Ferill 513. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 513 . mál.


975. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar um þungaskatt af almenningsvögnum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hverju nam álagning þungaskatts á almenningsvagna árið 1995?

    Á árinu 1995 nam heildarálagning þungaskatts á almenningsvagna u.þ.b. 27 millj. kr. Álagningin hefði hins vegar verið u.þ.b. 90 millj. kr. ef ekki væri veittur 70% afsláttur af þungaskatti á akstur almenningsvagna. Samkvæmt lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, er ráðherra heimilt að ákveða að þungaskattur sé 70% lægri af akstri almenningsvagna en af öðrum bifreiðum. Í reglugerð nr. 593/1987, um þungaskatt, er þessi heimild útfærð en samkvæmt henni skal greiða 30% gjald af almenningsvögnum vegna aksturs í áætlunarferðum. Af ökutækjum, sem eru notuð bæði í hópferðaakstur og almenningsakstur, eru endurgreidd 70% þess hluta þungaskatts sem greiddur er vegna aksturs almenningsvagna. Álagningin skiptist því þannig að almenningsvagnar sem greiða 30% þungaskatt greiddu um 25 millj. kr. Þungaskattur sem aðrir greiddu að frádregnum endurgreiðslum var um 2 millj. kr. Af framansögðu má sjá að afsláttur af þungaskatti vegna aksturs almenningsvagna á árinu 1995 nam um 63 millj. kr.