hefur þessi viðleitni birst í stuðningi við markaðsstarf, einkum með stuðningi við Fjárfestingarskrifstofu iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta og Útflutningsráðs. Alls hefur sjóðurinn veitt 13,8 millj. kr. í styrki til verkefna á vegum þessara aðila.
    Samtals hefur sjóðurinn varið 238,3 millj. kr. til nýsköpunarfjármögnunar. Þar af voru 180,7 millj. kr. í formi lána eða ábyrgða, 25,5 millj. kr. í formi hlutafjárframlags en styrkir til almennra verkefna námu alls 32,2 millj. kr. Verkefnin, sem studd hafa verið með þessum hætti, eru í ýmsum atvinnugreinum og ekki einskorðuð við iðnað.
    Sjóðurinn hefur tekið upp þá vinnureglu að meta um leið og áhættufjármögnun er samþykkt líklega áhættu vegna viðkomandi verkefna og færa samsvarandi upphæð á afskriftareikning. Alls hafa um 109 millj. kr. verið lagðar á afskriftareikning vegna fyrrgreindra verkefna. Er lagt til að þessi vinnuregla verði lögfest með ákvæðum í 1. gr. þessa frumvarps.
    Auk áhættufjármögnunar hefur Iðnþróunarsjóður haldið áfram umsýslu eldri lána. Hefur það í nokkrum tilvikum kallað á lánabreytingar og í einstaka tilvikum á ný lán til aðila sem hafa verið í viðskiptum við sjóðinn, alls að upphæð 78,5 millj. kr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er kveðið á um heimild sjóðsins til að sinna áhættufjármögnun skv. 3. og 4. tölul. 2. mgr. 2. gr. Í stað núverandi ákvæðis, sem takmarkar þessa heimild við ákveðna upphæð, er hér lagt til að lögfest verði það verklag sem sjóðurinn hefur tekið upp við að leggja jafnharðan á afskriftareikning í samræmi við áhættu. Er þetta gert í a-lið frumvarpsgreinarinnar. Í b-lið er síðan ákvæði sem takmarkar það hve miklu fé má ráðstafa til umræddrar áhættufjármögnunar. Skal við það miðað að umrædd framlög í afskriftareikning leiði ekki til skerðingar á eigin fé sjóðsins að teknu tilliti til annarra rekstrargjalda.

Um 2. gr.


    Við lok gildistíma samnings milli Norðurlanda 9. mars 1995 yfirtók íslenska ríkið eignir sjóðsins, en með lögum nr. 20/1995 lagði ríkissjóður þetta fé til Iðnþróunarsjóðs. Samkvæmt lögum nr. 48/1992, um breytingu á lögum um 65/1982, um skattskyldu innlánsstofnana, var sú breyting gerð á lögum nr. 65/1982 að opinberir fjárfestingarlánasjóðir voru gerðir skattskyldir. Sérákvæði var þó sett í bráðabirgðaákvæði sem gerði ráð fyrir að Iðnþróunarsjóður yrði ekki skattlagður fyrr en við álagningu ársins 1995. Var sú ráðstöfun byggð á því að fyrirheit voru gefin til annarra Norðurlanda sem voru aðilar að sjóðnum um að ekki yrði af skattlagningu hans fyrr en sjóðurinn yrði að fullu kominn í eigu íslenskra aðila. Með lögum nr. 143/1995, um breytingu á lögum nr. 48/1992, var framkvæmd fyrrgreinds ákvæðis þó frestað þannig að það kæmi fyrst til framkvæmda við álagningu 1996 vegna tekna frá og með 9. mars 1995. Í ljósi breytingar á eignarhaldi sjóðsins og með vísan til fyrrgreindra forsendna þess efnis að framlög Norðurlanda og ávöxtun þeirra á gildistíma samningsins skuli ekki vera andlag skattlagningar er eðlilegt að taka af vafa um að eigið fé sjóðsins við lok samningstímans skuli skoðast sem stofnfé íslenska ríkisins og því vera frádráttarbært við ákvörðun eignarskatts, sbr. 77. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Um 3. gr.


    Auk þess að kveða á um gildistöku þessa frumvarps, ef að lögum verður, er hér kveðið á um að lög um Iðnþróunarsjóð falli úr gildi í árslok 1997, enda taki þá við nýskipan í sjóðamálum.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Með bráðabirgðaákvæðinu er tekinn af hugsanlegur efi varðandi gildistíma þess fyrirkomulags sem mælt er fyrir um 1. gr.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á


lögum nr. 9/1970, um Iðnþróunarsjóð.


    Gildistíma samnings Norðurlanda um stofnun og rekstur Iðnþróunarsjóðs lauk 9. mars 1995. Með lögum nr. 20/1995 voru Iðnþróunarsjoði sett lög sem stofnun í eigu íslenska ríkisins og eru þar ákvæði um að lög nr. 9/1970 skuli endurskoðuð fyrir 1. maí 1996. Á meðan unnið er að nýskipan á fyrirkomulagi fjárfestingarlánasjóða er nauðsynlegt að framlengja lagaákvæðin um Iðnþróunarsjóð og er í frumarpinu gert ráð fyrir að endurskipulagningunni verði lokið 31. desember 1997 og falli þá þessi lög úr gildi. Má segja að þetta sé meginmarkmið laganna verði frumvarpið samþykkt. Þá er að nefna að frumvarpið gerir ráð fyrir stofnun afskriftareiknings og mun það vera lögfesting á núverandi vinnureglu hjá sjóðnum. Í 2. gr. frumvarpsins er ákvæði um að eigið fé sjóðsins við gildistöku laga nr. 20/1995 skuli tekjast stofnframlag ríkissjóðs til hans. Ekki verður séð að samþykkt þessa frumvarps muni leggja sérstaklegan kostnaðarauka á ríkissjóð.