Ferill 523. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 523 . mál.


971. Skýrsla



félagsmálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála.

(Lögð fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



I. HLUTI


Skýrsla félagsmálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála.


1. INNGANGUR
    Með lögum nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, var tekið upp það nýmæli að félagsmálaráðherra skyldi leggja fyrir ríkisstjórn framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Við endurskoðun gildandi jafnréttislaga, nr. 28/1991, var ákveðið að svo skyldi vera áfram, sbr. 17. gr. laganna, en með nokkrum breytingum. Sú mikilvægasta felst í því að ráðherra skal leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn. Áætlunina skal endurskoða á tveggja ára fresti og í tengslum við það skal félagsmálaráðherra leggja fyrir Alþingi skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála.
    Fyrsta framkvæmdaáætlunin var lögð fyrir Alþingi í desember 1986. Gildistími hennar var til ársloka 1990. Gert var ráð fyrir að önnur áætlunin gilti frá ársbyrjun 1991 til ársloka 1994. Með samþykkt nýrra jafnréttislaga í maí 1991 raskaðist sá gildistími.
    Í samræmi við ákvæði laga nr. 28/2991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, samþykkti Alþingi 7. maí 1993 þingsályktun um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Hér var um að ræða þriðju framkvæmdaáætlunina sem að hluta tók til sama tíma og önnur áætlunin. Af þessari ástæðu breytust nokkuð áætlanir um samantekt á skýrslu ráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála.
    Gildistími gildandi framkvæmdaáætlunar er frá 1. janúar 1993 til 31. desember 1997. Við stjórnarskipti í lok apríl 1995 ákvað nýr félagsmálaráðherra að láta fara fram endurskoðun á gildandi framkvæmdaáætlun á sviði jafnréttismála. Henni lauk að mestu leyti síðasta haust. Hins vegar var ákveðið að fresta endanlegri endurskoðun framkvæmdaáætlunarinnar þar til niðurstaða fjórðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna, sem haldin var í Beijing í september 1995, lægi fyrir. Enn fremur þótti rétt að bíða niðurstaðna athugunar á fyrstu skýrslu Íslands um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um afnám alls misréttis gagnvart konum. Þær voru birtar íslenskum stjórnvöldum í febrúar 1996.
    Þegar lagt er mat á ábendingar, sem fram hafa komið á innlendum og erlendum vettvangi, um stöðu jafnréttismála á Íslandi er ljóst að ýmislegt má betur fara á þessu mikilvæga sviði. Ábendingarnar eru þess eðlis að unnt á að vera að koma á umbótum innan ramma gildandi framkvæmdaáætlunar. Niðurstaðan er því sú að ekki eru að þessu sinni lagðar til breytingar á áætluninni. Hins vegar er hér með lögð fyrir Alþingi skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála, eins og áskilið er samkvæmt ákvæðum 17. gr. jafnréttislaga. Skýrslan er í tveimur hlutum.
    Fyrri hlutinn er viðauki við skýrslu félagsmálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála sem lögð var fyrir Alþingi í febrúar 1995. Efnisskipan þeirrar skýrslu er svipuð og í fyrri skýrslum, með nokkrum undantekningum. Í henni er ítarlega fjallað um framkvæmd fyrri jafnréttisáætlana. Þetta er gert samræmi við óskir þingmanna. Nokkur dráttur varð á því að skýrslan væri lögð fyrir Alþingi. Þar af leiðandi hafa ýmis atriði og upplýsingar sem koma fram í henni tekið allnokkrum breytingum. M.a. af þeirri ástæðu þótti rétt að endurnýja þessar upplýsingar með þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir.
    Í seinni hlutanum er að finna mat á framkvæmd gildandi þingsályktunar um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til aðkoma á jafnrétti kynjanna.
    Skýrslan hefur að stórum hluta verið tekin saman af Skrifstofu jafnréttismála. Sérstök ástæða er til að þakka Elsu Þorkelsdóttur, framkvæmdastjóra Skrifstofu jafnréttismála, og Stefanínu Traustadóttur félagsfræðingi fyrir þeirra hlut í samningu skýrslunnar.

2. LÖGGJÖF
    Árið 1993 lagði stjórnarskrárnefnd Alþingis fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins. Hér var um að ræða breytingu á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Fram komu ábendingar frá aðilum um nauðsyn þess að kveðið yrði á um jafnrétti karla og kvenna í stjórnarskránni. Meðal þeirra sem þetta gerðu var Jafnréttisráð. Í umsögn ráðsins kemur fram það álit að rétt væri að lögfesta sérstakt ákvæði sem ekki einungis tryggði jafnrétti karla og kvenna heldur einnig þá skyldu stjórnvalda að grípa til aðgerða til að koma á raunverulegu jafnrétti kynja. Tillaga ráðsins var sú að þetta mætti t.d. orða þannig að tryggja skuli jafnrétti kvenna og karla á öllum sviðum þjóðlífs. Þar sem slíkt teldist nauðsynlegt skyldu stjórnvöld grípa til sérstakra aðgerða til að jafnrétti í raun verði náð.
    Stjórnarskrárnefnd tók tillit til þessara athugasemda. Hún lagði til svohljóðandi breytingu:
    „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillit til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
    Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“
    Ný stjórnarskipunarlög voru samþykkt á Alþingi Íslendinga 15. júní 1995. Jafnréttisákvæðið er að finna í upphafsgrein VII. kafla, 65. gr.

3. LAUN KVENNA OG KARLA
3.1 Norræna jafnlaunaverkefnið.
    Í skýrslu félagsmálaráðherra frá því í febrúar 1995 er fjallað um Norræna jafnlaunaverkefnið (kafla 4.11) sem er eitt af umfangsmestu samstarfsverkefnum sem Norðurlöndin hafa ráðist í á sviði jafnréttismála. Verkefninu lauk formlega haustið 1994. Markmið þess var að leita leiða til að draga úr mun á launum karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf. Framkvæmd verkefnisins hófst hér á landi í febrúar 1991.
    Á vegum verkefnisins hefur verið unnið mikið fræðslu-, útgáfu- og kynningarstarf. Útgáfan var ýmist á vegum íslenska verkefnisins eða sameiginleg útgáfa norrænu verkefnisstjóranna. Eitt af lokaverkefnum norræna jafnlaunahópsins var að gefa yfirlit yfir verkefnið. Það var gert í bókinni „Från kvinnolön till likalön – från kunskap till handling“. Bókin var gefin út og kynnt á Nordisk Forum í Åbo. Hún er sú síðasta af þremur en áður hafa komið út bækurnar „Løn efter fortjenste – et spørgsmål om vurdering“ og „Kvinnelønnas mysterier – myter og fakta om lønnsdannelse“. Í öllum þessum bókum eru greinar eftir íslenska höfunda. Síðasta bókin er nokkuð öðruvísi en hinar fyrri því að þar er meiri áhersla lögð á hvað unnt sé að gera til úrbóta. Hún hefur verið þýdd á íslensku. Á vegum verkefnisins kom einnig út bókin „Launajöfnun. Ný viðhorf – nýjar leiðir“.
    Í tengslum við verkefnið var efnt til fjölda funda og fyrirlestra þar sem m.a. var lögð sérstök áhersla á starfsmat sem mögulega leið í jafnlaunabaráttunni.

3.2 Tölfræðihópur.
    Árið 1991 skipaði félagsmálaráðherra sérstakan tölfræðihóp Norræna jafnlaunaverkefnisins. Hlutverk hópsins var að setja fram tillögur til úrbóta á sviði opinberrar tölfræðilegrar upplýsingaöflunar og þróa aðferðir við úrvinnslu þannig að greina megi launamun karla og kvenna og afmarka áhrif kynferðis á þennan mun. Enn fremur bar hópnum að kanna hvort fylgni væri milli hlutfalls kvenna í einstökum starfsgreinum og kjara, auk þess að vera til ráðgjafar um framkvæmd kannana og athugana á vegum Norræna jafnlaunaverkefnisins. Í hópnum voru fulltrúar frá kjararannsóknarnefnd, Hagstofu Íslands, Þjóðhagsstofnun og kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna.
    Vinnuhópurinn sendi félagsmálaráðherra þrjár skýrslur. Í fyrsta lagi voru það tillögur um úrbætur á sviði upplýsingaöflunar, í öðru lagi samantekt um skýrslur, kannanir og gagnasöfnun um stöðu kynjanna á vinnumarkaði og loks skýrsla Félagsvísindastofnunar um launamyndun og kynbundinn launamun.
    Í skýrslu sem tölfræðihópurinn gaf út í febrúar 1995 er gerð grein fyrir helstu tillögum hans um umbætur í öflun upplýsinga um stöðu kynjanna. Hópurinn bendir á að nauðsynlegt sé að bæta upplýsingaöflun um launakjör og atvinnuþátttöku fyrir almenna hagskýrslugerð. Tillögurnar taka til fjölmargra sviða en eru í þremur liðum. Í fyrsta lagi varðandi launa- og tekjukannanir, í öðru lagi kannanir á atvinnuþátttöku og í þriðja lagi eru gerðar tillögur um samnýtingu á upplýsingum úr fleiri en einum gagnabanka.

3.3 Rannsókn á launamyndun og kynbundnum launamun.
    Eins og áður sagði var norræna jafnlaunaverkefnið stærsta verkefnið samkvæmt samstarfsáætlun jafnréttisráðherra Norðurlanda fyrir tímabilið 1989–94 á sviði launajafnréttis kvenna og karla. Meginmarkmið þess var að stuðla að launajafnrétti kynjanna í víðum skilningi. Samkvæmt tillögum tölfræðihóps sem áður er getið var ákveðið að ráðast í sérstaka rannsókn sem hefði að markmiði að varpa ljósi á stöðu kynjanna á vinnumarkaðinum og freista þess að upplýsa með hvaða hætti ákvarðanir um laun væru teknar, hvaða sjónarmið réðu því hverjir veljast í stöður og hvernig hægt væri að skýra launamyndun í stofnuninni/fyrirtækinu. Á þennan hátt yrði ekki einungis þeirri spurningu svarað hver væru laun kvenna og karla heldur einnig hvort konur væru beittar misrétti á vinnumarkaði. Því yrði að svara þannig að stjórnvöld, atvinnurekendur, verkalýðsfélög og aðrir gætu unnið markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði eins og lög boða.
    Jafnréttisráð ákvað að fela Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands að vinna könnunina í samvinnu og samráði við tölfræðihóp jafnlaunaverkefnisins. Þær fimm meginspurningar sem rannsókninni var ætlað að svara voru:
    Hver eru laun kvenna og karla á viðkomandi vinnustað? Hvernig skiptast laun í grunnlaun, laun vegna yfirvinnu og aukagreiðslur? Hvert er samband launa og sarfshlutfalls, starfsstéttar, menntunar, fjölda yfirvinnutíma, aldurs, starfsaldurs og þess hvort starfað er hjá opinberri stofnun eða einkafyrirtæki.
    Hvernig eru kjör ákveðin? Eru laun ákveðin eftir kjarasamningum og fastmótuðum reglum eða með einstaklingsbundnum samningum? Er starfsmönnum ljóst á hvern hátt þeirra eigin laun og annarra starfsmanna eru ákvörðuð?
    Hvert er inntak starfs og hvers er krafist af starfsmanni til að sinna starfinu? Hvaða kröfur eru gerðar til starfsmanna og hvaða áhrif hafa þættir eins og mannaforráð, ábyrgð, álag, sérhæfing, áhætta, aðstæður á vinnustað, vinnutími o.s.frv. á laun?
    Hvernig fara mannaráðningar, stöðubreytingar og tilfærslur í starfi fram? Vita starfsmenn hvaða þættir ráða ákvörðunum um ráðningar og stöðuhækkanir? Eru starfsmenn hvattir eða lattir til að sækjast eftir auknum frama í starfi?
    Hvaða áhrif hafa einkahagir fólks á möguleika þeirra á vinnumarkaði? Álíta yfirmenn og almennt starfsfólk að einkahagir, svo sem aldur og fjöldi barna stuðli að eða dragi úr möguleikum til að sinna ákveðnum störfum og til frama í starfi? Hvetja vinnufélagar, vinir og fjölskylda karla og konur jafnmikið til að sækjast eftir starfsframa? Telur fólk að það muni koma niður á fjölskyldu og einkalífi að takast á við ábyrgðarstörf?

3.3.1 Helstu niðurstöður könnunarinnar.
    Draga má saman helstu niðurstöður úr rannsókn Félagsvísindastofnunar á launamyndun og kynbundnum launamun á eftirfarandi hátt:
     Launamunur. Í ljós kom töluverður munur á launum karla og kvenna, hvort sem skoðuð eru hrein dagvinnulaun, dagvinnulaun og aukagreiðslur eða jafnaðarkaup. Konur voru með 78% af hreinum dagvinnulaunum karla en þegar tekið var tillit til aukagreiðslna voru þær með 70% af launum karla. Þetta hlutfall lækkar enn þegar miðað er við jafnaðarkaup, en þá voru konur með 68% af launum karla.
    Oft er bent á að sá munur sem fram kemur á launum karla og kvenna sé í raun vegna þess að karlar hafi meiri menntun en konur. Niðurstöður sýndu að menntun leiðir til launahækkunar bæði hjá konum og körlum en hún leiðir til meiri launahækkunar hjá körlum. Launamunur kynjanna hverfur því ekki þegar tillit er tekið til menntunar fólks. Að vísu er enginn munur á launum karla og kvenna sem ekkert nám hafa stundað eftir grunnskóla en töluverður munur er á launum karla og kvenna sem lokið hafa framhaldsskóla- eða háskólaprófi. Konur með framhaldsskólamenntun eru með um 78% af launum (dagvinnulaunum að viðbættum aukagreiðslum) karla með sambærilega menntun og konur með háskólamenntun eru aðeins með um 64% af launum háskólamenntaðra karla.
    Í skýrslu Félagsvísindastofnunar er sett fram sú hugsanlega skýring á launamun karla og kvenna að konur vinni frekar hjá hinu opinbera en karlar hjá einkafyrirtækjum. Þessi skýring virðist hins vegar ekki duga til því að þegar tekið var tillit til þess hvort fólk starfaði hjá opinberri stofnun eða einkafyrirtæki, auk menntunar, var launamunur enn til staðar. Háskólamenntaðir karlar og karlar með framhaldsskólamenntun voru með hærri laun en konur með sambærilega menntun, hvort sem um var að ræða einkafyrirtæki eða opinbera stofnun.
    Launamunur milli kynjanna er einnig oft skýrður með því að vísa til þess að fleiri karlar starfi sem sérfræðingar og stjórnendur en konur og því þurfi að taka tillit til starfsstéttar þegar fjallað er um launamun. Bæði karlar og konur sem starfa sem sérfræðingar og stjórnendur hafa töluvert hærri laun en aðrar starfsstéttir. Þessi starfsheiti hafa hins vegar meiri launahækkun í för með sér fyrir karla en fyrir konur. Þegar tekið er tillit til starfsstéttar kom í ljós að laun verkafólks, starfsfólks í sérhæfðum iðnaðarstörfum, þjónustu- og afgreiðslustörfum og skrifstofufólks voru jafnhá hjá konum og körlum. Karlar í hópi tækna eða sérhæfðs starfsfólks, sérfræðinga, stjórnenda og embættismanna höfðu hins vegar hærri laun en konur í sömu starfsstéttum.
    Starfsstétt, menntun, starfsaldur, aldur, fjöldi yfirvinnutíma og hvort starfað er hjá einkafyrirtæki eða hjá opinberum aðilum skýrir að stórum hluta breytileika dagvinnulauna og aukagreiðslna. Þessir þættir hafa þó mun meiri áhrif á laun karla en kvenna og þegar tekið hefur verið tillit til allra þessara þátta hafa konur samt sem áður 16% lægri laun en karlar.
     Hvernig eru laun og kjör ákveðin? Svör við spurningunni um hvernig laun séu ákveðin (þ.e. hvort borgað sé að öllu leyti samkvæmt taxta stéttarfélags, hvort um sé að ræða taxta og yfirborgun eða sérsamning milli launþega og atvinnurekanda) sýndu að mun algengara er að konur fái eingöngu greitt samkvæmt taxta stéttarfélags en karlar. Menntun og stétt höfðu einnig áhrif á það hvort fólk fær eingöngu borgað samkvæmt taxta því að yfirborganir eða sérsamningar eru algengari meðal háskólamenntaðs fólks, hvort sem er hjá opinberu stofnununum eða einkafyrirtækjunum, og meðal sérfræðinga og stjórnenda. Það gæti því hugsast að sá munur sem fram kemur á hlutfallslegum fjölda karla og kvenna sem fá aukagreiðslur sé í raun munur á menntun og starfsstétt karla og kvenna. Þegar tekið er tillit til þessara breytna kemur hins vegar í ljós að það er samt sem áður algengara að konur fái eingöngu greitt samkvæmt taxta en karlar. Niðurstöður sýndu því að sérsamningar launþega og vinnuveitenda leiða til aukins munar á launum karla og kvenna. Í þeim stéttum þar sem sérsamningar voru algengastir var langmesti munurinn á launum kynjanna.
     Inntak starfsins og kröfur til starfsmanna. Þegar fjallað er um launamun karla og kvenna er stundum bent á að karlar hafi hærri laun vegna þess að störf þeirra séu að ýmsu leyti „erfiðari“ en störf kvenna. Þeim spurningum í könnuninni sem fjölluðu um inntak eða eðli starfs má skipta í níu þætti:
    andlegt álag,
    ábyrgð á rekstri,
    líkamlegt álag,
    meðferð fjármuna,
    nákvæmni, handleikni og einbeitingu,
    sveigjanleika eða sjálfstæði í starfi,
    tímaþröng,
    hópvinnu og
    eyðublaðaútfyllingar.
    Andlegt álag í starfi og ábyrgð á rekstri hækkar bæði laun karla og kvenna en líkamlegt álag hefur hins vegar neikvæða fylgni við laun karla og kvenna. Þegar starf krefst handleikni, nákvæmni og einbeitingar, eða þegar eyðublaðaútfyllingar eru ríkur þáttur í starfinu lækkar það laun karla en ekki kvenna. Hópvinna, sem væntanlega felst fyrst og fremst í nefndarstörfum ýmiss konar, hækkar laun karla en ekki kvenna. Þegar starf felur í sér sveigjanleika eða sjálfstæði í starfi hækkar það hins vegar laun kvenna en ekki karla.
    Þegar tekið var tillit til starfsstéttar, menntunar, starfsaldurs, aldurs, fjölda yfirvinnutíma, inntaks starfs og fjölda sem vinnur í sama herbergi voru konur með 11% lægri dagvinnulaun og aukagreiðslur á klukkustund en karlar.
    Framangreindir þættir hafa mun meiri áhrif á laun karla en kvenna því að þeir skýrðu 80% af breytileika í launum karla en einungis 66% af breytileika í launum kvenna. Þeir þættir sem mest áhrif hafa á laun karla eru menntun (þeir karlar sem hafa lokið grunnskólanámi eru með 15% lægri laun en þeir sem lokið hafa framhaldsskólanámi. Háskólamenntaðir karlar eru hins vegar með um 16% hærri laun en þeir karlar sem lokið hafa framhaldsskólanámi), hvort þeir starfa hjá einkafyrirtæki eða opinberri stofnun (karlar sem vinna hjá einkafyrirtæki hafa 41,4% hærri laun en karlar sem vinna hjá opinberri stofnun) og það hversu mikið eða lítið líkamlegt álag er í starfi (þegar líkamlegt álag eykst um eina staðaleiningu lækka laun um rúm 14%). Þeir þættir sem mest áhrif hafa á laun kvenna eru hvort þær vinna hjá einkafyrirtæki eða opinberri stofnun (konur sem starfa hjá einkafyrirtækjum eru með um 35% hærri laun en konur í sambærilegu starfi og með sambærilega menntun hjá því opinbera) og starfsaldur á núverandi vinnustað (fyrir hvert ár sem þær hafa starfað hjá viðkomandi stofnun eða fyrirtæki hækka laun um 1,6%). Þrátt fyrir að sterkt samband sé á milli menntunar kvenna og launa þeirra hverfur það þegar tekið hefur verið tillit til starfsstéttar, inntaks starfs og fleiri þátta. Þegar tekið hefur verið tillit til áhrifa þessara sömu þátta á laun karla hefur starfsaldur (hvort sem er á vinnumarkaði eða á núverandi vinnustað) ekki lengur áhrif á laun þeirra. Þetta bendir því til að að konur þurfi frekar að sanna sig á nýjum vinnustað en karlar. Prófgráða þeirra og reynsla dugar ekki sem staðfesting á hæfni heldur þurfa þær einnig að sýna hvað í þeim býr áður en þær komast áfram innan stofnunar eða fyrirtækis.
     Aukagreiðslur. Rúm 34% þeirra karla sem svöruðu spurningalistanum og tæp 11% kvenna fá einhverjar aukagreiðslur í formi „óunninnar“ yfirvinnu, þóknunareininga og/eða bílastyrkja. Konur fá að jafnaði um 12 þús. kr. lægri upphæð í aukagreiðslur á mánuði en karlar eftir að tekið hefur verið tillit til starfsstéttar, menntunar, aldurs, starfsaldurs og þess hvort unnið er hjá opinberri stofnun eða einkafyrirtæki. Þegar áhrif menntunar eru skoðuð annars vegar fyrir karla og hins vegar fyrir konur kom í ljós að menntun hefur einungis áhrif á upphæð aukagreiðslna til karla. Háskólamenntaðir karlar fengu að jafnaði með 17 þús. kr. hærri aukagreiðslur á mánuði en aðrir karlar í sambærilegum störfum. Menntun kvenna hefur hins vegar ekki áhrif á hve háar aukagreiðslur þær fá. Þegar einnig hefur verið tekið tillit til inntaks starfs munar að jafnaði um 10 þús. kr. á mánaðarlegum aukagreiðslum karla og kvenna. Það er mjög mismunandi hvaða þættir hafa áhrif á upphæð aukagreiðslna hjá körlum annars vegar og konum hins vegar. Menntun skiptir hér miklu máli. T.d. bendir könnunin til þess að háskólamenntun skýri 15% af breytileika aukagreiðslna sem falla í hlut karla. Þegar tekið var tillit til starfsstéttar, aldurs, starfsaldurs, hvort starfað er hjá opinberri stofnun eða einkafyrirtæki, vinnutíma og inntaks starfs hafði háskólamenntun hins vegar ekki lengur tölfræðilega marktæk áhrif á aukagreiðslur til þeirra. Eðli eða inntak starfs karla ræður mestu um hversu miklar aukagreiðslur þeir fá. Auknar aukagreiðslur til karla fylgdu aukinni ábyrgð, auknu andlegu álagi og hópvinnu eða nefndarstörfum. Á sama hátt dregur úr aukagreiðslum eftir því sem líkamlegt álag eykst, eftir því sem eyðublaðaútfylling verður ríkari þáttur í starfinu og eftir því sem vinnutími lengist. Starfsstétt kvenna er hins vegar eina breytan sem hefur áhrif á hvort og hversu miklar aukagreiðslur þær fá því að þær konur sem starfa sem sérfræðingar eða stjórnendur eru þær einu sem fá einhverjar aukagreiðslur. Konur í þessum starfsstéttum fengu að jafnaði 10–13 þús. kr. í aukagreiðslur, óháð menntun þeirra, starfsaldri eða eðli starfsins.
     Hvaða þættir hafa áhrif á mannaráðningar og stöðubreytingar? Yfirmenn eru ekki líklegri til að benda körlum á leiðir til stöðu- og launahækkana en konum. Þeir hvöttu hins vegar karla frekar en konur til að sækja ráðstefnur, koma með eigin hugmyndir eða til að vinna að sjálfstæðum verkefnum. Þessi kynjamunur er fyrir hendi eftir að tekið hefur verið tillit til menntunar. Yfirmenn voru einnig líklegri til að biðja karl en konu um að leysa sig af eða koma fram sem fulltrúi fyrirtækisins.
    Heldur fleiri karlar en konur höfðu sóst eftir stöðuhækkun. Þetta var nokkuð háð menntun og snerist hlutfallið við hjá háskólamenntuðum. Hlutfallslega fleiri háskólamenntaðar konur en karlar höfðu farið fram á stöðuhækkun. Almennt tóku yfirmenn jafnvel í óskir karla og kvenna um stöðuhækkun en þetta var einnig háð menntun fólks. Eftir því sem konur höfðu minni menntun var líklegra að viðbrögð vinnuveitenda væru jákvæð en eftir því sem menntun karla var meiri því líklegra var að þeir fengju þá stöðuhækkun sem þeir sóttust eftir. Þegar tillit hafði verið tekið til menntunar höfðu álíka margir karlar og konur sóst eftir launahækkun. Karlar voru hins vegar mun líklegri til að fá þá launahækkun sem þeir báðu um.
    Karlar höfðu sótt fleiri námskeið en konur. Þeir virtust óska frekar eftir því en konur og þeir voru einnig frekar sendir af vinnuveitendum án þess að óska eftir því. Karlar höfðu einnig farið á fleiri ráðstefnur en konur. Kynjamunur var langmestur hjá háskólamenntuðu starfsfólki því að karlar sem lokið hafa háskólaprófi höfðu farið á mun fleiri ráðstefnur en háskólamenntaðar konur. Munurinn virðist helst stafa af því að háskólamenntaðar konur höfðu síður óskað eftir því að fara á ráðstefnur en háskólamenntaðir karlar. Konur höfðu síður en karlar falast eftir sjálfstæðum verkefnum og buðust síður til að leysa yfirmann sinn af eða koma fram sem fulltrúar stofnunar eða fyrirtækis. Þetta var þó háð menntun. Háskólamenntaðar konur voru jafnlíklegar og háskólamenntaðir karlar til að leggja fram eigin hugmyndir, falast eftir sjálfstæðum verkefnum og bjóðast til að leysa yfirmann sinn af. Þessar niðurstöður eru sérstaklega áhugaverðar þegar þær eru bornar saman við hvatningu yfirmanns því að hann er í öllum tilfellum líklegri til að hvetja háskólamenntaða karla til að taka að sér framangreind verkefni en háskólamenntaðar konur.
     Áhrif fjölskylduaðstæðna á laun og áhuga og möguleika til stöðuhækkana. Þegar samband milli hjúskaparstöðu og launa er skoðað er ljóst að hjúskaparstaða karla hefur áhrif á laun þeirra en ekkert samband er milli hjúskaparstöðu og launa kvenna. Karlar í hjúskap fengu mun hærri laun en einhleypir karlar eftir að tekið hafði verið tillit til menntunar og aldurs. Fólk í hjúskap hafði meiri áhuga á stöðuhækkun en einhleypt fólk, bæði konur og karlar. Samband milli barnafjölda og launa fer eftir hjúskaparstöðu. Gera má ráð fyrir að að laun kvæntra karla og giftra kvenna hækki um 4,5% með hverju barni (eftir að tillit hefur verið tekið til menntunar, starfsstéttar, hvort fólk vinnur hjá einkafyrirtæki eða opinberri stofnun, aldurs, starfsaldurs og fjölda yfirvinnutíma á mánuði). Barnafjöldi hefur hins vegar engin áhrif á laun einhleypra foreldra.
    Í viðtölunum kom fram að konur væru álitnar ótryggari starfskraftur og væru því síður ráðnar en karlar. Þetta var einkum skýrt með því að konur dyttu út af vinnumarkaði vegna barneigna og væru meira fjarverandi vegna veikinda barna. Barneignir draga nokkuð úr áhuga, bæði karla og kvenna, á stöðuhækkunum, nema hvað þær virðast auka áhuga karla sem aðeins hafa stundað grunnskólanám. Enginn munur var á áhuga háskólamenntaðra karla og kvenna á stöðuhækkunum. Um 90% barnlausra háskólamenntaðra karla og kvenna, yngri en 50 ára, sögðust hafa áhuga á stöðuhækkkun, en um 70% háskólamenntaðra á sama aldri sem eiga börn yngri en 16 ára. Mun fleiri sögðust hafa áhuga á stöðuhækkun en hafa sjálfir sóst eftir henni. Barneignir draga úr líkum á því að konur sæki um stöðuhækkun en auka líkur á að karlar geri það. Þetta er þó háð menntun. Háskólamenntaðar konur eru jafnvel líklegri til að sækja um stöðuhækkun en karlar með háskólamenntun (rúm 22% háskólamenntaðra feðra, yngri en 50 ára, hefur sóst eftir stöðuhækkun en um 27% háskólamenntaðra mæðra, á sama aldri). Stjórnendur stofnana og fyrirtækja töldu það ekki hafa neikvæð áhrif á möguleika karlmanns til starfsframa að eiga börn yngri en sex ára en rúmur fjórðungur þeirra taldi það hins vegar hafa neikvæð áhrif á möguleika kvenna. Almennt virðist vera gengið út frá því að konur sjái um börn og heimili, en karlarnir sjái fyrir fjölskyldunni og þurfi því hærri laun. Þetta viðhorf er ekki aðeins ríkjandi meðal stjórnenda heldur einnig meðal almennra launþega. Svo virðist sem mjög sjaldgæft sé að hjón ræði það hvernig þau skipta tíma sínum milli fjölskyldu og heimilis. Þegar börnin fæðast þróast það einfaldlega þannig að konurnar sjá um börnin og karlarnir vinna fyrir fjölskyldunni þótt þeir þurfi oft að fá aðstoð eiginkvenna til að endar nái saman. Ýmislegt bendir til þess að önnur viðhorf ríki meðal yngra starfsfólksins. Velflestir karlanna og giftu konurnar töldu að almennur áhugi ríkti meðal karla, a.m.k. meðal yngri manna, til að draga úr vinnu og sinna fjölskyldu meira en nú er. Ýmsir viðmælenda, bæði karlar og konur, drógu þó í efa að um raunverulegan áhuga væri að ræða. Það mundi væntanlega heyrast meira í þeim ef þeir hefðu virkilegan áhuga. Aðrir töldu skilningsleysi stjórnenda stofnana og fyrirtækja koma í veg fyrir aukna þátttöku karla í barnauppeldi. Ungir menn sem rætt var við töldu litlar líkur á að karlmenn gætu sinnt börnum og heimili í ríkara mæli fyrr en kynslóðaskipti hefðu orðið meðal stjórnenda, sem flestir hefðu mjög gamaldags viðhorf.
     Viðhorf karla og kvenna til starfs síns. Forgangsröðun kvenna eða tilhneiging þeirra til að láta fjölskylduna ganga fyrir vinnunni var ekki eina ástæðan sem var gefin fyrir því að þær væru síðri starfskraftur en karlar. Margir töldu þær einnig hafa önnur viðhorf til vinnu, þær hefðu ekki sama áhuga og væru ekki tilbúnar til að fórna sér fyrir stofnunina eða fyrirtækið. Stjórnendur virðast meta það mikils að starfsfólk sé reiðubúið að vinna fram eftir og telja að karlar séu líklegri til að láta vinnuna ganga fyrir öðru. Viðmælendur voru þó ekki sannfærðir um að þessi mikla yfirvinna væri nauðsynleg eða að framleiðni væri meiri hjá þeim sem lengstan vinnudag hafa. Margir töldu að vel mætti skipuleggja starfsemina betur og stytta vinnutíma án þess að það kæmi niður á framleiðni.
    Viðhorf fólks til starfs síns geta að einhverju leyti skýrt laun. Svör við spurningalista benda til þess að fullyrðingar um ólík viðhorf kynja séu ekki tilhæfulausar. Margt bendir til að karlar meti starf sitt meira en konur og telji störf sín skipta meira máli fyrir fyrirtækið. Mun algengara var að karlar teldu mistök sín í starfi hafa fjárhagslegt tap fyrir fyrirtækið í för með sér en konur. Þessi munur kom fram hjá öllum starfsstéttum að frátöldum iðnaðarmönnum. Á sama hátt eru hlutfallslega færri konur en karlar þeirrar skoðunar að þær þurfi líklega að segja upp eða verði sagt upp ef þær geri mistök í starfi. Þetta á við um allar starfsstéttir nema sérfræðinga því þar var hlutfall kvenna hærra en karla. Hlutfallslega fleiri karlar voru einnig þeirrar skoðunar að það taki meira en ár að ná góðum tökum á því starfi sem þeir sinna og var það ekki háð starfsstétt. Konur virðast því meta störf sín lítils miðað við karla og telja þau hafa lítil áhrif á fjárhagslega velgengni fyrirtækisins. Ekki var gerð tilraun til þess að meta hversu flókin störfin væru en líklegt má telja að hvort tveggja eigi sér stað, ofmat karla og vanmat kvenna, enda er slíkt þekkt úr öðrum rannsóknum.
     Viðhorf svarenda til jafnréttismála. Töluverður munur kom fram á svörum karla og kvenna þegar þau voru innt eftir viðhorfum sínum til mikilvægis þess að móta ákveðna jafnréttisstefnu innan stofnunar sinnar eða fyrirtækis. Flestir karlanna, einkum innan opinberu stofnananna töldu slíka stefnu með öllu óþarfa þar sem jafnrétti væri í fyrirrúmi. Konur væru farnar að sækja meira í stjórnunarstöður og því færi launamunur minnkandi. Niðurstöður könnunarinnar stangast þó á við þetta viðhorf þar sem mesti launamunur á körlum og konum er einmitt meðal stjórnenda og sérfræðinga. Konurnar töldu hins vegar flestar mikilvægt að ákveðin jafnréttisstefna væri mótuð. Allmargir viðmælenda höfðu orð á því að erfitt væri að ná fram jafnrétti á vinnumarkaði nema með því að auka ábyrgð karla á börnum og heimili og slíkt væri erfitt að gera nema með því að auka rétt þeirra til fæðingarorlofs. Viðmælendur virðast flestir vera nokkuð svartsýnir á að hægt sé að auka ábyrgð karla á barnauppeldi þar sem ástand á vinnumarkaði, svo sem hærri laun karla, lengri vinnutími þeirra, viðhorf stjórnenda til kvenna og ástand í dagvistar- og skólamálum viðhaldi þeim viðhorfum og fyrirkomulagi sem hér hefur verið lýst.
     Viðbrögð. Í framhaldi af skýrslunni skipaði félagsmálaráðherra 8. mars 1995 starfshóp sem m.a. fékk það verkefni að leita leiða til þess að draga úr launamun kynja. Í hópinn voru skipaðir fulltrúar frá ASÍ, BSRB, BHMR, fjármálaráðuneytinu og Reykjavíkurborg, ásamt fulltrúa frá Skrifstofu jafnréttismála sem jafnframt var formaður starfshópsins. Fulltrúum frá VSÍ og VMSÍ var einnig boðið sæti í hópnum. Samkvæmt skipunarbréfi hópsins er fyrsta verkefni hans að safna gögnum erlendis frá og skrifa skýrslu um kosti og galla starfsmats sem tækis til að draga úr launamun kvenna og karla. Enn fremur skal hann skoða möguleika þess að beita starfsmati á íslenskum vinnumarkaði. Eftir alþingiskosningarnar í apríl sl. skipaði nýr félagsmálaráðherra Siv Friðleifsdóttur alþingismann nýjan formann starfshópsins. Þess var aftur farið á leit við forustumenn VSÍ og VSMÍ að þeir tækju þátt í störfum hópsins. VSMÍ þáði boðið og starfar fulltrúi þess nú með hópnum.

4. HLUTFALL KVENNA OG KARLA Í SVEITARSTJÓRNUM OG Á ALÞINGI
    Sveitarstjórnarkosningar fóru fram í maí 1994 og kosningar til Alþingis í apríl 1995. Á vegum Skrifstofu jafnréttismála hafa úrslit kosninganna verið rannsökuð með tilliti til fjölda karla og kvenna sem hlutu kosningu. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

4.1 Sveitarstjórnarkosningar 1994.
    Í kosningum árið 1994 fjölgaði konum í sveitarstjórnum. Fyrir kosningar voru konur 22% af heildarfjölda fulltrúa í sveitarstjórnum. Eftir kosningarnar eru þær 25%. Þessi aukning á sér fyrst og fremst stað í kauptúnahreppum og fámennum sveitarhreppum. Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum í þéttbýli breytist lítið í kosningunum. Árið 1986 var það 28,9%, eftir kosningarnar 1990 31,5%.
    Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu lækkaði í kosningunum. Fyrir kosningar voru konur 45% af sveitarstjórnarmönnum á þessu svæði en hlutfall þeirra er nú mun lægra eða rétt 38%.
    Eftirfarandi yfirlit sýnir fjölda kvenna í sveitarstjórnum, hlutfall þeirra af heildarfulltrúafjölda og fjölda sveitarfélaga þar sem konur eiga enga fulltrúa í sveitarstjórn.

Kosningar,

Hlutfall af

Fjöldi sveitar-


ár

Konur

heildarfjölda, %

stjórna, engin kona



                                  1962     
11
0,9

uppl. vantar


                                  1970     
28
2,4

uppl. vantar


                                  1982     
148
12,4 113
                                  1986     
225
19,2 81
                                  1990     
243
21,8 58
                                  1994     
243
24,8 32

    Á síðustu árum hefur sveitafélögum fækkað. Árið 1990 voru þau 204 en eru nú 171. Þrátt fyrir þessa fækkun sveitarfélaga hefur sú jákvæða þróun átt sér stað að sveitarstjórnum án kvenna hefur fækkað hlutfallslega úr 28,4% í 18,7%.

4.2 Alþingiskosningar 1995.
    Á síðustu áratugum hefur konum fjölgað á Alþingi. Fyrir tæpum tveimur áratugum voru þær 3% Alþingismanna. Eftir kosningarnar árið 1991 hafði þeim fjölgað í 16 eða í fjórðung þingmanna. Þetta hlutfall breyttist ekki í kosningum sem fram fóru til Alþingis árið 1995. Samtals hlutu 16 konur kosningu og eru þær 25% þingmanna. Staða íslenskra kvenna er að þessu leyti mun lakari en kvenna annars staðar á Norðurlöndum. Taflan hér á eftir sýnir fjölda og hlutfall kjörinna þingmanna frá árinu 1979.

Ár

Alls

Konur

%



                                  1979     
60
3 5
                                  1983     
60
9 15
                                  1987     
63
13 21
                                  1991     
63
16 25
                                  1995     
63
16 25

5. RIT UM JAFNRÉTTISMÁL
    Í mars 1995 kom út skýrsla íslenskra stjórnvalda í tilefni af fjórðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna í Beijing 1995. Í henni er að hluta til að finna sambærilegar upplýsingar og í skýrslum félagsmálaráðherra, m.a. hvað varðar þróun löggjafar um lagaleg réttindi kvenna og karla, um stöðu kvenna og karla hvað varðar menntun og nýjustu upplýsingar um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaðinum. Auk þess er þar fjallað um aðgerðir til að auðvelda starfsmönnum með fjölskylduábyrgð þátttöku í atvinnulífinu, um konur og heilbrigði og um ofbeldi gegn konum. Allar tölulegar upplýsingar í þeirri skýrslu eru frá árinu 1994.

6. KARLAR OG JAFNRÉTTI
    Ýmsir hafa orðið til þess að benda á mikilvægi þess að karlar taki virkan þátt í aðgerðum til að koma á jafnrétti kynjanna. Stjórnvöld hafa brugðist við þessum ábendingum á ýmsan hátt. M.a. starfaði á vegum félagsmálaráðuneytisins nefnd á árunum 1991–94 sem hafði það hlutverk að fjalla um stöðu karlmanna í breyttu þjóðfélagi þar sem jafnrétti ríkir á milli kynjanna. Í skýrslu félagsmálaráðherra, sem lögð var fyrir Alþingi í febrúar 1995, er gerð grein fyrir starfi nefndarinnar. Þar kemur m.a. fram að hún hafi skilað tillögum til ráðherra þar sem stungið er upp á ýmsum aðgerðum til að efla áhuga karla á jafnréttismálum og gera þá virkari á þessu sviði.

6.1 Karlanefnd jafnréttisráðs.
    Í samræmi við tillögur nefndar um hlutverk karla í breyttu þjóðfélagi ákvað Jafnréttisráð í byrjun árs 1994 að skipa nefnd til tveggja ára, sem hefði það hlutverk að auka þátt karla í umræðunni um jafnrétti kynja. Í nefndinni eiga sæti eftirtaldir aðilar: Formaður nefndarinnar, Sigurður Svavarsson, ritstjóri hjá Máli og menningu, Hjörleifur Sveinbjörnsson, fræðslufulltrúi hjá BSRB, Jóhanna Ingvarsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, Ragnhildur Benediktsdóttir, formaður kærunefndar jafnréttismála, og Sigurður Snævarr, hagfræðingur hjá Þjóðhagsstofnun.
    Fyrsta verkefni nefndarinnar var að taka til umfjöllunar ofbeldi sem fyrst og fremst karlar beita konur og börn innan veggja heimilisins. Skýrslur og rannsóknir sýndu að hér var um að ræða umfangsmikið vandamál sem nauðsynlegt var að taka til opinberrar umræðu. Nefndin var þeirrar skoðunar að úrbætur á þessu sviði væru forsenda fyrir virkri þátttöku karla í aðgerðum í jafnréttismálum. Á árinu 1995 stóð hún fyrir herferð sem bar yfirskriftina „Karlar gegn ofbeldi“. Liður í undirbúningi aðgerðanna var ráðstefnan „Karlar gegn ofbeldi“ sem haldin var í Norræna húsinu í nóvember 1994. Hún var mjög vel sótt og dró að sér athygli fjölmiðla. Það er álit þeirra sem að ráðstefnunni stóðu að hún hafi tekist mjög vel og vakið upp umræðu um ímynd karlmennskunnar og ábyrgð karla. Dagana 13.–20. september var efnt til átaksviku sem hafði að markmiði að vekja til umhugsunar um ofbeldi á heimilum. M.a. var stofnað til umræðna um þetta málefni í fjölmiðum og staðið fyrir auglýsingaherferð. Einnig var það tekið til umræðu í kennslustundum í félagsfræði í framhaldsskólum. Nefndin stóð fyrir táknrænum aðgerðum af ýmsum toga. Loks efndi Félag íslenskra teiknara til samkeppni um veggspjald sem var notað í herferðinni. Tillögur sem bárust voru sýnda í Ráðhúsi Reykjavíkur átaksvikuna.

6.2 Norræn ráðstefna um breytt hlutverk karla.
    Dagana 27. og 28. apríl 1995 var haldin ráðstefna í Stokkhólmi undir heitinu „Norrænir karlar – ólíkir einstaklingar – áþekk reynsla“. Ákvörðun um að halda hana var tekin á Nordisk Forum sumarið 1994 af norrænu ráðherranefndinni. Fulltrúi Íslands í norrænum undirbúningshópi hennar var Sigurður Svavarsson, formaður íslensku karlanefndarinnar. Ráðstefnuna sóttu 35 Íslendingar og veitti félagsmálaráðherra 200 þús. kr. styrk til að auðvelda þátttöku þeirra. Fulltrúar Íslendingar í hópi fyrirlesara voru Ásþór Ragnarsson sálfræðingur, sem hélt fyrirlestur um gjald karlmennskunnar, Margrét Pála Ólafsdóttir leiksskólastjóri, sem lýsti uppeldisaðferðum sínum, og Bragi Skúlason sjúkrahúsprestur sem fjallaði um hvernig drengir verða að mönnum.
    Í lok ráðstefnunnar voru lögð fyrir jafnréttisráðherra Norðurlanda eftirtalin sjö atriði sem karlar skilgreina sem forgangsverkefni á sviði jafnréttismála. Þau eru:
    Ógiftir foreldrar í sambúð fái sjálfkrafa sameiginlega forsjá barna sinna. Skoða þarf ítarlega stjórnvaldsreglur sem gilda um forsjá barna.
    Réttur til foreldraorlofs (fæðingarorlofs) á að vera einstaklingsbundinn, þar með talinn launaréttur. Foreldraorlof þarf að vera sveigjanlegra en nú er.
    Bæði kynin skuli gegna herþjónustu, en enginn sæta fangelsisdómi sem víkst undan herskyldu.
    Karlmönnum þarf að fjölga í störfum á dagvistarstofnunum og í yngstu bekkjum grunnskóla.
    Rannsaka þarf aðstæður drengja í grunnskólum á Norðurlöndum.
    Rannsaka þarf ofbeldi karla og koma ofbeldishneigðum karlamönnum í meðferð eða í umsjón sérmenntaðra ráðgjafa.
    Rannsaka þarf sérstaklega háa slysatíðni karla, t.d. við vinnu.
    Jafnréttisráðherrar Norðurlanda ákváðu að gefa út skýrslu um ráðstefnuna á ensku. Hún var sameiginlegt framlag Norðurlandanna á kennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kína.

7. ÝMSAR AÐGERÐIR OG VERKEFNI
    Í skýrslu íslenskra stjórnvalda, sem tekin var saman í tilefni af ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna, er fjallað um samræmingu á þátttöku í atvinnulífinu og fjölskylduábyrgðar. Á því sviði bíða úrlausnar ýmis viðfangsefni sem miða að því að jafna stöðu kynjanna. Eitt þeirra er fæðingarorlof.

7.1 Fæðingarorlof – fyrir konur og karla.
    Á undanförnum árum hafa átt sér stað umræður um breytingar á lögum um fæðingarorlof og rétt foreldra til töku fæðingaorlofs. Umræðan hefur einkum snúist um jöfn tækifæri karla og kvenna til að samræma þátttöku í atvinnulífinu ábyrgð á fjölskyldu. Í skýrslu sem Skrifstofa jafnréttismála tók saman um lög og reglur um fæðingarorlof kom fram að misunandi reglur gilda um fæðingarorlof á vinnumarkaði. Yfirleitt eru þau samningsákvæði þá kynbundin þannig að þau ná einungis til kvenna. Alvarlegasta mismununin snýr að ríkisstarfsmönnum. Samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, eiga fastráðnar konur sem starfað hafa hjá ríkinu samfellt í sex mánuði rétt á fullum launum í þrjá mánuði og grunnlaunum í aðra þrjá þegar þær eignast barn. Ákvæðið tekur ekki til karla í þjónustu ríkisins. Kærunefnd jafnréttismála hefur í framhaldi af tveimur álitsgerðum um rétt feðra í þjónustu ríkisins til launa í fæðingarorlofi beint þeim tilmælum til fjármálaráðherra að hann hlutist til um að réttur feðra til greiðslna verði tryggður. Viðbrögð fjármálaráðherra hafa fram að þessu engin verið.
    Annars staðar á Norðurlöndum miða allar breytingar sem orðið hafa á lögum um fæðingarorlof og/eða foreldraorlof að því að auka möguleika foreldra til að skipta með sér verkum. Þessar breytingar hafa verið framlag stjórnvalda til aðgerða sem hafa haft að markmiði jafna fjölskylduábyrgð og auðvelda báðum kynjum virka þátttöku í atvinnulífinu.
    Umræða um fæðingaorlof er ekki ný af nálinni en áherslur hafa verið mismunandi frá einum tíma til annars. Nú á tímum eru karlar virkari í umræðum um jafnréttismál og hafa m.a. sett fram kröfu um sjálfstæðan réttar til töku fæðingaorlofs. Á ráðstefnunni „Norrænir karlar“ var rætt um tækifæri karla til töku fæðingaorlofs og leiðir sem gerðu þeim kleift vera tímabundið heima með barni sínu.

7.2 Ár fjölskyldunnar.
     Í stefnuyfirlýsingum stjórnvalda í málum er varða jafnrétti kvenna og karla skipar fjölskyldan oft veglegan sess. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað að árið 1994 skyldi vera ár fjölskyldunnar. Á Íslandi var skipuð sérstök landsnefnd til að hafa yfirumsjón með starfinu hérlendis. Á vegum landsnefndarinnar og félagsmálaráðuneytisins hefur nú verið gefin út bókin „Fjölskyldan, uppspretta lífsgilda“. Er þar bæði að finna erindi sem flutt voru á málþingi á Hótel Sögu við upphaf árs fjölskyldunnar og einnig skýrslu landsnefndar um ár fjölskyldunnar. Í þessu riti er að finna upplýsingar um þau verkefni sem fjölskyldunni er ætlað að sinna og hvaða aðstæður henni eru skapaðar til að sinna þeim. Þessar upplýsingar skipta máli þegar fjallað er um tækifæri kvenna og karla til að samræma fjölskylduábyrgð þátttöku í atvinnulífinu.

7.3 Hlutur karla og kvenna í fréttum Ríkissjónvarpsins.
    Í júlí 1994 kom út á vegum Félagsvísindastofnunar skýrsla sem greindi frá niðurstöðum könnunar á hlutdeild kvenna og karla í fréttum Ríkissjónvarpsins. Rannsókn dr. Sigrúnar Stefánsdóttur frá árinu 1988 á hlut kvenna í fréttum sömu stofnunar var fyrirmynd þessarar og eitt af markmiðum rannsóknarinnar var að kanna hvort einhverjar breytingar hefðu átt sér stað á þessu tímabili. Könnunin fór þannig fram að skráður var fjöldi kvenna sem viðtöl voru tekin við, auk þess sem viðtölin voru flokkuð eftir efni.
    Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að konur voru aðeins 18% viðmælenda fréttamanna Ríkissjónvarpsins. Rannsókn Sigrúnar Stefánsdóttur sýndi að á tímabilinu 1966–86 var hlutur kvenna að meðaltali 8,6% en var í lok tímabilsins 13%. Skrifstofa jafnréttismála gerði kannanir á hlut kvenna í sjónvarpsfréttum á árunum 1988, 1989 og 1990. Umfang þeirra var takmarkaðra en rannsókn Sigrúnar. Þær leiddu í ljós að konur sem viðmælendur í fréttum Ríkissjónvarpsins eru verulega færri en karlar. Á þessu hefur orðið lítil breyting undanfarin ár. Árið 1988 voru konur rétt 20% af viðmælendum fréttastofu Ríkissjónvarpsins, árið 1989 voru þær 12% og 1990 rétt 15%.
    Í könnun Félagsvísindastofnunar voru einnig könnuð tengls á milli kynferðis viðmælenda og efni fréttar. Könnunin leiddi í ljós sterk tengsl á milli efnisflokka og kynferðis, sbr. meðfylgjandi töflu.

Viðfangsefni fréttar greint eftir kyni viðmælenda.
                                  
Kyn viðmælenda
                                  
Karl
Kona Fjöldi
                                   Allir
81,1
18,2 803
Efnisflokkar
Efnahagsmál og viðskipti
92,5
7,5 146
Félags- og heilbrigðismál
66,9
33,1 121
Menntunar- og menningarmál
77,8
22,2 81
Sjávarútvegsmál
94,0
6,0 84
Landbúnaðar- og samgöngumál
92,3
7,7 78
Daglegt líf     
69,2
30,8 117
Kjara- og neytendamál
89,9
10,1 89
Stjórnmál          
75,9
24,1 87

    Tölur sem sýna störf viðmælenda greind eftir kyni eru einnig áhugaverðar, en þar kemur fram að konur eru tæpur helmingur þeirra sem flokkast sem „almenningur“, eða 42,2%, þrátt fyrir mikinn meiri hluta karlkyns viðmælenda.

Starf viðmælenda greint eftir kyni þeirra.
                                  
Kyn viðmælenda
Störf viðmælenda
Karl
Kona Fjöldi
Ýmis störf          
71,3
28,7 115
Sérfræðingar og stjórnendur
88,5
11,5 253
Almenningur     
57,8
42,2 90
Stjórnmálamenn
87,7
12,3 203
Forsvarsmenn félagasamtaka
86,6
13,4 134

    Þess má geta að árið 1991 gerði Norska ríkisútvarpið, NRK, ítarlega könnun á hlut kvenna í fréttum, umræðuþáttum og nokkrum öðrum fréttatengdum dagskrárliðum. Í ljós kom að hlutfall kvenna í fréttum sjónvarpsins var 30% og í umræðuþáttum 23%. Þessi niðurstaða þótti næg ástæða fyrir sérstöku átaki hjá Norska ríkisútvarpinu sem hafði það að markmiði að auka hlut kvenna.

8. ALÞJÓÐASAMNINGAR OG RÁÐSTEFNUR
8.1 Kvennaráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Beijing 1995.
    Fjórða ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna var haldin í Beijing í Kína haustið 1995. Utanríkisráðuneytið bar ábyrgð á undirbúningi fyrir þátttöku í henni. Í þessu skyni skipaði ráðuneytið sérstaka undirbúningsnefnd og réði starfsmann henni til aðstoðar. Vísað er til skýrslu utanríkisráðuneytisins um ráðstefnuna og niðurstöður hennar.

8.2 Framkvæmd samnings um afnám alls misréttis gagnvart konum.
     Dagana 18. og 24. janúar 1996 var tekin til umfjöllunar af sérstakri nefnd Sameinuðu þjóðanna fyrsta skýrsla Íslands um framkvæmd alþjóðasamnings um afnám alls misréttis gagnvart konum. Félagsmálaráðherra, Páll Pétursson, Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu, Sturla Sigurjónsson, deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu, og Elsa Þorkelsdóttir, framkvæmdastjóri Skrifstofu jafnréttismála, mættu á fund nefndarinnar fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Á fundinum með nefndinni gerði félagsmálaráðherra grein fyrir helstu áherslum ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og svaraði spurningum nefndarmanna um einstök atriði skýrslunnar. Gerð er grein fyrir niðurstöðum nefndar Sameinuðu þjóðanna í viðauka við þessa skýrslu.

8.3 Framkvæmd alþjóðasamþykkta ILO nr. 100 og 111.
    Íslensk stjórnvöld taka reglulega saman skýrslu um framkvæmd tveggja mikilvægustu samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á sviði jafnréttismála og senda alþjóðavinnumálaskrifstofunni til athugunar. Um er að ræða samþykkt nr. 100, um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf, og samþykkt nr. 111, um misrétti með tilliti til atvinnu og starfs. Fjallað er um athugasemdir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar við framkvæmd Íslands á þessum samþykktum í skýrslu félagsmálaráðherra um Alþjóðavinnumálaþingið í Genf, sem reglulega er lögð fyrir Alþingi.

II. HLUTI


Mat á árangri af framkvæmd framkvæmdaáætlunar á sviði jafnréttismála.


1. INNGANGUR
    Þingsályktun um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna var samþykkt á Alþingi 7. maí 1993 og gildir til ársloka 1997. Áætlunin er samin og samþykkt samkvæmt ákvæðum 17. gr. laga nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þar er einnig tekið fram að hún skuli endurskoðuð á tveggja ára fresti og í tengslum við þá endurskoðun leggi félagsmálaráðherra fram skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála. Í umræðum þingmanna um framkvæmdaáætlunina kom fram það sjónarmið að Jafnréttisráði bæri að sinna þeirri endurskoðun.
    Í skýrslu félagsmálaráðherra til Alþingis um stöðu og þróun jafnréttismála frá febrúar 1995 er sérstaklega gerð grein fyrir þróun ákvæða um framkvæmdaáætlanir í jafnréttismálum. Þar eru raktar breytingar sem hafa orðið á gerð og uppbyggingu framkvæmdaáætlana í jafnréttismálum en sú fyrsta var lögð fyrir Alþingi haustið 1986 samkvæmt ákvæðum jafnréttislaga frá árinu 1985.

2. MARKMIÐ FRAMKVÆMDAÁÆTLUNARINNAR
    Framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna byggist á því sjónarmiði, sem kemur fram í lögum, að stjórnvöldum beri skylda til að vinna að bættri stöðu kvenna í samfélaginu og að með lagasetningunni sé stjórnvöldum gert að sýna fordæmi og eiga frumkvæði að aðgerðum á þessu sviði.
    Með samþykkt framkvæmdaáætlunarinnar leggur löggjafinn ábyrgð á herðar ráðherrum að vinna að framgangi jafnréttis karla og kvenna á þeim málefnasviðum sem heyra undir hlutaðeigandi ráðuneyti. Með þessu er ekki dregið úr gildi þess að unnið sé að jafnréttismálum á almennum vinnumarkaði. Að þeim þætti vinnur Jafnréttisráð og Skrifstofa jafnréttismála í samvinnu við samtök á atvinnurekenda og launafólks.
    Í framkvæmdaáætluninni er að finna lýsingu á verkefnum sem ráðuneytum eða undirstofnunum á þeirra vegum er falið að hrinda í framkvæmd á gildistíma áætlunarinnar. Í flestum tilvikum hafa verkefnin verið skilgreind af forráðamönnum ráðuneytanna eða af hlutaðeigandi undirstofnunum. Í nokkrum tilvikum er um að ræða viðfangsefni sem byggjast á tillögum þingmanna sem komu fram á Alþingi veturinn 1992–93 við umræður um þingsályktunartillöguna um framkvæmdaáætlun á sviði jafnréttismála.
    Gildandi framkvæmdaáætlun er í tveimur hlutum. Fyrri hluti hennar fjallar um starfsmannamál ríkisins og byggist á ákvæðum laga um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla. Sérstaklega var leitað umsagnar fjármálaráðuneytis um þann hluta áður en þingsályktunartillagan var lögð fyrir Alþingi. Í umsögn fjárlagaskrifstofu ráðuneytisins er tekið fram að verkefni sem þar eru tilgreind ættu ekki að hafa í för með sér kostnaðarauka þar sem ekki væri stefnt að fjölgun starfa heldur að hlutur kvenna og karla yrði sem jafnastur. Seinni hluti áætlunarinnar tekur til verkefna einstakra ráðuneyta. Í honum er lögð áhersla á að ráðuneyti og opinberar stofnanir taki eins og kostur er tillit til jafnréttissjónarmiða í allri starfsemi sinni.

3. FRAMKVÆMD FRAMKVÆMDAÁÆTLUNARINNAR
    Samkvæmt ályktun Alþingis ber hvert ráðuneyti ábyrgð á framkvæmd þeirra verkefna sem tilgreind eru í framkvæmdaáætluninni. Í samræmi við álit félagsmálanefndar frá 3. maí 1993 ákvað félagsmálaráðhera að fela einum aðila, þ.e. Jafnréttisráði, að hafa umsjón með framkvæmd áætlunarinnar. Þetta var gert með bréfi dags. 13. maí 1993.
    Í fyrrnefndu áliti félagsmálanefndar var lögð áhersla á kynningu áætlunarinnar fyrir hlutaðeigandi aðilum. Með bréfi félagsmálaráðuneytisins dags. 13. júlí 1993 var öllum ráðuneytum, sveitarfélögum og heildarsamtökum aðila vinnumarkaðarins kynnt framkvæmdaáætlunin og til þess hvatt að þeir er málið varðaði gerðu eigin verkáætlun með hliðsjón af þeim verkefnum sem tilgreind eru í áætluninni. Jafnframt voru þeir hinir sömu hvattir til að tilnefna tengilið til að annast samskipti við Skrifstofu jafnréttismála.
    Í bréfi Skrifstofu jafnréttismála dags. 25. október 1993 til allra ráðuneyta var minnt á framkvæmdaáætlunina og erindi félagsmálaráðuneytisins frá 13. júlí og ítrekuð tilmæli um að Skrifstofu jafnréttismála yrðu látnar í té umbeðnar verkáætlanir ráðuneytanna, þar á meðal verkefnislýsingar og tíma- og kostnaðaráætlanir. Jafnframt var minnt á að ráðuneytin sjálf gerðu tillögur um og samþykktu flest öll þau verkefni sem tilgreind eru í framkvæmdaáætluninni.
    Svör við annars vegar bréfi félagsmálaráðuneytisins og hins vegar bréfi Skrifstofu jafnréttismála voru fá og enn færri létu umbeðnar upplýsingar í té. Fjögur ráðuneyti tilnefndu tengiliði, þ.e. samgönguráðuneytið, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, menntamálaráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið. Aðeins forsætisráðuneytið svaraði skilmerkilega erindi Skrifstofu jafnréttismála með bréfi dags. 6. desember. Þar er gerð grein fyrir framkvæmd einstakra verkefna sem ráðuneytinu var falið með framkvæmdaáætluninni. Menntamálaráðuneytið vísaði til væntanlegrar lokaskýrslu framkvæmdanefndar um jafna stöðu kynja í skólum en þar yrðu kynntar tillögur að aðgerðum næstu ára í þessum málaflokki. Félagsmálaráðuneytið fól Skrifstofu jafnréttismála framkvæmd nokkurra verkefna í framkvæmdaáætluninni. Þar af leiðandi hafa samskipti þessara tveggja aðila nokkra sérstöðu.
    Fulltrúar félagsmálaráðuneytis og Skrifstofu jafnréttismála áttu fundi með fulltrúum Hagsýslu ríkisins (18. maí 1993), með fulltrúum BSRB (19. maí 1993) og skrifstofu launadeildar ríkisins (25. maí 1993) vegna starfsmannakafla framkvæmdaáætlunarinnar og enn fremur vegna tölul. 3.5 í B-kafla hennar, en þar er fjármálaráðuneytinu falið að gera reglulega athuganir á starfskjörum ríkisstarfsmanna með tilliti til karla og kvenna.
    Í kjölfar þess fundar var ákveðið að kanna hvort áhugi væri á að kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna verði falið að vinna þessa gagnasöfnun. Stjórn nefndarinnar lýsti yfir áhuga sínum en taldi nefndina ekki færa um að sinna þessu viðbótarverkefni nema að til kæmi aukafjárveiting sem gæti falist í framlengingu tímabundins ráðingasamnings við stofnunina. Hugmyndin var kynnt bæði félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra í tengslum fjárlagagerð ársins 1994 en hún náði ekki fram að ganga við afgreiðslu fjárlaga þess árs. Mikilvægt er að tölulegar upplýsingar liggi fyrir um stöðu karla og kvenna á sem flestum sviðum. Það er forsenda fyrir markvissum umbótum í jafnréttismálum.

4. MAT Á FRAMKVÆMD ÁÆTLUNARINNAR
    Í 17. grein jafnréttislaga, þar sem kveðið er á um þingsályktun um framkvæmdaáætlun, er m.a. tekið fram að hún skuli endurskoðuð á tveggja ára fresti og var Jafnréttisráði falin sú vinna. Hinn 22. maí 1995 var ráðherrum og ráðuneytisstjórum sent bréf þar sem minnt var á ákvæði um mat og endurskoðun framkvæmdaáætlunarinnar. Í bréfinu var minnt á ábyrgð ráðuneytanna og eftirlitshlutverk Jafnréttisráðs og óskað eftir greinargerð þar sem m.a. komi fram eftirfarandi:
    Yfirlit yfir stöðu verkefna sem hafa þegar verið unnin eða eru í vinnslu.
    Áætlanir sem gerðar hafa verið varðandi þau verkefni sem ekki hefur verið byrjað á.
    Hugmyndir/tillögur að nýjum verkefnum sem eru annaðhvort
         
    
    framhald af verkefnum sem lokið er og/eða
         
    
    nýjar hugmyndir.
    Kostnaður við hvert verkefni.
    Mat á árangri sérstakra verkefna af þessu tagi.
    Nafn á tengiliði ráðuneytis við Skrifstofu jafnréttismála.
    Í niðurlagi bréfsins var hvatt til þess að gætt yrði jafnréttissjónarmiða í starfsmannahaldi, t.d. með sérstökum jafnréttisáætlunum eða samþykktum um sérstakar aðgerðir sem hafa að markmiði að jafna hlut kvenna og karla innan ráðuneytis eða hlutaðeigandi stofnana. Einnig var því beint til aðila að fylgt yrði sveigjanlegri stefnu í málefnum starfsmanna þannig að tillit yrði tekið til ábyrgðar þeirra á heimili og fjölskyldu.
    Ráðuneytin fengu tæplega mánuð til að vinna umbeðnar greinargerðir og senda þær Skrifstofu jafnréttismála. Viðbrögð við erindinu voru enn dræmari en við fyrri erindum.

4.1 Starfsmannamál ríkisins.
4.1.1 Inngangur.
    Eins og áður segir skiptist framkvæmdaáætlunin í tvo hluta. Í fyrri hlutanum, sem er hér gerð grein fyrir, er fjallað um stefnu ríkisins í starfsmannamálum. Enda þótt framkvæmd þessa hluta sé á ábyrgð allra ráðuneytanna er hlutur fjármálaráðuneytisins stærstur. Þessu fylgir sá ókostur að enginn einn aðili telur sig bera óskipta ábyrgð á framkvæmd viðfangsefnanna. Eftirfarandi greinargerð byggist því á upplýsingum frá ráðuneytunum og öðrum aðilum sem ráða yfir upplýsingum um starfsmannamál ríkisins, t.d. kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna.
    Rétt er að minna á að áætlunin gildir til ársloka 1997. Því er eðlilegt ýmsum verkefnum sé ólokið og framkvæmd annarra ekki enn hafin.
    Skrifstofa jafnréttismála óskaði eftir mati Bandalags starfsmanna ríkis og bæja á framkvæmd A-kafla framkvæmdáætlunarinnar. Formaður BSRB svaraði erindi Skrifstofunnar með greinargerð dags. 13. júní 1995.
    A-hluti framkvæmdaáætlunarinnar tengist beint hagsmunum opinberra starfsmanna og var því lögð áhersla á að kynna hann fulltrúum BSRB. Í ályktun bandalagsráðstefnu BSRB frá því í nóvember 1993 er talið brýnt að framkvæmdaáætluninni verði fylgt eftir. Í svari fjármálaráðherra til BSRB dags. 28. nóvember 1993 kemur fram að fjármálaráðuneytið sé sammála BSRB um að mikilvægt sé að fylgt sé eftir stefnumiðum í jafnréttismálunum og að ráðuneytið sé reiðubúið til viðræðna um þau atriði sem snúa sérstaklega að opinberum starfsmönnum. Á þingi BSRB sem haldið var í október 1994 var að frumkvæði jafnréttisnefndar BSRB samþykkt jafnréttisáætlun, m.a. með hliðsjón af framkvæmdaáætluninni.
    Í greinargerð BSRB kemur fram að í umsögn samtakanna um þingsályktunartillöguna hafi verið bent á að hvergi væri getið um fjármögnun þessara tillagna og að nauðsynlegt væri að tryggja hana til að framkvæmdir strönduðu ekki á fjárskorti. Að mati BSRB má draga þá ályktun af reynslu síðustu tveggja ára að þessar áhyggjur hafi átt rétt á sér.

4.1.2 Framkvæmd einstakra verkefna.
     Tölul. 1 og 2, um auglýsingar á lausum störfum og ráðningar. Í 1. og 2. tölul. eru ákvæði um auglýsingar á lausum stöðum hjá ríkinu og um forgang þess kyns sem er í minni hluta í hlutaðeigandi stafsgrein þegar ráðið er í störf.
     Framkvæmd. Upplýsingar benda til að misbrestur sé á að þessu ákvæði hafi verið framfylgt með markvissum hætti. Þess eru þó dæmi að annað kynið hafi sérstaklega verið hvatt til að sækja um laust starf. Nefna má að Ríkisútvarpið óskaði eftir umsóknum frá körlum þegar staða þular var auglýst laus til umsóknar. Einnig hefur starfsmannaskrifstofa Háskóla Íslands nýverið bryddað upp á því nýmæli að hvetja bæði kynin til að sækja um auglýst störf við Háskólann.
    Á fundi Jafnréttisráðs 22. september 1994 var ákveðið að minna alla ráðuneytisstjóra á 1. og 2. tölul. framkvæmdaáætlunarinnar og var það gert með bréfi dags. 26. september 1994.
    Í greinargerð BSRB er bent á að þó svo að framkvæmd þessara tveggja ákvæða kalli ekki á aukið fjármagn hefur ekki verið unnið markvisst að þeim.
     Tölul. 3, um starfsmenntun í atvinnulífinu. Í 3. tölul. er kveðið á um að ráðuneyti og ríkisstofnanir móti sérstaka stefnu í starfsmenntunarmálum.
     Framkvæmd. Upplýsingar benda til þess að ekki hafi verið unnið með markvissum hætti að menntun starfsmanna í ráðuneytum og ríkisstofnunum. Það er ekki að sjá að neinum einum aðila hafi verið falin ábyrgð á framkvæmd þess.
     Tölul. 4, um hlut kvenna í opinberum nefndum, stjórnum og ráðum. Í 4. tölul. er sett það markmið að í lok gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar verði heildarþátttaka kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkisins 30%. Þessu markmiði skal náð með því að óska eftir nafni karls og konu við skipun í opinbera nefnd eða ráð. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er vakin á því athygli að þessi leið hafi skilað árangri þar sem hún hafi verið reynd. Í nefndaráliti félagsmálanefndar frá 3. maí 1993 er þess getið að umsagnaraðilar þeir sem hún leitaði til hafi lagt mikla áherslu á að þessu markmiði verði náð. Í áætluninni er Jafnréttisráði falið að taka reglulega saman yfirlit sem sýnir framvindu þessa viðfangsefnis.
     Framkvæmd. Í september 1994 skrifaði Skrifstofa jafnréttismála öllum ráðuneytum og fór fram á yfirlit yfir nefndir á þeirra vegum þar sem fram kæmi:
    fjöldi nefnda og ráða sem Alþingi kýs,
    fjöldi nefnda sem skipaðar eru samkvæmt lögum og
    fjöldi tímabundinna verkefnanefnda sem ráðherra skipar.
    Einnig var óskað eftir upplýsingum um fjölda karla og kvenna í hverri nefnd. Í öðru lagi var óskað eftir upplýsingum um tilnefningaraðila en það hefur ekki verið gert áður. Tilefningaraðilar hafa mikil áhrif á hlutfall karla og kvenna í opinberum nefndum. Upplýsingar um þá eru forsenda þess að unnt sé að fylgja ákvæðinu eftir og ná því markmiði sem sett er í framkvæmdaáætluninni. Skýrsla Skrifstofu jafnréttismála um niðurstöður úttektarinnar er birt sem fylgiskjal við skýrslu félagsmálaráðherra til Alþingis um stöðu og þróun jafnréttismála frá febrúar 1995.
    Helstu niðurstöður úttektarinnar voru þær að heildarfjöldi kvenna í opinberum nefndum og ráðum hefur aukist lítillega eða úr 15,4% árið 1990 í 20,8% árið 1994.
    Konum í nefndum og ráðum á vegum þriggja ráðuneytana hefur fjölgað töluvert. Í nefndum á vegum dómsmálaráðuneytisins hefur hlutfall kvenna hækkað úr 6,5% í 16,5%. Í félagsmálaráðuneytinu, sem eitt ráðuneyta hefur farið fram úr markmiði áætlunarinnar, hefur hlutur kvenna aukist úr 22,2% í 39,9%. Í þriðja lagi má nefna hlut kvenna í nefndum á vegum forsætisráðuneytisins. Þar hefur hlutfallið hækkað úr 6% í 23,4%. Staða þessara mála er óbreytt að því er varðar heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið en það síðarnefnda náði 30% markinu fyrir fjórum árum.
    Það er mat Skrifstofu jafnréttismála að ekki hafi með nægilega markvissum hætti verið unnið að því að jafna hlutfall karla og kvenna í opinberum nefndum og ráðum. Þegar óskað hefur verið eftir tilnefningum hefur einungis eitt ráðuneyti minnt á ákvæði 12. gr. jafnréttislaga og framkvæmdaáætlunina. Þetta ráðuneyti er félagsmálaráðuneytið.
     Tölul. 5, um sveigjanlegan vinnutíma. Ráðuneyti og ríkisstofnanir skulu gera starfsmönnum kleift að samræma fjölskylduábyrgð og þátttöku í atvinnulífi með sveigjanlegum vinnutíma, eftir því sem unnt er.
     Framkvæmd. Ekki liggja fyrir staðfestar upplýsingar um að þessu ákvæði hafi verið hrundið í framkvæmd. Nefna má að samkvæmt jafnréttisáætlun jafnréttisnefndar Akureyrar hefur starfsmönnum bæjarskrifstofunnar verið boðið upp á sveigjanlegan vinnutíma. Einnig munu einstaka starfsmenn í þjónustu ríkisins gert samninga við yfirmenn sína um tímabundinn sveigjanlegan vinnutíma vegna fjölskyldnuaðstæðna. Þeir samningar eru einstaklingsbundnir og heimilir samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna en ekki gerðir með vísan til framkvæmdaáætlunarinnar í jafnréttismálum.
    Í greinargerð BSRB kemur fram að á mörgum vinnustöðum sé auðvelt að hrinda þessu í framkvæmd en á öðrum erfiðara. Bent er á vinnuaðstæður lögreglumanna.
     Tölul. 6, um bifreiðastyrki. Í áætluninni er tekið fram að í starfslýsingum skuli koma fram mat á því hvort þörf sé á bifreiðastyrkjum. Þetta ákvæði áætlunarinnar tekur mið af því að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og að það gildi m.a. um hlunnindi eins og bifreiðastyrki.
     Framkvæmd. Með ríkisstjórnarsamþykkt í júlí 1994 var ákveðin sú regla að hámark fastrar árlegrar kílómetratölu í aksturssamningi við opinbera starfsmenn skyldi vera 2.000 km. Samningum um greiðslu fyrir fleiri kílómetra var sagt upp og gerðir nýjir. Ekki er upplýst hvort ákvæði framkvæmdaáætlunarinnar hafi verið haft í huga við þessa breytingu. Enn fremur er ekki upplýst hve margir samningar um þetta efni eru í gildi við karla annars vegar og við konur hins vegar.
    Í greinargerð BSRB er þess óskað að þetta eða sambærilegt ákvæði nái til allra greiðslna sem ekki eru skilgreindar í launataxta.
     Tölul. 7, um starfsmat og starfslýsingar. Í 7. tölul. er kveðið á um kerfisbundið mat á störfum ríkisstarfsmanna í því skyni að framfylgja 4. gr. jafnréttislaga sem kveður á um að greiða skuli konum og körlum jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. (Sjá einnig tölul. 2.4 í B-kafla áætlunarinnar þar sem kveðið er á um launakönnun á vegum norræna jafnlaunaverkefnisins.)
     Framkvæmd. Í fyrri hluta þessarar skýrslu félagsmálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum rannsóknar Jafnréttisráðs og norræna jafnlaunaverkefnisins á kynbundnum launamun og launamyndun. Viðbrögð félagsmálaráðherra við niðurstöðum þeirrar rannsóknar voru að skipaður var starfshópur sem m.a. fékk það verkefni að leita leiða til þess að draga úr launamun kynja. Samkvæmt skipunarbréfi hópsins er fyrsta verkefni hans að safna gögnum erlendis frá og skrifa skýrslu um kosti og galla starfsmats sem tækis til að draga úr launamuni kvenna og karla. Enn fremur skal hann skoða möguleika þess að beita starfsmati á íslenskum vinnumarkaði. Eftir alþingiskosningarnar í apríl sl. skipaði nýr félagsmálaráðherra Siv Friðleifsdóttur alþingismann nýjan formann starfshópsins. Skipunarbréf starfshópsins er óbreytt. Hópurinn tók saman áfangaskýrslu sem gefin var út í febrúar 1996. Þar er gerð grein tillögum hópsins varðandi starfsmat. Nánar er fjallað um tillögur vinnuhópsins í kafla um verkefni á vegum félagsmálaráðuneytisins.
    Í greinargerð BSRB er lýst yfir ánægju með að framkvæmd þessarar greinar skuli vera komin á framkvæmdastig og er lögð áhersla á að stjórnvöld tryggi fjármagn til áframhaldandi vinnu við framkvæmd þessa máls.

4.1.3 Samantekt.
    Í athugasemdum við þingsályktunartillöguna segir að starfsmannakafla áætlunarinnar sé ætlað að vera rammi að starfsreglum sem hvert ráðuneyti og ríkisstofnun útfæri nánar og hafi að leiðarljósi við gerð sérstakrar jafnréttisáætlana til fjögurra ára í senn. Að undanskildum Iðntæknistofnun og Póst- og símamálastofnun er ekki kunnugt um að ráðuneyti eða opinber stofnun hafi gert slíka jafnréttisáætlun í tengslum við framkvæmd starfsmannastefnu. Jafnréttisáætlun Póst- og símamálastofnunar var gefin út í sérstöku kynningarriti sem sent var öllum starfsmönnum stofnunarinnar. Hún er gott dæmi um hvernig stefna í starfsmannamálum getur tekið mið af ákvæðum jafnréttislaga og framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum.
    Af framangreindu má ráða að við samningu næstu framkvæmdaáætlunar er nauðsynlegt að skilgreina betur hver beri ábyrgð á viðfangsefnum í þessum hluta framkvæmdaáætlunarinnar. Benda má á að starfsmannahald ríkisins er ekki nema að að takmörkuðu leyti undir stjórn starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Hvert ráðuneyti og einstaka stofnun ber t.d. ábyrgð á ráðningum starfsmanna sinna (1. og 2. tölul.), starfslýsingum (6. tölul.), starfsaðstæðum (5. tölul.) og ákvörðunum um þóknanir eins og bifreiðastyrki (6. tölul.). Benda má á að ákvæðið um aukinn hlut kvenna í opinberum nefndum er að verulegu leyti á ábyrgð ríkisstjórnar og einstakra ráðherra en ekki starfsmannaskrifstofu. Í þessu sambandi er rétt að minna á að skipunaraðili er í mjög mörgum tilvikum bundinn af tilnefningaraðilum.
    Framangreint hefur torveldað framkvæmd og eftirlit með þessum ákvæðum áætlunarinnar.
    Í framkvæmdaáætluninni eru enginn ákvæði um að ráðuneyti eða stofnanir á þeirra vegum geri eigin framkvæmdaáætlun hvað varðar starfsmannahald. Að þessu er vikið í greinargerð til fjármálaráðherra frá starfshópi fjármálaráðuneytisins um jafnréttismál frá nóvember 1995. Í lokakafla greinargerðarinnar eru talin nokkur atriði sem starfshópurinn vill koma á framfæri við stjórnendur ráðuneytisins og þeirra stofnana er málið varðar. M.a. er hvatt til þess að framkvæmdaáætlunin verði höfð að leiðarljósi við mannaráðningar. Auk þess eru talin upp fjöldamörg atriði önnur sem að mati starfshópsins gætu jafnað hlut kvenna og karla sem starfa hjá ráðuneytinu og stofnunum þess.

4.2 Verkefni ráðuneyta og stofnana á vegum þeirra.
4.2.1 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
    Í greinargerð dómsmálaráðuneytisins, dags. 15. júní 1995, kemur fram að ráðuneytið kynnti með dreifibréfi, dags. 19. janúar 1995, öllum forstöðumönnum embætta og stofnana á þess vegum efni framkvæmdaáætlunar um aðgerðir til að koma á jafnrétti kynjanna. Í dreifibréfinu var sérstaklega bent á markmið 1. tölul. áætlunarinnar um auglýsingar á lausum stöðum hjá ríkinu, 2. tölul. um ráðningar í störf og 5. tölul. um sveigjanlegan vinnutíma.
    Einnig skýrt frá stöðu og framkvæmd einstakra verkefna sem ráðuneytinu eða undirstofnunum þess er ætlað að vinna á gildistíma áætlunarinnar.
     Tölul. 1.1, um stöðu kynja hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins. Markmið þessa verkefnis er að ráða fleiri konur í störf rannsóknarlögreglumanna.
     Framkvæmd. Í greinargerð dómsmálaráðuneytisins kemur fram að á árinu 1995 hafi því sérstaklega verið beint til kvenna að sækja um stöðu rannsóknarlögreglumanns sem auglýst var laus til umsóknar. Umsóknir voru 18, þar af fimm konur. Í stöðuna var ráðinn karlmaður sem hafði verið settur rannsóknarlögreglumaður í þrjú ár en ein kona úr hópi umsækjendanna var hins vegar sett tímabundið í stöðu sem þá losnaði.
     Tölul. 1.2, um nauðgunarbrot. Í framhaldi af tillögum nefndar á vegum dómsmálaráðherra sem hafði það hlutverk að kanna rannsóknir og meðferð nauðgunarmála og gera tillögur til úrbóta var ákveðið að á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar skyldu nokkrar af tillögum hennar koma til framkvæmda. Þessi verkefni eru tilgreind í tölul. 1.2.1 og 1.2.2.
     Tölul. 1.2.1, um meðferð opinberra mála. Markmið þessa verkefnis er að draga úr skaðlegum áhrifum kynferðisafbrota, tryggja bætur fyrir fjártjón og miska, auk þess sem refsivörslukerfið verði styrkt.
     Framkvæmd. Í greinargerð dómsmálaráðuneytisins kemur fram að árið 1993 var skipuð nefnd sem fékk það verkefni að kanna hvort taka ætti upp ábyrgð ríkissjóðs á greiðslum dæmdra bóta vegna kynferðisafbrota. Nefndin samdi frumvarp til laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota og varð það að lögum sem öðlast munu gildi 1. júlí 1996. Markmið laganna er að styrkja stöðu brotaþola og bæta verulega réttarstöðu fórnarlamba nauðgunarbrota. Samkvæmt greinargerð ráðuneytisins má gera ráð fyrir að lögin feli í sér 20–50 millj. kr. kostnaðarauka fyrir ríkissjóð árlega.
    Í undirbúningi er að semja tillögur um reglur um nálgunar- og heimsóknarbann sem gætu stuðlað að öryggi kvenna þar sem um er að ræða ofbeldi innan heimilis eða fjölskyldu.
     Tölul. 1.2.2, um námskeið fyrir lögreglumenn og starfsfólk heilbrigðisþjónustu. Markmið þessa verkefnis er að leggja áherslu á að fræða lögreglumenn og starfsfólk heilbrigðisþjónustu um kynferðisafbrot og heimilisofbeldi.
     Framkvæmd. Í svari ráðuneytisins er greint frá námsstefnu sem félag rannsóknarlögreglumanna stóð fyrir í samstarfi við Neyðarmóttöku vegna nauðgunar og Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Fram kemur að í grunnnámi lögreglumanna er ekki svigrúm fyrir sérhæft nám á borð við kennslu í meðferð kynferðisafbrota og annarra ofbeldisafbrota. Tekið er fram að kennsla á sérgreinasviði sé í undirbúningi í Lögregluskóla Íslands en þess er ekki getið hvort kennsla á þessu tiltekna sérsviði verði meðal kennslugreina.
     Tölul. 1.3, um stöðu kvenna innan kirkjunnar. Hér er fyrst og fremst markmiðið að styrkja stöðu kvenna í trúnaðarstörfum innan þjóðkirkjunnar.
     Framkvæmd. Með greinargerð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins fylgir samantekt Biskupsstofu, dags. 16. júní 1995, á hlutdeild kvenna í nefndum innan þjóðkirkjunnar miðað við júní 1995. Í henni kemur fram að sóknarnefndir séu alls 247 á landinu og í þeim eigi sæti samtals 1338 manns, aðalmenn og varamenn. Af þeim eru konur 624 eða 47,98% en karlar 696 eða 52,02%. Samtals gegna 93 konur formennsku í sóknarnefndum eða 37,65%. Karlar eru 154 eða 62,35%. Nefndir á vegum Biskupsstofu eru alls 31 og í þeim sitja 242. Þar af eru konur 54 eða 22,31% en karlar 188 eða 77,69%. Konur gegna formennsku í fjórum tilvikum, sem svarar til 12,9%, en karlar 27 eða 87,1%. Ekki kemur fram í greinargerð ráðuneytisins eða samantekt Biskupsstofu hvort gripið hafi verið til sértækra aðgerða til að auka hlut kvenna í trúnaðarstöðum innan kirkjunnar eða hvort slíkar aðgerðir séu í bígerð.
     Samantekt. Samkvæmt þessari geinargerð hefur dómsmálaráðuneytið með markvissum hætti fylgt eftir þeim verkefnum sem það setti sér samkvæmt framkvæmdaáætluninni. Eðli málsins samkvæmt er þeim ekki lokið. Bæta þarf stöðu kvenna innan rannsóknarlögreglunnar. Slíkt er tímafrekt og krefst markvissra áætlana. Mikilvægt er að haldið verði áfram að hvetja konur til að sækja um laus störf. Nauðsynlegt er að taka tillit til fjölskylduábyrgðar rannsóknarlögreglumanna með sveigjanlegum vinnutíma. Úrbóta er þörf í málum er varða fórnarlömb kynferðisbrota og heimilisofbeldis. Unnið er að tillögum á því sviði.

4.2.2 Félagsmálaráðuneyti.
    Félagsmálaráðherra fer með framkvæmd jafnréttislaganna og leggur fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum að fengnum tillögum einstakra ráðuneyta og Jafnréttisráðs. Í gildandi framkvæmdaáætlun eru mörg verkefni á ábyrgð félagsmálaráðuneytisins og stofnana þess. Skrifstofa jafnréttismála heyrir undir félagsmálaráðherra og tekur bæði beinan og óbeinan þátt í einstaka verkefnum sem ráðuneytinu eru falin auk eigin verkefna sem henni eru falin samkvæmt áætluninni, sbr. reglulega samantekt á hlutfalli kvenna og karla í opinberum nefndum og ráðum.
     Tölul. 2.1, um stöðu karla í breyttu samfélagi. Markmið þessa verkefnis er auka áhrif og ábyrgð karla á aðgerðir á sviði jafnréttismála og breyta því viðhorfi að þessi málaflokkur sé sérstakt viðfangsefni kvenna.
     Framkvæmd. Frá ársbyrjun 1994 hefur starfað sérstök karlanefnd Jafnréttisráðs. Hún er arftaki annarrar nefndar sem skipuð var árið 1991 til að fjalla um stöðu karla í breyttu samfélagi með jafnari verkaskiptingu og fjölskylduábyrgð. Nefndin skilaði skýrslu sem út kom árið 1993. Í samræmi við tillögur upphaflegu nefndarinnar og í samvinnu við félagsmálaráðuneytið ákvað Jafnréttisráð í byrjun árs 1994 að skipa nefnd til tveggja ára, sem hefði það hlutverk að auka þátt karla í umræðu um jafnrétti kynja.
    Nefndin ákvað að taka til sérstakrar umfjöllunar ofbeldi þar sem karlar eru gerendur en konur og börn þolendur. Ákveðið var að hrinda af stað herferð á árinu 1995 undir yfirskriftinni „Karlar gegn ofbeldi“. 12. nóvember 1994 var haldin ráðstefna undir þessari yfirskrift sem nokkurs konar undirbúningur undir herferðina.
    Karlanefndin stóð fyrir átaki undir yfirskriftinni „Karlar gegn ofbeldi“ vikuna 13.–20. september 1995. Leitað var til fjölmargra aðila um samstarf og liðsinni af ýmsu tagi. Markmiðið herferðarinnar var að hefja umræðu um ofbeldi á nýjum grunni með þátttöku og ábyrgð karla. Nefndin stóð fyrir m.a. umræðum í fjölmiðum og skólum og auglýsingaherferð. Félag íslenskra teiknara efndi til samkeppni um veggspjald. Gefið var út kennsluefni fyrir nemendur í framhaldsskólum en Rauði krossinn og Fræðsludeild kirkjunnar styrktu útgáfu þess. Umfjöllun og greinarskrif um ofbeldi og hlutverk karla í jafnréttisumræðunni var skipulögð í öllum fjölmiðlum. Í samvinnu við ýmsa aðila bauð karlanefndin Svíanum Göran Wimmerström hingað til lands. Hann er m.a. frumkvöðull um feðrafræðslu í Svíþjóð og vinnur á vegum stjórnvalda við að skipuleggja fræðslu fyrir verðandi feður. Hann hefur unnið við meðferð á körlum sem hafa endurtekið beitt konur ofbeldi og náð eftirtektarverðum árangri. Wimmerström hélt hér fjölda funda með samtökum sérfræðinga og áhugafólks um þau málefni sem hann er sérfróður um og voru þeir allir vel sóttir.
     Tölul. 2.2, um jafnréttisráðgjafa. Í framkvæmdaáætluninni er gerð tillaga um að ráðinn verði í tilraunaskyni jafnréttisráðgjafi á gildistíma hennar. Hlutverk hans verði að vinna að leiðréttingum á stöðu kvenna í stofnunum og fyrirtækjum. Einnig segir að hann skuli starfa í samvinnu við atvinnuráðgjafa að fjölgun atvinnutækifæra fyrir konur. Auk þessa skal hann sinna umfangsmikilli fræðslu um jafnréttismál.
    Markmið þessa verkefnis er fyrst og fremst að vinna skipulega að atvinnuuppbyggingu kvenna og þannig sporna gegn atvinnuleysi.
     Framkvæmd. Á sérstökum fjárlagalið merktum framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar á fjárlögum fyrir árið 1995 hefur verið gert ráð fyrir fjármunum til þessa verkefnis. Sem fyrsta skref fól ráðuneytið Skrifstofu jafnréttismála að gera tillögur að nánari verkefnislýsingu jafnréttisráðgjafa. Jafnréttisráð ákvað að skipa starfshóp til að vinna drög að verkefnislýsingu og kostnaðaráætlun vegna starfa jafnréttisráðgjafans og var einum starfsmanni Skrifstofunnar falið að vinna með hópnum.
    Hópurinn leggur m.a. til að jafnréttisráðgjafinn verði starfsmaður Skrifstofu jafnréttismála með sjálfstæða fjárveitingu sem komi frá ríki og sveitarfélögum en lúti sérstakri verkefnisstjórn. Starfshópurinn leggur til að ráðgjafarnir verði tveir þar sem um væri að ræða brautryðjendastarf sem felur í sér mikla hugmyndafræðilega vinnu. Einnig leggur hann mikla áherslu á að ráðgjafarnir séu staðsettir úti á landi og starfssvið hvors um sig spanni eitt kjördæmi. Í tillögum hópsins er gert ráð fyrir að sveitarfélög taki þátt í kostnaði vegna þessa. Starfshópurinn skilaði tillögum sínum til Jafnréttisráðs. Eftir nánari athugun á tillögu starfshópsins ákvað Jafnréttisráð, í samræmi við samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar, að leggja til við félagsmálaráðherra að þessu verkefni verði frestað en þau verkefni og markmið sem þar eru kynnt verði tekin með í boðaðri heildarendurskoðun á starfsemi atvinnuráðgjafa í landinu.
     Tölul. 2.3, um vinnuvernd. Undir þessum lið er gert ráð fyrir tveimur aðgreindum verkefnum.
     Tölul. 2.3.1, um úttekt á hefðbundnum kvennastörfum. Þess er vænst að niðurstöður slíkrar úttektar geti orðið grunnur að tillögum að bættu vinnuumhverfi. Í verkefnislýsingunni er sérstaklega horft til einhæfra starfa og hefðbundinna kvennastarfa.
     Framkvæmd. Skipulögð vinna vegna þessa verkefnis er ekki hafin. Rétt er að vekja á því athygli að Vinnueftirliti ríkisins hefur á undanförnum árum staðið fyrir rannsóknum á vinnuaðstæðum þar sem unnin eru hefðbundin kvennastörf, m.a. í fiskvinnslu.
     Tölul. 2.3.2, um könnun á kynferðislegri áreitni á vinnustöðum. Markmið verkefnisins er að afla þekkingar á umfangi og eðli kynferðislegrar áreitni á vinnustöðum á Íslandi. Á grundvelli hennar verði unnið að fræðslu um kynferðislega áreitni auk þess sem niðurstöðurnar geta orðið grunnar að breytingum á viðeigandi löggjöf er varðar þetta mál.
     Framkvæmd. Félagsmálaráðuneytið hefur falið Skrifstofu jafnréttismála og Vinnueftirliti ríkisins að vinna þetta verkefni saman. Við undirbúning samstarfsverkefnisins hefur verið stuðst við framkvæmd rannsóknar sænska jafnréttisumboðsmannsins á kynferðislegri áreitni á vinnustað sem gerð var árið 1987 og kallast FRID-A rannsóknin. Hún var fyrsta sænska rannsóknin sem fjallaði eingöngu um þetta vandamál og hafa opinberir aðilar eins og sænska ríkisstjórnin og umboðsmaður jafnréttismála stuðst við niðurstöður hennar við gerð tillagna um aðgerðir og lagasetningu sem beinst hafa gegn kynferðislegri áreitni á vinnustöðum.
    Framkvæmd rannsóknarinnar er að hluta til unnin í samvinnu við nokkur stéttarfélög (sbr. FRID-A rannsóknin) og er vinna viðgerð spurningalista á lokastigi. Stefnt er að því að niðurstöður rannsóknarinnar verði kynntar seinni hluta ársins 1996.
     Tölul. 2.4, um launamun kynjanna. Hér er lagt til að kjör karla og kvenna hjá fimm stórum ríkisstofnunum verði könnuð. Jafnframt er kveðið á um að verkefnið sé unnið í samráði við norræna jafnlaunaverkefnið á Íslandi.
    Meginmarkmið norræna jafnlaunaverkefnisins var að safna upplýsingum um launamun kynjanna og leita leiða til að draga úr honum. Stærsta viðfangsefni þess var rannsókn á launamyndun og kynbundnum launamun í fjórum ríkisstofnunum og fjórum einkafyrirtækjum. Undirbúningur fyrir rannsóknina hófst þegar árið 1992. Markmið hennar var m.a. það að afla vitneskju um með hvaða hætti ákvarðanir um laun eru teknar, hvaða sjónarmið ráða því hverjir veljast í stöður og hvernig launamyndun á vinnustöðum er réttlætt.
     Framkvæmd. Jafnréttisráð samdi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um framkvæmd rannsóknar í samræmi við lýsingu tölfræðihóps norræna jafnlaunaverkefnisins. Félagsvísindastofnun vann rannsóknina í nánu samstarfi við tölfræðihópinn og komu niðurstöður hennar út í febrúar 1995 í skýrslunni „Launamyndun og kynbundinn launamunur. Þættir sem hafa áhrif á laun og starfsframa“.
    Í 7. tölul. skýrslunnar, um starfsmat, er skýrt frá viðbrögðum félagsmálaráðherra við niðurstöðum þessarar rannsóknar. Í framhaldi af þeim skipaði ráðherra nefnd til að kanna hvort starfsmat kunni að vera fær leið til að leiðrétta mun á launum karla og kvenna. Nefndin hefur aflað margvíslegra upplýsinga sem gerð er grein fyrir í áfangaskýrslu sem kom út í febrúar 1996. Enn fremur eru settar fram í skýrslunni tillögur um aðgerðir á þessu sviði. Helstu tillögur nefndarinnar eru eftirfarandi:
    Hafist verði handa við tilraunaverkefni þar sem starfsmati verði beitt í einni eða tveimur stofnunum á vegum ríkisins, einu einkafyrirtæki og einu fyrirtæki/stofnun á vegum Reykjavíkurborgar. Tilgangur verkefnisins væri að nota kynhlutlaust starfsmatskerfi til að raða störfum innbyrðis á hverjum vinnustað. Við val á fyrirtækjum yrði hugað að fjölbreytileika starfa og því að á vinnustaðnum séu bæði hefðbundin kvenna- og karlastörf. Með verkefninu er ætlunin fyrst og fremst að skoða innbyrðis vægi starfa en ekki að tengja niðurstöður þess gildandi kjarasamningum.
    Með hliðsjón af þeirri þekkingu sem áunnist hefur með starfi hópsins er lagt til að yfirumsjón verkefnisins verði í höndum hans. Í því felist m.a. að velja starfsmatskerfi og stofnanir, útfæra nánar markmið, leiðir og umfang verkefnisins. Enn fremur er lagt til að starfsmaður nefndarinnar vinni áfram með starfshópnum. Það er álit nefndarinnar að kaup á sérfræðiþjónustu erlendis frá verði nauðsynleg. Í ljósi þess að fjármálaráðherra hefur skoðað sérstaka nefnd til að endurskoða og móta heildarstefnu í starfsmannamálum ríkisins, m.a. með sérstöku tilliti til jafnréttismála, telur starfshópurinn rétt að tekið verði upp formlegt samráð við þá nefnd um þann þátt tilraunaverkefnisins sem varðar ríkið.
    Með bréfi frá þáverandi félagsmálaráðherra, dags. 21. apríl 1995, var starfshópi um starfsmat falið að gera tillögur um ráðstöfun fjármagns sem samið var um í kjarasamningum í byrjun árs 1995 og ætlað er til að draga úr launamun kynjana. Nefndin leggur til að fjármunum þessum verði varið í þetta tilraunaverkefni og mun hún leggja fram nánari fjárhagsáætlun síðar.
    Þá leggur starfshópurinn til að ákvæði um tilraunaverkefni um starfsmat verði sett í endurskoðaða framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum sem lögð verður fram á Alþingi á næstunni. Þetta tilraunaverkefni verði fyrsta skrefið í að útfæra 7. tölul. núverandi framkvæmdaáætlunar sem kveður á um að „kerfisbundið mat á störfum ríkisstarfsmanna fari fram í því skyni að framfylgja 4. gr. jafnréttislaga sem kveður á um að greiða skuli konum og körlum jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf“.
    Starfsmatshópurinn leggur jafnframt til að hluti skýrslunnar verði gefinn út sem fræðsluefni um starfsmat.
     Tölul. 2.5, um starfsmenntun. Markmið þessa verkefnis er að beita lögum um starfsmenntun í atvinnulífinu sérstaklega til að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaðinum og stuðla að atvinnuöryggi þeirra.
     Framkvæmd. Starfsmenntunarráð var skipað samkvæmt lögum um starfsmenntun í atvinnulífinu og gerir tillögur um úthlutun úr starfsmenntasjóði. Starfsmenntaráð hefur lagt áherslu á að styðja námskeið fyrir ófaglært starfsfólk, þar á meðal námskeið fyrir starfsmannafélag Sóknar, gerð námsefnis fyrir dagmæður og ýmis námskeið á vegum menningar- og fræðslusambands alþýðu. Þá hefur starfsmenntaráð sérstaklega beitt sér fyrir umræðu um sérstakar aðgerðir í þágu starfsfólks í umönnunarstörfum en þar eru konur hlutfallslega mun fleiri en karlar og hefur 12 millj. kr. verið veittar úr starfsmenntasjóði sérstaklega í þeim tilgangi.
    Í skýrslu sem félagsmálaráðherra lagði fyrir Alþingi í febrúar 1995 um framkvæmd laga nr. 19/1992, um starfsmenntun í atvinnulífinu, er að finna margvíslegar upplýsingar um stuðning hins opinbera við starfsmenntun og hvernig hann hefur komið ýmsum starfshópum og atvinnugreinum að gagni.
     Tölul. 2.6, um orsakir brottflutnings kvenna úr dreifbýli í þéttbýli. Félagsvísindastofnun Háskóla íslands verði falin nánari úrvinnsla gagna um búferlaflutninga með sérstöku tilliti til kynferðis þeirra sem flutt hafa af landsbyggðinni eða hafa slíkan flutning í huga.
     Framkvæmd. Vinna við framkvæmd þessa verkefnis er ekki hafin. Fyrirhugað er að kanna hvort upplýsingar sem fengust í rannsókn sem unnin var fyrir Húsnæðisstofnun ríkisins af Félagvísindastofnun Háskóla Íslands gætu nýst í þessu verkefni.
     Tölul. 2.7, um rekstur kvennaathvarfs og annarra félagasamtaka sem aðstoða konur sem þolendur ofbeldis og sifjaspella. Markmið þessa verkefnis var að tryggja stuðning ríkisvaldsins við rekstur félagasamtaka sem aðstoða konur og börn sem eru þolendur ofbeldis og sifjaspella.
     Framkvæmd. Árið 1993 skipaði félagsmálaráðherra nefnd til að gera úttekt á rekstrargrundvelli félagasamtaka sem aðstoða konur og börn sem eru þolendur ofbeldis og sifjaspella og gera tillögur um hvernig hann yrði sem best tryggður. Nefndin lauk störfum árið 1994 og lagði fram skilagrein og tillögur. Í upphafi árs 1995 var undirritaður þjónustusamningur milli félagsmálaráðuneytisins og Samtaka um kvennaathvarf annars vegar og Stígamóta hins vegar, um greiðslu 60% af rekstrarkostnaði þjónustunnar sem þessi samtök veittu, en þó innan tiltekinna marka.
     Tölul. 2.8, um stefnumótun um málefni fjölskyldunnar. Eitt af meginmarkmiðum þessa verkefnisins var að þess yrði gætt við heildarstefnumótun um málefni fjölskyldunnar að einstaklingar innan hennar ættu kost á að taka þátt í atvinnulífi samhliða heimilisstörfum.
     Framkvæmd. Sumarið 1991 samþykkti ríkisstjórn Íslands að koma á fót landsnefnd sem fékk það verkefni að undirbúa „Ár fjölskyldunnar“ hér á landi. Á grundvelli samþykktarinnar skipaði félagsmálaráðherra landsnefnd með aðild fulltrúa fjölmargra stofnana og félagasamtaka. Eitt af verkefnum landsnefndarinnar var að semja tillögu til þingsályktunar um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Tillagan var lögð fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994–95 en var ekki afgreidd.
    Nú í vor var lögð fyrir Alþingi ný tillaga til þingsályktunar um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Þessi tillaga er að stofni til endurskoðuð tillaga sem unnin var á vegum landsnefndar um „Ár fjölskyldunnar“ 1994. Með tillögunni er fjölskyldunni gefinn ákveðinn sess innan stjórnsýslunnar. Með samþykkt hennar yrði fjölskyldan viðurkennd með formlegum hætti sem hornsteinn og grunneining samfélagsins og þess er vænst að með því móti verði fjölskyldunum búnir betri afkomumöguleikar.
    Í þingsályktunartillögunni er þess getið að meginforsendur fjölskyldustefnunnar séu þær að velferð fjölskyldunnar byggist á jafnrétti karla og kvenna og sameiginlegri ábyrgð á verkaskiptingu innan fjölskyldunnar. Fjölskyldan sé vettvangur tilfinningatengsla og að fjölskyldulífið eigi að veita börnum öryggi og tækifæri til að þroska eiginleika sína til hins ýtrasta.
    Í tillögunni er fjallað um almenn markmið stjórnvalda við framkvæmd fjölskyldustefnu og eru tilgreind þar ellefu atriði. Þau eru m.a.:
—    Að skapa skilyrði til þess að ná jafnvægi milli fjölskyldulífs og atvinnu foreldra og leggja áherslu á jafna ábyrgð beggja foreldra í heimilishaldi og uppeldi barna sinna.
—    Að stofnanir samfélagsins, ekki síst skólar, starfi í samvinnu við og taki mið af ábyrgð foreldra á börnum sínum.
—    Að grundvallaröryggi fjölskyldunnar efnahagslega sé tryggt ásamt rétti hennar til öryggis í húsnæðismálum.
    Í tillögunni er jafnframt lagt til að stofnað verði fjölskylduráð sem hafi það hlutverk að stuðla að eflingu og vernd fjölskyldunnar, m.a. með því gera að veita stjórnvöldum ráðgjöf í fjölskyldumálum, annast tillögugerð um framkvæmdaáætlanir í fjölskyldumálum, eiga frumkvæði að opinberri umræðu um málaflokkinn og stuðla að rannsóknum á högum og aðstæðum íslenskra fjölskyldna. Lagt er til að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að staða og afkoma barnafjölskyldna í nútímasamfélagi verði könnuð sérstaklega og úrbætur gerðar þar sem nauðsynlegt er. Enn fremur er lagt til að ríkisstjórnin skapi skilyrði sem tryggi feðrum aukinn rétt til fæðingarorlofs og að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að sköpuð verði skilyrði til þess að Ísland geti fullgilt samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð.
     Önnur verkefni – Menntasmiðja kvenna. Menntasmiðja kvenna á Akureyri er þróunarverkefni þar sem gerð er tilraun til að laga hugmyndafræði lýðháskóla og dagskóla annars staðar á Norðurlöndum að íslenskum aðstæðum og þörfum. Menntasmiðjan, sem hóf starfsemi um mitt ár 1994, er skóli fyrir konur án atvinnu. Slíkir skólar hafa skilað verulegum árangri annars staðar á Norðurlöndum, ekki síst í Danmörku þar sem áhrifa atvinnuleysis hefur gætt lengst.
    Félagsmálaráðuneytið, menntamálaráðuneytið og Akureyrarbær styrkja í sameiningu verkefnið. Stuðningur ráðuneytanna á árunum 1995 og 1996 er samtals 9 millj. kr. (3 millj. + 6 millj.).
     Samantekt. Af níu verkefnum sem félagsmálaráðuneytinu eða undirstofnunum þess var falið að vinna að samkvæmt framkvæmdaáætluninni hefur þegar verið hafist handa við sjö. Flest þeirra eru þess eðlis að þau eiga sér ekki ákveðin verklok fyrr en í fyrsta lagi við lok gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar. Sem dæmi um verkefni af þessum toga eru störf karlanefndarinnar, niðurstöður launakönnunarinnar og aðgerðir í kjölfar hennar, samstarf við Samtök um kvennaathvarf og Stígamót, átak í starfsmenntun hefðbundinna kvennastétta og mótun fjölskyldustefnu. Undirbúningur fyrir rannsókn á kynferðislegri áreitni og endurskoðun á verkefninu þar sem kveðið er á um jafnréttisráðgjafa er hafin. Það eru aðeins tvö verkefni sem engin endanleg ákvörðun hefur verið tekin um, þ.e. rannsókn á orsökum brottflutnings ungra kvenna úr dreifbýli og skipulögð úttekt á hefðbundnum kvennastörfum. Gera má ráð fyrir að vinna við þau hefjist á næsta ári og að þeim verði lokið fyrir lok gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar.

4.2.3 Fjármálaráðuneyti.
    Fjármálaráðuneytið hefur ekki svarað bréfum Skrifstofu jafnréttismála um framkvæmd framkvæmdaáætlunarinnar. Í byrjun árs 1996 barst skrifstofunni greinargerð til fjármálaráðherra frá starfshópi fjármálaráðuneytisins um jafnréttismál. Þar kemur fram að vorið 1995 hafi fjármálaráðherra skipað starfshóp til að athuga jafnréttismál í fjármálaráðuneytinu og stofnunum þess. Tilefnið var skýrsla frá Skrifstofu jafnréttismála um launamyndun og kynbundinn launamun sem áður er getið.
    Í skipunarbréfi hópsins segir að honum sé ætlað að kanna „efni skýrslunnar með tilliti til hvort kynbundinn mismunur sé á launamyndun, starfsframa, endurmenntun og jafnvel einhverjum fleiri þáttum hjá fjármálaráðuneytinu og stofnunum þess“. Auk þess að afla gagna sem varða framangreint, t.d. upplýsinga um kynjaskiptingu í einstökum stofnunum ráðuneytisins, starfsaldur starfsmanna og menntun, sem og upplýsinga um launagreiðslur, fjallaði hópurinn um framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að ná fram jafnréttii kynjanna, en „einkum þó þann hluta hennar sem snýr að fjármálráðuneytinu“. Eftirfarandi lýsingar á stöðu verkefna eru teknar upp úr umræddri skýrslu.
     Tölul. 3.1, um Stjórnsýslufræðslu ríkisins, tölul. 3.1.1, um sérstök námskeið fyrir konur, og 3.1.2, um sérstök námskeið fyrir stjórnendur. Markmið með námskeiðum sem þessum eru að auka hæfni kvenna og veita þeim möguleika á stöðuhækkunum auk þess sem mikilvægt er að stjórnendur séu upplýstir um jafnréttismál og neikvæðar afleiðingar kynbundinar mismununar.
     Framkvæmd. Ekki er vitað til að nein slík námskeið hafi verið haldin.
     Tölul. 3.2, um nefndarskipan. Kveðið er á um að jafna hlutfall kvenna og karla sem sitja í nefndum er fjalla um launakjör, þóknanir og hlunnindi og þær verði í samræmi við ákvæði 12. gr. laga um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla.
     Framkvæmd. Í greinargerð starfshóps fjármálaráðuneytisins kemur fram að hér er um að ræða eftirtaldar nefndir: samninganefnd ríkisins, þóknananefnd, ferðakostnaðarnefnd, Kjaradóm og kjaranefnd. Í nefndunum sitja samtals 30 einstaklingar, þar af sjö konur eða 23%.
     Tölul. 3.3, um lög um tekju- og eignarskatt. Að við endurskoðun þeirra laga verði gætt jafnréttissjónarmiða karla og kvenna.
     Framkvæmd. Að mati starfshópsins er óljóst hvað er átt við með þessu ákvæði en hann telur að hér sé um að ræða breytingar á ákvæðum um millifærslu persónufrádráttar milli hjóna eða sambýlisfólks. Á þeim ákvæðum laga hafa ekki orðið neinar breytingar.
     Tölul. 3.4, um lög um lífeyrissjóði. Að sett verði lög um lífeyrissjóði og að við þá lagasetningu verði jafnréttissjónarmiða gætt auk þess sem réttindi heimavinnandi fólks verði athuguð sérstaklega.
     Framkvæmd. Enn hafa ekki verið sett lög um lífeyrissjóði.
     Tölul. 3.5, um gagnasöfnun. Hér er kveðið á um reglubundna gagnasöfnun varðandi kjör ríkisstarfsmanna. Þetta verkefni verði unnið í samvinnu félagsmála- og fjármálaráðuneytisins.
     Framkvæmd. Í skýrslu starfshóps fjármálaráðuneytisins segir að enn hafi ekki reynt á þetta samstarf ráðuneytanna. Hins vegar er rétt að minna á að fyrr í þessari skýrslu er m.a. gerð grein fyrir fundi fulltrúa þessara ráðuneyta auk Skrifstofu jafnréttismála þar sem var fjallað um framgang þessa verkefnis og tillögu sem gerð var í kjölfar hans.
     Samantekt. Í greinargerð starfshóps fjármálaráðuneytsins er ekki lagt mat framkvæmd framkvæmdaáætlunarinnar af hálfu fjármálaráðuneytisins. Í lokakafla hennar þar sem lagðar eru til leiðir til úrbóta er m.a. hvatt til að þessi kafli verði tekinn til endurskoðunar í samráði við starfsmenn.
    Með skipan starfshóps fjármálaráðuneytisins er stigið mikilvægt skref í markvissum vinnubrögðum hvað varðar athugun á starfsmannahaldi ríkisins út frá jafnréttissjónarmiði. Greinargerðin eins og hún liggur fyrir er fyrst og fremst lýsing á á stöðu mála hjá fjármálaráðuneytinu og stofnunum þess. Í lokakafla bendir hópurinn ráðherra á nokkur atriði til úrbóta auk þess sem hann leggur áherslu á mikilvægi reglubundinnar gagnasöfnunar af þessu tagi þar sem hún sé „nauðsynlegur grundvöllur til samanburðar á því hverju menn fái áorkað í þessum málum í náinni framtíð“.

4.2.4 Forsætisráðuneyti.
    Greinargerð frá forsætisráðuneytinu er frá 25. október 1993. Í henni er gerð grein fyrir framkvæmd jafnréttisverkefna á vegum ráðuneytisins. Fyrri hluta árs 1996 aflaði Skrifstofa jafnréttismála nýrri upplýsinga um þetta efni.
     Tölul. 4.1, um fjarvinnslustofur. Samkvæmt ákvæðinu skal unnið að eflingu fjarvinnslu og markvisst vakin athygli opinberra stofnana á verkefnum sem henta til fjarvinnslu.
     Framkvæmd. Forsætisráðuneytið fól Byggðastofnun til ráðstöfunar 5 millj. kr. til að efla fjarvinnslu. Hluta fjárins var varið til tilraunaverkefnis í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands. Það verkefnið fólst í að fela fjarvinnslustofu úti á landi að tölvuskrá hluta þjóðminjaskrár. Þá var hluta fjárins varið til kynningar á gildi og möguleikum sem felast í fjarvinnslu.
     Tölul. 4.2, um laun kvenna og karla. Verkefnið miðar að því að í yfirlitsskýrslum Þjóðhagsstofnunar um tekjur einstaklinga verði allar upplýsingar flokkaðar eftir kyni.
     Framkvæmd. Upplýsingar Þjóðhagsstofnunar um tekjur einstaklinga eru nú flokkaðar eftir kyni, sbr. skýrslur stofnunarinnar um tekjuþróun kvenna og karla.
     Tölul. 4.3, um eflingu heimilisiðnaðar. Í verkefnislýsingu er lagt til að stuðst verði við niðurstöður nefndar um eflingu heimilisiðnaðar en hún hefur m.a. kynnt sér atvinnumál kvenna á landsbyggðinni og þróun smáiðnaðar annars staðar á Norðurlöndum. Markmið þessa verkefnis er að efla heimilisiðnað og stuðning við hönnun í smáiðnaði.
     Framkvæmd. Forsætisráðuneytið hefur stofnað til sérstaks tilraunaverkefnis um íslenskt handverk og varið til þess 20 millj. kr. Skrifstofa verkefnisins er í Reykjavík og er gert ráð fyrir að því ljúki 1997. Auk verkefnisstjóra starfa á vegum þess sex tengiliðir víðs vegar um landið í launuðu hlutastarfi. Markmið tilraunaverkefnisins er m.a. að hvetja til aukinna samskipta þeirra er starfa við handverk og safna í gagnabanka upplýsingum um handverksfólk. Þá er lögð mikil áhersla á að vinna að framförum og efla gæðavitund innan greinarinnar.
     Samantekt. Forsætisráðuneytið hefur hrint í framkvæmd þeim verkefnum sem það tók að sér. Auk þess er vert að benda á að ráðuneytið hefur varið til þeirra a.m.k. 25 millj. kr. Þar sem þessi tvö tilteknu verkefni eru enn í gangi er ekki enn hægt að meta árangur þeirra en stefnt er að því að svo verði gert.

4.2.5 Hagstofa Íslands.
    Samkvæmt framkvæmdaáætluninni hefur Hagstofu Íslands verið falin framkvæmd fjögurra verkefna. Hagstofan hefur ekki svarað erindum Skrifstofu jafnréttismála. Mat á stöðu eða á framgangi einstakra verkefna er því byggð á upplýsingum sem Skrifstofu jafnréttismála hafa borist í tengslum við önnur verkefni.
     Tölul. 5.1, um tölfræðihandbók um stöðu kvenna og karla. Í verkefnislýsingu kemur fram að Hagstofa Íslands er þátttakandi í norrænu samstarfsverkefni um útgáfu slíkra upplýsinga. Þá er kveðið á um að við reglubundna hagskýrslugerð verði, svo sem unnt er og þar sem það á við, unnar og birtar tölur fyrir bæði kynin sérstaklega.
     Framkvæmd. Árið 1994 kom út á vegum Hagstofu Íslands handbók sem hefur að geyma tölfræðilegar upplýsingar um stöðu kvenna og karla á Íslandi. Allar upplýsingar eru bæði á íslensku og ensku. Hagstofan vinnur markvisst að því að greina hagtölur eftir körlum og konum þar sem það á við.
     Tölul. 5.2, um tölfræðileg úttekt á sifjamálum. Lagt er til að Hagstofan haldi áfram og auki við tölfræðilegar upplýsingar um sifjamál.
     Framkvæmd. Ekki er kunnugt um að hafin sé vinna vegna þessa verkefnis
     Tölul. 5.3, um eignarétt að fasteignum. Markmið verkefnisins er að gera úttekt á því hverjir eigi fasteignir hér á landi. Tilgangurinn er að vekja athygli kvenna á eignastöðu sinni.
     Framkvæmd. Ekki er kunnugt um að framkvæmd þessa verkefnis sé hafin. Rétt þykir að benda á að Jafnréttisráð hefur með bréfi dags. 26. september 1994 minnt hagstofustjóra á þennan tölulið í framkvæmdaáætluninni. Jafnréttisráð taldi brýnt að þessar upplýsingar lægju fyrir vegna kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í Beijing í september 1995. Þar var auk annars fjallað um hvernig eignir í heiminum skiptast milli kvenna og karla.
     Tölul. 5.4, um tölfræðilega úttekt á launamun kvenna og karla. Samkvæmt ákvæði þessa töluliðar ber Hagstofunni að ljúka úrvinnslu gagna um launamun kynjanna og gefa niðurstöður út sem fyrst. Hér er vísað til gagna sem safnað var vegna könnunar á lífskjörum Íslendinga en fyrstu niðurstöður hennar voru birtar árið 1990. Aðdraganda könnunarinnar má rekja til ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að láta fara fram sérstaka samanburðarúttekt á launum kvenna og karla. Þeir sem var falið verkið lögðu til að gerð yrði víðtækari könnun og að samanburður á launum karla og kvenna yrði aðeins hluti hennar.
     Framkvæmd. Niðurstöðurnar hafa enn ekki verið gefnar út.
     Samantekt. Tekið skal fram að Hagstofan tekur reglulega saman yfirlit yfir helstu þætti vinnumarkaðsmála, að undanteknum tekjum, og birtir í ritinu Vinnumarkaðurinn. Þar eru allar upplýsingar greindar eftir kyni. Hagstofan safnar reglubundið upplýsingum um laun vegna útreikninga launavísitölu. Í þeim gagnagrunni er hægt að greina upplýsingar eftir kyni. Sama á við um aðrar launaupplýsingar sem Hagstofan fær og vinnur úr reglubundið. Launavísitalan sjálf hefur lengst af verið einu upplýsingarnar sem birtar eru úr launakönnun Hagstofunnar.
    Þennan lið framkvæmdaáætlunarinnar þarf að skoða og tengja við 6. tölul. um bifreiðastyrki úr A-hlutanum og tölul. 3.5 úr B-hlutanum en hann heyrir undir fjáramálráðuneytið og tekur til reglubundinna athugunnar á starfskjörum ríkisstafsmanna.

4.2.6 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur ekki svarað bréfi Skrifstofu jafnréttismála hvað varðar upplýsingar um framkvæmd verkefna sem því eru falin samkvæmt framkvæmdaáætluninni. Í henni eru tvö viðfangsefni.
     Tölul. 6.1, um lög um fæðingarorlof. Í framkvæmdaáætluninni er kveðið á um endurskoðun á lögum um fæðingarorlof með það að markmiði að tryggja jafnan rétt starfandi foreldra og að tryggja sjálfstæðan rétt feðra til töku fæðingarorlofs.
     Framkvæmd. Heilbrigðisráðherra skipaði í nóvember 1995 nefnd til að endurskoða frumvarp til laga um fæðingarorlof sem samið var árið 1990. Í skipunarbréfi nefndarinnar kemur fram að í frumvarpinu hafi verið gerðar tillögur um endurskipulagningu fyrirkomulags fæðingarolofs þannig að allar konur, hvar sem þær starfa á vinnumarkaði, njóti sömu réttinda til fæðingarorlofs, auk þess sem gert er ráð fyrir að réttur til fæðingarolofs nái jafnt til kvenna sem karla. Nefndin á að skila tillögum til ráðherra á fyrri hluta árs 1996.
     Tölul. 6.2, um útreikning á örorkubótum kvenna hjá Tryggingastofnun ríkisins. Markmið þessa verkefnis er að kanna hvort jafnrétti ríkir við útreikning örorkubóta hjá Tryggingastofnun ríkisins, þ.e. hvort hefðbundið mat á störfum kvenna og karla sé hugsanlega lagt til grundvallar við útreikninga.
     Framkvæmd. Ekki er vitað hvort framkvæmd þessa verkefnis er hafin.

4.2.7 Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
    Í greinargerð iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins eru veittar eftirfarandi upplýsingar um framvindu einstakra verkefna í framkvæmdaáætluninni.
     Tölul. 7.1, um könnun á stöðu kvenna í iðnaði. Markmið verkefnisins er safna upplýsingum sem hægt er að byggja á við mótun tillagna sem geta jafnað hlut kynjanna á öllum starfs- og stjórnunarstigum innan iðnaðarins.
     Framkvæmd. Samkvæmt greinargerð ráðuneytisins hefur vinnuhópur á þess vegum og Iðntæknistofnunar hafið undirbúning að verkefninu.
     Tölul. 7.2, 7.2.1 og 7.3, um fræðslustarfsemi. Verkefnin miða að því að hvetja og styðja konur til athafna í rekstri fyrirtækja. Þau taka til sértækra aðgerða á sviði fræðslu og starfsmenntunar. Í verkefnislýsingunum er kveðið á um að þessi fræðsla verði unnin í samráði við Iðntæknistofnun.
     Framkvæmd. Í greinargerð iðnaðarráðuneytisins eru talin upp námskeið sem haldin hafa verið á vegum Iðntæknistofnunar og rekja má til framkvæmdaáætlunarinnar, en þau eru námskeið um stofnun og rekstur smáfyrirtækja fyrir atvinnulausar konur og námskeiðið „Athafnakonur“ sem haldið var víða um land og ætlað var konum. Þar var lögð var áhersla á frumkvæði í atvinnulífinu (tölul. 7.2.1, námskeið fyrir konur um frumkvæði í atvinnulífinu). Þá hefur verið staðið fyrir fjölda námskeiða fyrir ýmsa starfshópa þar sem konur hafa verið í meiri hluta, þótt námskeiðin hafi ekki verið kynbundin í sjálfu sér (tölul. 7.2).
    Nýlega var ákveðið að fela vinnuhópi fulltrúa ráðuneytisins og Iðntæknistofnunar að gera áætlun um fleiri slík námskeið og önnur námskeið sem nýtast konum sérstaklega og þá í samræmi við ákvæði framkvæmdaáætlunarinnar (tölul. 7.3, um áherslur). Áætlun vinnuhópsins liggur ekki fyrir að svo stöddu.
     Tölul. 7.4, um þróunarverkefni í einu byggðarlagi. Markmið verkefnisins er að fjölga atvinnutækifærum fyrir konur og er lagt til að það sé framkvæmt í samráði við atvinnuráðgjafa svæðisins og Byggðastofnun.
     Framkvæmd. Ráðuneytið sjálft hefur ekki styrkt eða haft frumkvæði að verkefni af þessu tagi. Hins vegar hefur það styrkt „Snerpu“, átaksverkefni í atvinnumálum kvenna á Vestfjörðum, en með því er ætlunin að skapa ný og fjölbreyttari atvinnutækifæri fyrir konur. Á árunum 1993 og 1994 var 500 þús. kr. varið til verkefnisins, en 250 þús. kr. árið 1995, samtals 1.250 þús. kr.
     Tölul. 7.5, um jafnrétti til stjórnunarstarfa í bönkum. Markmið með gerð jafnréttisáætlunar í bönkum er að auka hluta kvenna í stjórnunarstörfum innan þeirra.
     Framkvæmd. Í greinargerð ráðuneytisins er skýrt frá því að bankaráðum Búnaðarbanka, Landsbanka og Seðlabanka hafi verið kynnt ákvæði framkvæmdaáætlunarinnar. Enn fremur var óskað eftir umsögn um hvað gert hefði verið í jafnréttismálum bankanna á undanförnum árum. Ráðuneytinu hafa ekki borist svör frá bankaráðunum.
     Önnur verkefni á sviði jafnréttismála. Í greinargerð iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins er skýrt frá því að frá fyrri hluta árs 1995 hafi starfað í ráðuneytinu hópur sem ætlað var að fjalla um jafnréttismál sem ráðuneytið varða, bæði með hliðsjón af jafnréttislögum og framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna.
    Ráðuneytið hefur ákveðið að beita sér fyrir því að stofnanir sem undir það heyra geri sérstakar jafnréttisáætlanir er miði að því að jafna hlut kvenna og karla á hverjum stað. Iðntæknistofnun hefur verið falið að vinna að gerð slíkra áætlana með undirstofnunum fyrir hönd ráðuneytisins.
    Einnig er skýrt frá nýlegu samkomulagi um stofnun lánatryggingarsjóðs kvenna sem borgarstjóri Reykjavíkur, félagsmálaráðherra og iðnaðarráðherra stóðu að. Sjóðnum er ætlað að efla og styðja konur til nýsköpunar í atvinnulífinu.
    Að lokum er tekið fram að á gildistíma áætlunarinnar hafi ráðuneytið styrkt ýmis verkefni sem tengjast málefnum kvenna með styrkveitingu af ráðstöfunarfé ráðherra.
     Samantekt. Af framangreindu er ljóst að þótt ráðuneytið hafi ekki ráðist í öll þau verkefni sem tilgreind eru í framkvæmdaáætluninni hefur þegar verið tekin ákvörðun um hvernig staðið verði að framkvæmd flestra þeirra. Vert að ítreka mikilvægi þess að ráðuneytið beitir sér fyrir gerð jafnréttisáætlana fyrir stofnanir sem undir það heyra.

4.2.8 Landbúnaðarráðuneyti.
     Tölul. 8.1, um félagsleg réttindi kvenna í landbúnaði. Samkvæmt verkefnislýsingu skal ráðuneytið kanna ýmis opinber réttindi kvenna í landbúnaði og gera tillögur til úrbóta þar sem þess gerist þörf. Samhliða þessari athugun verði kannaðir möguleikar kvenna á landsbyggðinni til að njóta ýmiss konar félagslegrar þjónustu sem sveitarfélögum ber að inna af hendi.
     Tölul. 8.2, um atvinnumál kvenna í landbúnaði. Ráðuneytið lýsir sig tilbúið til samstarfs um átak til að fjölga atvinnutækifærum kvenna á landsbyggðinni og að í tengslum við slíkt átak verði skipulögð námskeið í stofnun og rekstri fyrirtækja.
     Tölul. 8.3, um fræðslu fyrir konur í landbúnaði. Í þriðja og síðasta lagi tekur landbúnaðarráðuneytið að sér að beita sér fyrir fræðslu fyrir konur í landbúnaði. Þessi fræðsla taki til félagskerfis landbúnaðarins.
     Samantekt. Svar landbúnaðarráðuneytisins við erindi Skrifstofu jafnréttismála frá 22. maí sl. er stutt en þar segir: „Ráðuneytið hefur meðtekið bréf yðar um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Ráðuneytið hefur þegar sent upplýsingar um nefndir á vegum þess sem konur eiga sæti í. Að öðru leyti hefur ráðuneytið ekki aðhafst neitt í sambandi við áætlunina.“

4.2.9 Menntamálaráðuneyti.
    Menntamálaráðuneytið svaraði erindi um framkvæmd framkvæmdaáætlunarinnar með greinargerð dags. 9. júní 1995. Verkefni menntamálaráðuneytisins samkvæmt áætluninni eru tíu talsins og mörg hver mjög umfangsmikil.
     Tölul. 9.1, um samfelldan skóladag. Stefnt verður að því að koma á samfelldum skóladegi í grunnskóla og að daglegur skólatími yngstu barnanna og árlegur kennslutími verði lengdur.
     Framkvæmd. Í greinargerð ráðuneytisins er vísað til nýsettra laga um grunnskóla en þar er kveðið á um að hver grunnskóli skuli einsetinn. Í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um að einsetinn grunnskóli skuli að fullu kominn til framkvæmda að sex árum liðnum frá gildistöku laganna. Áætlun ráðuneytisins er á þá leið að daglegur skólatími yngstu barnanna og árlegur kennslutími verði lengdur í áföngum á árunum 1995–99 þannig að hann verði með eftirfarandi hætti:
    1.–4. bekkur með 30 kennslustundir,
    5.–7. bekkur með 36 kennslustundir og
    8.–10. bekkur með 37 kennslustundir á viku.
     Tölul. 9.2, um framkvæmd tillagna starfshóps um eflingu jafnréttis kynjanna á öllum skólastigum. Starfshópurinn skilaði áliti um framkvæmd jafnréttisfræðslu árið 1990. Stefnt er að því að hrinda tillögum hópsins í framkvæmd á fjórum árum. Helstu verkefni sem hópurinn gerði tillögur um eru eftirfarandi:
     Tölul. 9.2.1, um fræðslufundi og námskeið. Markmið verkefnisins er að gefa starfsfólki allra skólastiga kost á fræðslufundum um jafnrétti og jafna stöðu kynja í skólum.
     Framkvæmd. Samkvæmt greinargerð ráðuneytisins kom framkvæmdanefndin þeirri tillögu á framfæri við endurmenntunarnefnd Kennaraháskóla Íslands að starfsfólk allra skólastiga ætti kost á fræðslufundum og námskeiðum um jafna stöðu kynja í skólum. Í framhaldi af því voru haldin tvö 20 tíma námskeið fyrir kennara í grunnskólum Reykjavíkur á vegum KHÍ og Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur í umsjón formanns framkvæmdanefndarinnar. Námskeiðin sóttu um 50 kennarar.
    Framkvæmdanefndin stóð auk þess fyrir fræðslu- og umræðufundum meðal fræðslustjóra, skólastjórnenda og kennara á leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólastigi.
    Í tengslum við norræna verkefnið NORD-LILA, um jafna stöðu kynja í starfsháttum og inntaki kennaramenntunar, hefur verið unnið að átta þróunarverkefnum í eftirtöldum stofnunum: Kennaraháskóla Íslands (tvö verkefni), Háskóla Íslands, Fósturskóla Íslands (tvö verkefni), kennaradeild Háskólans á Akureyri, Æfingaskóla KHÍ og Grandaskóla í Reykjavík. Nokkrir aðrir skólar hafa einnig verið með þróunarverkefni á sviði jafnréttismála.
     Tölul. 9.2.2, um starfsmannastefnu skóla. Starfsmannastefna skóla verði mörkuð með hliðsjón af því að störf innan þeirra séu ekki kynbundin svo að fyrirmyndir nemenda séu ekki of einhæfar.
     Framkvæmd. Menntamálaráðuneytið hefur sent skýrslu framkvæmdanefndar um jafna stöðu kynja í alla skóla þar sem þessi tillaga kemur fram.
     Tölul. 9.2.3, um námsefni. Náms- og kennslugögn séu án kynjafordóma og staðalmynda og jafnan samin og endurskoðuð með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi.
     Framkvæmd. Árið 1987 sendi starfshópur menntamálaráðuneytisins um jafna stöðu kynja í skólum bréf til Námsgagnastofnunar með tilmælum um að allt námsefni verði skoðað með tilliti til jafnréttissjónarmiða. Farið var fram á að höfundar nýs námsefnis verði upplýstir um þessi mál og að eldra námsefni sé ekki endurprentað nema rækileg endurskoðun hafi farið fram. Námgagnastofnun hefur þessi tilmæli á gátlista sem allir námsefnishöfundar fá í hendur.
     Tölul. 9.2.4, um náms- og starfsfræðslu. Náms- og starfsfræðsla fléttist inn í nám á öllum skólastigum en verði sérstakur þáttur í námi eldri nemenda grunnskóla og framhaldsskóla.
     Framkvæmd. Þessum þáttum hefur verið komið á framfæri við kennara og skólastjórnendur. Væntanlega verða þeim gerð skil við endurskoðun á námskrá grunn- og framhaldsskóla sem stendur nú fyrir dyrum.
     Tölul. 9.2.5, um nám í fjölskyldufræðum. Undir þessum lið er stefnt að því að boðið verði upp á nám í fjölskyldufræðum sem felist m.a. í umfjöllun um stofnun, umhirðu og rekstur heimilis, næringarfræði, barneignir, uppeldi og samskipti kynjanna.
     Framkvæmd. Í skýrslu ráðuneytisins „Mótun menntastefnu“ frá 1994 er tekið undir þau markmið sem koma fram í lýsingu á verkefninu en því hefur ekki verið hrundið í framkvæmd.
     Tölul. 9.2.6, um fræðsluefni fyrir foreldra. Samið verði fræðsluefni fyrir foreldra og forráðamenn um stöðu kynja í skólum.
     Framkvæmd. Árið 1994 gaf menntamálaráðuneytið út ritið „Betri tíð með blóm í haga“ til umhugsunar fyrir foreldra og aðra uppalendur. Ritinu var dreift til foreldra allra ellefu ára barna haustið 1994 og aftur haustið 1995. Kennarar barnanna voru sérstaklega hvattir til að halda fund með foreldrum til að kynna þeim efni ritsins.
     Tölul. 9.2.7, um kvennarannsóknir. Í verkefnislýsingu segir aðeins að kennsla og rannsóknir í kvennafræðum á háskólastigi verði efld.
     Framkvæmd. Í greinargerð ráðuneytisins er ekki getið um framkvæmd þessa verkefnis.
    Á ráðstefnu Kvennarannsóknastofu Háskóla Ísland um íslenskar kvennarannsóknir sem haldin var í Reykjavík 20.–23. október sl. var m.a. kynnt ákvörðun um nám í kvennafræðum við Háskóla Íslands haustið 1996. Háskólaráð hefur samþykkt tillögur sérstakrar nefndar um að hefja þá 30 eininga nám í kvennafræðum „að því tilskildu að fjárveiting fáist á fjárlögum til að standa straum af kostnaði við námið“.
     Tölul. 9.2.8, um skipan framkvæmdanefndar. Eins og áður hefur komið fram var þegar árið 1990 gerð tillaga um skipan sérstakrar framkvæmdanefndar. Var það gert í kjölfar skýrslu starfshóps um jafna stöðu kynja í skólum en hann starfaði á árunum 1987–90. Framkvæmdanefndin skilaði skýrslu í janúar 1994 en þar gerir hún grein fyrir störfum sínum sem m.a. fólust í framkvæmd einstakra verkefna sem talin eru upp hér að framan ásamt kynningu á öðrum verkefnum. Til að halda áfram starfi nefndarinnar var skipaður sérstakur starfshópur innan ráðuneytisins. Helstu verkefni hans, auk þeirra sem getið er í framkvæmdarætluninni, eru:
    Skipan samráðshóps til að vinna með starfshópnum að framkvæmd 10. gr. jafnréttislaga.
    Könnun á jafnréttisfræðslu í skólum.
    Á árinu 1995 verði hafinn undirbúningur að gerð handbókar fyrir jafnréttiskennslu á öllum skólastigum.
    Stefnt er að því að halda ráðstefnu um jafnrétti kynja í íslenska skólakerfinu á næsta skólaári.
    Þátttaka í samstarfsverkefni ráðuneytis og Jafnréttisráðs um gerð fræðsluefnis fyrir framhaldsskóla um nám og störf með tilliti til kynferðis.
     Samantekt. Í greinargerð menntamálaráðuneytisins kemur fram að framkvæmdanefndin, sem skipuð var 1990 og lauk störfum 1993, hefur unnið markvisst að nokkrum þeirra verkefna sem tilgreind eru í framkvæmdaáætluninni. T.d. hefur hún staðið fyrir umfangsmikilli fræðslu og námskeiðahaldi (tölul. 9.2.1) og jafnframt gefið út sérstakt fræðslurit fyrir foreldra (tölul. 9.2.6). Að öðru leyti hefur framkvæmdanefndin lagt áherslu á að kynna þeim sem málið varðar ákvæði framkvæmdaáætlunarinnar.
    Verkefni nýskipaðs starfshóps, sbr. tölul. 9.2.8, eru viðamikil. Það gildir jafnt um þau sem búið er að undirbúa en á eftir að hrinda í framkvæmd og ný verkefni.

4.2.10 Samgönguráðuneyti.
     Tölul. 10.1, um störf hjá stofnunum sem falla undir samgönguráðuneytið. Samgönguráðuneytinu eru ekki ætluð sérstök verkefni samkvæmt B-hluta áætlunarinnar. Samkvæmt þessum tölulið er kveðið á um það markmið að jafna hlut kynjanna í störfum hjá stofnunum sem heyra undir ráðuneytið.
     Framkvæmd. Í greinargerð samgönguráðuneytisins kemur fram að það hefur haft samband við stofnanir sem undir það heyra og kannað hvort unnið hefur verið að framkvæmdaáætlunum um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Samkvæmt mati ráðuneytisins hefur það ekki verið gert með markvissum hætti, með einni undantekningu. Lausleg könnun bendir til hægfara þróunar hvað varðar fjölgun kvenna í hefðbundnum sérfræðistörfum karla, þ.e. í störfum þar sem krafist er verkfræði- og tæknimenntunar. Einnig er tekið fram að umsóknum kvenna um laus störf við flugumferðarstjórn hefur fjölgað á allra síðustu árum.
    Póst- og símamálastofnun hefur unnið markvisst að því að jafna stöðu karla og kvenna. Fyrir þessu er gerð grein í skýrslu formanns jafnréttisnefndar Póst- og símamálastofnunar. Þar er m.a. fjallað um markvissa vinnu samkvæmt jafnréttisáætlunum sem samdar voru til tveggja ára í senn. Gildandi jafnréttisáætlun var lögð fram í nóvember 1994. Henni er skipt í fjóra áhersluþætti:
    Framkvæmd og umfang.
    Starfsmannastefna.
    Fræðsla og ráðgjöf.
    Kynning á jafnréttisáætlun og endurskoðun.
     Samantekt. Ljóst er að verkefni samgönguráðuneytisins er mjög almennt orðað og mætti skilgreina betur. Frumkvæði Póst- og símamálastofnunarinnar á sviði jafnréttismála er öðrum opinberum stofnunum til eftirbreytni. Ekki er kunnugt um aðra stofnun sem hefur unnið með jafnmarkvissum hætti að framgangi jafnréttisstefnu í starfsmannamálum sínum. Áhugavert verður að gera úttekt á Póst- og símamálastofnun eftir tvö til fjögur ár og meta þannig áhrif þessa starfs.

4.2.11 Sjávarútvegsráðuneyti.
    Í greinargerð ráðuneytisins kemur fram að starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar heyrir undir ráðuneytið. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar samtaka atvinnurekenda og launafólks auk fulltrúa ráðuneytisins. Starfsfræðslunefndin hefur annast framkvæmd nokkurra verkefna sjávarútvegsráðuneytisins.
     Tölul. 11.1, um gæðaátak í sjávarútvegi, og tölul. 11.2, um þjónustustörf tengd sjávarútvegi. Með báðum þessum verkefnum er lögð áhersla á mikilvægi fræðslu og nýtingu þekkingar og reynslu kvenna, m.a. í tengslum við gæðaátak í sjávarútvegi og til þess auka fjölbreytni í störfum við sjávarsíðuna.
     Framkvæmd. Starfsfræðslunefnd stendur fyrir víðtæku fræðslustarfi fyrir starfsfólk fiskvinnslunnar en stór hluti þess eru konur. Með grunn- og framhaldsnámskeiðum og öðrum sérhæfðum námskeið eru þátttakendur þálfaðir til sérhæfðra starfa í fiskvinnslu. Gæðaeftirlit af ýmsum toga er sífellt mikilvægari þáttur í daglegum störfum innan fiskvinnslunnar. Sérstök námskeið hafa verið haldin til að mæta þessum kröfum og hafa konur verið meiri hluti þátttakenda.
    Sjávarútvegsráðuneytið hefur tekið þátt í að endurskipuleggja starfsmenntun á sviði sjávarútvegs. Fiskvinnsluskólinn í Hafnarfirði hefur hafið störf eftir nokkurra ára hlé sem m.a. var notað til endurskipulagningar. Ráðuneytið beindi þeim tilmælum til stjórnenda skólans að þar væri stuðlað að því að fjölga konum í hópi nemenda. Áður fyrr voru konur allt að helmingur nemenda en eru nú tæplega þriðjungur.
    Ráðuneytið hefur með ýmsum hætti reynt að kynna sjávarútveginn fyrir grunnskólanemendum, m.a. með því að útbúa náms- og kennslugögn um sjávarútveg og sýnishorn af veiðafærum og verkfærum. Þetta kennslutæki fékk nafnið „Gullkista sjávarútvegsins“ og er tilgangur þess að gefa jákvæða mynd af atvinnugreininni og örva ungmenni, stúlkur jafnt sem drengi, til að mennta sig til þátttöku í störfum tengdum sjávarútvegi.
     Samantekt. Í greinargerð ráðuneytisins kemur fram að þar hefur verið lögð áhersla á að beita fræðslu til þess að styrkja stöðu atvinnugreinarinnar og þeirra sem þar starfa. Aukin fræðsla fjölgar tækifærum kvenna til að taka að sér ábyrgðarmeiri og betur launuð störf innan fiskvinnslunnar.

4.2.12 Umhverfisráðuneyti.
     Tölul. 12.1, um jafnréttisáætlun umhverfisráðuneytisins. Umhverfisráðuneytinu eru ekki ætluð sérstök verkefni samkvæmt B-hluta áætlunarinnar. Í tölul. 12.1 í framkvæmdaáætluninni kemur fram að umhverfisráðuneytið hafi samið jafnréttisáætlun og að stofnunum sem heyra undir ráðuneytið, með 20 starfsmenn eða fleiri, hafi verið falið að semja slíka áætlun.
     Framkvæmd. Umhverfisráðuneytið hefur ekki svarað fyrirspurn um framkvæmd framkvæmdaáætlunar. Stofnanir sem heyra undir ráðuneytið hafa ekki heldur sent upplýsingar um jafnréttisáætlanir.
     Samantekt. Tekið er fram í umræddum tölulið að ráðuneytið stefni að því að auka hlut kvenna í stjórnunarstöðum í ráðuneytinu og að boðið verði upp á sveigjanlegan vinnutíma þar sem því verður við komið. Þá segir að stefnt sé að því að auka hlut kvenna í nefndum ráðuneytisins og að tilnefningaraðilar séu ávallt minntir á ákvæði jafnréttislaga þegar óskað er eftir tilnefningu í ráð og nefndir.
    Þessi ákvæði heyra frekar undir A-kafla framkvæmdaáætlunarinnar og sá háttur umhverfisráðuneytisins að telja þau til sértækra verkefna sýnir þörfina á að skilgreina betur ábyrgð hvers ráðuneytis í starfsmannamálum.

4.2.13 Utanríkisráðuneyti.
    Samkvæmt framkvæmdaáætluninni eru tilgreind tvö verkefni sem utanríkisráðuneytið muni vinna að á gildistíma framkvæmdaáæltunarinnar, þ.e. um stöðu kvenna í utanríkisþjónustunni og um konur í þróunarríkjum.
     Tölul. 13.1, um stöðu kvenna í utanríkisþjónustunni. Utanríksráðuneytið setti sér að kanna hvernig auka megi tækifæri kvenna til starfsframa í untanríkisþjónustunni og í framhaldi af því að leggja fram tillögur um hvernig möguleikar kvenna og karla á þessu sviði verði jafnaðir.
     Framkvæmd. Í greinargerð ráðuneytisins kemur fram að settar hafa verið reglur um starfsframa flutningsskyldra ritara í utanríkisþjónustunni. Einnig kemur fram að í maí 1993 voru aðeins þrír flutningsskyldir ritarar sem öðlast höfðu diplómatískt starfsheiti (sendiráðsfulltrúi/attaaché) en væru nú orðnir átta.
     Tölul. 13.2, um konur í þróunarríkjunum. Með þessu verkefni setur ráðuneytið sér það markmið að í öllum þróunarverkefnum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands verði stöðu kvenna gefin sérstakur gaumur. Auk þess er tekið fram að ráðnar verði konur á vegum stofnunarinnar til að fylgja slíku starfi eftir.
     Framkvæmd. Í greinargerð ráðuneytisins kemur fram að í ársbyrjun 1993 hafi aðeins ein kona starfað á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í þróunarlöndum en haustið 1995 voru þær þrjár. Einnig kemur fram að stofnunin hafi einbeitt sér að verkefnum sem sérstaklega varði konur í þróunarlöndum, einkum þeim sem tengjast menntun kvenna.
     Fjórða alþjóðaráðstefna Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna. Í greinargerð utanríkisráðuneytisins er auk þessa minnt á framlag utanríksráðuneytisins til undirbúnings að og þátttöku Íslands í fjórðu alþjóðaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna sem var haldin í Beijing í september 1995.
     Framkvæmd. Utanríkisráðuneytið var í fyrirsvari íslenskra stjórnvalda við undirbúning ráðstefnunnar og skipaði þegar haustið 1993 sérstaka undirbúningsnefnd. Nefndin var stækkuð haustið 1994 og í kjölfar þess réði utanríksráðuneytið konu í fullt starf til að sinna verkefninu. Í greinargerð ráðuneytisins kemur fram að fjöldi kvenna hafi komið að undirbúningi ráðstefnunar og þess hafi jafnan verið gætt að halda góðu samstarfi við önnur ráðuneyti og Jafnréttisráð, sem og viðkomandi félagasamtök. Í undirbúningsferlinu hafi á vegum ráðuneytisins verið haldnir opnir fundir með fulltrúum félagasamtaka og stjórnmálaflokka, auk undirbúningsnefndar, sérfræðingahóps og sendinefndar stjórnvalda sem fór á ráðstefnuna. Ráðuneytið gaf út rit með alþjóðlegum samþykktum sem varða mannréttindi kvenna og skýrslu íslenskra stjórnvalda um réttindi og stöðu kvenna.
     Samantekt. Af svari ráðuneytisins má ráða að unnið hafi verið að þeim verkefnum sem tilgreind eru í framkvæmdaáætluninni. Eins og fram kemur var undirbúningur vegna þátttöku Íslands á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á vegum utanríksráðuneytisins og var töluverðu til hans kostað.

VIÐAUKI


Framkvæmd Íslands á samningi um afnám allrar mismununar gagnvart konum.



Umfjöllun nefndar Sameinuðu þjóðanna (CEDAW) um framkvæmd Íslands á


samningi um afnám allrar mismunar gagnvart konum


dagana 17.–24. janúar 1996.


    Dagana 17.–24. janúar 1996 tók nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna til umfjöllunar á fundi sínum skýrslu Íslands um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Ísland fullgilti samninginn árið 1985. Fundurinn var haldinn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.
    Fulltrúar Íslands á fundi nefndarinnar voru Páll Pétursson félagsmálaráðherra, Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu, Sturla Sigurjónsson hjá fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og Elsa Þorkelsdóttir, framkvæmdastjóri Skrifstofu jafnréttisráðs.
    Skýrsla Íslands var bæði fyrsta skýrsla og fyrsta tímabilsskýrsla íslenskra stjórnvalda. Hún var send Sameinuðu þjóðunum árið 1991.
    Páll Pétursson félagsmálaráðherra flutti ræðu fyrir hönd íslenskra stjórnvalda fimmtudaginn 18. janúar. Hún var mjög ítarleg og reynt að varpa ljósi á stöðu og þróun jafnréttismála frá árinu 1991 þegar skýrsla Íslands var tekin saman. Í framhaldi af ræðunni báru nefndarmenn fram fyrirspurnir.

Niðurstaða nefndar Sameinuðu þjóðanna er eftirfarandi:
    Nefndin tók til athugunar í sameiningu frumskýrslu og aðra áfangaskýrslu Íslands (CEDAW/C/ICE/1–2) á 290. og 291. fundi sínum 18. og 24. janúar 1996 (sjá CEDAW/C/SR 290 og 291).
    Þegar skýrslan var kynnt upplýstu fulltrúar Íslands nefndina um að upphaflega skýrslan frá 1987 hefði ekki verið lögð fram vegna mistaka og að frumskýrslan sem nú væri til umræðu og önnur áfangaskýrslan tækju til tímabilsins fram til 31. desember 1991. Fulltrúinn skýrði því næst nefndinni frá lagabreytingum og nýjustu þróun á sviði mannréttinda kvenna sem orðið hefði á Íslandi frá því skýrslan var lögð fram.
    Fulltrúinn benti á ýmsar aðgerðir á sviði menntunar, þar á meðal jafnréttisfræðslu í skólum landsins og starfsþjálfun til handa konum sem mælt væri fyrir um í lögum. Í því skyni að afnema mismunun, sem enn væri við lýði, hefði verið stofnað Jafnréttisráð og kærunefnd jafnréttismála. Árið 1994 hefði verið tekin upp í stjórnarskrána grein um mannréttindi sem hefði að geyma ákvæði um kynferði. Áætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að koma á jafnrétti kynjanna hefði fyrst og fremst beinst að aðgerðum til að koma á jafnrétti í skólakerfinu, á vinnumarkaði, á landsbyggðinni og á sviði félagslegra réttinda. Fulltrúinn lýsti aðgerðum sem gripið hefði verið til í því skyni að útrýma ofbeldi gegn konum, t.d. stofnun kvennathvarfs, greiðslur skaðabóta til fórnarlamba ofbeldis og að virkja karla til að snúast gegn ofbeldi.
    Fulltrúinn benti á dæmi um mikilvæga þátttöku kvenna í opinberu lífi sem hefði aukist jafnt og þétt síðan 1979. Frá því á árinu 1980 hefði kona gegnt embætti forseta landsins og væri hún jafnframt ein fyrsta konan í heimi sem kosin hefði verið þjóðarleiðtogi í lýðræðislegum kosningum. Í síðustu alþingiskosningum hefðu konur náð 25% þingsæta á Alþingi. Starfandi væri stjórnmálaflokkur kvenna. Hlutur kvenna í sveitarstjórnum væri nú nálægt 30% og í opinberum nefndum og ráðum um 20%
    Fulltrúinn benti á að mismunun væri enn ráðandi á atvinnusviðinu. Þátttaka kvenna í formlegu atvinnulífi væri mjög mikil, en enn þá væri launamunur kynjanna nokkur. Vinnumarkaðurinn væri að þónokkru leyti kynskiptur. Atvinnuleysi hefði meiri áhrif á konur en karla. Með það fyrir augum að breyta launakerfinu og koma á jafnari fjölskylduábyrgð hefði ríkisstjórnin gripið til sértækra aðgerða, þar á meðal endurskoðunar laga um fæðingarorlof sem ætti að gera körlum kleift að sinna umönnunarhlutverki sínu betur. Sveitarstjórnir hefðu á prjónunum áætlanir um að efla daggæslu fyrir börn. Konur væru yfir 50% þeirra sem útskrifuðust úr háskóla og kæmi þetta einkum fram í störfum hjá hinu opinbera. Starfsmat væri talið geta orðið mikilvægt tæki til að tryggja launajöfnuð.
    Að lokum sagði fulltrúinn að skýrslan sem samin var vegna fjórðu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna, umræðan um kvenréttindi og skýrslan sem hér væri til umfjöllunar hefðu komið landinu að gagni við að meta hvað áunnist hefði og til hvaða aðgerða skyldi grípa í framtíðinni.

Lokaathugasemdir nefndarinnar.
Inngangur.
    Nefndin fagnaði því að fulltrúarnir voru hátt settir í stjórnkerfinu og luku lofsorði á ríkisstjórnina fyrir opinskáa skýrslu og ítarlega munnlega kynningu á henni sem jók miklu við efni skýrslunnar. Enn fremur mat nefndin mikils svör við þeim spurningum sem bornar voru upp meðan athugun skýrslunnar stóð yfir.
    Enda þótt nefndin lyki lofsorði á ríkisstjórn Íslands fyrir að hafa gert breytingar á stjórnarskránni og sett jafnréttislögin var hún þeirrar skoðunar að ef ákvæði samningsins hefðu samt ekki verið að fullu lögleidd á Íslandi með þessu hefði slíkt neikvæð áhrif á framkvæmd grundvallarreglna samningsins.

Jákvæðir þættir.
    Nefndin fagnaði því að í stjórnarskránni frá 1994 hefði verið sett ákvæði til að tryggja að allir nytu mannréttinda án tillits til kynferðis og fannst mikið koma til starfsins sem unnið er hjá Jafnréttisráði.
    Nefndin fagnaði því að í starfreglum kærunefndar jafnréttismála hefði verið samþykkt að færa sönnunarbyrði um meinta mismunun vegna kynferðis frá stefnanda í máli til þess sem væri talinn hafa brotið af sér.
    Nefndin lauk lofsorði á þá áherslu sem ríkisstjórnin leggur á að uppræta ofbeldi og setja á laggirnar nefnd til að kanna umfang og orsakir ofbeldis á heimilum og eins fyrir að koma á fót neyðarmóttöku á Borgarspítala fyrir fórnarlömb nauðgana. Jafnframt lofaði nefndin setningu laga sem gera ríkissjóð ábyrgan fyrir greiðslu skaðabóta til fórnarlamba ofbeldis, svo og fyrir að setja á stofn karlanefnd í því skyni að karlmenn geri sér betur grein fyrir vandamálum sem hljótast að ofbeldishegðun.
    Nefnin lét í ljós velþóknun vegna áforma ríkisstjórnar Íslands um að gefa reglulega skýrslu til almennings um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum.
    Nefndin taldi mikils virði að stofnað hefði verið embætti umboðsmanns barna til að efla og gæta réttinda barna, drengja og stúlkna, svo sem segir í yfirlýsingunni um réttindi barna.
    Nefndin lýsti ánægju sinni með sókn kvenna á sviði menntunar almennt, eins og sjá mætti af því að konur væru nú 50% þeirra sem útskrifast úr háskóla, og með að komið hefði verið á fót rannsóknarstofu í kvennafræðum við háskólann.

Helstu áhyggjuefni.
    Nefndin vakti athygli á að hagtölur skorti í skýrsluna og að Ísland hefði ekki farið að almennum tilmælum (nefndarinnar) nr. 9, en mat mikils þær viðbótarupplýsingar sem lagðar voru fram í svörum við spurningum nefndarinnar.
    Nefndin hafði þungar áhyggjur af hinum mikla launamun milli kvenna og karla, jafnt hjá einkafyrirtækjum og hinu opinbera og því að skýringar á þessu lægju eingöngu í kynferðinu.
    Einnig komu fram áhyggjur af því að konur væru fjölmennari en karlar í störfum sem ekki krefjast neinnar starfsmenntunar en hlutfall karla í stjórnunarstöðum væri að sama skapi umtalsvert hærra, jafnt hjá einkafyrirtækjum og hinu opinbera.
    Nefndin vakti athygli á og hafði áhyggjur af því að sjúkratryggingar almannatrygginga tækju ekki til kostnaðar vegna getnaðarvarna.
    Nefnin taldi áhyggjuefni hversu mjög upplýsingum um tilteknar greinar samningsins væri ábótavant, einkum um 12. gr. hans sem lýtur að réttindum kvenna og skyldum aðildarríkja á sviði heilbrigðisþjónustu. Nefndin vakti athygli á því að í málum er snerta heilsufar kvenna, einkum er varðar geðheilsu og læknisfræðilegar rannsóknir, væri sjónarmið er tækju tillit til kynferðis hvergi að finna.
    Nefndin taldi miður að konur til sveita hefðu oft og tíðum síður tækifæri til að stunda atvinnu utan heimilis en karlar eða konur sem byggju í þéttbýli.

Tillögur og tilmæli.
    Nefndin mælist til að eftirleiðis gefi ríkisstjórn Íslands tæmandi skýrslu um sérhverja grein sáttmálans og um hin almennu tilmæli í áfangaskýrslum sínum.
    Nefndin mælist til að í framtíðinni verði hagtölur með aðgreiningu eftir kyni teknar með í áfangaskýrslurnar og að ríkisstjórn Íslands fari eftir almennum tilmælum (nefndarinnar) nr. 9.
    Nefndin mælist til að ríkisstjórnin geri ráðstafanir til þess að tryggja að grundvallarreglur samningsins verði að fullu lögleiddar á Íslandi og unnt verði að framfylgja þeim við íslenska dómstóla. Einkum og sér í lagi hvetur nefndin ríkisstjórnina til að láta vinna gögn með aðgreiningu eftir kyni um þarfir er lúta að heilsufari og heilbrigðisþjónustu til þess að auðvelda stefnumótun í heilbrigðismálum sem taki mið af kynferði.
    Til þess að auðveldara verði að framfylgja samingnum við íslenska dómstóla mælist nefndin til að gerðar verði ráðstafanir til þess að koma á laggirnar áætlun um fræðslu og þjálfun um samninginn fyrir dómara.
    Nefndin hvetur ríkisstjórnina til að halda áfram að beita sér af einurð í málaflokknum um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf í því skyni að koma á launajöfnuði á öllum sviðum atvinnulífs í samræmi við almenn tilmæli (nefndarinnar) nr. 13. Jafnframt fer nefndin þess á leit að framvegis hafi skýrslur til hennar að geyma upplýsingar um þetta efni þegar fjallað er um niðurstöður starfsmatsins sem nú stendur yfir.
    Nefndin leggur til að ráðstafanir verði gerðar eins fljótt og auðið er til þess að tryggja að konur verði skipaðar í stöður þar sem ákvarðanir eru teknar og taki að sér forustuhlutverk hvarvetna í atvinnulífinu, t.d. með því að samþykkja áætlanir um sérstakar aðgerðir í þágu kvenna.
    Nefndin leggur til að framvegis komi fram úttekt í skýrslum til hennar á áhrifum þess starfsmats sem fram hefur farið.
    Nefndin telur að endurskoðun laga um fæðingarorlof nægi ekki til þess að koma á jafnari foreldraábyrgð meðal karla og kvenna. Þess vegna mælist hún til þess að ríkisstjórnin leggi á ráðin um aðrar leiðir til þess að auka þátttöku karla í heimilisstörfum og umönnun barna og hefur þá jafnt í huga eðli launaðra starfa karla og starfa kvenna innan og utan heimilis.
    Jafnframt ætti ríkisstjórnin að leggja enn meiri áherslu á að byggja upp starfsemi á sínum snærum í því augnamiði að vinna gegn hefðbundnum hugmyndum um hlutverk kynjanna með skipulögðu fræðslustarfi sem beinist að því að opna augu barna og fullorðinna.
    Nefndin mælist til þess að ríkisstjórnin geri ráðstafanir til þess að rannsaka ójafnan hlut karla og kvenna í hlutastörfum þar sem slíkt gæti verið vísbending um óbeina mismunun gagnvart konum á vinnumarkaði.
    Nefndin mælist til þess að ráðstafanir verði gerðar til þess að fræða starfsfólk dómstóla um samninginn.
    Nefndin er þeirrar skoðunar að rannsaka skuli mat ólaunaðrar vinnu jafnt karla og kvenna, þrátt fyrir það frumkvæði sem þegar hefur verið tekið í þessu efni.
    Nefndin mælist til þess að staða kvenna til sveita verði bætt á öllum sviðum, þar á meðal tækifæri þeirra til að stunda atvinnu utan heimilis.
    Nefndin hvetur ríkisstjórnina til þess að efla enn frekar skipulagt fræðslustarf meðal aðfluttra kvenna, einkum að því er lýtur að réttindum kvenna á Íslandi. Til að tryggja vernd aðfluttra kvenna hvetur nefndin ríkisstjórnina enn fremur til þess að halda áfram því starfi sem nú er unnið í því skyni að veita fullnægjandi heilbrigðis- og ráðgjafarþjónustu og fylgjast með hinum vaxandi fjölda hjónabanda íslenskra karla og aðfluttra kvenna.
    Nefndin mælist til þess að breyting verði gerð á jafnréttislögunum til að tryggja að hvort kyn eigi að minnsta kosti 40% fulltrúa í opinberum nefndum og ráðum.
    Nefndin mælist til þess að jafnréttisfræðsla og fræðsla um mannréttindamál verði gerð að skyldunámsefni í námskrá íslenskra skóla með hliðsjón af þeim vel heppnuðu verkefnum um jafnréttisfræðslu sem nú er lokið við ýmsa skóla.
    Nefndin mælist til þess að ríkisstjórnin láti fella niðurstöður kvennarannsókna inn í endurskoðað námsefni í skólum og hið sama verði gert í menntun og þjálfun kennara til þess að auðveldara verði að útrýma rótgrónum hugmyndum um hlutverk karla og kvenna.
    Nefndin hvetur ríkisstjórnina til þess að tileinka sér það viðhorf að ofbeldi gegn konum sé heilbrigðismál og greiði fyrir því að skýrslur um ofbeldi verði einnig teknar hjá þeim sem annast almenna heilsugæslu.
Neðanmálsgrein: 1
Tekið skal fram að endanlegar opinberar tölur um niðurstöður sveitarstjórnarkosninganna liggja ekki enn fyrir og því verður að taka þessar upplýsingar með fyrirvara. Þær eru byggðar á tölum sem birtust í dagblöðum að kosningum loknum og á upplýsingum frá skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga.