Ferill 417. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 417 . mál.


846. Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um þungaflutninga á þjóðvegum.

    Hver hefur verið þróun þungaflutninga á þjóðvegum landsins sl. fimm ár? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um flutninga á helstu leiðum eða eftir vegaflokkum eftir því sem upplýsingar liggja fyrir.
    Ekki eru til upplýsingar um þungaflutninga á þjóðvegum landsins. Á undanförnum árum hafa verið gerðar allmargar athuganir (stikkprufur) á samsetningu umferðar (skipt í „þunga bíla“ og fólksbíla). Af þeim athugunum er einungis unnt að draga takmarkaðar ályktanir um magn flutninga. Á síðasta ári var hafin viðamikil könnun á þungaflutningum á vegum, bæði hvað varðar magn og leiðir. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands annast skipulagningu og úrvinnslu könnunarinnar fyrir Vegagerðina, en starfsfólk hennar annast kannanir úti á vegum. Eins og áður sagði er hér um viðamikið og kostnaðarsamt verkefni að ræða og er ekki að vænta niðurstaðna fyrr en á næsta ári.

    Hvaða áhrif hafa breytingar á strandsiglingum og aðrar breytingar á sjósamgöngum og tækni á því sviði haft á flutninga á landi?
    Þær breytingar, sem að undanförnu hafa orðið á strandsiglingum með stöðugt færri viðkomuhöfnum skipa, valda auknum þungaflutningum á þjóðvegum landsins.

    Hvaða áhrif hafa auknir flutningar haft á slit á vegum og viðhaldsþörf?
    Aukin umferð og þá einkum þungaumferð veldur auknu sliti á vegakerfinu. Burðarlög eru víða veikburða og bundna slitlagið (klæðningin) er mjög þunnt og þolir illa þennan þunga nema burðarlög séu sterk. Af þessum ástæðum mun viðhaldsþörf aukast hratt á næstu árum.

    Telur ráðuneytið að umfang þungaflutninga á vegum landsins muni aukast? Ef svo er, hvaða framkvæmdir í vegamálum eru taldar nauðsynlegar til að bregðast við þeirri þróun og hver er áætlaður kostnaður við þær:
         
    
    vegna þunga,
         
    
    vegna öryggis vegfarenda?

    Líklegt er að þungaflutningar á þjóðvegakerfinu haldi áfram að aukast á næstu árum. Þetta skapar enn meiri þörf á styrkingu vega og endurbyggingu brúa sem margar hverjar þola ekki þann þunga þeirrar umferðar sem fer um vegakerfið. Með nýrri reglugerð um stærð og þyngd ökutækja hefur verið skilgreint það vegakerfi sem getur tekið við ásþunga (11,5 tonn) sem leyfður er á Evrópska efnahagssvæðinu (sjá mynd). Í reglugerðinni er gengið eins langt og frekast er unnt með það í huga að skapa íslensku atvinnulífi sem jafnasta samkeppnisstöðu gagnvart því evrópska. Þrátt fyrir það þola stórir hlutar vegakerfisins ekki umræddan þunga. Meiri þungaflutningar auka einnig þörfina á breikkun einbreiðra brúa og vega sem eru mjórri en staðlar mæla fyrir um. Ekki hefur verið reynt að meta sérstaklega kostnað sem leiðir af þessari þróun og því eru ekki tiltækar tölur þar um. Slíkt mat er miklum vandkvæðum háð, m.a. vegna þess að mikið af þessum úrbótum þjónar mörgum öðrum markmiðum í umferðarmálum.

    Hver er stefna ráðuneytisins um tekjuöflun til fjármögnunar framkvæmda sem telja verður fyrst og fremst tilkomnar vegna þungaflutninga?
    Af tækjum til þungaflutninga er almennt greiddur þungaskattur í formi kílómetragjalds sem fer stighækkandi með flutningsgetu tækisins. Stighækkandi kílómetragjald er að mati ráðuneytisins réttlát skattheimta þó að færa megi rök að því að gjaldið ætti að hækka örar en það gerir ef taka á tillit til aukins álags á vegina með þyngri umferð. Sama tilhögun var í mörgum nágrannalöndum okkar, en vegna áhrifa frá Evrópusambandinu hefur kílómetragjald nú verið lagt niður í öllum nálægum löndum og olíugjald tekið upp í staðinn. Til stóð einnig að taka slíkt gjald upp hér á landi um síðustu áramót en breytingunni var frestað til 1. janúar 1998.
    Til lengdar verður erfitt að hafa skattheimtukerfi hér sem er verulega frábrugðið kerfi annarra Evrópulanda. Slíkt mundi leiða til ójafnrar samkeppnisstöðu og ýmissa annarra vandamála. Ef haldið verður fast við olíugjald í þessum löndum verður fljótlega að taka það upp hér á landi. Helsti gallinn við olíugjald er að það kemur enn léttar niður á þyngstu ökutækjunum en kílómetragjaldið gerir nú. Verður því um meira ósamræmi að ræða milli álags á vegina og þess afgjalds sem greitt er fyrir notkun þeirra.
    Á síðustu mánuðum hefur umræða hafist á Evrópska efnahagssvæðinu um skattheimtu þungaflutninga. Hún lýtur að því að kílómetragjald sé réttlátari gjaldtaka en olíugjald og í meira samræmi við álag á vegina. Beri því að skoða ítarlega hvort það skuli tekið upp á svæðinu. Verði það ofan á mun væntanlega lögð áhersla á framfarir í tækjabúnaði og vinnuaðferðum við eftirlit til að gera skattheimtuna skilvirkari og réttlátari en hún er nú.
    Slík þróun væri að mörgu leyti æskileg. Með því móti yrði best tryggt samræmi milli nota og afgjalds. Sérstök skattlagning á þungaflutninga hér á landi umfram það sem gerist í Evrópu getur ekki gengið til frambúðar.






REPRÓ, EIN SÍÐA