Ferill 382. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 382 . mál.


933. Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um útboð þjónustuverkefna, starfsmannafjölda og réttindi starfsmanna varnarliðsins.

    Liggja fyrir áætlanir um áhrif aukinna útboða þjónustuverkefna á starfsmannafjölda varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli? Fela þær í sér fækkun bandarískra starfsmanna sem sinna borgaralegum störfum hjá varnarliðinu?
    Áætlanir liggja ekki fyrir um áhrif aukinna útboða, enda hefur varnarliðið ekki tilkynnt um neinar stórfelldar breytingar á þessu sviði. Heildarfjöldi íslenskra starfsmanna er starfa í þágu varnarliðsins, bæði sem ráðnir starfsmenn og þeir sem vinna fyrir atbeina verktaka í þágu varnarliðsins, hefur verið svo til óbreyttur síðustu þrjú ár, eða rúmlega 1.600 manns. Bandarískum starfsmönnum hefur ekki fækkað vegna aukinna útboða.

    Njóta núverandi starfsmenn forgangs við ráðningar í störf sem þeir sinna sem starfsmenn varnarliðsins þegar verkefni eru boðin út?
    Hjá varnarliðinu gilda sömu meginreglur og á íslenskum vinnumarkaði. Varnarliðið hefur mælt með því við verktaka að starfsmenn er verið hafa í störfum hjá varnarliðinu fái tækifæri til að starfa hjá verktökum, ef þess er kostur. Í einu tilfelli stofnuðu starfsmenn varnarliðsins fyrirtæki sem var valið til verktöku.

    Fela starfslokasamningar þeirra starfsmanna, sem sæta því að störf þeirra færast á útboðsmarkað, í sér biðlaunaréttindi eða önnur réttindi sem miðast við starfsaldur hjá varnarliðinu? Er munur á réttindum íslenskra starfsmanna að þessu leyti og bandarískra þegar störf eru lögð niður hjá hernum við lokanir og fækkun starfsliðs?
    Íslenskir starfsmenn varnarliðsins eru ráðnir til starfa samkvæmt ákvæðum varnarsamningsins frá árinu 1951. Ráðningarkjör og vinnuskilyrði fara að íslenskum lögum og venjum. Varnarliðið er ekki íslensk ríkisstofnun og íslenskir starfsmenn þess teljast ekki til íslenskra ríkisstarfsmanna. Starfsmenn sem sæta því að störf þeirra færast á útboðsmarkað fá uppsagnarfrest og lokauppgjör í samræmi við kjarasamninga og lög og venjur er gilda og tíðkast á íslenskum vinnumarkaði. Íslenskir starfsmenn varnarliðsins njóta ekki þeirra réttinda sem bandarískum ríkisstarfsmönnum eru tryggð með lögum í Bandaríkjunum.

    Hver er aldursskipting og starfsaldursskipting íslenskra starfsmanna varnarliðsins sem nú nálgast starfslok, skipt eftir kynjum?
    Enginn sérstakur starfshópur íslenskra starfsmanna varnarliðsins nálgast nú starfslok. Varnarliðið hefur ekki sett það að skilyrði að íslenskir starfsmenn hætti störfum við ákveðin aldursmörk. Um síðastliðin áramót störfuðu 882 Íslendingar hjá varnarliðinu og skiptust þeir þannig eftir aldri og kyni:

Aldur

Karlar

Konur

Samtals



Yngri en 29 ára     
60
31 90
30–39 ára     
158
58 216
40–49 ára     
139
45 184
50–59 ára     
143
41 184
60–66 ára     
106
46 152
67–69 ára     
25
6 31
Eldri en 70 ára     
22
2 24

    Starfsaldursskiptingin var með þessum hætti:

Starfsaldur

Karlar

Konur

Samtals



Minna en 10 ár     
230
103 333
10–19 ár     
198
86 284
20–29 ár     
128
35 163
30–39 ár     
63
3 66
40–44 ár     
34
2 36

    Hverjar eru áætlanir varnarliðsins fyrir næstu ár um heildarfjölda íslenskra starfsmanna?
    Rekstur varnarliðsins er háður fjárveitingum og leyfum frá bandaríska þinginu og bandarískum fjárveitingaraðilum. Varnarliðið hefur ekki lagt fram áætlanir um breytingar á starfsmannafjölda, hvorki til fækkunar né fjölgunar.
    Með hliðsjón af bókun við varnarsamninginn sem utanríkisráðherra Íslands og aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Walter B. Slocombe, undirrituðu í Reykjavík 9. apríl 1996 um umsvif varnarliðsins er tryggt að starfsemi varnarliðsins hér á landi næstu fimm árin verði með svipuðu sniði og undanfarin ár. Óvissu sem ríkt hefur um nokkurt skeið varðandi framtíðarumsvif varnarliðsins hér á landi hefur þar með verið eytt . Með bókuninni hefur stöðugleiki í rekstri verið tryggður fram yfir aldamót og gera má ráð fyrir að heildarfjöldi íslenskra starfsmanna varnarliðsins verði svipaður á því tímabili og verið hefur.